Fyrir fólk með gigt

Í bókinni Bottom Line´s healing Remedies frá 2006 eftir Joan Wilen og Lydiu Wilen er að finna yfir 1000 leiðir til að fást við hina ýmsu sjúkdóma og kvilla sem hrjá okkur, allt frá asma til gyllinæðar og allt þar á milli. Eftirfarandi uppskrift er að finna í þessari bók og er fyrir þá sem þjást af gigtarverkjum og bólgum og hefur að sögn margra sem reynt hafa alveg ótrúlega góð áhrif á verki og hreyfigetu. Fyrir þá sem hafa áhyggjur af alkóhólinnihaldi rúsínanna og að það sé e.t.v. vegna slævandi áhrifa þess sem þessi uppskrift virkar verkjastillandi þá upplýsist það að gerðar hafa verið rannsóknir á rúsínunum eftir að þær hafa legið í gininu umræddan tíma. Í ljós hefur komið að innan við 1 dropa af alkóhóli er að finna í hverjum 9 rúsínum.

Samt sem áður er rétt að ráðfæra sig við lækni sinn áður en inntaka á ,,Ótrúlegu ginlegnu rúsínunum“ hefst til að vera viss um að þær trufli ekki virkni þeirra lyfja sem viðkomandi gæti verið að taka eða hefði á annan hátt slæm áhrif á heilsufarsvandamál sem fyrir eru, sérstaklega ef of mikið járn er til vandræða. Þessi uppskrift hefur verið birt opinberlega í sjónvarpi í Bandaríkjunum og viðbrögðin við henni verið ótrúleg. Skv.upplýsingum úr Bottom Line´s healing Remedies finna sumir árangur á innan við viku eftir að þeir hefja inntöku á rúsínunum en aðra tekur það nokkra mánuði að ná árangri. Síðan eru það alltaf einhverjir sem þetta gerir ekkert fyrir en þar sem
uppskriftin er einföld og ódýr er áhættan ekki mikil að prófa og sjá hvort hún virkar. Eins og segir í bókinni: Sýnið þrautseigju í inntökunni og borðið rúsínurnar daglega. Búist við kraftaverki … en hafið þolinmæði!

,,Ótrúlegar ginlegnar rúsínur“
1 lb. gullnar (ljósar) rúsínur (ca.450 gr.)
Gin u.þ.b. 1 pint (ca.4,7 dl.)
Glerskál.  Glerkrukka með loki. Dreifið rúsínum jafnt á botninn á glerskálinni og hellið síðan gini yfir – nægjanlega miklu til að hylja þær alveg. Hyljið op skálarinnar með pappírsblaði þannig að ekki fari óhreinindi ofan í hana. Látið standa þannig þar til rúsínurnar hafa dregið í sig allt ginið. Það tekur u.þ.b. 5-7 daga. Hrærið í rúsínunum af og til þannig að þær fái allar sinn skerf af gininu þegar það fer að minnka í skálinni. Þegar allt ginið er uppurið skal hella rúsínunum í glerkrukkuna, setjið lokið á og haldið krukkunni þannig. Geymið ekki í ísskáp. Daglega á að borða 9 stk. rúsínur uppúr krukkunni- hvorki meira né minna. Flestir gera það á morgnana, með morgunmatnum. Uppskrift fyrir fólk með gigt.

Höfundur : Sigríður Ævarsdóttir árið 2008



Flokkar:Annað, Kynningar

%d bloggers like this: