Hlátur nærir líkama og sál

Fyrstu kynni Sifjar Ingólfsdóttur hláturjógakennara af hláturjóka var hjá Ástu Valdimarsdóttur árið 2001. Seinna sótti hún námskeið hjá hinum þekkta hláturjógakennara Madan Kataria, sem kom hingað til lands árið 2004 og hélt tvö námsleið. Á síðasta ári lauk Sif svo kennaranámi í hláturjóga í skóla hjá Madan Katarina. Heilsuhringurinn leit inn til Sifjar og spurði hana nánar um þetta

Sif: ,,Áður fyrr var ég mjög alvörugefin, oft skildi ég ekki brandara fyrr en daginn eftir. Nú hlæ ég að ótrúlegustu hlutum t.d. að sjálfri mér ef mér verður eitthvað á. Þegar ég kynntist hláturjóga fannst mér það bæði skrítið og ótrúlegt og ég byrjaði með hálfum huga en svo fann ég að þetta virkaði. Á þeim tíma vann ég á Hjúkrunarheimilinu í Sóltúni en þar vann einnig Auðbjörg Reynisdóttir sem hafði lært hláturjóga í Bandaríkjunum og var félagi í alheimssamtökum hjúkrunarkvenna, sem höfðu tileinkað sér þessa hláturtækni.

Í gegnum hana hafði ég upp á 6 mánaða grunn-hláturnámskeiði hjá Valgerði Snæland Jónsdóttur sem ég fór á árið 2002. Á þeim tíma var ég mjög hjartaveik og þurfti að heimsækja lækni á þriggja mánaða fresti en eftir hláturnámskeiðið fækkaði læknisheimsóknunum mínum um helming. Það kom greinilega fram í Sóltúni hve hláturmeðferð hafði jákvæð áhrif og jók lífsgæði fólks með minnissjúkdóma og bætti líkamlega, félagslega og andlega líðan þess. Ég minnist þess t.d. einn morgun er við Auðbjörg vorum saman að vinna og þurftum að vekja gamla konu. Um leið og ég kom inn til hennar fór hún að hlæja án þess að ég segði orð. Sagan endurtók sig einnig í næsta herbergi. Mér fannst þetta sanna það sem er sagt að maður beri í viðmóti sínu það sem maður óskar öðrum.“

Hélt áfram að mennta sig
Árið 2002 fór Sif á námskeiðið Húmor og heilsa hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, sem fjallaði um jákvæð áhrif húmors á samskipti sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks. Það var haldið af félagi Norrænna lækna um læknaskop og var Bjarni Jónasson læknir varaforseti þess. Árið 2004 fór Sif á námskeið í hláturjóga hjá Madan Kataria og Hönnu Gottlieb í Danmörku og heimsótti þar líka marga starfandi hláturklúbba og öðlaðist þar þetta merki Alheimshlátursklúbbsins. Síðasta haust fór Sif aftur í skóla hjá Madan og Maduhuri Kataria og lauk þar hláturjógakennara námi. Að skólanum loknum var haldið á Evrópuþing hláturjógakennara, þar komu saman 60 manns af tuttugu þjóðernum, sem margir vinna í heilbrigðisstéttum. Þar var t.d. þýskur krabbameinslæknir sem einnig var lærður geðlæknir, sem sagðist staðráðinn í að nota hláturnámið í starfi sínu.

Sex þúsund hláturklúbbar í 60 Löndum
Madan vill að þátttaka í hláturklúbbumsé ókeypis, á Vesturlöndum þar sem klúbbfélagarfélagar hittast venjulega hálfsmánaðarlega leggur hann til að aðeins sé greiddur kostnaður vegna húsnæðis. En í Austrænum löndum þar sem klúbbfélagar hittast venjulega einu sinni í viku og veðrátta er svo góð að fólk getur hist í görðum kosti það ekkert. Hinn glaðlyni indverski lyflæknir Madan Kataria hefur ásamt konu sinni Madhuri stofnað hláturklúbbshreyfingar um allan heim. Madan er þekktur fyrir kenningar sínar og rannsóknir á áhrifum hláturs á heilsu og vellíðan. Madan starfaði við Ex-registrar Jaslok Hospital og Research centre í Bombay á Indlandi og er nú sérlegur ráðgjafi í heildrænu heilbrigði og streitustjórnun í fjölda fjölþjóðlegra fyrirtækja og heldur námskeið víða um heim.

