Hrefna Birgitta er sjúkraliði og fyrrverandi skólastjóri Nuddskólans hún hefur margs kona reynslu að baki á sviði heildrænna meðferða, m.a. heilun, svæðameðferð, ilmolíumeðferð og vöðvaprófun (kinesiology. Hún hefur einnig lokið námi sem NLP kennari ,,coach“ meðhöndlari og nú síðast Coaching og Kompetanseutvikling sem er kennt í Höyskolen í Hedmark í Noregi.
Skilaði besta árangri
Fyrstu árin eftir að ég flutti til Noregs vann ég sem sjúkraliði, en varð að hætta að starfa við það vegna bakveikinda. Eftir langvarandi veikindafrí varð ég að finna mér annan starfsvettvang. Ég sá auglýst námskeið í ,,Nevro Lingvistisk Programmering“ skammstafað NLP (lausleg útskýring: Nevro; taugar, taugaboð og skynfærin, Lingvistisk; líkamstjáning, málfar með og án orða, Programmering; upplifanir og reynsla sem við geymum og sem verða hluti af hegðunarmynstri okkar). Þessi auglýsing vakti áhuga minn og ég sótti um styrk hjá norsku Tryggingastofnuninni, en fékk neitun á þeim forsendum að þetta væri ekki nám sem gæfi mér atvinnumöguleika í framtíðinni.
Í Noregi getur fólk sem missir vinnuna vegna veikinda fengið styrk til endurmenntunar ef það þarf að skipta um vinnu. Þrátt fyrir neitunina ákvað ég að hefja þetta nám, það var bara eitthvað sem sagði mér að ég ætti að gera þetta. Ég byrjaði í Osló, fór í framhaldsnám til Danmerkur og Kýpur og lauk öllu því námi í NLP, sem í boði var. Nokkrum árum seinna var var boðið upp á nám af sama meiði og NLP sem heitir ,,Coaching Kompetanseutvikling“ (orðið Coach; þýðir ekill eða sá sem situr í vagninum og stjórnar hestinum). Í þeirri meðferð styður maður viðkomandi til að gera þær breytingar sem hann/hún óskar eftir að gera með því að spyrja spurninga og hlusta a svörin. Þetta nám fer meira inn á stjórnun og viðskipti og það hvernig maður getur fundið ennþá fleiri nýtanlega eiginleika hjá starfsfólki fyrirtækisins.
Oft er breytinga þörf í lífinu þó að ekki sé um veikindi að ræða. Reynsla var komin á námskeiðin mín þegar norska Félagsmálastofnunin setti upp prufuverkefni á 13 stöðum í Noregi. Verkefnið miðaði að því að koma fólki aftur út í atvinnulífið eftir að hafa verið á framfærslu félagsmálakerfisins. Hver staður fékk ákveðna upphæð og fékk að velja eigin aðferðir. Námskeiðin mín voru valin sem hluti af þessu tilraunaverkefni í heimabæ mínum, Molde. Tveimur árum seinna þegar árangur þessara 13 staða var metinn og borinn saman kom í ljós að Molde var mikið hærra hlutfall þeirra sem skiluðu sér í vinnu aftur eða voru á leiðinni, gegnum starfsþjálfun eða skóla. Það kom i ljós að Molde var eini staðurinn sem notaði NLP sem hjálpartæki. Eftir fimm ára árangursríka reynslu Atvinnumálastofnunnar af námskeiðunum fékk ég launað frí í eitt ár til að skrifa sjálfshjálparbók byggða á eigin reynslu og námskeiðunum.
Frumur hafa minni
Á námskeiðunum útskýri ég hlutverk frumanna eins og læknirinn Deepak Chopra gerir. Frumurnar geyma alla okkar reynslu. Ef við tökum eina frumu líkamans sem dæmi; þá er hún kringlótt með kjarna, þessi kjarni er eins og tölvudiskur, hann safnar í sig minningum og geymir allt sem lært er eða upplifað. Þegar of mikið er komið í frumuna getum við ímyndað okkur að það komi oddar á hana, hún hættir að synda mjúkt og þægilega innan um hinar frumurnar en rekst þess í stað utan í aðrar frumur sem einnig hafa fengið hvassa odda. Þetta getur valdið verkjum og líkaminn sendir frá sér skilaboð um að hægja á og athuga hvað sé að. Ef fólk sinnir ekki skilaboðunum veldur það hinum ýmsu vandamálum og ef ekkert er gert til að bæta ástandið getur það leitt af sér; bakverk, frosna öxl, mjaðmaverk eða jafnvel eitthvað enn verra. Til að vinna gegn þannig vandmálum er hægt að byrjað á að athuga huga sinn, hreyfingu og matatæði. Þessir þrír þættir þurfa að vera í lagi ef þú vilt laga húsið þitt (líkamann). Þegar þú byrjar að hreinsa hugann og ert búin/n að kanna hvaða upplifun er á bak við þinn krankleika getur þú farið að hreinsa út vandamál úr fortíðinni, það sem þú hefur upplifað og liggur að baki þér.
