Íslenskur grasalæknir hlaut evrópsk frumkvöðlaverðlaun

Nýverið hlaut Þuríður Guðmundsdóttir frumkvöðlaverðlaun ,,EUWIIN, European Union Women Inventors and Innovators Network“. Í ár var hún sú kona sem fékk viðurkenningu á sviði heilsu, en fjölmargar konur voru tilnefndar frá hverju landi á ýmsum sviðum og fengu allar almenna viðurkenningu fyrir framlag sitt til nýsköpunar í Evrópu, en ein kona var sérstaklega verðlaunuð á hverju sviði, allt frá heilsu til efnistækni í byggingariðnaði. Verðlaunin fékk Þuríður fyrir græðandi smyrslið Móa – the green balm, sem hefur reynst frábærlega á brunasár, kal og fleiri alvarleg húðvandamál. Þuríður hefur einnig þróað og markaðsett í Bretlandi snyrtivörulínu sem hún nefnir Tær (á ensku Taer). Hér fer á eftir viðtal við Þuríði og hún er fyrst spurð:

Hvers vegna kaustu að byrja með þær erlendis?
Þar er stór markaður af vel meðvituðum viðskiptavinum, sem eru alltaf skrefi á undan því sem gerist hér heima, varðandi innihald, rannsóknir og gæðakröfur. Þar er mikil hefð í snyrtivörugerð og þekking samfara henni. Það kostar mikið að þróa snyrtivörur, þannig að markaðurinn hér heima ber ekki þann mikla kostnað sem felst í þróun. Tær er virkileg lúxus vörulína, sem er fyrst og fremst markaðssett fyrir efnað fólk. Í upphafi ferils míns sem grasalæknir var ég fyrst og fremst með hugann við veikt fólk. En eftir því sem tíminn leið áttaði ég mig á að jurtir eru líka góðar fyrir tiltölulega frískt fólk til að hjálpa því að líða eins vel og kostur er. Snyrtivörur byggðar á blöndum af vatni og olíum höfðu þegar verið fundnar upp svo ég þurfti ekki að finna upp hjólið á því sviði, heldur gat bætt ofan á þekkingu sem fyrir var. Ég fann hjá mér sterka þörf til að búa til blöndur sem hefðu eins mikinn heilunarmátt og mögulegt væri, blöndur af íslensku jurtunum og öðrum þeim hráefnum sem mundu hjálpa fólki að halda húðinni heilbrigðri.

Líf nútímamannsins fer ekki vel með húðina. Þurr herbergi, farði, mengaðar borgir og stress eru ekki lykillinn að fegurð. Húðin tekur ekki einungis inn hið góða úr umhverfinu, heldur einnig hið skaðlega. Ég hef ekki mátt til að hægja á nútímanum, en ég get unnið á móti skaðlegum áhrifum hans á húðina. Tær (Taer) snýst um að sjá húðinni fyrir efnum sem næra. Ég vel með jurtunum öll þau efni sem geta stutt við virkni þeirra og er ekki feimin að taka í mína þjónustu alls konar framandi hráefni ef þau efla og styrkja húðina. Þetta hefur verið langt ferðalag hjá mér og ég hef skoðað ótal möguleika. En ávöxtur erfiðisins er Tær. Ég sé líkama, huga og sál sem eina heild. Það er jafn mikilvægt að meðhöndla líkamann vel að utan eins og að innan, og þess vegna þurfum við að velja næringuna fyrir húðina jafn vandlega og matinn okkar. Við berum ábyrgð á því að líkaminn okkar endist allt lífið. Ég vil að Tær endurspegli þessa hugsun. Að varan hafi kröftugt innihald og sé skínandi falleg að utan líka.
Hvaðan kom áhugi þinn?

