Nýtt náttúrulegt undralyf við liðagigt

Formáli,
Í haustblaði Heilsuhringsins 1997 var grein með þessu nafni og vakti sú grein töluverða athygli. Undirritaður gerði tilraun með að flytja inn smávegis af efninu sem um er að ræða til að prófa á nokkrum liðagigtarsjúklingum. Sjálfsagt hefði verið hyggilegt að biðja einhvern Íslending á ferð um Bandaríkin að kaupa þetta þar og koma með heim í handfarangri. Ég hafði ekki vitsmuni til að gera það en flutti þess í stað efnið inn á algjörlega lögmætan hátt, enda trúði ég því ekki að nokkur gæti verið haldinn þeim kvalalosta að hindra mig í að reyna nýja aðferð til að hjálpa nokkrum liðagigtarsjúklingum að bæta líðan sína.

Málið fór þó þannig að efnið hafnaði hjá Lyfjastofnun eða Lyfjaeftirliti ríkisins sem bannaði mér algerlega að flytja það inn. Þó tókst mér að fá undanþágu, vegna þess hvað þetta var lítið magn skyldi ég fá efnið ef ég fengi löggildan lyfjainnflytjanda til að ,,leppa“ sendinguna. Ágætur læknir Guðmundur S. Jónsson, sem ég þekkti vel var kunnugur hjá lyfjainnflutningsfyrirtæki sem bjargaði málunum í þetta eina skipti, því náði ég efninu út að lokum. Nokkrir sem fengu að prófa efnið töldu sig hafa gagn af því en þetta magn sem ég fékk var of lítið til að draga of miklar ályktanir af því. Nú er efnið Cetylmyrist-oleat aftur fáanlegt hér á landi frá ,,Now“ fyrirtækinu. Vonandi hjálpar það einhverju fólki sem þjáist af liðagigt. Æ. J

Inngangur

Lengi hefur verið vitað að vissar fitur eða olíur (t.d. lýsi og kvöldvorrósarolía) gagna stundum til að lækna eða halda liðagigt í skefjum. Nú hefur nýtt undraefni verið uppgötvað sem virðist hjálpa fólki með liðagigt sem ekkert annað hefur dugað við. Þetta efni heitir „cetyl myrist-oleat“ og er fituefni sem finnst í mjög litlum mæli í sumum matarfitum t.d. smjöri og lýsi. Efnið var fyrst uppgötvað og einangrað af einum manni, Harry W. Diehl. Diehl er sennilega þekktastur fyrir að uppgötva aðferð til að búa til 2-deoxydextroribasa,sykurefni sem notað er við að framleiða lömunarveiki-bóluefni til inntöku. Áhugi hans á liðagigt hófst fyrir meira en 40 árum þegar nágranni hans, húsasmiður, fékk alvarlega liðagigt. Honum versnaði svo að hann varð óvinnufær. Diehl, sem var trúaður maður, átti erfitt með að sætta sig við ástand vinar síns og fór að rannsaka hvað helst mætti verða honum til hjálpar. Því miður urðu rannsóknir hans of seint nógu árangursríkar til að hjálpa vini hans en þær leiddu til að cetyl myrist-oleat var uppgötvað, sem e.t.v. mun síðar meir verða talin ein af merkilegustu uppgötvunum í næringarfræði sem gerð hefur verið á síðari hluta tuttugustu aldarinnar.

Cetyl myrist-oleat
Cetyl myrist-oleat er olía, hexadecyl ester af ómettaðri fitusýru, cis-9-tetradeconsýru. Algengt nafn á þessari fitusýru er myrist-olíusýra. Myrist-olíusýra finnst einna helst í lýsi, hvallýsi, smjöri og kombosmjöri. Engar upplýsingar voru til um þessa fitusýru fyrir árið 1977, þegar Diehl fékk einkaleyfi á aðferð til að vinna hana úr músum. Talið er að mýs og rottur séu ónæmar fyrir að fá liðagigt. Þó er hægt með því að nota sérstakt efni „Freund´s Adjuvant“, sem er búið til úr Mycobacteríum butyricum. Efnið er þurrkað og bakteríurnar drepnar með hita, en síðan má nota þær til að sýkja mýs og rottur með liðagigt.

Rottum var skipt í tvo hópa. Fyrst fékk annar hópurinn cetyl myrist-oleat en hinn hópurinn ekkert. 48 stundum síðar var báðum hópunum gefið Freund´s Adjuvant. Allar rotturnar sem aðeins fengu Freund´s Adjuvant fengu liðagigtareinkenni en engin af þeim sem fengu einnig cetyl myristoleat. Tilraunir sýndu að cetyl myrist-oleat gaf allt að því fullkomna vörn gegn þessari tegund liðagigtar. Einnig sýndu tilraunir að þó að cetyl myristoleat væri blandað til helminga með cetyl oleat virtist það gefa sömu vörn gegn liðagigt eins og hreint cetyl myrist-oleat.

Lyfjaframleiðendur áhugalausir
Eftir að Diehl fékk einkaleyfi á efninu gegn liðagigt 1977 leitaði hann til margra lyfjafyrirtækja um að gera tilraunir með efnið á fólki. Ekkert þeirra sýndi málinu neinn áhuga, e.t.v. vegna þess að þetta var náttúrlegt efni og því ekki hægt að fá einkaleyfi á því sem slíku, heldur aðeins á framleiðsluaðferðinni. Því gafst Diehl upp og vegna þess að hann var vísindamaður en ekki markaðsfræðingur lá hugmyndin ónotuð í 15 ár en þá varð hans eigin vanheilsa til að hann fór aftur að sýna málinu áhuga.

Læknaði sjálfan sig
Þannig var að þegar Diehl eltist fór hann að finna fyrir liðagigt sem smá versnaði. Hann notaði venjuleg gigtarlyf sem heimilislæknirinn lét hann fá, bæði barkarstera og bólgueyðandi gigtarlyf, án þess að það bætti líðan hans mikið. Að lokum sagði heimilislæknirinn honum að nú gæti hann ekki látið hann fá meiri steralyf. „Þá“ sagði Diehl „varð mér hugsað til uppfinningarinnar sem ég gerði fyrir 15 árum og ákvað að búa til skammt til að nota fyrir sjálfan mig“. Það gerði hann og læknaði sig af liðagigtinni. Fjölskyldumeðlimirnir og vinir urðu vitni að lækningunni og þeir sem höfðu liðagigt fengu að prófa nýja lyfið. Aftur og aftur fengu liðagigtarsjúklingar ótrúlegan bata með cetyl myrist-oleat og að nokkrum tíma liðnum urðu vinir hans og kunningjar að föstum viðskiptavinum og áður en langt um leið eða árið 1994 var efnið sett á markaðinn sem fæðubótarefni.

Hugmyndir um verkunarmáta

Eins og gjarnan er með aðrar náttúruvörur, skortir ennþá nákvæma vitneskju á því hvernig cetyl myrist- oleat verkar í líkamanum. Sem fitusýru-ester virðist það eiga margt sameiginlegt með „ómissandi fitusýrum“ nema það er miklu öflugara og áhrifin vara lengur. Sumar fitusýrur eru nefndar „ómissandi“, vegna þess að líkaminn getur ekki búið þær til en verður að fá þær úr fæðunni. Þær eru tvímælalaust ómissandi til að byggja upp frumur og alveg sérstaklega taugafrumur og þær eru nauðsynlegar til að mynda svokallaða „fitusýruhormóna“ t.d. prostaglandin, eins og oft hefur verið skrifað um í þessu riti. Munurinn á ómissandi fitusýrum og cetyl myrist-oleat er einkum sá að stórum minna þarf af cetyl myrist-oleat og áhrifin vara einnig miklu lengur heldur en af ómissandi fitum. Cetyl myrist-oleat er notað í einn mánuð, samtals 13 grömm, en ómissandi fitur t.d. lýsi verður að nota í mánuði eða ár, (samtals) jafnvel mörg hundruð eða þúsundir gramma.

Í langvarandi bólgusjúkdómum virðist skortur verða á ómissandi fitusýrum. Cetyl myrist-oleat virðist geta leiðrétt það ójafnvægi sem leiðir af þeim skorti. E.t.v. getur efnið þjónað þeim tilgangi að stjórna myndun bólguhvetjandi fitusýruhormóna eða hvetja myndun annarra fitusýruhormóna sem draga úr bólgum. Kenningar eru um að cetyl myrist-oleat hvetji myndun prostaglandina af 1 og 3 röðinni (sjá grein um kvöldvorrósarolíu, haust ´96) og immúnóglóbulins. Þetta gæti skýrt öflug áhrif þess á bólguog sjálfsónæmissjúkdóma. Hvort þessi eða aðrar kenningar um verkunarmáta cetyl myrist-oleat eru réttar verður ekki dæmt um hér, en þó að ennþá sé ekki vitað með fullri vissu um hvernig efnið verkar má þó hæglega nota það.

Lokaorð
Cetyl myrist-oleat fæst nú í Bandaríkjunum og hafa tugþúsundir einstakinga notað það. Rannsóknir á hugsanlegum eiturverkunum hafa sýnt að efnið hefur engar eiturverkanir, jafnvel í risaskömmtum sem prófaðir hafa verið á dýrum. Meðan það hefur ekki verið prófað sérstaklega er þó ekki mælt með að þungaðar konur eða konur með barn á brjósti noti cetyl myrist-oleat. Ekki er mælt með að fólk sem notar cetyl myrist oleat noti gosdrykki eða sítrus ávexti meðan það notar efnið, vegna þess að það hindrar upptöku efnisins í meltingarfærunum. Aftur á móti er gott að taki lýsi, E-vítamín, glucosamin sulfat og DMSO (dimethyl sulfoxid). Sætindi, koffein og áfengi ætti helst ekki að nota. Greinarhöfundur er að vinna að því að fá cetyl myrist-oleat til að reyna á liðagigtarsjúklingi. Takist það mun verða skýrt frá árangrinum hér í þessu riti. Þangað til verðum við að bíða. Heimild úr Townsend Letter for Doctors and Patients júlí 1997 og ág.-sept. 1997.

Höfundur: Ævar Jóhannesson



Flokkar:Greinar

%d bloggers like this: