Blóðtæming vegna sogæðabólgu

Í vorblaði Heilsuhringsins árið 2008 birtist viðtal við Margréti Ásgeirsdóttur er fjallaði um baráttu hennar við Crohn’s sjúkdóm og bata eftir að hún breytti um mataræði.

Það eru fleiri sjúkdómar sem Margrét hefur þurft að kljást við því fyrir 15 árum var tekið af henni brjóst og eitlar í handarkrika vegna krabbameins. Afleiðingar þess urðu þær að það þrengdi að sogæðum og eðlilegt flæði út í handlegginn skertist og handleggurinn varð viðkvæmur fyrir sýkingum.

Nú tekur lýsing Margrétar við: Ég varð að gæta þess að meiða mig ekki því að nokkrum sinnum urðu meiðsli í handleggnum til að orsaka sýkingu, miklar bólgur og háan hita. Þegar ég hóf nám í Iðnskólanum í kjólasaumi og klæðskurði fylgdi því mikið álag á höndina og handlegginn vegna teikninga og annarrar vinnu í náminu, sem varð mér ofviða. Handleggurinn bólgnaði og varð allur rauður og blóðhlaupinn, bókstaflega ónothæfur.

Þegar í óefni var komið hafði ég samband við Hallgrím Magnússon lækni.  Ég spurði hann hvort hann gæti hjálpað mér og fékk það svar, að hann hefði stundum hjálpað í sams konar vandræðum með því að blóðtæma handlegginn. Ég hafði aldrei heyrt um neitt slíkt og dreif mig til hans.

Aðgerðin fór þannig fram að ég lá á bekk í nokkra stund og hélt handleggnum beinum upp í loftið. Að því loknu var ól reyrð um handlegginn alveg upp við handarkrika. Að 20 mínútum liðnum var hægt og hægt linað á ólinni, þar til eðlilegt blóðflæði var aftur komið í handlegginn. Síðan hefur haldleggurinn verið í góðu lagi og það sem meira er þá hvarf einkennilegt suð sem alltaf hafði heyrst öðru hvoru frá innyflum mínum eftir að ég fékk sterameðferðir gegn Crohn´s sjúkdómnum. Dæmi eru um að árangur slíkra blóðtæminga hafi varað í 20 ár, en einnig eru dæmi um að slíkt hafi virkað skemur.

Viðtalið var skrifað árið 2008  en Hallgrímur Magnússon læknir lést árið 2015

I.S.Flokkar:Kjörlækningar, Meðferðir

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d