Fyrir 12 árum, stofnuðu hann og kona hans Madhuri hláturklúbb á Indlandi. Þar komu saman 5 manns, fljótt fjölgaði í hópnum, sem taldi að lokum 55. Í byrjun voru sagðir brandarar, en með tímanum urðu þau uppiskroppa með brandara, þau kunnu þá orðið alla. Það leiddi til þess að Madan og Madhuri þróuðu hláturæfingar, sem fólki fannst gaman að og kalla þær hláturjóga. Hláturjóga byggir á sérsökum skemmtilegum hópæfingum í hlátri þar sem augnsamband er notað, þá verður hláturinn til án tilefnis. Á milli æfinganna eru notaðar öndunaræfingar sem auka súrefnisflutning til lungnanna og heilans, það eykur vellíðan og mótstöðuafl gegn veikindum. Það er sannað á vísindalegan hátt að hláturjóga hefur sömu áhrif á líkamann og hlátur sem verður til af bröndurum. Madan Kataria hefur skrifað nokkrar bókanna þ. á m. kennslubókina ,,Certified Laughter Yoga Teacher Traninig Manual 2007″, einnig ,,Laugh For No Reason“ og heilsuhandbók handa fjölskyldum ,,Self – Medication and How Useful, How Harmful?“.

Speki Madan Kataria:
Ef við vinnum með jákvæðar hliðar okkar þá hverfa þær neikvæðu að lokum. Við skulum alltaf vera þakklát, sýna umhyggju og vináttu. Athygli er það sem skiptir öllu máli og að dæma aldrei að aðra Það hefur komið í ljós við rannsókn að 10 mínútna hlátur hefur sömu áhrif á líkamann og 30 mínútna létt skokk. Hláturæfingarnar eru margskonar beygjur, teygjur, öndunaræfingar og hláturhugleiðsla. Þó að nauðsynlegt sé að geta hlegið einn með sjálfum sér er vitað að það er 34 sinnum betra að hlæja með öðrum. Hlátur án tilefnis er fyrirbæri sem stjórnast af hægra heilahveli og er án raunsæis og skilgreiningar. Hlátur á þátt í að auka vellíðan og sjálfsímynd. Ein af bestu leiðum til að skapa jákvæða samveru.

En fyrst og fremst er gaman að hlæja, sem virkar eins og vítamínsprauta. ,,Á áður nefndu Evrópuþingi hló saman fólk frá stríðandi landssvæðum og má með sanni segja að hlátur með kærleika sé alþjóðlegt sameiningartungumál og mun ég aldrei gleyma þeirri upplifun. Þá skildi ég það sem Madan Kataria heldur fram; að hlátur stuðli að heimsfriði, í orðsins fyllstu merkingu“, sagði Sif að lokum. Sif býður upp á námskeið í hláturjóga. Einnig er hún fús að fara hvert sem er til að stofna hláturklúbba. Sími Sifjar er: 567 9271 og 615 4659. Félagsmenn Eflingar geta sótt niðurgreidd hláturnámskeið og mun það einnig vera hjá fleiri stéttarfélögum. Alheimshláturdagurinn er 4. maí.

Árið 1971 byrjaði dr. Patch Adams með læknaskop og stofnaði sitt eigið sjúkrahús, þar brá hann sér oft í trúðahlutverk og nú eru trúðar á spítölum út um allan heim. Hér á landi hefur trúður starfað um árabil á Barnaspítala Landspítalans. Myndir um Pathch Adams má fá leigðar hjá Vídeóhöllinni, einnig til á DVD diskum. Hláturjógakennarar vinna á sjúkrahúsi í Ísrael og hláturjóga er notað á sumum dvalarheimilum aldraðra erlendis. Blaðamaðurinn Norman Cousin þjáðist af alvarlegum, kvalafullum sjúkdómi. Hann kynntist græðandi mætti hlátursins og taldi hann eiga þátt í bata sínum. Frá því greinir Cousin í bók sinni ,,Anatomy Of An Illness“ hann segir að eftir 10 mínútna hlátur hafi hann getað sofið í 2 klukkutíma verkjalaus.Bókin er til í Borgarbókasafni.

Höfundur Sif Ingólfsdóttir árið 2008Flokkar:Annað, Kynningar

%d bloggers like this: