Í Morgunblaðinu 17.5.08 birtist athyglisverð grein eftir Bjarna Þjóðleifsson lækni um rannsóknir á meltingarsjúkdómum. Þar sagði að á síðasta áratug síðustu aldar hefði uppgötvast magasýkill, sem reyndist vera aðalorsök magasárs og magakrabbameins. Íslendingar voru rannsakaðir til að kanna útbreiðslu sýkilsins og næmi hans fyrir lyfjum. Þá kom í ljós að 80% Íslendinga sem fæddir voru á árunum 1900-1920 voru sýktir og 15% þeirra fengu magasár eða krabbamein. Eftir árið 1920 snarlækkaði tíðni sýkinga vegna betri húsakosts og hreinlætis og á tímabilinu 1992-2000 var magasári af völdum Helicobacter pylori að mestu útrýmt með sýklalyfjum. Bjarni sagði þá magakrabbamein einnig hafa horfið að mestu. Síðan kemur fram í greininni að nokkur ráðgáta sé, að á sama tíma og Helicobacter pylori var að hverfa kom upp faraldur vélindabakflæðis. Helstu tilgátur um orsakir þess eru tvær. 1) Dregur úr sýruseitrun í maga og þegar meirihluti Íslendinga var sýktur af Helicobacter pylori höfðu þeir innbyggða meðferð gegn bakflæði. 2) Offitufaraldurinn getur einnig verið meðvirkandi orsök bakflæðis. Fleira áhugavert kom fram í greininni sem ekki verður tíundað hér.
Flokkar:Líkaminn