Börn og hiti

Sótthiti er ekki sjúkdómur heldur einkenni þess að líkaminn sé í ójafnvægi. Mismunandi skoðanir á hvernig bregðast skuli við hita í börnum gera foreldra oft kvíðna og áhyggjufulla þegar börn þeirra fá háan hita vegna þess að þá vita þeir ekki hvernig bregðast skuli við. Hiti er ekki illkynja og er mikið misskilið einkenni. Almennt ástand barnsins segir okkur mikið meira um hversu veikt barnið er heldur en hitastigið á mælinum. Börn undir þriggja ára að aldri geta verið mjög veik með tiltölulega lágan hita jafnvel undir 37° C, en eldri börn geta hlaupið um með tiltölulega háan hita.

Flestir telja 37° eðlilegan hita, en þá er ekki tekið tillit til einstakra undantekninga. Börn eru til dæmis oftast heitari en fullorðnir. Það er hægt að segja að á milli 36° og 37,5° sé eðlilegur hiti. Það að borða heitan mat, nýleg áreynsla, hlýr fatnaður og heit húsakynni geta hækkað hitastig líkamans um eina til tvær gráður. Líkamshitinn er líka mismunandi yfir daginn og hjá unglingsstelpum vegna tíðablæðinga. Sótthiti er yfirleitt hæstur seinni hluta dags og lægstur að morgni. Því skal ekki halda að þó barn sé með vægan hita seinni hluta dags boði að það sé að fá háan hita, en ef barn þitt er með vægan hita að morgni gæti verið ráðlagt að halda því heima.

Sýkingar eru oftast það sem veldur sótthita, sérstaklega í börnum. Aðrir hitavaldandi þættir geta verið æxli, bólgur vegna meiðsla, lyf (antihistamín, sýklalyf), ónæmissprautur og ofþornun. Tanntaka getur líka valdið hita.
Þegar sýklar örva hvítu blóðkornin á sérstakan hátt þá gefa þau frá sér efni sem gefa undirstúku heilans merki um að hækka líkamshitann. Líkaminn hitar sig upp með því að örva efnaskiptin, fara að skjálfa eða leita í heitara umhverfi. Hann minnkar líka hitatapið með því að minnka blóðstreymið til húðarinnar, þess vegna verður hann fölur á litinn.

Þegar hitinn hækkar fer húðin að roðna og svitna. Sá sem hitann fær getur misst matarlyst, fyllst drunga, fengið beinverki og orðið syfjaður. Þegar þetta kemur fyrir börnin okkar háttum við þau ofan í rúm og leyfum þeim að sofa.
Sótthiti af völdum bakteríu- eða veirusýkinga getur verið merki um ónæmiskerfi sem er í góðu lagi. Flest dýr (allavega hryggdýr) fá hita þegar þau veikjast og er líklegt að maðurinn hafi varðveitt þessi viðbrögð vegna þess að þau hafa reynst vel í að viðhalda stofninum. Sumar rannsóknir styðja þessa kenningu; rannsóknir á dýrum hafa sýnt að þegar hitinn er lækkaður þá minnka batahorfur þeirra.

Hiti eykur magn interferon (náttúlegt mótefni gegn veirum og krabbameini) í blóðinu. Vægur hiti eykur líka magn þeirra hvítu blóðkorna sem drepa frumur sem eru sýktar af vírusum, sveppum eða krabbameini og bæta getu sumra hvítra blóðkorna til að eyða bakteríum og sýktum frumum. Hitinn minnkar líka getu baktería og vírusa til að fjölga sér.

Af þessu sjáum við að hiti er ekki vandamál sem þarf að bæla niður, heldur mjög gott hjálpartæki sem líkaminn notar til að sigrast á sjúkdómum. Þess vegna er ekki gott að lækka hitann aftur og aftur heldur fylgjast vel með barninu (eða þeim fullorðna), hvort hitinn hækki eða hvort önnur einkenni versni eða bætist við.

Getur sótthiti valdið skaða?
Hvenær sem líkamshitinn hækkar þá tapast vatn og salt út úr honum gegnum húðina. Birgðir orku og vítamína, sérstaklega þau vatnsleysanlegu brenna upp. Við vægan hita getum við bætt líkamanum þetta upp með því að drekka vatn, borða hollan mat eða taka inn fæðubótarefni. Vatnsleysanlegu vítamínin C og B er skynsamlegt að endurnýja. Hinsvegar á meðan hitinn er lokar líkaminn fyrir að sum steinefni nýtist vegna þess að bakteríur þurfa á þeim að halda til að þrífast. Þegar við fáum hita breytir líkaminn orkubrennslu sinni frá því að brenna glúkósa (uppáhaldsmat bakteríanna) í að brenna prótíni og fitu. Þess vegna er minnkandi matarlyst á meðan, merki um visku líkamans.

Með öðrum orðum, ekki neyða eða plata börn ykkar til að borða á meðan þau eru með hita ef þau hafa ekki lyst; þau munu líklega bæta sér upp þyngdartapið fljótlega eftir að veikindin eru yfirstaðin. Það þarf hinsvegar að hvetja þau til að drekka vatn því vökvatap getur eitt og sér valdið hækkun á hita.
Mjög hár hiti (yfir 41°C) getur skaðað hjartað og heilann. Sumir segja samt að hiti sé ólíklegur til að valda heilaskaða í barni sem er heilbrigt fyrir. Við flestar sýkingar heldur heilinn líkamshitanum við 40°C eða undir. Því þarf í flestum tilfellum ekki að hafa áhyggjur af því að hiti barnsins fari upp fyrir það.

Hvað með hitakrampa?
Fyrst skulum við skilgreina hitakrampa. Þessir óeðlilegu kippir gerast hjá börnum á milli 3ja mánaða og 5 ára aldurs í tenglsum við hita en það er ekkert sem bendir til að þeir tengist sýkingu í taugakerfi þeirra. Krampakastið stendur ekki yfir lengur en í 15 mínútur (yfirleitt 5 mín.) og veldur kippum um allan líkamann. Um þrjú prósent barna fá hitakrampa.
Ástæða þess að sum börn eru móttækileg fyrir þessu er ekki alveg ljós. Af þeim sem fá hitakrampa einu sinni fá einn þriðji af þeim hann aftur. Endurtekningarmöguleikar eru meiri eftir því sem barnið er yngra þegar það fær hitakrampann fyrst.
Hitakrampar eru skelfilegir fyrir foreldra að horfa upp á, en þeir eru samt ekki hættulegir. Þegar þeir eru yfirstignir heldur barnið áfram að þroskast á eðlilegan hátt.
Barnalæknar geta kennt foreldrum að lækka hitann ef hann ætlar yfir mörkin. Fyrir þau börn sem fá endurtekna hitakrampa má líka hjálpa á ýmsan hátt, t.d. með krampastillandi lyfjum.
Hvað gera skal ef barn þitt fær hitakrampa:

  • Reyndu að vera róleg/ur. Það er farið fram á mikið að biðja um það en það er mjög mikilvægt fyrir barnið að foreldri haldi ró sinni. Andaðu djúpt og segðu við sjálfa/n þig að krampinn muni ekki endast lengi (jafnvel þó það virðist heil eilífð) og að barnið muni mjög líklega koma vel út úr þessu.
  • Líttu á úrið til að taka tímann á krampakastinu. Það virðist sem það sé verið að ætlast til of mikils, vegna þess hversu kvíðið foreldrið er undir þessum kringumstæðum en þú munt annars ofreikna tímann og það er mikilvægt fyrir lækninn að vita hversu lengi krampinn stóð yfir. Ef hann fer yfir 5 mín. hringið þá í neyðarlínuna (112 á Íslandi). Snúið barninu á hliðina, þá minnkar hættan á að það andi að sér útskilnaði (munnvatni, slími, ælu).
  • Passið að nánasta umhverfi í kringum barnið sé öruggt. Færið til hluti sem það getur rekið sig í.
  • Ekki hefta hreyfingar barnsins.
  • Huggaðu og hughreystu barnið eftir að krampakastið er yfirstaðið og hringdu svo í lækninn til að fá tíma strax. Hann mun sennilega vilja skoða barnið til að athuga hvort um eitthvað annað en hita var að ræða sem kom þessu krampakasti af stað. Ef kastið stóð yfir lengur en í 5 mín. eða/og barnið virðist mjög veikt þá gæti læknir bent þér á að fara með það í neyðarmóttöku heilsugæslunnar.

Það segir sig sjálft að ef hiti hjálpar líkamanum að verjast sýkingum þá munu hita-lækkandi lyf frekar tefja fyrir því ferli frekar en að hraða því. Þar fyrir utan hafa mörg hitalækkandi lyf óæskilegar aukaverkanir. Á hinn bóginn vill enginn horfa upp á barn þjást og hiti getur gengið á krafta barnsins. Kynnið ykkur vel notkun og aukaverkanir slíkra lyfja áður en þið gefið barni ykkar þau.
Hitalækkandi lyf geta blekkt okkur. Nokkur atriði sem mæla annaðhvort með eða á móti þessum lyfjum fylgja hér á eftir:

•    Hitalækkandi lyf geta látið barninu þínu líða betur og þá er kannski betra að fá það til að drekka, borða og sofa og það mun kannski flýta fyrir batanum.
•    Þau geta líka falið einkenni. Með öðrum orðum, barnið getur hagað sér eins og heilsa þess sé betri en hún er.
•    Hitalækkandi lyf geta dregið veikindin á langinn. Þessi skoðun sumra meðferðar-aðila er studd af nokkrum rannsóknum. Ef við gefum okkur að viðbrögð líkamans (hiti, bólga, syfja) við veikindum séu vegna aðlögunarhæfni hans þá getum við dregið þá ályktun að allt sem við gerum til að hefta það ferli geti gert meiri skaða en bót.

Þegar allt þetta er skoðað sést að það borgar sig að nota þessi lyf varlega. Spurðu sjálfa/n þig hvort þú ert að nota lyfið til þess að láta barninu þínu líða betur eða til að minnka þína hræðslu við veikindin. Lyfjalausar aðferðir geta látið barni þínu líða betur og að ná bata á skömmum tíma. Ef ástandið er ekki alvarlegt, gætirðu athugað með að nota jurtalyf til dæmis áður en þú sækir hitalækkandi stíl.

Lyfjalausar aðferðir til að eiga við sótthita:

Gefðu barninu nóg að drekka. Hiti eykur vökvatap og það getur hækkað hitann. Börn með hita finna oft ekki fyrir þorsta fyrr en þau hafa ofþornað og þarf því að bjóða þeim oft að drekka. Það er best að þau taki litla sopa, sérstaklega ef þeim er óglatt. Ef nauðsynlegt notið þá dropateljara til þess að koma vatni varlega í munninn á barninu.
Hvort klæða eigi barnið mikið eða lítið fer eftir því hvernig barninu líður, farðu eftir því. Ef það skelfur, er fölt eða kvartar um kulda (hitasótt byrjar oft þannig), klæddu það þá í hlý föt sem anda vel, þá gufar hitinn upp og bleytir ekki fötin.

Ef því líður vel og hitinn ekki hár klæddu það vel og gefðu því heitan drykk til að aðstoða líkamann við hitamyndunina. Ef það hinsvegar svitnar og kvartar undan hita klæddu það lítið og leyfðu því að sparka ofan af sér sænginni. Eldri börn sjá um þetta sjálf.
Ekki neyða það til að borða. Fólk með hita hefur yfirleitt ekki mikla matarlyst. Leyfðu barninu að ákveða hvað og hvenær það borðar. Hafðu í huga að matur með miklum sykri í getur tafið fyrir viðbrögðum ónæmiskerfisins.

Ráðleggingar.
Þumalfingursreglur sem jurtalæknar nota við minni háttar veikindum með hita eru: “Fyrst að fylgjast með í smá tíma án þess að gera nokkuð. Fylgja því sem áður var sagt hér að ofan varðandi börn undir tveggja ára aldri og gefa þeim nóg að drekka. Varðandi eldri börn ber að gefa þeim nóg að drekka, sjáðu til þess að þeim líði vel og fylgist vel með þeim. Er barnið að drekka nóg? Pissar það að minnsta kosti einu sinni á átta klst. fresti (helst á þriggja til fjögurra klst. fresti)? Líður því betur ef þú huggar það? Leikur það sér eðlilega? Ef svarið við þessum spurningum er já, er barnið sennilega ekki mikið veikt.

Þessa grein fann ég á heimasíðu Dr. Mercola, http://www.mercola.com  og er hún eftir Lindu B. White, MD og Sunny Mavor, AHG og var upphaflega birt í tímaritinu Mothering. Þetta er útdráttur úr bók, eftir sömu höfunda, sem heitir á frummálinu Kids, Herbs and Health; A Parents’ Guide to Natural Remedies.

Eftirfarandi er það sem Dr. Mercola hafði að segja um hana:
Þetta er ein yfirgripsmesta grein sem ég hef lesið um þetta efni. Margar fjölskyldur munu vilja merkja við hana og jafnvel prenta hana út til þess að geta gripið til hennar eftir þörfum.
Annars er mesta furða hversu sjaldan börn verða veik ef farið er eftir mataræði því sem ég mæli með. Við vitum öll að það er mikið betra að koma í veg fyrir sjúkdóma heldur en að lækna þá. Hiti er varatækni sem líkaminn býr yfir þegar aðalvörnin bregst. Góður matur, næg hvíld og geta okkar til þess að höndla stressandi aðstæður eru aðalvörnin.
Ég mæli einnig með að sleppa notkun flestra hitalækkandi lyfja, nema barninu líði mjög illa eða hitinn kominn vel yfir 40°C.

Höfundur: Stefanía Arna Marinósdóttir . Greinin skrifuð árið 2009Flokkar:Fjölskylda og börn

%d bloggers like this: