Nýtt tækifæri fyrir Íslensku Þjóðina

Grein skrifuð árið 2009.   Þótt undirritaður hafi búið erlendis í rúm níu ár, vil ég nú bætast í þann hóp sem færir í letur nokkrar hugmyndir um framtíð Íslands miðað við stöðuna í dag, e.t.v. líka til þess að yngri kynslóðin sjái tækifærin, sem þó felast í öllum breytingum. Meginefni þessa greinarstúfs var sent til Morgunblaðsins til birtingar fyrir um ári síðan en hefur ekki birst ennþá af ókunnum ástæðum.Þegar nú er orðið öllum ljóst, hve afgerandi staðan er, er um tvennt að velja: 1) að leggja niður skottið og láta einhverja aðra taka ákvarðanir um framtíð landans, t.d. ESB-báknið eða 2) að taka á sig rögg, líta rökrænt á málin og skoða möguleikana sem vissulega felast einnig í stöðunni.

Í því seinna felst það, að meta meira en bara næstu ár, líta fremur til þess hverju hlutverki Ísland getur skynsamlega gegnt meðal þjóða hnattarins í lengri tíma. Eða finna raunhæft svar við spurningunni: Hvernig getur landið unnið sig upp á ný í hörðum heimi? Í stuttu máli, það þarf allrahelst að fullmóta framtíðarstefnu Íslands og Íslendinga í hópi þjóða heims. Stefnu sem þjóðin trúir á.Það þarf engum að koma á óvart, að nú þarf verulega afgerandi ný viðbrögð, stefnumótandi viðbrögð og ekki bara „meira af því sama“. Það þarf nýjar hugmyndir byggðar á mannlegum þörfum. Hugmyndir sem vísa inní framtíðina. Já, eins og nú er sagt um bandarísku þjóðina, eftir sigur Obama forseta: Þjóðin þarf að finna sig upp, uppá nýtt. Nýtt Ísland! -Ekkert minna dugar!

Í hugum erlendra þjóða er Ísland núþegar táknmynd fyrir hreinleika og það hefur einnig litað ímynd þjóðarinnar, e.t.v óverðskuldað? Því gerum okkur grein fyrir því, alveg hlutlaust, að íslenska þjóðin er íhaldsöm. Ekki mátulega íhaldsöm, heldur verulega íhaldsöm. Íhaldsöm, sjálfri sér til ómælds skaða oft á tíðum.Um leið er þjóðin illa upplýst a mörgum sviðum. Öfugt við það sem fullyrt er í belg og biðu. Hér ræður bæði fjarlægð okkar frá hinum „menntaða heimi“ og svo fjölmiðlun sem snýst að mestu um „eigið ágæti“. Ef okkur tekst að kyngja þessu mati, er okkur ekkert að vanbúnaði að finna okkur upp, uppá nýtt. Að leggja saman og markvisst til atlögu við uppbyggingu nýrrar framtíðar. Á umræddu hreinleikamati erlendra aðila felst okkar besta tækifæri inní framtíðina.

Því augljóslega mun sívaxandi mengun iðnlandanna og stórveldanna leiða af sér vaxandi heilsuleysi þar um slóðir. Viðbrögð hugsandi fólks verða vitaskuld þau að leita sér betri heilsu í hreinu umhverfi. Hvar svo sem það er enn að finna.Án alls vafa er þannig beint samhengi á milli umhverfis- og heilsumála. Því væri það mikil gæfa, þegar í dag, ef framáfólk þessara hreyfinga innan þjóðarinnar kæmi sér saman til að stefna á nýja uppbyggingu. -En gætum varúðar! Í þessum málum er ekki allt sem sýnist. Hér þurfum við ekki á neinum „bláeygum augngotum“ að halda. Djúpstæð þekking á ástandi þessara heimshreyfinga er algert skilyrði fyrir árangri. Valdastrúktúrar faggreina sem að málinu koma og hagsmunaátök þeirra, verða að vera öllum ljós. – Manneskjan er jú ávallt tilbúin með góð rök fyrir eigin hagsmunum. Það er eðli hennar, ekki satt?

Til viðbótar við „hreinleikavörumerkið“ hefur Ísland ennfremur sér til gildis að vera lítil eyja í stóru hafi. Þetta gæti þjóðin svosem notað meira heimspólitískt, t.d. í skyni hlutleysisstefnu, en nú er gert og til dæmis boðið Sameinuðu Þjóðunum framtíðaraðsetur á eylandinu. En það er annað mál. Hið sama er einnig kostur, ef þjóðinni loksins tekst að skera sig úr meðal þjóða heims með framtíðarsókn af nýrri gerð. Hún yrði vafalaust látin í friði þrátt fyrir að allt slíkt „troði á hagsmunatær“ alþjóðafyrirtækjanna. Hina sönnu valdhafa hnattarins nú um stundir.

En komum nú að umræddri arðsemis-hugmynd fyrir framtíð þjóðarinnar: Kæru alþingismenn og alþingiskonur. Hvernig væri að Alþingi tæki sig til og samþykkti nú ný landslög sem gerði það að verkum, að viss landsvæði, nú eða þá landið allt að lokum, öðlist ný læknalög, sem leiddu til þess að nota mætti allar þekktar læknismeðferðir sem virka, hefðbundnar eða óhefðbundnar -háð samþykkis sjúklingsins vitaskuld. Fordæmið fyrir slíkum sérlögum er þegar komið með lögunum fyrir ónefnt erfðafræðifyrirtæki í Reykjavík. Fordæmið er einnig orðið að veruleika á Kúbu núþegar. En það er hins vegar einungis varnaraðgerð vegna banns á öllum innflutning frá Bandaríkjunum. Hafa Kúbumenn dáði út vegna skorts á bandarískum lyfjum?

Engan veginn. Þeir eiga þvert á móti mikinn fjölda góðra lækna í dag, sem m.a. starfa víðsvegar um Suður-Ameríku. Komist þessi skipan á hjá okkar þjóð, er unnt að bjóða erlendum aðilum uppá ógrynni læknismeðferða sem nú eru bannaðar að ósekju í heimalandi þeirra. Það skapar töluverðar tekjur þegar upp er staðið, og skapar um leið ný viðhorf til heils vísindageira. Þar fyrir utan getur þetta vissulega einnig lækkað heilsukostnað ríkisvaldsins, en þó eru það smámunir miðað við vaxtarbroddinn sem í þessu felst, því slíkt fyrirkomulag hvetti einnig til þróunar enn fleiri læknismeðferða og þar með sköpun nýrrar þekkingar, hugmyndaríkra lækna, sem unnt væri að markaðssetja sem íslenska þróun. Súrefnismeðferð er eitt gott dæmi um slíka bannaða læknismeðferð, en hún er fundin upp í Þýskalandi og leyfð þar.

Tíðnilækningar eða eyðing sjúkdómsvalda í líkamanum með tíðni, er annað raunhæft dæmi. Þetta er samskonar eðlisfræði og þegar tenór tvístrar vatnsglasi með réttum söngtón! Þessi dæmi eru ekki sögð útí bláinn, þar sem undirritaður hefur kynnt sér vel allt það nýjasta í svokölluðum orkulækningu -þ.e. lækningum án efnafræði- en þar er að eiga sér stað mikið tæknistökk, vel undirbyggt vísindum, sem má líkja við innkomu transistorsins og sílíkon-rafrásanna á árunum 1948 til 1978, sem gerði tölvu- og vefbyltinguna mögulega -veruleika dagsins í dag. Hér er gullið tækifæri fyrir þjóðina til að verða brautryðjandinn á heimsvísu.

Það er von mín, að þeir einlægu íslensku peningamenn, sem drógust inní kreppuna án aðstöðu til þess að breyta þar neinu um, sjái í þessu dæmi tækifæri til að rétta sinn hlut við: og að gera þjóð sinni verulegt gagn þegar til framtíðar er litið. Það er sömuleiðis einlæg von mín, að landsmenn taki sig á og leiði hjá sér allar „nágrannakrytur“ í þessu stórmáli framtíðar landsins. Því þegar allt kemur til alls er mesti bölvaldur hverrar þjóðar samstöðuleysið og persónulegar ádeilur á svokallaða „andstæðinga“, sem eru ekkert annað er venjulegt fólk. Það verður skemmtilegt að upplifa þá tíma, að þjóðir heims meti íslenska þjóð af verðleikum eigin frumkvæðis. Fyrir fleira en það eitt að leiða heitt hveravatn inní húsin á sínum tíma. -Að meta þjóðina af verðleikum vegna þeirrar fyrirmyndar heimsbyggðarinnar, sem við getum vel orðið, ef við viljum. Í ljósi núverandi stöðu landsmanna, erum við nú aðeins eitt lítið skref frá slíkri framtíðarþróunar mála. –

Höfundur  Einar Þorsteinn -Berlín  –  lést árið 2015



Flokkar:Annað, Ýmislegt

%d bloggers like this: