Um árabil starfaði ég á lokuðum deildum hjúkrunarheimila að umönnun Alzheimersjúkra. Það var mér mikil uppörvun þegar ég las bókina ,,The Validation break through: simple techniques for communicating with people with Alzheimer’s type dementia“, eftir Naomi Feil og sá að ég hafði tamið mér líkar vinnuaðferðir og þar er lagt til að hafðar séu við ummönnun Alzheimerssjúkra. Orðið ,,Validation“ þýðir að staðfesta, taka mark á tilfinningum annarrar manneskju og staðfesta að þær séu sannar. ,,Validation“ er mannúðleg nálgun sem hvetur til tjáningar á tilfinningum Alzheimersjúkra. (Bókin er til í Eirbergi, bókasafni Landspítalans, sími: 4531450 og í Borgarbókasafni Reykjavíkur).
Þegar næst augnsamband við þau, eru þau með
Í starfi mínu reyndi ég fyrst og fremst að ná góðu augnsambandi við fólkið. Í huganum sendi ég þeim allan þann kærleika, gleði og virðingu sem ég bjó yfir. Ég hældi þeim og hrósaði með hverju sem ég gat fundið til og jók þannig sjálfstraust þeirra. Ég hló og brosti til þeirra og bað um að fá að sjá bros þeirra, því að það væri svo gaman. Ég vakti athygli þeirra á ef mér urðu á mistök eins og t.d. einu sinni, þegar ég rétti einum sjúklingnum gleraugun sín eftir bað. Hann kvartaði ekkert um að hann sæi illa, en þegar við komum inn í herbergið hans sá ég að gleraugun hans lágu á borðinu og að ég hafði látið hann hafa mín. Þá hlógum við mikið að mér, en ég hló aldrei, aldrei að þeim.
Virðing fyrir einstaklingnum og reynslu hans Ef þau vildu, tók ég þátt í hugarheimi þeirra, t.d. eldaði ég með einum sem fyrrum var kokkur. Hann spurði mig oft hvort það syði ábyggilega á saltkjötinu og hvort nóg væri til af kartöflum. – Kona gaf mér einu sinni vandlega samanbrotna servíettu. Ég skildi að hún var að gefa mér verðmæta gjöf, þó hún gæti ekki sagt mér hvað það var, og þakkaði henni með virktum fyrir.
Að nálgast brosið, sem allir búa yfir hjálpar öllum til að líða betur Útstreymi gleðinnar og óskin um að hin sjúku gætu notið hennar fannst mér koma berlega í ljós, þegar ég og samstarfskona mín (við höfðum báðar lært hláturjóga) vorum að vekja tvo mjög þunglynda sjúklinga. Um leið og við opnuðum dyrnar á herbergjum þeirra og án þess að við hefðum sagt eitt einasta orð, fóru þau bæði að skellihlæja.
Samvinna við sjúklinginn á jafnræðisgrundvelli Eitt vetrarkvölda vildi ein konan ekki fara að sofa, eins og allir hinir. Þá dró ég gluggatjöldin frá og útskýrði fyrir henni að það væri komið kvöld og kominn svefntími. Hún brosti bara og horfði út í fjarskann. Þá datt mér í hug að spyrja hana hvar hún væri stödd. Hún sagðist vera uppi á fjalli að tína blóm með sonum sínum. Ég spurði hvort hún vildi líka tína blóm fyrir mig og bað hana að koma svo öll þangað sem ég væri. Hún gerði þetta strax í huganum og fór svo sæl að sofa.Hlusta á sjúklinginn. Önnur konan trúði mér fyrir því að dúkkan sem hún var alltaf með væri barnið hennar. Sungum við því stundum gamla barnagælu og hún dansaði við barnið sitt.
Að efla trú fólks á sjálft sig. Einn maður þarna lét stundum sem hann væri að stjórna tónlistinni í útvarpinu eða sjónvarpinu. Þá ýtti ég undir það hve honum færist það vel úr hendi, (síðar kom í ljós að hann hafði lært mikið í tónlist). Almennt minnti ég oft á forn afrek svo sem: kórsöng, fótbolta, golfferðir og annað sem þeim hafði þótt gaman að áður fyrr.
Nú er vitað að tónlistastöð heilans lokast síðast hjá Alzheimerssjúklingum Eitt sinn ráðlagði læknir heimilisins tónlist fyrir mann, sem leið útaf mikilli innibyrgði reiði. Þegar honum leið sem verst söng ég með honum lag sem hann mundi eftir og við það var eins og hann öðlaðist meiri ró. Einnig söng ég oft með öðrum sjúklingunum gömul lög sem þau kunnu frá fyrri tíð og tímum. Þá var mikið sungið og gátu þau sungið blaðalaust og fannst gaman. Ég gætti þess alltaf vel að ná augnsambandi við þau og svo hreyfði ég varirnar vel eftir textanum.
Gleðin er alþjóðlegt tungumál allra Þverfagleg samtök um húmor og hlátur í heilbrigðisþjónustu eru starfandi víða um heim. Heimasíða þeirra er: http://www.aath.org.
Höfundur: Sif Ingólfsdóttir lærði geðleik, tónlistalækningar /og er hláturjógakennari.