Verkjaskólinn á Kristnesspítala

Mér var vel tekið af starfsfólki Kristnesspítala í Eyjafirði í júní síðastliðnum er ég falaðist eftir upplýsingum um Verkjaskólann. Mikið annríki var á spítalanum þennan dag vegna innskriftar sjúklinga. Yfirlæknirinn, Ingvar Þóroddsson, Helga Hjálmarsdóttir félagsráðgjafi, Ragnhildur Jónsdóttir sjúkraþjálfari, Snæfríð Egilson iðjuþjálfi og Þóra Björg Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur eyddu þess vegna hádegishléinu sínu á sólbjörtum sumardegi í viðtalið sem fer hér á eftir. Það tekur sex vikur að fara yfir námsefni Verkjaskólans.

Þegar auka frídagar eru fleiri en tveir á þessum sex vikum er skólinn lengdur um eina viku. Sex til sjö einstaklingar eru í skólanum hverju sinni. Við sækjum grunnfyrirmyndina til Reykjalundar en vegna smæðarinnar getum við leyft okkur að hafa meðferðina persónulegri. Markmið skólans er að kenna fólki að draga úr verkjum og auka verkjaþol sitt án notkunar sterkra verkjalyfja því að mikil notkun þeirra veldur vítahring. Við greinum á milli einfaldra verkjalyfja og sterkra verkjalyfja. Með sterkum verkjalyfjum er átt við lyf sem hafa áhrif á miðtaugakerfið, lyf sem sljóvga.

Meðferðin miðar að því að losa fólk hægt og róglega frá notkun þessara sterku lyfja, en það þarf að gerast hægt svo að það takist. Margir sem koma hingað hafa sett sér stór markmið eins og það að; losna við verkina, hætta að reykja og grenna sig, allt á þessum sex vikum. En okkar reynsla er sú að það verði að skipta þessu niður og fara hægt í sakirnar, því að þó að sumir geti það þá ræður fólk ekki almennt við að gera þetta allt í einu. Hættan er sú að allt springi og ekki verði neitt úr neinu ef fólk ætlar sér of mikið. Okkar vinna felst oft í því að hjálpa fólki að finna út hvað það raunverulega ræður við og byggja ofan á það. Fólk sem er búið að þjást lengi af verkjum hættir oft að hreyfa sig, afleiðingin af því verður að úthald og styrkur minnkar. Hreyfing og ganga er stór þáttur í bataferlinu.

Jákvæð þróun
Okkur sýnist að þeir sem hafa komið í meðferð hér á þessu ári séu ekki á eins miklum og sterkum verkjalyfjum og þeir sem komu hingað í meðferð á síðasta ári. Fræðslan og umræðan í þjóðfélaginu um ofnotkun lyfja virðist hafa skilað sér bæði til lækna og almennings. Læknar, iðjuþjálfar og sjúkraþjálfarar reyna að kenna fólki að skilja verkina sína og greina hvað veldur þeim. Líffærafræðin er útskýrð svo fólk fær yfirsýn yfir það hvað veldur verkjunum, einnig fær hver og einn leiðbeiningar um hvað hann getur sjálfur gert til að bæta líðan sína og hvað hann getur fengið aðstoð við.

Fólki er mikil hjálp í því að fá að vita hvað veldur verknum og læra hvað það má bjóða sér og gera mikið. Einnig hvaða þættir, sálrænir, félagslegir jafnt sem líkamlegir, hafa áhrif á verkina og hvernig lærist að stjórna verknum. Það er mikilsvert að takmarka eins og unnt er verkjalyf sem deyfa, því að það þarf að komast að því hvar mörkin liggja. Spurningin er, hvað er hægt að gera án þess að verkirnir aukist. Fólk lýsir því að það sé eins og þoku létti af því þegar inntaka verkjalyfja minnkar og hissa á að verkirnir séu ekki verri. Ef hægt er að bæta lífið og minnka verkjalyfin og samt gera meira en áður án þess að leggjast í rúmið þá er heilmikill sigur unninn.

Það skiptir miklu máli að koma lagi á svefninn
Fræðsluerindi, göngur, sund, leikfimi, félagsfærni, handverk, atferlismeðferð o.fl. fer fram í hóptímum eftir stundaskrá en einkaviðtölum við lækni, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa og sálfræðing er raðað inn í auða tíma í dagskránni. Í hópmeðferðunum myndast oft góð samkennd. Þátttakendur hafa oft mikinn stuðning hvert af öðru, þó að þetta séu ólíkir einstaklingar þá smellur þetta vel saman og vinskapur myndast. Það er mörgum mikil heilunarhjálp í því að deila vandanum og spjalla. Það er eiginlega ótrúlegt hve margir fá hjálp við það að spjalla saman og ýmist að þiggja ráð eða gefa þau öðrum.

Flestir einstaklingar sem í Verkjaskólann koma eiga við svefntruflanir að stríða. Það skiptir gífurlega miklu máli að koma lagi á svefninn því að ef fólk nær ekki að sofa og hvílast líður því illa. Við prófum allt sem að gagni getur komið og reynum að finna út hvað virkar best og er meinlausast. Það sem passar einum hentar ekki öðrum. Aðferðir til að bæta svefn geta verið margar. Sumir ná tökum á slökun og hagnýta sér hana, öðrum finnst dásamlega slakandi fyrir svefn að fá nudd á fæturna, en aðrir vilja drekka flóaða mjólk. Ef allt um þrýtur eru notuð svefnlyf, þá er ekki átt við venjuleg svefnlyf, heldur eitthvað meinlaust sem róar svo viðkomandi nái að hvílast.

Hafði þið tekið eftir því hvort það fólk sem kemurí skólann hefur líka skapgerð? Já, það virðist vera algilt munstur hjá fólki með verki að það sé áhlaupafólk sem misbýður líkama sínum í ákafanum: ,,Allt skal gert fyrir hádegi, drífa verkin af áður en verkurinn kemur“. Þegar verkurinn kemur eru tekin inn verkjalyf til að slá á og legið í rúminu á eftir. Það er líka annað sem einkennir þessa hópa. Flestir hafa lent í miklum áföllum í lífinu, átt erfiða æsku og lent í alls konar hremmingum t.d.misnotkun af ýmsu tagi, orðið fyrir einelti og áreitni í æsku. Verkurinn sem slíkur er oft bara toppurinn á ísjakanum. Sálfræðimeðferð fer fram á tvennan hátt, annarsvegar í einkatímum og hins vegar í hóptímum þar sem þemað er hugræn meðferð.

Þyngd of mikil
Hér eru ekki næringarfræðingar og engir sérstakir fyrirlestrar um næringu. Það einkennir marga sem koma í Verkjaskólann að líkamsþyngd þeirra er of mikil. Þegar fólk er lent í vítahring verkja gleymir það stundum því sem er mikilvægast eins og að sinna sjálfu sér. Þess vegna reynum við að fá fólk til að hugsa um hvað því finnst vera mikilvægast í sínu daglega lífi og að hjálpa því að finna tíma fyrir: heimilisverkin, börnin, vinnuna, tómstundirnar og ekki síst sjálft sig. Þarna koma iðjuþjálfar inn í með tímastjórnun og jafnvægi í daglegu lífi þ.a.e.s. að finna út hvað manni finnst mikilvægast að eyða tímanum í. Hvaða verkefni eru mikilvægust? Hvað á að fara í efstu skúffuna og hvað má bíða aðeins og fara í þá í neðstu? Ef fólk nær tökum á þessu dregur það úr verkjunum.

Rætt við fjölskyldur ef þörf krefur
Við bjóðum oft einhverjum úr fjölskyldu viðkomandi hingað og skýrum út á hvað meðferðin gengur. Þetta er ekki eingöngu vandamál einstaklingsins heldur snertir einnig þá sem næst standa. Það kemur fyrir að við óskum eftir að ýmsar breytingar verði heima við, því að þar vilja myndast vítahringir,sem þarf að rjúfa.

Rannsóknir
Það hefur verið gerð ein rannsókn sem fjallar um skammtíma árangur Verkjaskólans. Hún fer þannig fram að þegar fólk kemur í skólann fyllir það út eyðublað með spurningum um ,,heilsutengd lífsgæði“. Að lokinni dvöl hér 6 eða 7 vikum síðar fyllir fólkið út eyðublað með sömu spurningum sem eru staðlaðar að íslenskum aðstæðum. Búið er að vinna úr þessu gögnum fyrir árið 2005 og niðurstöður voru góðar. Í desember á síðasta ári fengum við styrk frá heilbrigðisráðuneytinu til að kanna langtíma árangur þ.e.a.s. hvernig líður þessum einstaklingum ári eftir að þeir útskrifast héðan. Það er verið að safna gögnunum núna og munu niðurstöður liggja fyrir eftir áramótin. Til að meðferðin hér skili góðum árangri vitum við að margir þurfa mikinn stuðning eftir að þeir fara héðan og það hefur verið akkilesarhæll hvað tekur svo við. Það getur verið býsna flókið að finna réttar lausnir því að þörfin er misjöfn.

Úrræðin sem við höfum fyrir utan það að vísa fólki til iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og fá heimilislækna í lið með okkur er Menntasmiðja kvenna á Akureyri. Hún er starfrækt í 14 til 16 vikur á haustönn, fyrir konur á öllum aldri og byggir á lýðháskólahugmyndum. Menntasmiðja unga fólksins sem er byggð á sama grunni og er í gangi á vorin. Námið felst í þremur aðalþáttum þ.e. sjálfstyrking, hagnýtt nám sem miðast við hvern og einn t.d. tungumál, tölvufræðsla o.fl. einnig að auka félagslega hæfni. Þetta hefur hentað mörgum vel.

Í fyrrahaust ( 2006 ) byrjaði á Akureyri það sem nefnist Starfsendurhæfing Norðurlands og er útfærsla á samskonar verkefni og byrjaði á Húsavík fyrir nokkrum árum og er nefnt Byr starfsendurhæfing. Það hefur gefist vel sem undirbúningur fyrir fólk til að komast í vinnu á ný. Sumir þurfa að taka styttri skref en hér hefur verið lýst og fara þá á dagdeild geðdeildar þar sem þeir taka þátt í sjálfstyrkingar- og atferlismeðferð. Á hinn bóginn hefur líka komið fólk til okkar, sem er búið að vera í sjálfstyrkingar- og atferlismeðferð á geðdeild og er tilbúið að halda áfram í skólanum hér. Við höfum ekki haft tök á að veita öflugri eftirfylgd að loknum þessum 6 vikum hér, enda er líka hægt að deila um hvort hún eigi að vera og hvar eigi að setja punktinn.

Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir árið 2007.Flokkar:Greinar og viðtöl

%d