Þegar búið er að grandskoða ástæðu vandans og vinna úr honum t.d. með samtölum þar sem skilaboð líkamans eru myndgerð, er hægt að fara að tala við undirmeðvitundina. Á yfirborðinu er fólk oft með varúð og takmarkanir sem segja; þetta er ekki hægt, ég er svona og það er ekki hægt að gera neitt í því. Þannig hugarfar kemur í veg fyrir jákvæðar breytingar og veldur því að fruman fyllist af vandamálum. Þegar hún deyr kemur ný fruma sem geymir minni móðurfrumunnar, ef ekki er hreinsað úr minni gömlu frumunnar bætist það við í nýju frumunni. Því meira neikvætt sem bætist við stækkar fruman og minni hreyfing verður í líkamanum/lífinu. Ef jákvæðum úrbótum er haldið stanslaust áfram eykst smám saman jákvæða plássið í frumunni því oftar sem hún endurnýjast. Endurnýjunin ef falin í því eins og áður sagði að; að hreinsa hugann, laga mataræðið og auka hreyfinguna. Við hagstæðar aðstæður getur fruman hreinsa sig á sjö mánuðum til einu ári.
Áþreifanlegt dæmi
Ég er að mestu hætt að nudda fólk sem leitar til mín með verki heldur fer ég með það í hugarvinnu, ég segi því að það geti borgað fyrir að koma til mín í nudd bara til að láta ser líða vel, en ef það tekst ekki á við rót vandans kasta það bara peningum sínum á glæ. Ég hef meira en nóg að gera við að sinna fólki sem vill hjálpa sér sjálft. Mín skoðun er sú að ekki megi taka ábyrgðina af fólki, ég læt það sjálft taka ábyrgðina a sínu eigin lífi. Sama gilti um fimmtuga konu sem kom til mín með frosna öxl, sem átti að fara að skera upp. Þetta var menntuð kona sem vann hjá virtu fyrirtæki, hún var búin að leita sér hjálpar hjá ótal aðilum án árangurs en vildi prófa NLP meðferð hjá mér áður en hún léti skera sig. Ég byrjaði á því spyrja hana hvað hún héldi að orsakaði verkinn, hvaða lit verkurinn hefði og hvert form hans væri.
Hún sagðist sjá fyrir sér myndaalbúm, ég bað hana að segja mér frá myndunum, þá sjá hún sig sem litla stelpu og smám saman fjölgaði myndunum, sem sýndu að afi hennar hafði misnotað hana frá sjö ára til fjórtán ára aldurs. Þetta hafði hún engum sagt fyrr og eins og hjá mörgum konum sem hafa orðið fyrir kynferðismisnotkun á barnsaldri fylgdi minningunum mikil skömm og reiði, sem bitnaði á henni sjálfri. Reiðin beindist að afanum og öllum fullorðnum, sem þá höfðu verið í kringum hana. Við spjölluðum lengi saman, afi hennar var dáinn og ég spurði:
,,Hvað ætlar þú að láta hann lengi hefta þig og hafa áhrif á líf þitt? Þetta var eitthvað sem gerðist og við getum ekki strokað það út. En þú getur breytt hugarfari þínu varðandi upplifunina“. Hún fann leið til að breyta um hugarfar, svo fórum við í hreinsanir og í gegnum fyrirgefningarferli. Viku seinna kom hún aftur til mín og sagði: ,,Veistu hvað gerðist? Fyrir tveimur dögum gat ég allt í einu lyft handleggnum, ég kallaði á vinnufélaga mína og sagði; sjáið þið hvað galdrakerlingin gerði“. Þessi kona var tilbúin til að vinna úr þessu máli. Oft hef ég sagt við fólk sem hefur verið hjá mér í meðhöndlun; opnaðu skápana heima hjá þér og sjáðu hvernig lítur út í þeim. Er allt í röð og reglu? Veistu hvar hlutirnir eru, eða er rót? Ef það er rót í skápunum er rót í sálarlífinu. Taktu til í skápnum, kastaðu óþarfa og varðveittu það sem skiptir máli. Fólk sem ég hef sett fyrir þetta verkefni hefur tjáð mér að það hafi upplifað tiltekt í eigin sálarlífi jafnhliða
skápatiltektinni. Það er einnig mín reynsla.
Lífsreynsla kemur sér vel
Mér hefur komið vel í starfi mínu að ég hef upplifað margt. Einu sinni vaknaði ég upp með heilavírus og fékk að kynnast því hvernig er að liggja fárveik á spítala án þess að geta tjáð mig og vera mötuð á mat sem ég gat ekki hugsað mér að borða. Í öðru til felli var ég rúmlega tvítug og var að koma bakveik út af spítala þá lenti ég fyrir algjöra tilviljun á miðilsfundi hjá Þórhalli miðli. Ég hafði ekkert kynnst miðilsstörfum og leið illa eftir að ég algjörlega óviðbúin féll í trans.
Ég hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast en Þórhallur sagði að tilgangurinn með þessu væri að mér væri ætlað að hjálpa fólki. Þegar ég lít til baka sé ég að undirbúningur að þessu var langur þó að ég hefði ekki áttað mig á því. Mig var búið að dreyma þannig drauma og þegar mamma mín var ófrísk að mér, ung og ógift, sá hún ekki aðra leið en láta eyða fóstrinu. Þá kom Margrét miðill á Öxnafelli til hennar, kynnti sig og sagðist vera með skilaboð til hennar um að hún ætti ekki að framkvæma það sem hún væri að hugsa um. Hún bæri fallegt blátt blóm undir belti, sem ætti að fá að lifa hér á jörðinni því að það hefði verkefni að vinna.
Þegar unnið er við að hjálpa fólki úr viðjum veikinda er eigin reynsla meðhöndlarans mikils virði. Oft finnst mér ég geta sett mig í spor þeirra sem ég er að hjálpa t.d. lamaðs fólks sem ekki getur tjáð sig. Það hefur komið mér vel að hafa unnið við hjúkrun á sjúkrahúsum í 15 ár og ég er þakklát fyrir mínar margvíslegu upplifanir, því að mér finnst ég hafa fengið meiri skilning á því hvernig fólk hugsar og hvernig því líður. Það eru varla til þau vandamál sem fólk leitar til mín með, að ég hafi ekki gengið í gegnum svipað sjálf. Ég þakka því fólki sem hefur eitthvað gert mér á hlut, einnig þakka ég fyrir alla sjúkdómana sem ég hef fengið að ganga í gegnum því að án reynslunnar væri ég ekki sá meðhöndlari sem ég er.
Bókin á leiðinni
Um þessar mundir bý ég á Spáni þar sem ég sit og skrifa bók um breytingar í lífi fólks. Bæði þær breytingar sem fólk velur að gera sjálft en einnig óæskilegar. Hún mun koma út bæði á norsku og íslensku og verður í þremur hlutum. Fyrsti kaflinn fjallar um meðhöndlun og um hvernig fólk getur farið í gegnum fortíðina og safnað saman reynslu sem það er búið að upplifa. Í öðrum kaflanum er raðað saman því sem við höfum upplifað og fundið út hvað er hægt að gera jákvætt úr reynslunni. Skoðað er hvernig þú hefur upplifað fortíðina, hvaða reynslu þú getur nýtt þér og hvernig þú hugsar um það sem þú hefur lent í.
Það skiptir ekki máli í hverju þú hefur lent heldur hvernig þú hugsar um það. Þegar búið er að draga saman þann styrk sem fortíðin gefur, segir fólk oft: ,,Já, ég hef ekki hugsað út í það á þennan hátt áður“. Í beinu framhaldi skoðum við lífshjólið sem er byggt upp af átta grunnatriðum og finnum út hvað þér er mikilvægast, hvort það er; vinnan, makinn, heimilið, heilsan, frítíminn, peningarnir, eða enginn þroski? Eftir grandskoðun á öllum þessum þáttum og úrvinnslu er það dregið fram sem skiptir þig máli, þannig fundið út hvað þér er mikilvægast. Spurningin að lokum er hversu ánægð/ur ert þú, er eitthvað sem þú gjarnan vildir hafa öðruvísi.
Er ást og kærleikur í hjónabandi þínu, er vinnan þín að gefa þér það sem þú vilt, ertu ánægð/ur? Fólk sem er óánægt finnur oft út eftir vinnuna með lífshjólið að það hefur allt, en þarf að spyrja sig sjálft; hvað get ég gert til að breyta ástandinu í stað þess að ætlast til þess af öðrum. Það er ekki síður uppgötvun að gera sér grein fyrir því að; hafa allt en vera samt óánægð/ur, hvað viltu meira? Þá komum við inn á andlega þáttinn að fólki finnst ekki meining í lífinu ef það hefur ekki markmið. Þess vegna fjallar þessi kafli líka um að setja sér raunhæf markmið og vinna að því að framkvæma þau. Eftir svona vinnu fer fólk að taka ábyrgðina sjálft en ekki að varpa henni á aðra. Það er líka mikils virði að átta sig á að það er heilmikið sem við höfum að þakka fyrir á degi hverjum. Að nýta það sem við höfum og nota það til hins besta fyrir okkur sjálf og aðra.
Viðtalið skráði Ingibjörg Sigfúsdóttir árið 2007
Flokkar:Hugur og sál