Kærleikur og vinátta Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund

Nú eru liðlega 85 ár síðan Grund, elsta dvalar-og hjúkrunarheimili landsins, var stofnað. Þá voru Reykvíkingar um 11 þúsund og fátækt mikil, stofnun elliheimilis var því mikið átak. Aðalhvatamenn að stofnun Grundar voru stjórnarmenn líknarfélagsins Samverjans. Það voru: Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason guðfræðingur, Flosi Sigurðsson trésmíðameistari, Páll Jónsson skrifstofumaður, Haraldur Sigurðsson verslunarmaður og Júlíus Árnason kaupmaður. Sumrin 1921 og 1922 héldu þeir Samverjamenn nokkrar skemmtanir fyrir gamalt fólk í þeim tilgangi að safna fé til stofnunar elliheimilis.

Alls söfnuðust 541 króna. Það var síðan í kjölfar þess, að Sigurbjörn Á. Gíslason skrifaði grein í dagblaðið Vísi um nauðsyn þess að stofna elliheimili í Reykjavík og að ánægjulegt væri, ef hægt yrði að flýta fyrir stofnun elliheimilis með þessari fjárupphæð. Daginn eftir þann 22. júlí árið 1922 svaraði gamall maður, Jón Jónsson beykir í Reykjavík grein Sigurbjörns og sagði: ,,Ef stjórn Samverjans lofar að stofna elliheimili í haust skal ég gefa 1500 krónur í stofnsjóðinn og safna fé hér í bænum“. Í framhaldi var hafin fjársöfnun meðal bæjarbúa og söfnuðust alls 7.286 krónur á aðeins einum mánuði. Í byrjun september 1922 keypti stjórn Samverjans steinhúsið Grund, sem stóð vestan við Sauðagerðistún, eða við Kaplaskjólsveg, eins og við þekkjum nú.

Húsið var vígt 29. október sama ár. Í upphafi var heimilisfólk 21. Það sýndi sig fljótt, að þörf var á fleiri rýmum þar sem aðsóknin óx stöðugt. Þetta leiddi til þess, að sumarið 1927 úthlutaði bæjarstjórn Reykjavíkur heimilinu lóð milli Hringbrautar og Brávallagötu. Vinna við nýtt hús hófst strax og var vígt 28. september 1930 og nefnt Grund, eins og gamla á þeim tíma var 56. Árið 1934 var það orðið 115, en á þeim tíma bjó einnig starfsfólk á heimilinu, og hluti hússins var í útleigu.

Fyrsta sjúkraþjálfunin
Heilsugæsludeild var snemma opnuð á heimilinu og hjúkrunardeildir voru teknar í notkun samkvæmt nýjum heilbrigðislögum árið 1937. Þá mun Grund fyrst heilbrigðisfyrirtækja hafa boðið upp á sjúkraþjálfun hérlendis og sundlaug var opnuð á heimilinu á sjötta áratugnum. Heilsugæsla tók til starfa á Grund árið 1948. Árið 1952 tók Grund að sér rekstur Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði fyrir elliheimilisnefnd Árnessýslu og voru 13 heimilismenn fyrsta árið. Í dag er Ás í eigu Grundar, þar var tekið í notkun nýtt hjúkrunarheimili árið 1998 og eru þar nú um 156 heimilismenn.

Vistvæn ræktun í Ási
Þegar rekstur dvalarheimilis í Ási í Hveragerði hófst fyrir 56 árum var starfsemin í tveimur húsum og fylgdi öðru þeirra gróðurhúsið Þórsmörk. Það má því segja að frá upphafi starfseminnar í Ási hafi verið ræktað grænmeti á staðnum. Þá var áhersla lögð á tómata og vínvið og um skeið voru þar ræktaðir bananar. Árið 1968 tók til starfa í Ási rannsóknarstofnun vegna gróðurhúsaræktar og tók Búnaðarbankinn þátt í kostnaði við hana. Gróðurhúsunum fjölgaði og ræktunin varð umfangsmeiri. Í dag er búið að koma upp vetrarlýsingu í gróðurhúsinu þar sem ræktað er um 4.000 kíló af gulrótum, 8 – 9.000 kíló af tómötum og svipað magn af agúrkum. Í ár er magnið af paprikum í kringum 2.200 kíló og nóg er af rabarbara. Um 14.000 sumarblóm voru ræktuð þetta ár. Til að sporna við arfa í gróðurhúsunum var ákveðið að planta í kassa, sem gafst vel. Auk þess eru ræktaðar um 14.000 rósir og önnur blóm til afskurðar sem höfð eru inni á heimilunum frá því að fer að vora og langt fram á haust.

Eden-stefnan
Heimilislegt andrúmsloft og umhverfi er kjarninn í hugmyndafræði rekstraraðila Grundar. Horft er til hugmyndafræði sem nefnd er Eden-valkosturinn, þar er markmiðið að sporna gegn einmanaleika, hjálparleysi og leiða. Athyglisvert er að hugmyndafræði Eden-stefnunnar er svipuð því sem lagt var upp með fyrir rúmlega 85 árum þegar elliheimilið Grund var stofnað. Inntak Eden-valkostsins er: að fólk búi ekki á stofnun heldur á heimili þar sem því líður vel. Þar er heimilislegt um að litast, falleg blóm sem þarf að hugsa um, gæludýr sem þurfa umhyggju og börn velkomin. Hugsunin er alls ekki sú að hver heimilismaður sé með kött inni hjá sér, hund eða naggrís. Hvert heimili finnur út hvað því hentar eða hentar ekki hverju sinni og vinnur útfrá því. Eins er með börnin.

Barnabörnin geta komið og gist hjá ömmu eða afa ef vilji er fyrir því. Herbergin eru nægilega stór og rúmgóð. Stundum er stofnað til samstarfs við nærliggjandi skóla. Hjúkrunarheimilum er skipt niður í 8-12 manna einingar sem hver um sig telst þá heimili. Hver einstaklingur hefur stórt herbergi útaf fyrir sig með baði og síðan eru rúmgott sameiginlegt rými. Heimilisfólk er virkjað í ýmis störf ef geta er fyrir hendi og löngun en það getur líka verið útaf fyrir sig ef það vill. Það bakar með starfsfólkinu, gefur blómunum vatn og næringu og tekur á móti börnunum. Starfsfólkið vinnur með kærleika og vináttu að leiðarljósi og reynir að finna hvar styrkleikar heimilisfólksins liggja.

Öflug andleg og líkamleg þjálfun
Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á þjálfun fyrir heimilisfólkið. Á Grund er tækjasalur og aðstaða til æfinga og meðferðar sem sjúkraþjálfunarteymi heimilisins annast. Íþróttafræðingur starfar einnig á heimilinu, hann stendur daglega fyrir leikfimisæfingum, gönguferðum, pútti á sumrin og allskyns hreyfingu. Sundlaugin er í notkun á hverjum degi. Þá er boðið upp á dansleiki þrisvar í viku og jafnvel oftar. Í nokkurn tíma hefur verið boðið upp á jafnvægisæfingar í anda ,,TaiChi“ sem eru vinsælar hjá heimilisfólki og þar eru göngugrindur engin fyrirstaða. Allir heimilismenn á Grund fá að kostnaðarlausu að fara til fótaaðgerðafræðings með reglulegu millibili. Þá má geta þess að í hátíðasal Grundar er messað á hverjum sunnudegi og á heimilinu eru starfandi prestur og djákni sem sinna andlegu starfi með heimilisfólki.

Hlúð að starfsfólkinu
Margir starfsmannanna hafa unnið á Grund áratugum saman og er tryggð þeirra við heimilið afar dýrmæt. Lögð er áhersla á að hlúa að starfsfólki heimilisins með ýmsum hætti. Starfsfólki er boðið upp á slökun alla föstudaga og heilsustyrkur er veittur þeim sem stunda vilja hreyfingu. Yfir vetrartímann er reglulega boðið upp á spilakvöld fyrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn og árlega er haldið starfsmannakvöld. Þar er fólk m.a. verðlaunað fyrir störf sín á heimilinu þegar það á starfsafmæli fimm ára fresti og í haust verður blásið til heilsuviku fyrir starfsfólk Grundar. Þegar grænmeti verður afgangs í Ási býðst fólki að kaupa vistvænt ræktað grænmeti á afar vægu verði og rennur ágóði sölunnar í starfsmannafélagið.

Þá er Grund einnig með sumarhús í Ási sem starfsfólk getur fengið til afnota viku í senn sér að kostnaðarlausu. Um 300 starfsmenn eru nú á Grund, sumir í hlutastarfi. Mikil breidd er í hópi starfsmanna og hefur fjölgun orðið á erlendum starfsmönnum undanfarin ár, en þeir eru frá 19 þjóðlöndum. Þetta eru meðal annarra fagmenntaðir einstaklingar á heilbrigðissviði, sem stefna að því, að fá sína starfsmenntun viðurkennda hérlendis og styður Grund þá í því. Síðast liðið vor var haldinn tælenskur dagur á Grund þar sem starfsfólk frá Tælandi kynnti menningu sína og land. Til stendur að halda áfram með haustinu og kynna lönd þeirra erlendu starfsmanna sem á heimilinu starfa og munu Pólverjar og Litháar kynna sín lönd með haustinu.

Grund á Landakoti og í Garðabæ
Nú eru heimilismenn Grundar um 220 og hefur þeim fækkað á undanförnum árum, en markmið heimilisins er, að allir þeir, sem þess óska, geti búið í einbýlum og mun þá heimilisfólki fækka enn frekar. Hjúkrunarrýmin eru samtals 187. Vegna þess að vaxandi þörf er fyrir hjúkrunarrými í Reykjavík hefur Grund um nokkurt skeið annast rekstur hjúkrunardeildar fyrir aldraða í Landakoti. Þar dvelja 18 sjúklingar, sem bíða eftir að komast í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili. Þá var nýlega undirritaður samningur til eins árs milli Grundar og Oddfellow reglunnar um byggingu 7500 fm. hjúkrunarheimilis í landi Urriðaholts.

Takist samningar milli Grundar og ríkisins um heimilið fljótlega, gætu framkvæmdir væntanlega hafist undir lok ársins 2009 og heimilið yrði tekið í notkun seinni hluta árs 2011. Heimilislegt andrúmsloft og umhverfi er kjarninn í hugmyndafræði rakstraraðila Grundar þegar horft er til framtíðarinnar. Horft er í þeim efnum m.a. til hugmyndafræði sem nefnd er Eden-valkosturinn, þar er markmiðið að sporna gegn einmanaleika, hjálparleysi og leiða. Athyglisvert er að hugmyndafræði Eden-stefnunnar er svipuð því sem lagt var upp með fyrir rúmlega 85 árum þegar Grund var stofnað þar sem lögð var áhersla á að Grund væri heimili en ekki stofnun.

Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir árið 2008Flokkar:Umhverfið

%d bloggers like this: