Viðtal: Natasha Campbell Mc-Bride.
Þann 19.maí 2009 hélt læknirinn Dr.Natasha Campbell Mc-Bride, höfundur bókarinnar ,,Gut and Psycholgy Syndrome“ (GAPS) tvo fyrirlestra í bíósal Hótels Loftleiða. Lesendum Heilsuhringsins er bókin kunn því tvisvar hefur verið um hana fjallað í blaðinu. Bókin hefur á íslensku hlotið nafnið ,,Meltingarvegurinn og geðheilsan“ og var þýðing hennar og nýleg útgáfa hérlendis ástæða komu höfundarins hingað til lands. Fullt var út úr dyrum á báða fyrirlestrana en auk þess mætti Dr.Natasha einnig í viðtöl í sjónvarpi og útvarpi til að ræða þau mál sem bókin fjallar um. Fulltrúi Heilsuhringsins, Sigríður Ævarsdóttir fór á annan fyrirlesturinn og hitti síðan Natöshu daginn eftir og átti við hana ánægjulegt spjall og spurði hana nánar út í ýmislegt sem tengdist fyrirlestrinum, bókinni og öðru.
Fyrsta spurningin sem mig langar að spyrja þig að kemur bókinni ekkert við, þar sem ég hef nú þegar fjallað um hana og aðferðir þínar í Heilsuhringnum. Þetta er hin dæmigerða spurning sem við íslendingar spyrjum svo gjarna þá útlendinga sem hingað koma: ,,Hvernig líkar þér á Íslandi ?“Natasha: Mér finnst Ísland undursamlegur staður, alveg einstök eyja. Allir staðir á jörðinni hafa jákvæðar og neikvæðar hliðar og hin jákvæða hér er hreinleikinn, hreina loftið og vatnið, og heilandi vatnið sem þið einnig hafið. Þið skrúfið frá kalda krananum og fáið hreint og heilnæmt kalt vatn til drykkjar og svo skrúfið þið frá heita krananum og fáið heilandi brennisteins-vatn sem þið notið í bað sem afeitrar og nærir. Svo hafið þið Bláa lónið og fleiri slíka staði þannig að þetta er yndislegt land … töfraland.
Næst langar mig að spyrja þig um bókina sem nú er komin út á íslensku. Hvernig eru viðbrögðin við henni hérlendis og annarsstaðar þar sem hún hefur komið út ? Eru augu fólks að opnast og hugarfarið að breytast ? Natasha: Algerlega, bókin hitti algerlega í mark verð ég að segja án þess að taka of djúpt í árinni. Það eru margar vefsíður í gangi í heiminum í dag og það eru tugþúsundir einstaklinga sem eru að fara eftir GAPS-leiðbeiningunum sem gefnar eru í bókinni með góðum árangri. Það eru viðræðuhópar á yahoo á internetinu og nú þegar hafa tvær aðrar bækur sem byggja á mínu kerfi verið gefnar út. Þær eru skrifaðar af fólki sem sjálft hefur læknast eða á börn sem hafa læknast.
Ég mæli sérstaklega með einni bók sem kallast ,,GAPS guide“ skrifuð af yndislegri konu í Ameríku sem læknaði sjálfa sig af geðklofa og son sinn af einhverfu með því að fara eftir þessu kerfi. Henni þótti svo mikið til árangursins koma að hún endurskrifaði eiginlega bókina mína og gaf út sem hagnýtan leiðarvísir þar sem fjallað er um praktíska hluti s.s. hvernig á að kaupa inn, algengar spurningar og vandamál sem fólk þarf að takast á við dags-daglega, hvernig hægt er að skipuleggja sjálfan sig til að kerfið verði auðveldara í framkvæmd oþh. Þetta er mjög góð bók og ég mæli eindregið með henni. Vefsíðan er http://www.gapsguide.com
Á fyrirlestrinum á gær sá ég að mikill meirihluti fundargesta voru konur og vakti það ákv. spurningar hjá mér og fleirum. Í spjalli mínu við nokkrar þeirra lýstu þær áhuga á að fá ráðleggingar til að halda sig við GAPS-kerfið og hvernig hægt er að fá eiginmennina til að vera jákvæðari að vinna með þeim að kerfinu ?
Natasha: Það er mikilvægt að öll fjölskyldan hjálpist að við að vinna í kerfinu. Í bókinni minni tala ég ekki um GAPS-barn í fjölskyldunni heldur GAPS-fjölskyldur því börnin fá þetta vandamál frá foreldrunum – þau fá afbrigðilega þarmaflóru frá foreldrunum. Oft eiga foreldrarnir sjálfir vandræðum og það þarf að lagfæra þau, einnig systkyni. Þau þurfa ekki að vera ofvirk eða með einhverfu, en þau geta átt í tilfinningalegum vandamálum, haft meltingarvandamál, verið með ofnæmi eða astma eða einhverja aðra afbrigðileika í ónæmiskerfinu. Taka þarf á öllum þessum vandmálum og ég legg til að öll fjölskyldan sé í sama kerfinu. Ef enginn sykur er til í húsinu geta börnin ekki náð í hann, ef maður er ekki með hveiti eða aðra bannvöru í húsinu, getur barnið ekki náð í hana.
Börn eru mjög klár, ef þú reynir að gefa einu barni ákv. tegund matar en restinni af fjölskyldunni eitthvað annað þá veit barnið að þarna uppi í skáp í þessari krukku er verið að fela eitthvað sem það má ekki fá og áður en þú veist af finnur það leið til að ná í bannvöruna.Það er því lang þægilegast og heilsusamlegast að fjölskyldan taki öll þátt. Það er auðveldara að vinna með yngra barn í þessu kerfi en eldra, unglingar eru sérstaklega erfiðir viðureignar, en einnig fullorðnir, því þeir geta farið út af heimilinu og nálgast eitthvað til að borða annarsstaðar. Því er það mikilvægt að taka á þessu meðan barnið er yngra og algerlega undir þinni stjórn.
Það er hefð fyrir því að konur sjái um börnin, það var kvenmannsverk að hugsa um matinn og elda hann og það eymir eftir af því ennþá þó það sé að breytast. Þess vegna eru það fleiri konur sem hafa lagt sig eftir að sýna þessu kerfi áhuga og vinna í því, mæta á fundi osfrv. Ég hef séð sorgleg dæmi þar sem eiginmaðurinn hefur yfirgefið fjölskylduna þegar barn er greint með einhverfu, þar sem hann hefur ekki höndlað aðstæðurnar. Því eru mæðurnar oft einar með veik börn sín, í fjármálaerfiðleikum og hjónaskilnaði. Það er töluvert um slík tilfelli því miður. Í flestum tilfellum eykst þó samheldni fjölskyldna þar sem einhverft barn er til staðar því það gefur foreldrunum sameiginlegt verkefni að takast á við.
Ég tel ekki nauðsynlegt að láta barn undirgangast dýrar rannsóknir til að staðfesta greiningu, það er hægt að greina út frá einkennum og heilsufarssögu hvort um einhverfu er að ræða, en þar sem faðirinn neitar að trúa að svo sé og taka þátt gæti þó verið hjálplegt að fá nákvæma greiningu. Feður eru ekki endilega góðir í innkaupum, eldamennsku eða að gefa barninu að borða oþh. En þeir eru oft mjög góðir í að leita á internetinu og finna upplýsingar, skipuleggja rannsóknir, fundi t.d. við skólayfirvöld, fást við kerfið oþh. Og það þarf að vinna að málunum frá báðum þessum hliðum og mamman getur ekki gert allt.
Hversu há prósenta almennings telur þú að GAPS hafi áhrif á ? Natasha: Það er erfitt að segja, en það eru mun fleiri en fólk getur ímyndað sér því vandamál með þarmaflóruna eru ekki einungis bundin við geðræn vandamál og námsörðugleika heldur einnig við síþreytu, ME, MS, vefjagigt, allar tegundir gigtar og bólginna og stirðra liða, migreni, margar teg. blæðingavandamála, fyrirtíðaspennu, fjölblöðrueggjastokkavandamál ofl. þannig að mjög margir krónískir, hrörnunarsjúkdómar sem fólk þjáist af í dag tengjast meltingarveginum og afbrigðilegri þarmaflóru. Því er það að mun hærri prósenta fólks en við gerum okkur grein fyrir, sem myndi hafa hag af að fara eftir því mataræði sem kennt er í bókinni og þessu kerfi í heild.
Á fyrirlestrinum með þér á í gær minntist þú á bólusetningar. Þær hafa ekki verið mikið til umræðu á Íslandi, enda þótt yfir allan vafa hafnar, en umræða kom þó upp í fjölmiðlum sl. vetur í tengslum við vaxandi tíðni einhverfu. Þú sagðir að börn með GAPS-einkenni væru viðkvæm fyrir bólusetningum og ætti ekki að bólusetja án ítarlegrar undangenginnar rannsóknar á því hvernig þau myndu þola bólusetninguna. Ef það eru svo mörg börn og einstaklingar með GAPS-einkenni eins og áður hefur verið rætt, væri þá ekki athugandi að endurskoða gildandi bólusetningarkerfi m.t.t. þess?
Natasha: Algerlega, enginn vafi á því! Staðlaða bólusetningarkerfið er ekki endilega að frumvæði neinna læknisfræðilegra rannsókna. Það er að frumkvæði viðskiptafyrirtækja sem þéna billjónir á bóluefnum. Þaðan er það upprunnið. Það byrjaði hægt og rólega en síðan bættust jafnt og þétt ný og ný bóluefni við. Bóluefni hafa bjargað milljónum mannslífa, því fyrir 1930 var mjög algengt að eitt til þrjú börn eða jafnvel fleiri úr hverri fjölskyldu dæju úr barnasjúkdómum. Það þótti eðlilegt og fólk tók því bara, en bóluefni hafa án efa bjargað mörgum mannslífum.
En við erum komin í þær aðstæður að vaxandi fjöldi barna er viðkvæmur fyrir skemmdum af völdum bólusetninga og við verðum að endurmeta stöðuna. Það á ekki að ráðast á stjórnvöld eða lækna, heldur fara fram á skynsamlega málamiðlun með því að láta skoða barnið og kanna hvort það er hæft til bólusetningar áður en það verður sprautað. Vandamálið er að ríkið fær stórar upphæðir frá lyfjaiðnaðnum sem framleiðir þessi bóluefni og það verður til þess að frekar er horft til peninga en þess hvaða heilsufarslegu dilka þessi gjörningur getur dregið á eftir sér.
Heilbrigðustu börn sem ég hef nokkurn tíman séð eru þau sem hafa ekki verið bólusett. Þau ERU heilbrigðust – 100% börn! Í gegnum tíðina hefur verið sýnt fram á það aftur og aftur að ráðandi þáttur í því hvort barn lifir af barnasjúkdóm og kemur út úr honum heilbrigðara en fyrir sýkingu, er næringarleg staða barnsins. Skiptir þá ekki máli hvort sjúkdómurinn heitir mislingar, rauðir hundar eða annað. Ef börnin eru vel nærð sigla þau í gegnum mislinga og koma út úr sjúkdómnum með mun þroskaðra ónæmiskerfi en þau höfðu áður.
Þetta eru börn sem aldrei munu fá sjálfsónæmissjúkdóma það sem eftir lifir ævinnar. Í þeim tilgangi sendir móðir náttúra okkur þessa sjúdóma (barnasjúkdómana) þ.e. til að þroska ónæmiskerfi barnanna. Við fæðumst með ,,barnalegt“ og óþroskað ónæmiskerfi. Börn sem fá fylgikvilla af myslingum og öðrum barnasjúkdómum, eru börn sem þjást af skorti á A eða D-vítamíni eða einhverju öðru næringarefni. Næringarástand þeirra er lélegt. Ég fékk mislinga og rauða hunda sem barn og sennilega hefur þú og þín kynslóð einnig fengið rauða hunda og þessar kynslóðir eru mun heilbrigðari en þær sem nú eru að vaxa úr grasi. Við erum að skemma mikið af börnum með hinu staðlaða bólusetningarkerfi sem notað er. Það er góðs viti að fólk sé farið að spyrja spurninga varðandi bólusetningar, fólk gerir ekki bara það sem því er sagt lengur án þess að spyrja og það ætti ekki heldur að gera það. Það ætti að hugsa sjálfstætt!
Eru einhverjar sérstakar barnabólusetningar verri en aðrar eða skiptir það ekki máli? Natasha: Ég myndi segja að við eðlilegar náttúrulegar aðstæður væru mjög litlar líkur til að barn fengi fleiri en einn barnasjúkdóm s.s. mislinga og hettusótt á sama tíma. Örfá tilfelli þess hafa þó verið skjalfest og segja má að í flestum tilfellum þar sem sú er raunin sitji barnið eftir með e.k. vitsmunaskerðingu og námsörðugleika þegar veikindin eru gengin yfir. Það er því ekki mjög náttúrulegt eða eðlilegt að kynna þessar sýkingar fyrir ónæmiskerfinu saman eða jafnvel ennþá fleiri.
Að sprauta börn með mörgum bóluefnum í einu er gert einungis vegna þess að það er hagkvæmara í framkvæmd og vegna fjárhagslegrar hagkvæmni þess fyrir aðra – án þess að taka inn í myndina áhættuna fyrir heilsu barnanna. Þannig að ef við ákveðum að láta bólusetja þá mæli ég með að nota eitt bóluefni í einu og að barnið sé skoðað af lækni fyrir bólusetninguna og það metið hvort það sé hæft til bólusetningar. Oft sér maður börn með kvef, nefrennsli, hitaslæðing ofl., en það stoppar þá ekki, þau eru samt sem áður bólusett þó greinilega sjáist að þau séu veik. Þannig að allt ástandið er stjórnlaust og því verður að breyta.
Þú talaðir um sýklalyf í fyrirlestri þínum í gær. Hversu lengi eftir hvern sýklalyfjakúr telur þú að ætti að gefa probiotics ? Natasha: Í a.m.k. 2 vikur. Þegar maður byrjar á sýklalyfjum er góð hugmynd að byrja á probiotics jafnhliða, varist þó að taka þau inn á sama tíma. Látið líða u.þ.b. eina klukkustund á milli t.d. sýklalyfin kl.8 að morgni og probiotics kl.9 osfrv. Með því að taka probiotics í kjölfar sýklalyfjatöku kemur þú í veg fyrir alls kyns vandamál. Það er mjög einföld ráðstöfun og ódýr, hagkvæm og auðveld í framkvæmd. Einnig er gott að borða dós af lifandi jógúrt meðan og á eftir hverjum sýklalyfjakúr í a.m.k. 2 vikur – athuga sérstaklega að jógúrtin þarf að vera lifandi – ekki gerilsneydd. Meirihluti jógúrt sem er á markaði er gerilsneydd og dauð með íblönduðum sykri og aukaefnum. Lifandi jógúrt eða kefir koma í veg fyrir vandamál.
Þú talaðir um að börn fengju bakteríuflóru móðurinnar í sig úr fæðingarveginum. Ef móðirin er greinilega með GAPS-einenni myndir þú þá mæla með inntöku probiotics á meðgöngunni og jafnvel vikurnar fyrir og eftir fæðingu ? Natasha: Engin spurning! Á nýju vefsíðunni minni http://www.gaps.me skrifaði ég grein fyrir GAPS-fjölskyldur, um meðgöngu og tímann fyrir getnað, því margir spurðu mig: ,,Við eigum nú þegar eitt einhverft barn og ætlum að eignast annað barn en viljum ekki að það verði veikt. Hvað eigum við að gera?“
Ég setti því mikið af upplýsingum þarna inn, hvaða mataræði og ráðlegginum fólk ætti að fara eftir, til að vera viss um að eignast heilbrigt barn. Mataræði er algert grundvallaratriði. Konurnar þurfa að vera á GAPS-mataræði alla meðgönguna, það er grundvallaatriði fyrir þær. Probiotics eru einnig grundvallaratriði fyrir þær, en annað aðalatriði í undirbúningi meðgöngu er að byggja upp í leggöngunum rétta bakteríuflóru. Sem barn eyddi ég miklum tíma í þorpinu sem amma mín og frænka bjuggu í og þar kynntist ég þeim aldagömlu aðferðum sem hefð var fyrir að konur í Rússlandi og Skandinavíu notuðu til að halda þessum hlutum í lagi. Vikulega var farið í rússneskt bonja sem er ákv. tegund saunabaðs og ríkuleg hefð er fyrir í Rússlandi.
Vendir með þurrkuðum silfurbirki-greinum voru bleyttir í heitu vatni og notaðar til að slá á húðina, sumir báru á húðina hunang og ýmislegt annað. Þegar maður hafði svitnað þvoði maður sér og fór svo inn í hitann aftur og endurtók leikinn og stóð þetta yfir allan daginn. Þetta var afeitrandi ferli og ekki bara gott fyrir líkamann heldur sálina líka því almennings-saunaböðin voru félagsleg samkoma þar sem allar konurnar í þorpinu hittust og ræddu saman um daginn og veginn og allsherjar hreinsun fór fram. Sambærilegir sauna-kofar voru til fyrir karlmennina.
Þegar gufubaðinu lauk og konurnar höfðu þvegið af sér svitann og þurrkað sér báru þær á sig heimalagaða lifandi jógúrt. Amma mín átti kú, hún bjó til sína eigin jógúrt eða súrmjólk (kallað katik) líkt og flestar aðrar konur þarna, mjög öfluga og mjög súra á bragðið. Áður en konurnar klæddu sig tóku þær handfylli af katik og smurðu í lærkrikann, undir hendur, á brjóstin, allstaðar þar sem þær svitnuðu, gengu um nokkra stund þar til þetta þornaði á húðinni og klæddu sig síðan í fötin. Á þennan hátt byggist upp gagnleg bakteríuflóra á þessum svæðum og þegar þær voru búnar að taka sér þar bólfestu gat ekkert annað fest þar rætur. Engin Candida, engir vírusar, engar bakteríur sem geta orsakað vaginosis.
Milljónir kvenna í Vesturlöndum þjást af því ástandi, sem einennist af því að ragnar tegundir baktería halda til í leggöngum þeirra með tilheyrandi óskemmtilegum einkennum. Þær þurfa stöðugt að vera að taka sýklalyf og skola og sótthreinsa leggöngin osfrv. Hefðbundnar lækningar meðhöndla þetta ástand ekki almennilega en allt sem þarf að gera er að setja þessa jógúrt á svæðið daglega eftir sturtu eða bað og óæskilegu bakteríurnar hverfa.
Konum sem hafa sveppasýkingu eða önnur vandamál í leggöngum ráðlegg ég að taka tvö hyki af góðum probiotics-gerlum, setja þau upp í leggöngin fyrir svefn, þar sem þau leysast upp um nóttina og allar bakteríur, snýkjudýr og streptokokkar hreinsast út, þar sem leggöngin verða súr eins og reyndar er eðlilegt að ástandið sé á þessum stað. Rétt sýrustig verndar leggöngin fyrir sýkingum. Ófrískar konur verða að gera þetta, sérstaklega síðustu mánðuðina fyrir fæðingu til að bakteríuflóran í leggöngunum verði í lagi þegar barnið fæðist og þannig að barnið fái heilbrigða bakteríuflóru.
Þú ræddir á fyrirlestrinum um að nýfædd börn væru með lélegt ónæmiskerfi og sagðir að fyrstu 20 dagarnir eftir fæðingu réðu úrslitum um heilsufar þeirra. Hvað ráðleggur þú foreldrum? Natasha: Ég ráðlegg þeim að gefa barninu brjóst! Það er það mikilvægasta sem hægt er að gera. Sérstaklega er broddurinn sem kemur úr brjóstunum fyrstu dagana mikilvægur vegna þess að hann fóðrar eingöngu réttar tegundir baktería. Í vesturlöndum, Ameríku og örugglega í Bretlandi eru nú allar ófrísar konur teknar í próf til að athuga hvort þær hafi streptococca í leggöngum.
Töluverður hluti kvenna mælist jákvæður. Viðurkennd meðhöndlun kvensjúkdómalækna er að gefa konunum sýlalyf í æð þegar þær fæða – til að reyna að koma í veg fyrir að þær smiti börnin af streptococcum. Þetta er skelfilegt og getur ruglað þarmaflóru barnsins. Ef þú undirbýrð flóruna í leggöngunum síðasta hluta meðgöngunnar á þann hátt sem áður hefur verið lýst losnar þú við streptococcana og það verða engin vandamál. Fyrir konur sem vita að þær hafa óeðlilega þarmaflóru, vita að þær hafa gefið hana áfram til barnsins síns, legg ég til að þær gefi barni sínu gæða probiotic strax frá fæðingu.
Ég mæli með að þær opni hylkið og dreyfi innihaldinu yfir geirvörturnar áður en barninu er gefið að drekka þannig að þegar barnið sýgur fái það probiotic-gerlana upp í sig. Ég mæli með að þær konur sem af einhverjum ástæðum geta ekki gefið börnum sínum brjóst, finni brjóstmóður sem getur gefið barninu brodd og brjóstamjólk. Áður fyrr var heil stofnun fyrir brjóstamæður í Bretlandi og öðrum löndum og það var mjög auðvelt að finna eina slíka ef konur þurftu á því að halda. Það sem ég ráðlegg núna, er að fyrir fæðinguna sé konan búin að undirbúa jarðveginn t.d. með því að kynnast öðrum verðandi mæðrum í undirbúningstímum fyrir fæðinguna eða á spítalanum.
Talið saman, þannig að ef eitthvað kemur uppá eftir fæðinguna og einhver þeirra getur ekki gefið brjóst, þá hafi þær símanúmer, netföng og nöfn hverrar annarar og séu tilbúnar að gefa öðru barni af þeirri mjólk sem þær framleiða. Jafnvel þó barnið sé alið á pelamjólk þá geta ein eða tvær brjóstagjafir á dag gert kraftaverk fyrir það, til að skapa því heilbrigt ónæmis- og meltingarkerfi. Passaðu uppá að það þroskist eðlilega. Er einhver þurrmjólkurtegund á markaði sem þú getur mælt með sérstaklega ef konur þurfa nauðsynlega að gefa barni sínu ábót og eiga ekki nægjanlega brjóstamjól ? Natasha: Nei, ég get ekki mælt með neinni slíkri. Þ
að eru til frábær samtök sem kallast ,,Weston A.Price“ (sjá grein í Heilsuhringnum úr Haust 2008) sem ég mæli mjög með. Vefsíðan þeirra er http://www.westonaprice.org og þar er að finna uppskriftir af heimatilbúinni mjólkurblöndu. Hráefnið er að að mestu hrá, lífræn ógerilsneydd mjólk, út í hana bætt örlitlu beinasoði og eitthvað fleira er sett saman við. Það er betra að gera slíka uppskrift en kaupa það sem fæst í búðunum. Hið besta er hins vegar að finna brjóstamóðir, það er ekki svo erfitt. Finndu aðrar konur sem eru með börn á brjósti. Við lifum í þessum nútímaheimi þar sem fólk er svo aðskilið hvort frá öðru og reynir að hafa eins mikla fjarlægð og það getur milli sín og annars fólks.
Fjölskyldur tala ekki saman, allir eru einhvernveginn hræddir við að tala hver við annan. Ef ég væri í þeim sporum að vanta brjóstamjólk fyrir barnið mitt, færi ég út á götu og myndi stoppa hverja einustu konu með smábarn og tala við hana, og biðja hana um smá brjóstamjólk fyrir barnið mitt. Þegar ég var með mín börn lítil mjólkaði ég mjög mikið, ég hefði auðveldlega getað verið með 5 börn á brjósti á sama tíma og ég hefði verið alveg ánægð með að gera það. Það eru margar aðrar konur svona, það þarf bara að tala við þær. Meirihluti fólks í kringum okkur er ágætisfólk, og ef maður biður það um hjálp þá gerir það það með ánægju. Allt sem þarf að gera er að spyrja !
Þú minntist áðan á konu sem læknaði sig af geðklofa með því að fara eftir GAPS-kerfinu. Geðklofi greinist yfirleitt í kringum 20 ára aldur, hver er ástæðan fyrir því, ef hann tengist ástandinu í meltingarveginum? Natasha: Það er erfitt að segja, en kynþroskinn hefur eitthvað um þetta að segja. Þeir sem greinast á þessum aldri eru þó ekki algerlega heilbrigt fólk sem skyndilega verður veikt af geðklofa. Þetta er fólk sem er veikt frá fæðingu. Í barnæsku er há prósenta þessara einstaklinga greindir með lesblindu eða ofvirkni, eða þeir höfðu einhverja aðra námsörðugleika sem ekki féllu inn í neinn ákv. greiningarramma þannig að þeir voru e.t.v. ekki greindir með ,,eitthvað ákveðið “ en þeir áttu í erfiðleikum. Þeir pössuðu ekki inn í félagslegt umhverfi sitt, réðu ekki vel við stærðfræði, stafsetningu, tungumál eða einhverja aðra bóklega þætti í skólanum – voru einfarar og áttu í vandræðum. Öll hafa þau meltingarvandamál, vandamál í ónæmiskerfinu, ofnæmi og yfirleitt hafa þau haft astma eða exem eða önnur vandamál þegar þau voru yngir – þannig að þau eru ekki heilbrigð að upplagi. Geðklofi þróast útúr GAPS.
Telur þú að ójafnvægi þarmaflórunnar sé yfirleitt alltaf aðalástæða fyrir vandamálum s.s. kvíða, fyrirtíðaspennu og öðrum andlegum kvillum sem þjaka fullorðið fólk og að það að breyta mataræði hjálpi til við að leysa slík vandamál ? Natasha: Það hjálpar alveg örugglega því við erum það sem við borðum þannig að ef þú setur rangt eldsneyti inn í líkamann þá virkar hann ekki eins og hann á að gera. Mataræði er nr.1 í öllum líkamlegum vandamálum, og stór hluti kvíða og tilfinningalegra frávika hjá konum og körlum er tengdur óeðlilegri hormónastarfssemi. Það fyrsta sem gerist hjá fólki þegar þarmaflóran fer úr skorðum er að allir hormónarnir fara í ójafnvægi.
Það er af því að allir kirtlarnir í líkamanum og hormónarnir sem þeir framleiða vinna sem ein heild og vinna saman, þannig að ef ein tegund hormóna fer úr jafnvægi reyna hinir kirtlarnir að bæta það upp með því að framleiða meira eða minna af öðrum hormónum og þarmeð fer öll hormónaframleiðsla úr skorðum. Það fyrsta sem yfirleitt gerist með konur sem hafa vandamál tengd tíðahring og fara í GAPS-kerfið er að fyrirtíðaspennan hverfur – það gerist áður en síþreytan, vefjagigtin eða eitthvert annað vandamál hverfur. Um leið og magn eiturefna minnkar nær hormónakerfið aftur jafnvægi og þessi vandamál hverfa. Um leið og fyrirtíðaspennan hverfur hverfa einnig tilfinningasveiflurnar sem þeim fylgja.
Hefur GAPS-kerfið breyst eitthvað frá því þú byrjaðir að nota það? Natasha: Nei, þetta er alltaf sama kerfið. Það eina sem ég hef breytt er að ég hef þróað nokkurs konar kynningar-mataræði til viðbótar hinu kerfinu. Ekki þurfa allir að fara eftir því, flestir eru sáttir við að fara beint í GAPS-kerfið en í sumum alvarlegum tilfellum er ágætis hugmynd að byrja á kynningar-mataræðinu fyrst. Það er strangara, stig 1, 2, 3 osfrv. og er lýst í smáatriðum á vefsíðunni http://www.gaps.me
Í mataræðinu eru nokkrar matartegundir sem ég var hissa á að sjá að þú mæltir ekki með fyrir GAPS-sjúklinga. Dæmi um þetta er Aloa vera. Hver er ástæðan fyrir því ?Natasha: Aloa Vera inniheldur flókin kolvetni þannig að fyrir ýkt tilfelli t.d. niðurgang, sár og bólgur í meltingarveginum er það ekki gott. Þegar þessi vandamál eru farin er hægt að fara að kynna Aloa Vera fyrir þeim einstaklingum. Það eru því þau tilfelli sem eru á alvarlegri enda skalans sem þurfa að forðast þetta. Það sama á við um þang og þara. Í upphafi kerfisins mæli ég ekki með þeim vegna flóknu kolvetnanna og ef meltingarvegurinn er sár og þarf að gróa, en þegar fólk hefur farið í gegnum og klárað kynningar-mataræðið er það í lagi. Það mataræði stöðvar niðurgang mjög fljótt og fólk byrjar að hafa eðlilegar hægðir.
Agave síróp má ekki borða en það er í lagi að borða hunang. Hver er munurinn á þessum vörum m.t.t. GAPS ? Natasha: Hunang er framleitt af bíflugum, ekki mönnum. Öll sætindi framleidd af mönnum þarf að forðast, treystið ekki hlutum sem maðurinn hefur búið til! Treystið hlutum sem náttúran hefur skapað, vegna þess að þrátt fyrir að hunang innihaldi mikið magn frúktósa þá er sá frúktosi á formi flókins sambands við magnesíum, sink, selen, amínósýrur og probiotic bakteríur svo og lifandi ensíma – það er samband hundruða góðra efna.
Þess vegna höndlar líkaminn frúktósann í hunangi vel, því allir samvirkandi þættir eru einnig til staðar. Þegar þú ert með Agave síróp, kornsíróp eða einhverja aðra teg. síróps er líkaminn að innbyrgða hreinan frúktósa – án allara hjálparþátta til að aðstoða hann við að vinna úr frúktósamólikúlinu á réttan hátt. Þetta mólikúl kemur því inn í líkamann eins og ræningi og tekur frá honum magnesíum, sink, króm, seleníum, amínósýrur, ensím og annað, því til að líkaminn geti unnið úr frúktósamúlikúlunum þarf það þessa hjálparþætti líka. Til að líkaminn geti melt 1 mólikúl af sykri þarf hann að leggja til 56 mólikúl af magnesíum á móti, þannig að þegar þú borðar sykur rænir hann líkamann magnesíum að launum.
Neysla síróps og sykurs á einhverju formi er aðalástæð magnesíumskorts hjá almenningi en magnesíum er eitt nauðsynlegasta steinefni sem líkaminn þarf á að halda. Eitt af því fyrsta sem gerist þegar líkamann fer að skorta magnesíum er að blóðþrýstingur hækkar og meginástæðu háþrýstings – meira en 95% tilfella – má rekja til skorts á magnesíum vegna sykurneyslu. Þegar fólk hættir að neyta sykurs jafnar líkaminn magnesíumbyrgðirnar og blóðþrýstingurinn lækkar aftur.
Hjá barni sem neytir sykurs hækkar blóðþrýstingurinn ekki, heldur verður það ofvirkt og ófært um að einbeita sér ef það skortir magnesíum. Það sem þú ert að segja hér og talaðir um á fyrirlestri þínum í gær er eiginlega allt eitthvað sem heilbrigð skynsemi segir okkur að sé rétt og við vitum innst inni að er svo. Einhvernveginn höfum við þó gefið frá okkur valdið til að fara eftir því sem brjóstvitið segir okkur en látum allskyns ,,sérfræðinga“ með mismunandi ,,sannleik“ segja okkur hvað sé best fyrir okkur. Allur þessi ,,sannleikur“ er síðan misvísandi og fyrir rest hættir fólk að hlusta og kaupir bara það sem fæst fyrir minnstan pening og greiðir þegar upp er staðið fyrir með heilsu sinni.
Natasha: Allir miklir heimspekingar mannkynssögunnar hafa, þegar þeir hafa verið orðnir gamlir og vitrir, gefið frá sér svipaðar yfirlýsingar og þýski fornleifafræðingurinn og heimspekingurinn Nietzche gerði á sínum tíma, en hún er sú: ,,að fólk sé sauðir,“ í þeirri meiningu að það ,,elti hjörðina og hugsi ekki sjálfstætt“. Þetta á við um mikinn meirihluta almennings. Í dag höfum við þó vaxandi fjölda fólks í heiminum sem vill hugsa sjálft og vill ekki vera sauðir lengur. Vill ekki bara gera það sem þeim er sagt að gera af yfirvöldum eða auglýsendum eða hverjum sem er – það vill hugsa sjálft fyrir sig! Internetið hefur verið frábær uppspretta og athvarf fyrir þetta fólk. Sérstaklega á þetta við um yngri kynslóðir fólks í dag.
Áður en það fer til læknisins skoðar það internetið sér til glöggvunar og til að athuga niðurstöður sem þar finnast og það sem þar er að finna er dásamleg uppspretta upplýsinga. Fólk verður og þarf að hugsa sjálft fyrir sig vegna þess að þetta er þeirra barn, það þykir engum í heiminum vænt um barnið þeirra á sama hátt og þeim, þannig að ekki gefa barnið þitt frá þér sem tilraunadýr til einhvers læknis, stjórnvalda eða yfirhöfuð nokkurs annars. Þetta er þitt barn! Þú ert eina manneskjan í heiminum sem elskar þetta barn, svo þú skalt axla ábyrgðina og ekki ofurselja það í hendur nokkrum öðrum. Það var það sem Jóhanna gerði og líttu á útkomuna!
(Innskot greinarhöfundar: Jóhanna Mjöll Þórmarsdóttir hjúkrunarfræðingur er þýðandi bókarinnar Meltingarvegurinn og geðheilsan og á heiðurinn af því að fá Natöshu hingað til lands. Hún hefur notað GAPS kerfið fyrir sín börn með góðum árangri. Hún heldur úti vefsíðunni http://www.maturogheilsa.is þar sem á íslensku má nálgast upplýsingar um GAPS-kerfið, senda inn fyrirspurnir, panta bók ofl.)
Flokkar:Greinar