PCOS – eða fjölblöðrueggjastokka heilkenni

Polycystic Ovarian Syndrome (PCOS) eða fjölblöðrueggjastokka heilkenni þýðir að konur mynda margar blöðrur á eggjastokka í stað þess að fá egglos. PCOS hefur verið þekkt meðal kvenna síðan 1905. Aðeins fáein ár eru síðan þessi sjúkdómur var tengdur við skert næmi fyrir insúlíni, insúlínviðnám (insulin resistance). Áður fyrr var PCOS vandamál 5-10 % kvenna en nú er PCOS tengt að minnsta kosti 20% kvenna í hinum vestræna heimi. Ekki er vitað af hverju sumar konur fá PCOS en talið er að það sé ættgengt. Þó er sennilegt, að mikil aukning sé af sömu ástæðu og aukning á sykursýki 2 og insúlínviðnámi, sem sagt rangt mataræði.

Helstu einkenni PCOS
• Ófrjósemi
• Konur mynda margar blöðrur fullar af vökva á eggjastokka og eggjastokkar þessara kvenna eru oft þrisvar sinnum þykkari.
• Hormónatruflanir þ.a.m. aukin karlhormón,
• Insúlín er venjulega hækkað.
• Þessar konur hafa óreglulegar blæðingar og þar eð eggin frjóvgast ekki reyna þær að mynda estrógen. Þær geta ekki myndað progesterone. Þetta veldur því að blæðingar verða óreglulegar og geta orðið miklar þegar þær koma.
• Ójafnvægi er í fituefnum í blóðinu aðallega hækkun á triglyseríðum , sem er 98% af fitunni í  fæðunni og LDL, sem er svokallað vonda kólesterólið.
• Þessar konur eru oftast of feitar og í 80% tilfellum er fitan mest um mittið.
• Aukin hárvöxtur á líkama og í andliti.
• Bóluvandamál, oft kýli í andliti.
• Sykurfíkn.
• Eiga erfitt með að fá tilfinningu fyrir að vera mettar.
• Fá hitaköst, höfuðverk, eru oft þreyttar og hafa svefnvandamál.
• Þunnt hár og jafnvel hármissir.
• Dökkbrúnir blettir eru stundum á hálsi, höndum, brjóstum og lærum. Konur með PCOS hafa ekki allar öll einkennin PCOS krefst aðeins að blöðrur séu á eggjastokkum og eitt af fyrrgreindum einkennum. Talið er að þar sem konur með PCOS myndi of mikið insúlín myndist of mikið af karlhormónum. Þetta veldur því að hárvöxtur eykst, þyngd eykst og vandamál koma upp við frjóvgun eggja. PCOS veldur ekki bara barnleysi, meiri líkur eru á að þessar konur fái leghálskrabbamein, sykursýki 2, háan blóðþrýsting og hjarta- og æðasjúkdóma.

PCOS er tengt insúlíni
Starf insúlíns er að sjá um að magn blóðsykurs í blóðinu sé eðlilegt. Í PCOS geta frumur líkamans ekki nýtt sér blóðsykurinn nema að hluta. Frumur hans hlýða ekki skipunum insúlíns um að taka blóðsykurinn inn í frumurnar og búa til orku (ATP). Fitufrumurnar hins vegar taka við blóðsykrinum og breyta honum í fitu. Þegar við hreyfum okkur og notum vöðvana skilst út IL-Interleukin-6 en það efni hefur örvandi áhrif á insúlínviðnámið. Þess vegna er gott fyrir PCOS fólk að hreyfa sig.

Kannanir á PCOS
Könnun var gerð í Ástralíu og á Nýja Sjálandi þar sem athugaður var mismunur á hvernig 138 innkirtlalæknar og 172 kvensjúkdómalæknar tóku á vandamálum PCOS kvenna. Innkirtlalæknar báðu frekar um mælingar á 17OH, progesterone, DHEAs og blóðsykri. Kvensjúkdómalæknar báðu um ómskoðun af legi og fitumælingar í blóði. Um 90% allra læknanna ráðlögðu megrun með réttu mataræði og hreyfingu. Ef það dugði ekki gáfu innkirtlalæknarnir metformin glycophage en það hefur reynst best allra lyfja, við töku þess hafa a.m.k. 70% kvennanna orðið ófrískar. Kvensjúkdómalæknar gáfu frjósemislyfið elomiphene. Um 80% kvenna sem taka þetta lyf fá egglos en aðeins 38% þeirra verða ófrískar.

Mataræði PCOS sjúklinga
• Minnka kolvetnaneyslu en það er erfitt vegna þess að kolvetni eru í öllum mat nema kjöti. Kolvetni koma þó aðallega úr ávöxtum, grænmeti og korni.
• Ekki borða kolvetnin ein og sér, blanda saman próteinum, kolvetni og fitu. Það dregur úr hraða frásogs og breytir meltingu kolvetna.
• Því meira sem fæðan er blönduð því fleiri næringarefni eru í fæðunni og þeim mun lægra er GL (Glycemic Load) í fæðunni.
• Dreifa kolvetnunum yfir daginn.
• Borða mat sem hefur lágan GI (Glycemic Index), hann hefur meira af trefjum og
næringarefnum.
• Ekki er gott að kolvetnin fari mikið undir 40% af fæðunni því að þá myndast ketosis  þ.e líkaminn fer að vinna blóðsykur úr fitu.
• Borða meira af fiski, kjöti og eggjum.
• Borða meira af ávöxtum, grænmeti, baunum og grófu korni.
• Sleppa lélegum kolvetnum svo sem hvítu hveiti, pasta, hvítum hrísgrjónum og hvítum sykri.
• Borða hægt svo að heilinn geti sent frá sér skilaboð þegar líkaminn er saddur.
• Sleppa fæði sem ýtir undir kolvetnaþörf, t.d. sælgæti og pasta.
• Taka ráðlagða dagskammta af fjölvítamínum og steinefnum en líkaminn þarf á vítamínum og steinefnum að halda til að geta myndað blóðsykur .
• Drekka að minnsta kosti 500 ml af vatni eða hreinum ávaxtasafa á dag þar sem minnkandi kolvetnaneysla eykur hættu á uppþornun.
• Nota lítið af transfitusýrum og minnka mettaða dýra og jurtafitu vegna hjartans.
• Lækka blóðþrýsting ef með þarf.
• Hækka HDL kólesterólið en það hækkar með hreyfingu og hollum mat.
• Lækka LDL kólesterólið.
• Reyna að laga insúlínstuðullinn en það er gert með því að borða minna af unninni matvöru, þar á meðal hvítu hveiti, sykri. Þjálfið líkamann þar sem regluleg hreyfing bætir insúlínviðnám hjá  PSOC sjúklingi

GL og GI
Sum kolvetni, sérstaklega í unninni matvöru, hafa hátt GI, en því hærra sem GI er þeim mun verra. GI þýðir hve hratt 50 g af kolvetnum í fæðunni fara út í blóðið. Þeim mun lægra sem GI er þeim mun meira er af næringarefnum og trefjum í fæðunni og þeim mun hægar fer fæðan út í blóðið og verður að blóðsykri, sem svo verður að orkuefninu ATP. Líkaminn þarf að vinna fyrir orkunni. Hann notar hitaeiningar til að vinna úr öllum næringarefnum og sendir þau síðan til annarra starfa. Með GL er verið að tala um magn og ekki síður gæði kolvetnanna. Í stuttu máli snýst málið um að fæðan sé sem minnst unnin, fjölbreytt og samansett úr mörgum næringarefnum.

Lokaorð
Þessi fæða og lífsstíll er eitthvað sem þarf að vara alla ævi. Mikilvægt er að halda sér innan þeirra hitaeininga sem líkaminn þarfnast en brennsla einstaklinga er mismunandi hröð. Orkuefnin eru fjögur: kolvetni, prótein, fita og alkóhól (það gefur orku en hefur engin næringarefni). Ráðlögð matarsamsetning: holl kolvetni 40%, prótein 40% og holl fita 20%. Versti óvinur PCOS kvenna eru mikið unnar matvörur, hvítt hveiti, hvítur sykur, hvít hrísgrjón, pasta, sælgæti og gos þar sem þessi matur verður strax að blóðsykri og krefst því aukins insúlíns. Til að grennast þarf að reikna út þær hitaeiningar sem einstaklingurinn þarfnast og draga 500 hitaeiningar frá. Viktin mun þá væntanlega sýna hálfu kílói minna hverja vikuna sem líður.

Útreikningur á orkuþörf (hitaeiningum) í kyrrstöðu: Konur: 65,5 + (9.63 x þyngd í kg) + (1.83 x hæð í cm) – (4.73 x aldur í árum) Karlar: 66 + ( 13,73 x þyngd í kg) + (5.3 x hæð í cm) – (6.83 x aldur í árum) Við litla hreyfingu má margfalda útkomuna með 1.2 og alveg uppí 1.7 fyrir þá sem eru í mikilli þjálfun.

Heimildir http://www.heilsa.hafdal.dk Cussons AJ. Stuckey BGA, Walsh JB, et al. Polycystic ovarian syndrome: marked difference between endochrinologists and gynaecologists in diagnosis an management. Clin. Endocrinol 2005; 62:289 -5 Mahan LK, Stump SE edit. Kraus´s Food, Nutrition and diet Therapy. 10th ed. Philadelphia, USA: W.B. Saunders Company; 2000.

Höfundur : Auður Ragnarsdóttir skrifað árið 2008



Flokkar:Líkaminn

%d bloggers like this: