Allt það besta úr garðinum

Sumarsins 2009 verður líklega minnst fyrir að vera sumarið þar sem margir byrjuðu að rækta matjurtir. Þó ekki væri nema að setja niður nokkrar kálplöntur. Strax upp úr miðjum maí var orðið erfitt að fá keyptar matjurtaplöntur á gróðrarstöðvunum. Orðið á götunni sagði að matjurtarfræ hefðu verið ill fáanleg strax fyrri partinn í maí. Slíkur væri áhugi landans á ræktun. Þetta er sumarið sem ALLIR fóru að rækta. Ef enginn var garðurinn voru svalirnar notaðar og ef engar voru svalirnar þá var ekki dáið ráðalaust heldur eldhúsgluggarnir notaðir og jafnvel voru þeir hugmyndaríkustu að dunda sér við að útbúa hengipotta sem þeir köstuðu út um gluggann og í voru nokkrar grænkálsplöntur eða 1 spergilkálsplanta.

Þetta var sumarið sem engin dó ráðalaus og puttar Íslendinga fengu á sig einhvern tón af grænum lit. Þetta var mjög þurrt og sólríkt sumar á suðvestur horninu og ef fólk var duglegt að vökva þá var sprettan einstök og uppskeran ævintýraleg. Um miðjan júlí var ég komin með spergilkálsskóg. Og hvað haldið þið að hafi verið í matinn hjá okkur? Jú mikið rétt, spergilkál í ótal búningi. Fjölskyldumeðlimirnir biðu eftir því að ég gæfi út brokkolí biblíuna, sérstaklega eftir að hafa notað það í staðin fyrir gulrætur í gulrótarköku, í staðin fyrir basil í pesto, í staðin fyrir kartöflur í kartöflusalat svo eitthvað sé nefnt.

Ég er alin upp af foreldrum sem byrjuð að rækta sitt lífræna grænmeti í litlum garðskika fyrir um 55 árum síðan og eru enn að. Þau búa til sína eigin mold og eru búin að vera með safnhaug í 55 ár. Og eru löngu orðin sjálfbær á ræktunarmold og búin að loka hringnum. Ég man einhverju sinni þegar verið var að rökræða hvort lífrænt væri hollara en ólífrænt, þá brostu þau sínu skilningsríka brosi og bentu á að þau gætu hvorki borið saman né hugsað sér að skipta út þeirra lífræna grænmeti ræktuðu í þeirra eigin mold eða innfluttu sprautuðu grænmeti. ,,Þetta er bara tvennt svo gjörólíkt. Það gildir það sama fyrir plönturnar og mannfólkið, því betri mold, jarðvegur og næring, því næringarríkari og heilbrigðari plöntur og grænmeti. Bragðið verður betra og þú finnur bara muninn á lykt, bragði og áferð.“ Foreldrar mínir fara alla leið, þau rækta allar sínar plöntur upp af fræinu.

Fyrsta sumarið sem ég var að rækta í mínum eigin garði fékk ég fullt af plöntum frá mömmu en einnig fór ég á gróðrarstöð og keypti fullt af plöntum. Mér fannst þetta lúmskt dýrt, varð bara alveg að viðurkenna það. Svo ég spurði mömmu hvort það væri virkilega ódýrara að rækta sjálf? Hún mamma mín er bara svoooooo flott, hún horfði á mig og sagði: ,,Sólveig mín, hvað eru verðmæti og hvað er sparnaður? Þegar ég rækta mitt eigið grænmeti þá veit ég hvað ég er að fá í kroppinn og geri mitt til að taka ábyrgð á eigin heilsu. Grænmetið mitt ferðast aldrei lengra en 30 mín frá beði á diskinn.

Þú verður að fyrirgefa en mér finnst spurningin þín um ódýrt eða dýrt bara svo afstæð elskan mín.“ Á hverju ári síðan hef ég brosað þegar ég heyri þessa umræðu í kring um mig, ég rækta því þá veit ég fyrir víst hvaða gæði ég er að fá í minn kropp og fjölskyldunnar. Gulræturnar mínar eru bara BESTU gulrætur sem ég hef smakkað beint úr beðinu og spergilkálið bráðnar upp í mér, rófurnar hverfa ofaní krakkana áður en ég fæ almennilega að skola þær. Mér finnst ég svo blessuð að hafa garðskika og þakka fyrir þau forréttindi á hverjum degi. Og uppáhaldið mitt er að fara út í garð með skál og hníf og ná mér hráefni í salatið: Allt það besta úr garðinum…….Ég gef ykkur uppskrift af því og síðan að uppáhalds desert fjölskyldunnar þetta sumarið. Gangi ykkur sem allra best;)*
Solla

Saltið: Allt það besta úr garðinum.
2-3 grænkálsblöð
2-3 beðjublöð
2-3 höfuðsalatblöð
4-5 klettasalatsstönglar
3-4 gulrætur
1 rófa
1-2 spergilkálshöfuð
2-3 stilkar minta (blöðin notuð)
2-3 stilkar sítrónumelissa (blöðin notuð)
hnefi af graslauk
10 blóm af hjólkrónu
Skolið grænmetið og þerrið, skerið í passlega stóra bita og setjið í skál. Hellið dressingunni yfir og blandið öllu vel saman og berið fram. Passar með öllum mat……;)*

Dressing:
1 dl kaldpressuð ólífuolía
1 lime, afhýtt
1 msk lífrænt sinnep
2-3 stönglar ferskt basil (eða annað ferskt krydd úr garðinum)
2 döðlur
smá Himalaya salt
cayenne pipar af hnífsoddi
Allt sett í blandara og blandað vel saman og hellt yfir grænmetið.

Uppáhalds súkkulaði „músin“
2 dl kókosmjólk
2 dl kasjúhnetur sem hafa legið í bleyti í 6-8 klst (borgar sig að leggja í bleyti svo þær verði mjúkar og auðveldar að nota)
1/2 dl agavesýróp
1 dl hreint kakóduft
1 tsk vanilludropar eða duft
1 b kókosolía (í fljótandi formi – krukkan látin standa í skál með heitu vatni í smá stund)
Allt sett í blandara og blandað þar til silkimjúkt. Sett inn í frysti í svona 2 klst, ef þið eruð ekki að fara að borða desertinn strax þá færi ég hann eftir 2 klst úr frystinum yfir í kælinn og geymi hann þar. Skreytt með fullt fullt af jarðaberjum úr garðinum.

Molar –Vissir þú að…..

Kálið af gulrótum, rófum og rauðrófum er alveg upplagt að nýta og frábært að pressa í grænan djús? Það er líka hægt að nota í græna sjeika í staðin fyrir spínat og annað grænt kál. Best er það nýafskorið.

Það er fullt af blómum sem eru æt og þú ert jafnvel með eitthvað af þeim í garðinum þínum? T.d. fjólur, morgunfrúr og hjólkróna, svo eitthvað sé nefnt. Þessi blóm gera salatið fallegra og gefa því sætan keim.

Fyrir þá sem ætla til berja eða eru með berjarunna í garðinum og ætla að sulta þá er upplagt að fara að safna tómum glerkrukkum með loki tímanlega……….

Höfundur: Sólveig Eiríksdóttir 2009



Flokkar:Uppskriftir