Náttúrlegt dýrafóður og óhefðbundið gæludýrahald

Öll elskum við dýrin okkar og viljum þeim allt hið besta sem við getum boðið þeim, en er það nógu gott? Ég vil deila með ykkur minni reynslu sem hefur þróast í gegn um árin í sambandi við umönnun dýra og hversu mikil áhrif gott fóður hefur á líðan þeirra. Augu mín opnuðust þegar systir mín gaf mér í afmælisgjöf alfræðibók um náttúrlega umönnun dýra. Ég verð að viðurkenna að mín fyrstu viðbrögð voru ,,hvað hef ég að gera við þetta, dýrin mín eru á besta þurrfóðri sem hægt er að fá og fá stundum matarafganga.

Það er hægt að rugla mann með öllu“. Það tók innan við mánuð að forvitnin næði yfirhöndinni og ég las þessa góðu bók. Viti menn hún var ekki eins vitlaus og ég hélt. Á sama tíma byrjaði ein af tíkunum mínum að fá flogaveikiköst og fékk sterk lyf hjá dýralækni, sem gerðu hana sljóa og vansæla. Hún svaf allan daginn og gat ekki leikið sér eins og áður. Það var eitthvað sem ég gat ekki horft uppá og ákvað að prufa að fara eftir ráðum bókarinnar. Einnig fór ég á internetið og aflaði mér upplýsinga um náttúrlegar vörur sem væru góðar fyrir dýr með flogaveiki.

Í áður nefndri bók er eindregið mælt með hráfóðri, auðvitað tekur það smá tíma að skipuleggja og búa til stundatöflu fyrir hvern dag en þegar það er komið á skrið er þetta ekkert mál. Sem sagt ég breytti fóðri tíkanna minna fimm frá þurrfóðri yfir í hráfóður. Margur gæti haldið að þær myndu sína mótþróa og vildu ekki sullumallið sem ég bauð þeim. En þær virtust alsælar með þennan spennandi matseðil, allt var mælt ofan í þær eftir kíló fjölda og virtust skammtarnir oft ekki stórir. Svo fékk ég sent náttúrlegt duft, sérstaka steinefna-og jurtablöndu frá Bandaríkjunum sem vinnur gegn flogaveiki í dýrum og mönnum. Duftinu bætti ég í fóður veiku tíkarinnar, hún þurfti að borða helmingi oftar en hinar tíkurnar, því að hún brenndi mun meiru og ég þurfti að passa að hún missti aldrei niður orkuna.

Það tók rúma viku að taka hana af sterku lyfjunum og nota náttúrublönduna í staðinn. Lyfjaskammturinn var 4 pillur á dag, 2 á morgnana og 2 á kvöldin. Eftir rúma viku var hún komin niður í 1/2 pillu á kvöldin. Auðvitað tekur tíma og þarf að fylgjast vel með þegar verið er að breyta úr svona sterkum lyfjum svo ekki verði mikil fráhvarfseinkenni. Ég vil taka fram að þrátt fyrir að vera á þessum sterku lyfjum fékk Ísis, tíkin mín, flogaköst minnst tvisvar á dag en eftir að ég breytti fóðrinu og hún var komin á náttúrublönduna, með strangt aðhald, fékk ég mína lífsglöðu tík til baka og flogaköstin hurfu. Hún komst í fullt fjör, lék sér og var glöð, en auðvitað varð ég að passa að hún færi ekki yfir strikið. Gott er að minnast á að nýrnabaunir eru ekki góðar fyrir flogaveika og geta komið af stað köstum og eitt stærsta flogakast sem Ísis fékk var eftir að hún át nýrnabaunir.

Eftir á las ég mér til um það. Svo ég snúi mér nú aftur að fóðrinu þá voru ótrúlegar breytingar líka á hinum tíkunum, feldurinn breyttist varð meira gljáandi og mýkri. Það var auðveldara að ná athygli þeirra þær urðu eftirtektar meiri, einnig urðu þær mun rólegri, skapbetri, glaðari og náðu betur saman sem heild. Mánuði eftir fóðurbreytingarnar kom móðir mín í heimsókn og hennar fyrstu viðbrögð voru ,,hvað ertu að gefa þeim“. Hún sá strax mikinn mun á þeim. Aðallega tók hún eftir því hvað þær höfðu bætt á sig og voru sterklegri, hún hafði rétt fyrir sér þær höfðu lagt vel á sig og ég þurfti að minnka skammtana þeirra enn frekar. Þetta voru tíkur sem alltaf voru í æfingu og hreyfðu sig allan daginn enda bjuggum við á bóndabæ.

Hráfæði er saðsamara
Mín reynsla er sú að hráfóður endist lengur sem máltíð, dýrin verði ekki eins svöng og éti hægar, þurrfóðrið virðist í flestum tilfellum renna beint í gegn ef svo má að orði komast og dýrin eru endalaust svöng. Ég hef prufað þetta fram og til baka og einnig að vera með hvolpa og kettlinga á hálfu hráfóðri til að byrja með, sem kemur mjög vel út. Ég hef sannreynt það aftur og aftur hvað fóður og hreinar náttúruvörur hafa mikið að segja. Þar sem ég bjó á Azoreeyjum meira og minna frá árinu 1998 og vann með heimilislaus dýr sem flest öll voru mjög veik og sumum ekki hugað líf. Það var með ólíkindum vað þau náðu heilsu á met tíma bara með góðu fóðri, sólhatti, fiskisoði og réttum vítamínum. Ég er ekki að segja að þetta sé 100% öruggt en það er vel þess virði að prófa.

Skaðleg aukefni
Aukefni sem sett eru í dýrafóður geta verið skaðleg og eiga alls ekki að vera í matnum. Allir kannast við að leita að góðum þurrmat fyrir dýrin sín, auk þess er það lang auðveldasti mátinn við að gefa þeim að éta. En hafið þið leitt hugann að því hvernig þau myndu spjara sig án eigenda? Myndu þau standa við eldavélina og elda mat eða fara og versla í Bónus? Nei eðlilega ekki, þau myndu veiða sér til matar og væru þá að borða fjölbreytt fæði. Rannsóknir sýna að villt dýr veikjast síður og greinast sjaldnast með sjúkdóma eins og krabbamein, á meðan það er orðinn fastur liður að heimilisdýr eru með ýmsa kvilla og sjúkdóma, auk þess er offita stórt vandamál.

Við höldum að við gerum dýrunum okkar rosalega gott með því að gefa þeim matarafgangana í tíma og ótíma, en í sannleika sagt erum við að gera þeim grikk. Krydd, olía, smjör og annað sem við notum í okkar matargerð er bara alls ekki gott fyrir dýrin okkar. Það þarf ekki að gera miklar breytingar til að lífga upp á fóður dýranna, öll þurfa þau fjölbreytni, eitthvað grænt og ferskt þá helst lífræna ávexti og grænmeti, þetta á við dýr af öllum stærðum og gerðum eins og okkur mannfólkið. Við getum bætt heilsuna með því að breyta mataræðinu og hreyfa okkur reglulega og til eru hinir ýmsu kúrar fyrir hvaða kvilla sem er, þetta á einnig við um dýrin. V

erum vakandi og lesum okkur til um hvað við getum gert til að dýrin okkar fái það besta og nauðsynlegasta svo að þeim líði vel. Ekki vera hrædd við að prufa ykkur áfram. Ég mæli eindregið með því að vera með einhvers konar leiðavísi ef þið eruð að hugsa um að breyta fóðrinu, því ekki viljum við fara út í öfgar. Ekki má gleyma að þegar skipt er um fóður þá geta orðið breytingar á feldi dýranna, hann verður oft fitugur í smá tíma og þau geta algjörlega skipt um feld. Ekki örvænta það er gott merki um að þau eru að losa sig við eiturefni og ónæmiskerfið er að byggjast upp.

Sníkjudýr
Hægt er að halda sníkjudýrum í skefjum með ýmsum ferskum náttúruvörum s.s. hvítlauk, steinselju, graskersfræjum, chilli pipar svo eitthvað sé nefnt, einnig er hægt að nota vissar olíur til að halda flóm í skefjum, í stað venjulegra flóa-óla sem innihalda ýmis slæm efni. Ofnæmi og skinnvandamál eru eitt algengasta vandamál dýra í dag. Það getur komið út í kláða, rauðum flekkjum, litlausu hári, flösu, hármissi og má í flestum tilfellum tengja lélegu fóðri og lyfjanotkun.

Það þarf að taka mjög alvarlega á slíkum hlutum og er hægt að gera með því að láta dýr fasta í 1-2 daga (bara drekka vatn) til að minnka álagið á meltingarkerfinu. Eftir það, byrja að byggja þau upp með góðri og innihaldsríkri fæðu. Nýrnahetturnar skipta sköpum og leika eitt helsta hlutverk í að halda feldi og skinni heilbrigðu. Þess vegna er nauðsynlegt að passa upp á rétta næringu og dagsljósið. Reykingar á heimilum og í bílnum geta haft slæmar afleiðingar á ónæmiskerfi dýranna og endað í sjúkdómum. Sama má segja um sykur sem er eitt versta eiturefni sem hægt er að gefa þeim, sama er að segja um mikla fitu og djúpsteiktan mat.

Gulrót í verðlaun
Það er kannski erfitt að ímynda sér að hvolpur og kettlingur éti hafragraut blandaðan í AB mjólk með fín söxuðu epli á morgnana, eða fái gulrót sem verðlaun, en þannig er það á mínu heimili og þau eru alltaf jafn spennt að fá að éta, ekki má gleyma þriggja ára kisunni minni sem hefur alla tíð verið með sérþarfir en hún kom öllum á óvart þegar hún gerði sér lítið fyrir og át sama morgunmat og litlu krílin. Þannig að það sannar sig aftur og aftur að það er aldrei of seint að byrja.

Meðferðir
Óhefðbundnar lækningar svo sem höfuðbeina og spjaldhryggjarmeðferð, hómópatía, nálastungur og orkujöfnun með SCIO Biofeetback eru allt hægt að nota fyrir dýr svo að þeim líði vel, en það verður að vera í samráði við meðferðaraðila sem er vanur í þeim efnum. Ég vona að þessar upplýsingar opni huga ykkar og fyrir þá sem hafa áhuga á að fræðast meira um þessi mál mæli ég með að kíkja inn á internet síðurnar: http://www.newstarget.com/report_pet_food_ingredients_1.html og http://www.barfworld.com og lesa bókina: The Encyclopedia of Natural Pet Care eftir CJ Fuotinen.Að fara í gegnum þetta efni er mjög fróðlegt og eru þar margar auðveldar lausnir að finna, sem koma manni á óvart. Munið heilbrigðari gæludýr, minni dýralækningakostnaður og ánægðir eigendur.

Höfundur; Margrét Margrétardóttir árið 2007Flokkar:Annað, Ýmislegt

%d