Fyrir 18 árum veiktist Vígdís Helga Eyjólfsdóttir alvarlega og var nær dauða en lífi. Þegar orsökin loksins fannst, reyndist það vera sjaldgæfur sjúkdómur sem nefndur er Addisons. Sjúkdómurinn veldur bilun nýrnahettubarkar og olli minnkaðri losun barkstera einkum aldósteróni og hýdrókostisóni, sem síðan kom fram í alvarlegum truflunum á efnaskiptum líkamans. Sjúkdómurinn er afar sjaldgæfur og ekki er vitað af hverju fólk veikist af honum.
Vígdís Helga: Við þessum sjúkdómi eru gefin lyfin Kortisón eða Decadrone og svo einnig Florinef. Því miður las ég ekki smáa letur leiðbeininga sem fylgdu lyfjunum, sem eru sterar og aukaverkanir orsökuðu beinþynningu. Ég hefði átt strax að taka inn kalk og fljótandi lýsi eins og ég geri núna. Ég fór ekki í beinþéttnimælingu fyrr en ég var búin að taka lyfin inn í 15 ár og þá kom í ljós að ég var með bein eins og sjötug kona.
Ég var alltaf þreytt, hafði ekkert úthald, komin langt undir kjörþyngd og öll orðin gul. Strax og ég fékk greiningu og rétt lyf hresstist ég og hef það ágætt síðan. Svo las ég grein um að svæðanudd á fótum gæti örvað virkni líkamans. Mér fannst þetta mjög merkilegt og ákvað að prófa það og fór til nuddara sem las sér til um sjúkdóminn og nuddaði ákveðna punkta. Eftir nokkur skipti fór ég að finna mun á mér, ég fékk minni bjúg og þurfti sjaldnar að taka auka skammt af lyfinu.
Samkvæmt niðurstöðu blóðprufu og að ráði læknisins gat ég minnkað aðeins lyfjaskammtinn ,,einhverra hluta vegna“ eins og læknirinn orðaði það. Hann hafði aldrei fyrr heyrt að svæðanudd hafi haft áhrif á þennan sjúkdóm.
Þegar ég hætti að fara reglulega í svæðanudd, þurfti ég að auka lyfjaskammtinn aftur í samráði við lækninn. Kolbrún Björnsdóttir grasalæknir hefur blandað fyrir mig fæðubótarefni sem styrkir hormónakerfið og gerir mér gott. Þannig að ég get tekið aðeins minna af lyfjunum og aukaverkanir eru minni. Einnig hefur Þuríður Hermannsdóttir ráðlagt mér með mataræði. Ég hef trú á að viðbótarmeðferðir og hefðbundnar lækningar geti starfað saman Síðastliðinn vetur höfum við nokkrar „Addisons“ konur hist á kaffihúsum og spjallað saman, þó að við þekkjumst ekki neitt þá eigum við þetta sameiginlegt.
Svæða- og viðbragðsfræðingur
Eftir áðurnefnda reynslu mína af svæðameðferðinni ákvað ég að læra svæðanudd og er útskrifuð frá Svæðameðferðarskóla Þórgunnu sem Svæða og viðbragðsfræðingur.
Viðtalið var skrifað árið 2007. I.S.
Flokkar:Meðferðir