Amma mín var grasalæknir
Fyrsta minning mín um ömmu mína var þungur ilmurinn sem kom í húsið þegar hún var að laga smyrslin sín. Það var hljóðlátt í eldhúsinu og hún var mjög einbeitt við að laga krem úr tólg eða saltlausu smjöri og jurtum. Hún hét Björg Lilja Jónsdóttir og bjó í nokkur ár á Fáskrúðsfirði og síðar á Akureyri, en fluttist síðan til Reykjavíkur á stríðsárunum. Tólgin og smjörið voru einu burðarefnin sem buðust í þá daga, þannig að hún varð að laga lítið í einu svo að smyrslið héldist ferskt, eða geyma það fryst. Hún lagaði smyrslið í stálpotti sem ekki var algengt áhald á þeim tíma, en henni hafði áskotnast erlendis frá. Hann var aldrei notaður til annars en smyrslagerðar. Mér líkaði þessi þungi ilmur alls ekki í fyrstu, en þegar leið frá tengdist hann svo sterkt við heilun og lækningu að hann varð þægilega kunnuglegur. Þegar Ísland komst í betri samgöngur við önnur lönd og vöruúrval jókst hér á landi valdi amma sér betri burðarefni, sem ekki voru eins viðkvæm í geymslu og efldu virkni jurtanna í smyrslinu. Hún kenndi mér að vera opin fyrir nýjum uppgötvunum og að velja alltaf bestu hráefnin til að styðja jurtirnar, jafnvel óvenjuleg og lítt þekkt efni. Hún tók mig mjög unga með sér í jurtatínslu og kenndi mér nöfn jurtanna og hvaða áhrif þær hefðu. Eins hvernig ætti að velja þær jurtir sem tíndar væru með það í huga að fá sem mestan kraft.

Ég skildi snemma að jurtirnar eru mis kröftugar og hún kenndi mér ekki einungis að velja þær, heldur líka að skilja nægilega mikið eftir af þeim í móanum til að þær gætu haldið áfram að dafna vel og gefið okkur kraftinn seinna. Allan sinn fróðleik hafði hún frá sínum formæðrum og gætti þess að bera fróðleikinn áfram til mömmu og til mín, þegar ég var orðin nægilega þroskuð til að meðtaka hann. Hún tók á móti fólki með allskonar vandamál og gaf því sérstakar blöndur sem hæfðu hverju tilfelli fyrir sig. Ég man vel eftir miklu þakklæti þessa fólks og ég man að það kom aftur og aftur og leyfði ömmu að fylgjast með bata sínum. Í æsku las ég allt það efni sem ég komst yfir um jurtir. Ég ræddi oft málin við ömmu og hún staðfesti iðulega þær uppgötvanir sem ég hafði gert við lesturinn í gegnum sína miklu reynslu af vinnunni með jurtir. Þær fjórar jurtir sem amma notaði hvað mest voru: Vallhumall sem hafði breiðustu virknina á líkamann, maríustakk sem henni reyndist vel handa konum, fjallagrös með allri sinni næringu og blóðberg sem henni þótti styrkja fólk með litlar varnir gegn sjúkdómum. Hún notaði öll þau ber sem hún hafði aðgang að til að búa til sultur og saftir sem hún einnig færði fólki í sumum tilfellum. Núna þekki ég orðið vel andoxunaráhrif berja og hún gerði það augljóslega líka, þótt það hafi í þá tíð ekki heitið fínu fræðiheiti. Einnig sýndi hún mér fram á að í mörgum tilfellum er jafn árangursríkt að lækna líkamann utan frá eins og innan frá. Húðin, stærsta líffærið okkar tekur til sín mikið af þeim virku efnum sem við berum á hana og nýtir þau til að næra og bæta líkamann.

Nútíma vísindi hafa staðfest margt af þeim fróðleik sem hún bjó yfir. Þegar ég rekst á fræðigrein eða rannsóknarniðurstöður sem staðfesta kenningarnar hennar ömmu þá hugsa ég um mikilvægi þess að varðveita þessa þekkingu og hversu mikilvægt það er að nota þau meðöl sem náttúran hefur gefið okkur. Árið 1984, þegar hún var 75 ára gömul fannst henni kominn tími til að ég yrði meira en lærlingur og fékk mig til að búa til smyrslin sjálf, en hún sagði mér til. Þetta var mjög viðburðaríkt ár. Í upphafi þess vissi ég ekki að þetta mundi leiða mig að þeirri lífsbraut sem ég valdi mér, en í ágúst þetta ár, þegar sonur minn brenndist, fann ég á eigin skinni að sú aðferð sem amma hafði kennt mér til lækninga gat gert kraftaverk. Allt það sem ég hef tileinkað mér síðan í námi og starfi snýr meira og minna leyti að þessum starfsvettvangi t.d. nám í svæðameðferð, reiki, ilmolíufræði í Lífsskólanum og síðast en ekki síst formlegt nám í grasalækningum hjá Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur í Skóla hinna fjögurra árstíða. Smyrslið sem amma kenndi mér að gera er í rauninni grunnurinn að Móa -the green balm, sem ég hef síðan þróað áfram og fékk verðlaunin fyrir. Það hefur reynst fjölmörgum jafn vel og mér og er nú notað m.a. á brunasár á Landsspítalanum og er selt bæði í Bretlandi og í heilsubúðum hér heima. Það er óhætt að segja að við amma deilum þessum verðlaunum, því án þeirrar visku sem hún bar mér áfram frá formæðrum sínum hefði ég ekki fundið þessa áhrifaríku blöndu sem hjálpað hefur svo mörgum. Það er sjaldgæft að smyrsl sem ekki hafa farið um hendur sérfræðinga í stórum lyfjafyrirtækjum séu notuð sem meðferðarúrræði á sjúkrahúsum. Þegar smyrslið fékk þá viðurkenningu fannst mér toppinum náð og fylltist miklu þakklæti, verðlaunin nú eru bara auka klapp á bakið í samanburði við það.

Bærinn minn
Árið 1985 upplifði fjölskyldan mín mjög erfiða hluti. Eins og kom fram áðan þá hafði sonurinn Gunnar brennst árið áður og dóttirin Fjóla féll frá eftir mikið stríð við krabbamein. Við þurftum á lækningu að halda sem fjölskylda. Það var kveikjan að því að við keyptum Hvamm í Vatnsdal og fluttum þangað. Náttúran, jörðin, grjótið, jurtirnar og vindurinn voru þau öfl sem við þurftum á að halda. Ég tók eftir því að þeim mun meiri athygli sem ég veitti jurtunum þá uxu þær af meiri krafti í kringum mig. Það sem maður einbeitir sér að kemur til manns. Ég hafði einbeitt mér að því að lækna og lífsverkefnið byrjaði að sýna sig í mínu lífi. Ég þurfti á jurtunum að halda fyrir fjölskylduna og mig sjálfa og hægt og rólega fór ég að deila þeim með öðrum. Mig langaði mjög mikið til að þróa snyrtivörur, en ég áttaði mig líka á að það yrði tímafrekt og dýrt. Það að fjárfesta í hugmyndinni var ekki auðvelt og krafðist fórna. Árið 2002 var ég komin langt áleiðis, en allt fé var uppurið. Ég stóð andspænis því að velja hvort ég vildi láta draumana rætast eða ekki. Niðurstaðan var sú að við seldum jörðina. Þrátt fyrir það er draumurinn nú að byrja að rætast, jurtirnar get ég fengið áfram eftir öðrum leiðum og ég aftur farin að líta í kringum mig eftir nýjum Hvammi til að búa í og til að vinna í. Ég finn hjá mér mjög sterka þörf til að vera í nálægð við jurtirnar og til aðgeta séð þær út um gluggann.

Krafur jurtanna
Kraftur jurtanna er mjög mismunandi og tínslutíminn er lykilatriðið til að ná jurtinni þegar kraftur hennar er mestur. Sumar jurtir eru í réttu ástandi einungis í tvær vikur á ári á meðan aðrar halda krafti sínum yfir lengra tímabil. Þurrt veður er nauðsynlegt til tínslu, en ekki síður skiptir máli hvenær dagsins jurtin er tínd. Sumar jurtir er hægt að þurrka, en aðrar missa kraftinn fljótt og þarf að koma í varðveitanlegt ástand sem allra fyrst. Jurtakrafturinn sem ég geri geymist lengi. Hann er settur í snyrtivörurnar eins og hvert annað hráefni, en ég veit í hjarta mínu að hann er kjarninn í góðri virkni vörunnar minnar. Landið gefur okkur þennan auð jurtanna og það er mikilvægt að átta sig á því að þarna er fólginn fjársjóður, sem getur verið arðbær eins og aðrar náttúruauðlind.

I.S.  árið 2007Flokkar:Jurtir

%d bloggers like this: