Bænin undir smásjánni – Vísindamenn klóra sér í kollinum

Leyndarmálið eða ,,The Secret“ er löngu hætt að vera leyndarmál a.m.k. hér á landi. Eins og þar kemur fram hefur vitneskjan um mátt bænarinnar verið þekkt um ómunatíð þrátt fyrir að einhverjir hafi vilja halda henni sem mest frá almenningi. Ég rakst á 15 ára gamla tímaritsgrein um þetta mál, sem birtis  fyrst í tímaritinu Ganglera árið 1992 en síðan endursögð í tímaritinu Heilsa og Sport Í tilefni vakningarinnar sem orðið hefur í kjölfar uppljóstrana Leyndarmálsins og fleiri skyldra bóka birtist hér þessi grein aftur, sem enn ein hvatningin til að trúa á mátt bænarinnar og okkar magnaða mannshuga – sjálfum okkur og öðrum til blessunar

Ef niðurstöðurnar hefðu átt við nýja lyfjategund hefðu þær talist meiriháttar uppgötvun. … þótti sýnt að bænir virka betur þegar veikindi eða einhves slags óheilindi eiga í hlut heldur en þegar allt er í góðu gengi. ,,Kannski ættum við læknar að skrifa á lyfseðlana okkar: biðjið bænir þrisvar á dag.“ Athyglisvert er að fjöldi þeirra sem beðið er fyrir skipti ekki máli. Ekki skiptir máli hvaða trúarbrögð við tölum um – öll eiga þau bænina sameiginlega. Yfirleitt gera menn ekki mikið af því að reyna að kryfja til mergjar hvers vegna menn eiga að biðja, né hvað það er sem fær bænina til þess að virka ef hún gerir það á annað borð. Rannsakandi spurningar í þá átt hafa einfaldlega ekki flotið upp á yfirborðið í hinni venjulegu trúarlegu umræðu. Í hinum hefðbundnu vísindum og læknisfræði er hreinlega hvergi minnst á bænina, né önnur álíka mál eðli þeirra vegna.

En það þýðir hins vegar ekki að allir séu sáttir við það að láta þessi mál niður falla með tilliti til vísindalegra rannsókna. Hjartasérfræðingurinn Randolph Byrd sem er fyrrum prófessor við Kaliforníuháskóla hefur sýnt mætti bænarinnar áhuga og hefur sýnt fram á að bænin getur verið gagnleg til lækninga. Niðurstöðurnar úr rannsóknum hans eru umhugsunar virði. Rannsóknin fór þannig fram að tölva á sjúkrahúsinu skipti 393 sjúklingum í tvo hópa. Allir sjúklingarnir höfðu verið lagðir inn á hjartadeildina. Öðrum hópnum var ekkert beðið fyrir en fólk sem myndað hafði bænahringi bað fyrir hinum hópnum. Þeir sem voru í bænahringjunum voru bæði mótmælendur og kaþólikkar, alls staðar af landinu. Bænahringirnir fengu gefin upp nöfn sjúklinganna sem biðja átti fyrir en hins vegar fengu þeir engin fyrirmæli um það hvernig biðja ætti fyrir þeim. Skiptingin var þannig að u.þ.b. fimm til sjö manns báðu fyrir hverjum sjúklingi. Við skulum velta fyrir okkur niðurstöðunum:

Þeir sem beðið var fyrir voru fimm sinnum ólíklegri en hinir til þess að þurfa sýklalyf, (þrír á móti sextán). Þeir voru þrisvar sinnum ólíklegri til þess að fá lungnabjúg. Lungun fyllast þá af vökva vegna þess að hjartað dælir ekki eins og því er eðlilegt, (sex á móti átján). Af þeim sem beðið var fyrir þurfti enginn að fara í öndunarvél. Aftur á móti þurftu tólf af hinum bænalausu á öndunarvél að halda. Dánartíðni var minni hjá þeim sjúklingum sem beðið var fyrir en þó var munurinn ekki slíkur að hann væri álitinn marktækur. Ef ofangreindar niðurstöður hefðu átt við nýja lyfjategund, hefðu þær talist meiriháttar uppgötvun. Þegar þessar niðurstöður voru kynntar voru miklir efasemdarmenn sammála um það að niðurstöðurnar væru mjög merkilegar. Einn þeirra sagði: ,,Kannski ættum við læknar að skrifa á lyfseðlana okkar: ,,biðjið bænir þrisvar á dag. Annað hvort gagnar það eða ekki“. Rétt eins og við á í sambandi við fjarhrif, þá virðast fjarlægðir ekki skipta nokkru máli. Það má aftur á móti túlka á þann veg að í bæninni komi ekki nokkurs konar ,,orka“ við sögu.

Hópur sem kallar sig ,,Spindrift“ (Sjávarúði) hefur um nokkurt skeið fengist við nokkuð frumstæðar en engu að síður merkilegar rannsóknir á mætti bænarinnar. Þær rannsóknir hafa að miklu leyti miðast við baunir. Það er ekki jafn fráleitt og það kann að virðast í fyrstu þar sem baunir spíra og auðvelt er að fylgjast með vexti og þroska þeirra. Í stuttu máli sagt var greinilegur árangur af því að biðja fyrir baununum. Stór munur var á baunum sem beðið var fyrir og þeim sem ekki var beðir fyrir. Ýmislegt kom í ljós við þær rannsóknir. Heilbrigðar og ört vaxandi baunir sýndu minni mun í árangri heldur en þegar þær voru látnar vaxa við erfiðar aðstæður. Þannig þótti sýnt að bænir virka betur þegar veikindi eða einhvers slags óheilindi eiga í hlut heldur en þegar allt er í góðu gengi. Ekki virtist skipta miklu máli hvaða bænaaðferð var notuð en þó voru nokkur atriði sem skiptu máli. Greinilegt var að sá sem bað bænina varð að vita fyrir hverjum hann var að biðja til þess að góður árangur næðist. Einnig náðu ,,biðjendur“ misjafnlegum árangri.

Þeir sem voru vanir sýndu fram á betri árangur. Athyglisvert er að fjöldi þeirra sem beðið er fyrir skipti ekki máli. Það leiddi til þess að þeir sem að þessum rannsóknum stóðu settu fram svokallað ,,lögmál heildarhyggju“. Ef sá sem biður bænina getur litið á lífverurnar sem hann biður fyrir sem eina heild, þá virkar bænin jafnt á allar lífverurnar. Það kom á óvart að stýrð bæn reyndist ekki eins vel og óstýrð. Óstýrð bæn, byggist í stuttu máli á því að ekki er hafður í huga neinn fyrirfram ákveðinn árangur né reynt að segja alheiminum hvað gera skuli. Vísindalega séð eru þetta ekki sérlega nothæfar aðferðir þó niðurstöðurnar séu ótrúlegar. Það er nú svo með læknavísindin að þau eru svo hlutbundin að lækningin verður að fara fram á staðnum. Það er þess vegna langt í land þar til læknar fara að skrifa ,,bænaseðla“ til sjúklinga sinna. Hvernig í ósköpunum á fuglinn að sanna fyrir fiskinum að hann geti flogið ?

Grein úr tímaritinu Heilsa & Sport. Endursagt úr tímaritinu Ganglera haust 1992.

Höfundur: Sigríður Ævarsdóttir

 

 Flokkar:Annað, Ýmislegt

%d bloggers like this: