Áhrif sálræna áfalla í æsku á heilsufar og líðan kvenna

Inngangur
Ég fjalla um niðurstöður meistararannsóknar minnar í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, sem ég vann undir leiðsögn Dr.Sigríðar Halldórsdóttur prófessors. Hún fjallar um sálræn áföll í æsku og áhrif á heilsufar og líðan kvenna. Tekin voru djúpviðtöl við sjö konur sem urðu fyrir endurtekinni kynferðislegri misnotkun nákominna aðila fyrir 12 ára aldur. Fimm ólust einnig upp við heimilisofbeldi og/eða alkóhólisma. Fjórar lentu í einelti á skólaárum sínum og fjórum var nauðgað síðar á lífsleiðinni. Fjórar hafa átt maka sem áttu við áfengisvandamál að stríða og beittu þær einhvers konar ofbeldi. Ein missti móður sína 2ja ára, var sett í fóstur og systkinahópnum skipt upp. Frá barnæsku hafa þær leitað mjög mikið til heilbrigðisþjónustunnar en ekki fengið viðunandi aðstoð eða skilning og eru fimm konur öryrkjar. Þær hafa leitað mikið í óhefðbundnar meðferðir sem þeim finnst hafa hjálpað þeim og þar hafa þær fengið skilning og stuðning.

Sálræn áföll
Þegar einstaklingur upplifir aðstæður eða verður vitni að ógnvekjandi atburði, þar sem dauði varð eða nærdauði, alvarleg meiðsl, ógnun við líkamlegt heilbrigði, heilsu og heilindi sín eigin eða annarra, verður hann fyrir sálrænu áfalli. Alvarleg sálræn áföll eins og andlegt og líkamlegt heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi eða misnotkun og einelti. Börn geta einnig orðið fyrir áfalli við kynferðislegar athafnir sem hæfa ekki þroska þeirra, þó það sé ekki með ofbeldi. Í öllu ofbeldi virðist skaðinn líklegur til að verða mestur og djúpstæðustu afleiðingarnar þegar sá sem brýtur á fórnarlambinu stendur því nærri, náinn vinur eða ættingi og ofbeldið á sér stað á heimilinu. Öll reynsla er einstaklingsbundin, hver og einn upplifir atburði á sinn hátt og það á einnig við um þau viðbrögð sem hann sýnir á sinn persónulega hátt. Áfallaröskun er ástand sem þróast hjá einstaklingum eftir að hafa orðið fyrir alvarlegu sálrænu áfalli og ekki unnið úr því og fram koma ýmis geðræn, líkamleg og félagsleg vandamál.

Upplifun af áfallinu

Upplifun kvennanna af því að verða fyrir alvarlegu sálrænu áfalli var mismunandi, sumar hafa munað það alla tíð en aðrar lokuðu á það og mundu ekkert fyrr en mörgum árum seinna. Þær hafa allar nema ein glímt við miklar sjálfsásakanir, töldu sig hafa gert eitthvað rangt, vildu bara að þetta hætti og allt yrði gott aftur. Þær lýstu ofbeldinu sem sálarþjófnaði, sálardauða, sársauka, örvæntingu og kvöl. Þær hættu að sofa um nætur, við misnotkun var varnargarður þeirra brotinn, því séu þær svo varnarlausar og berskjaldaðar fyrir því að lenda síðar á ævinni í endurteknu ofbeldi og misnotkun. Flestar konurnar lokuðu á sára reynslu sem börn og áttuðu sig ekki á hvað var að gerast með þær, af hverju þeim leið eins og þeim leið og upplifðu sig öðruvísi en aðra, fyrr en mörgum árum síðar. Þær sögðust hafa komist í gegnum áfallið með því að fara út úr líkamanum og horfa á sjálfa sig utan frá, það var líkaminn sem þjáðist og svo kom sálin aftur.

Líðan sem barn og unglingur
Mikil vanlíðan einkenndi líf kvennanna í æsku og á unglingsárunum. Þeim leið illa í skóla, lentu í einelti, voru alltaf hræddar og í stöðugum ótta. Þær reyndu ýmist að láta lítið fyrir sér fara eða gerðu uppreisn og voru ofvirkar. Þær urðu fyrir endurtekinni kynferðislegri áreitni, nauðgun og heimilisofbeldi. Þær sögðu að fólk ætti oftast að geta séð á hegðun barna ef eitthvað óeðlilegt væri að gerast. Ein kona gerði uppreisn í æsku og fór að stunda kynlíf 13 ára gömul með mörgum miklu eldri mönnum og var misnotuð kynferðislega margítrekað. Allar konurnar áttu við margþætt líkamleg vandamál að stríða í æsku sem voru aldrei tengd við sálræn áföll þeirra. Þær gengu á milli lækna en fengu aldrei sjúkdómsgreiningar eða stuðning en nóg af verkjaróandi-þunglyndis- eða svefnlyfjum.

Einkenni eins og magabólgur vegna álags við að halda öllu innra með sér, ein missti næstum sjónina á einu sumri því hún gat ekki horft á lífið. Ein var rúmliggjandi 10 ára vegna verkja í baki sem voru óútskýranlegir, hún pissaði undir þar til hún var 11 ára vegna hræðslu og var alls staðar með verki, vöðvabólgu og einnig millirifjagigt. Eftir að ein var misnotuð byrjaði hún að fitna og af offitunni komu fylgikvillar eins og sykursýki, vöðvabólgur og verkir er hún var 9-10 ára. Þær voru með magabólgur, höfuðverki og mígreni, svima, yfirlið og meltingarfæravandamál. Áföllin héldu áfram í lífi kvennanna og virtust þær berskjaldaðar fyrir alls kyns ofbeldi. Þær voru allar með þunglyndi og kvíða, voru með sjálfseyðingarhvöt og sjálfsvígshugsanir og gerðu nokkrar misheppnaðar tilraunir, einnig sjálfsfyrirlitningu og fannst þær ekkert eiga gott skilið.

Líkamleg vandamál á fullorðinsárum
Konurnar lýstu margskonar og mjög víðtækum líkamlegum einkennum sem komu í kjölfar áfallanna, ýmist strax á eftir eða mörgum árum og áratugum seinna og hafa í fæstum tilfellum fengið læknisfræðilega skýringu eða skilning. Þær hafa allar þjáðst af alls kyns kvillum í móðurlífi ásamt miklum óútskýranlegum verkjum, liðið yfir þær vegna þess og verið fluttar á sjúkrahús.

Fimm konur hafa látið fjarlægja leg milli 30-40 ára aldurs eða allt móðurlífið og upplifað létti að losna við það sem olli þeim svo miklum kvölum. Nokkrar hafa misst fóstur og/eða fengið utanlegsfóstur nokkrum sinnum. Einkenni eins og blöðrur á eggjastokkum, samgróningar og utanlegsfóstur. Allar konurnar hafa verið með útbreidda óútskýranlega verki og vöðvabólgu um allan líkamann. Þær hafa átt við svefnvandamál að stríða frá æsku því þær voru alltaf á varðbergi og sex konur eru greindar með vefjagigt. Nokkrar hafa átt við átröskun að stríða og ein glímt við mikið offituvandamál frá því í æsku, ef henni líður illa þá borðar hún.

Hún fór í endurhæfingu vegna offitu 16 ára gömul og hefur sveiflast úr 80 kg upp í 130 kg og til baka. Önnur er með andhverfa sögu, en hún sveltir sig þegar henni líður illa eða er undir álagi, einnig leitar hún í áfengi þegar henni líður illa til að deyfa sig. Ýmis flókin líkamleg einkenni hafa þjakað konurnar án þess að læknisfræðilega skýringu sé að finna. Einkenni eins og alls kyns meltingarfæraóþægindi, höfuðverkur og mígreni, svimi, hjartsláttaróregla, hjartverkur og hækkaður blóðþrýstingur og vandamál tengd innkirtlastarfsemi, taugakerfi og sogæðakerfi. Einnig hefur orkuleysi og síþreyta lengi þjakað þær og haft mikil áhrif á líf þeirra. Ein er talin vera með sjálfsofnæmissjúkdóm í og við kynfæri sem kom í ljós eftir að hún skildi við eiginmanninn, hún fékk óútskýranleg útbrot á kynfærin, rauða bletti í og við kynfærin, sprungur sem urðu að sárum, svo komu svartir blettir.

Geðræn vandamál á fullorðinsárum
Geðræn vandamál kvennanna eru mjög margþætt, þær hafa allar fundið fyrir mikilli vanlíðan. Það er ákveðin hegðun sem sumar konurnar hafa leitað í þegar þeim leið sem verst, til að finna einhvers konar frið innra með sér, það er fósturstellingin, að hnipra sig saman og horfa út í loftið. Þær hafa allar átt við þunglyndi að stríða á einhverju tímabili í lífi sínu, sumar alla tíð og hafa misst alla lífslöngun. Sumar eru búnar að vera ofvirkar og meðvirkar mörg ár. Þær töluðu ýmist um fæðingarþunglyndi og/eða tilhneigingu til að einangra sig með börnin, ofvernda þau og treysta engum fyrir þeim. Þær voru með mikinn kvíða og ein fékk ofsakvíðaköst við mikið andlegt álag. Ein hefur sveiflast milli þunglyndis og ofvirkni og verið rætt um geðhvarfasýki. Þær hafa allar verið með einhvers konar sjálfseyðingarhvöt, sjálfskaðandi hegðun eða sjálfsvígshugsanir og eru mjög undrandi á því að hafa ekki látið verða af því.

Ein var búin að skipuleggja að taka líf sitt, hún ætlaði að fara í sjóinn, fara út úr líkamanum til að verjast kuldanum og horfa á líkamann þjást og þrauka þar til hún dæi. Það er slík vanlíðan, hún trúði ekki að nokkur kæmi til með að sakna hennar, fannst hún í raun bara skítur, slík er sjálfsmyndin. Þær hafa glímt við mikla höfnunartilfinningu alla tíð sem hefur haft mikil áhrif á hugsanir, líðan og athafnir þeirra. Einnig tilfinningar eins og sorg og söknuð, fannst líkaminn hætta að finna fyrir gleði eða sorg, dofinn eða frosinn, engar tilfinningar. Ein veiktist af ofsahræðslu og fylltist af sorg sem varð að hryllilegum veikindum, miðað við alla erfiðleika lífs hennar fannst henni þessi andlegu veikindi það skelfilegasta sem hún hafði upplifað og vildi bara deyja. Konurnar sem lokuðu á sára reynslu í æsku fengu endurminningar síðar á lífsleiðinni og voru það ákveðin atvik í lífi þeirra sem kölluðu það fram og þær gátu ekki lokað á, upprifjanir og minningarbrot sem helltust yfir þær öllum stundum. Flótti, fælni og einangrun eru tilfinningar sem þær glíma við, þær eiga erfitt með að vera innan um margt fólk og forðast náin tengsl.

Tengslamyndun, traust, snerting og kynlíf

Samskipti við karlmenn og tengslamyndun hefur gengið illa, þær eiga erfitt með að stunda kynlíf og njóta þess. Búið er að brjóta allt traust, þær geta ekki treyst þeim sem standa þeim næst, þær eiga alltaf von á því versta frá manneskjunni og hræðast höfnun. Tengslamyndun við börnin hefur gengið misjafnlega, sumar eiga erfitt með að snerta þau og tjá þeim tilfinningar. Sjálfsmynd kvennanna er mjög brotin sem gerir það að verkum að þær telja sér trú um að þær eigi allt slæmt skilið, þær hafa lent í stormasömum og ofbeldisfullum samböndum og fannst þær eiga það allt skilið.

Þær eiga erfitt með alla snertingu, finnst erfitt þegar makinn er að koma við þær og mikil vanlíðan í sambandinu sem fylgir því. Þær hafa látið sig hafa kynlífið fyrir makann,finnst þær eiga að sinna þeim kynferðislega, sögðust algjörlega áhugalausar um kynlíf, ein sagðist gráta það mest í dag að hafa farið á mis við að geta ekki notið þess með manninum sem hún elskar. Einnig töluðu þær um samasemmerki milli kynlífs og væntumþykju eða viðurkenningu, því þær lærðu í uppeldinu að tjá væntumþykju með kynlífi, því séu þau tengsl enn í dag með öðrum mönnum, kynlíf sé sem ástarjátning.

Þær telja sára reynslu úr æsku og síðan fæðingarþunglyndi hafa haft mikil áhrif á það hversu erfitt þeim hefur reynst að tengjast börnum sínum eðlilega og sýna þeim ástúð. Þær hafa alltaf áhyggjur af þeim og eiga erfitt með að treysta öðrum fyrir þeim, finnst sem verið sé að minna á misnotkunina í gegnum börnin. Tengslamyndun við börnin hefur áhrif á líðan barnanna og mörg þeirra kljást við kvíða og þunglyndi. Tvær hafa leitað í kvennaathvarfið vegna ofbeldis eiginmanns.

Þegar ástandið var svo slæmt á heimili einnar konunnar sagði sonur hennar: ,,mamma komum bara aftur í konuhúsið“. Tvær sögðust hafa lagt hendur á börnin sín, þær sögðu sinn þroska ekki hafa verið meiri á þeim tíma, þær hafi ekki vitað betur, þær hafi átt nóg með sjálfar sig og ekki haft mikið að gefa af sér. Sonur einnar sagði: ,,mamma, ég hataði þig því þú varst alltaf grenjandi og ég hélt að það væri af því að ég væri óþekkur“. Þegar hann kom heim úr skólanum þá sat hún í kuðung úti í horni, hann settist bara á gólfið hjá henni og lagði skólatöskuna frá sér og reyndi að hugga hana.

Staðan í dag og horft til framtíðar

Allar konurnar hafa margítrekað leitað sér aðstoðar í heilbrigðiskerfinu en ekki fengið viðeigandi aðstoð og eru ósáttar við það. Þær sögðust vera þessar ,,móðursjúku“ sem séu alltaf hjá læknum og ,,ekkert sé að“ en geti fengið nóg af lyfjum. Þær hafa leitað mikið í óhefðbundnar meðferðir og nudd og finnst það hafa hjálpað, þar fái þær stuðning og skilning. Þær lýsa mikilli vanlíðan og að þær losni aldrei við þennan skugga sem fylgi þeim, en þær reyni að sjá björtu hliðarnar á sjálfum sér og lífinu. Þegar ein fór í heilun var mikil hreinsun, margra ára uppsafnaður sársauki, það er vinna sem hún er enn að vinna í. Ein er búin að vinna í sínum málum í yfir 20 ár og það sem hefur hjálpað henni mest eru óhefðbundnar meðferðir.

Einni finnst hún stöðugt þurfa að berjast við að halda sér gangandi frá degi til dags, hún lýsti því sem öldudal þar sem hún fari upp og niður, stundum fljóti hún en svo sökkvi hún niður á milli. Tíminn læknar ekki öll sár heldur er spurningin um að lifa með þessu, stundum finnst þeim þær ekki geta meira, svo mikil örvænting og innri angist. Misnotkun sé sálarmorð sem þær nái sér aldrei upp úr, finnst fortíðin endalaust sækja á þær, finnst þær vera að gefast upp. Þær sögðu mjög mikilvægt að fólk opni sig sem fyrst, því lengur sem maður geymir þetta inni því meiri skaði verður, sérstaklega fyrir maka, börn og þær sjálfar. Eins og ein sagði: ,,það getur í raun enginn hjálpað nema maður sjálfur, það þarf að fara alla leið inn í sig inn að hjartarótum, það tekur enginn annar þetta í burtu, maður verður að finna þetta sjálfur, það setur enginn annar frið í hjarta manns, hatrið er okkur sjálfum ver

Höfundur Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunadfræðingur árið 2007Flokkar:Hugur og sál

%d bloggers like this: