Trimmklúbbur Eddu 20 ára

Æska Eddu Bergmann var þyrnum stráð, hún fékk lömunarveiki árið 1944 þá átta ára gömul og var sett í þriggja mánaða einangrun á Farsóttarheimilinu. Einu samskipti hennar við annað fólk þessa 3 mánuði voru við tvær hjúkrunarkonur sem þrifu hana og færðu henni mat. Oft var ljósið slökkt í herberginu en þá stytti hún sér stundir við að horfa á ljósgeisla frá ljósastaur sem var fyrir utan gluggann. Síðan þykir Eddu vænt um ljósið og hefur í ríku mæli lýst upp líf samferðamanna sinna með ótrúlegum lífskrafti og góðvild. Hún dvaldi í Farsóttarheimilinu í fjögur ár en þá tókst henni af eigin rammleik og viljastyrk að komast upp á fæturna og ganga við hækjur. Þegar hún losnaði af Farsótt tók við hörð lífsbarátta við öflun lífsbjargar og barnaskólanám sem hún hafði alveg farið á mis við þessi fjögur ár. Sama ár og Edda veiktist skildu foreldrar hennar og móðir hennar stóð ein uppi með 6 lítil börn.

Á þessum árum var ekki um samfélagshjálp að ræða og enga líkamsþjálfun var heldur að fá. Hugsun Eddu snérist því um að hjálpa móður sinni með litlu systkinin. Fljótlega réði móðir hennar hana í vist til að gæta þriggja barna og þegar hún lét uppi efasemdir um getu sína sagði mamma hennar: ,,Þú getur þetta, þú segir bara börnunum að passa þig“. Börnin hændust að Eddu og hún skilaði verki sínu vel þrátt fyrir að hún væri bundin hækjunum. Hún stóð sig líka vel í skólanáminu og tók fullnaðarpróf upp í ,,Gaggó Vest“, en að loknu námi þar komst hún ekki í framhaldsnám vegna fátæktar. Þegar hún sótti um eða leitaði eftir vinnu fékk hún óblíðar móttökur hjá vinnuveitendum því að fæstir virtust trúa því að fötluð stúlka gæti unnið.

Nú fær Edda orðið:  Ég var svo heppin að fullorðin kona sem ég þekkti í Skerjafirði vildi endilega hjálpa mér og talaði við Andrés Andrésson klæðskera á Laugaveginum. Hún bað hann að taka mig í vinnu. Fyrst um sinn fékk ég ekki kaup en hann kenndi mér allt um saumaskap. Síðan þegar ég var nítján ára var móðir mín ráðskona á stóru heimili á Geldingalæk á Rangárvöllum og bað mig að koma til að hjálpa sér. Þar var margt kaupafólk og þar á meðal var ungur Dani Kristján Ólafsson sem seinna varð maðurinn minn. Við Kristján hreiðruðum um okkur á Seltjarnarnesi þar sem ég gekk í kvenfélagið og hvatti til stofnunar Selkórsins á Seltjarnarnesi, einnig söng ég í kirkjukór Neskirkju. Svo kom ég að stofnun Sjálfsbjargar.

Félagið var stofnað í gamla Skátahúsinu við Snorrabraut. Áður hafði Félag lamaðra og fatlaðra verið stofnað til að annast endurhæfingu en það vantaði eitthvað til að taka við fólki að endurhæfingu lokinni og hjálpa fólki við að komast út í lífið. Ég gleymi því ekki er við í fyrstu stjórn Sjálfsbjargar fórum á fund ráðherra, sem þá var Magnús Kjartansson, og sögðumst vilja stofna félagið. Ráðherra spurði: ,,Er ekki komið nóg af þessum poppfélögum“? Hann skildi ekki tilganginn. Ég reiddist og sagði: ,,Ég ætla ekki að óska neinum neins en það gæti komið fyrir þig eins og okkur að verða fatlaður, þá kannski skilur þú málefni fatlaðra og mér finnst að maður í þinni stöðu geti ekki sagt svona“. Magnús átti eftir að leggja málum fatlaðra lið, m.a. barðist hann fyrir byggingu Grensásslaugarinnar.

Hóf sundiðkun
Þegar ég var að passa áðurnefnd börn í Skerjafirðinum synti ég oft í sjónum. Þá bjó ég til hliðarsund því að ég gat aðeins notað annan fótinn, hinn var lamaður. Þetta hjálpaði mér mikið við líkamsþjálfunina og þegar ég heyrði um stofnun Íþróttafélags fatlaðra ákvað ég að hefja sundæfingar með félaginu. Æfingarnar fóru fram í lítilli sundlaug upp í Árbæ og ég náði fljótt miklum hraða í sundinu, þannig að ákveðið var að senda mig út í keppni þar sem ég náði í tvö gull og eitt silfur. Þetta þóttu heldur betur tíðindi því að ég var þá komin yfir fertugt. Svo var ákveðið að senda mig til Hollands á Ólympíuleika fatlaðra.

Þá kom glöggt fram hverju þjálfun getur áorkað, því að eftir langa og stranga þjálfun fyrir mótið gat ég hætt að nota bakbelti sem ég áður varð að nota til stuðnings vegna lömunar í bakinu. Ég hef ekki þurft að nota það síðan. Seinna fór ég á Heimsleika fatlaðra og keppti í 100 m. skrið, 100 m. bak og 100 m. bringu og 400 m. skrið sem ég hafði ekki æft en var óvart skráð í. Ég fékk gull, silfur og brons í hundraðmetra greinunum og gull 400 metra skriðinu þó að ég hefði aðeins æft fyrir 100 metrana. Á þessu móti var ég elsti keppandinn 46 ára gömul og fyrsta konan í heiminum á þessum aldri sem náði þessum árangri.

Stofnaði trimmklúbb
Um tíma kenndi ég sund hjá Íþróttafélagi fatlaðra og fór m.a. um landið til að kynna íþróttir fatlaðra. Einnig var ég formaður Íþróttafélagsins í eitt ár. Þegar ég hætti að keppa í sundi ákvað ég að láta gott af mér leiða með því að hvetja fatlaða til að hreyfa sig meira og stofnaði Trimmklúbb Eddu í þeim tilgangi 6. nóvember 1987. Kjörorðið er; ,,að vera með er stærsti sigurinn“. Ég sótti um aðild fyrir klúbbinn að Íþróttafélagi fatlaðra en fékk ekki inngöngu af því að þetta er klúbbur en ekki félag.

Fyrst var klúbburinn með útiveru og jóga hjá Blindrafélaginu, hvorutveggja var mjög vel sótt. Undanfarin ár höfum við byrjað í maí að trimma inni í Laugardal, mætum þar á mánu- og fimmtudögum og erum frá kl. 5 til 6. Þarna kemur fólk í hjólastólum, á hækjum , blindir og allir þeir sem vilja vera með okkur. Stundum tökum við kaffi með okkur og oftast gerum við eitthvað skemmtilegt. Við byrjuðum með vatnsleikfimina í maí 1990 það tók mig tvö ár og mikla fyrirhöfn að fá leyfi til að leigja Grensásslaugina. Áður vorum við í lauginni á Seltjarnarnesi en urðum fyrir aðkasti þar svo að nauðsynlegt var að komast í aðra laug.

Ég fékk til liðs við mig tvær frábærar konur sem hafa æ síðan kennt vatnsleikfimina með mér í sjálfboðavinnu, við skiptum með okkur aðferðum svo það sé einhver fjölbreytni. Flestir geta gert allar æfingar í vatni, en það er ein regla; ef hreyfingin veldur verk þá er henni sleppt. Sársauki bendir til þess að verið sé að gera rangt. Ég held fyrirlestur fyrir nýliða og útskýri æfingarnar fyrir blinda fólkinu og fer einnig í laugina til að hjálpa þeim.

Ég kenni t.d. blinda fólkinu að henda bolta og grípa. Ef einhver segir ,,ég get þetta ekki“ þá segi ég ,,þú getur þetta víst, hlustaðu og ekki henda boltanum hátt. Þú þjálfar bæði einbeitingu og hreyfingu með þessu og getur það ef viljinn er fyrir hendi“. Ég nota fjölbreyttar æfingar þ.á.m. jóga, öndunar- og boltaæfingar, dans og svo syngjum við. Ég legg mikla áherslu á hve hreyfing er nauðsynleg og hve gott og auðvelt er að gera æfingar í vatni. Ég fann það vel um daginn þegar ég fór í augnaðgerð og mátti ekki fara í vatnsleikfimi í heilan mánuð, hve verkir komu fljótt í ljós sem ég hef haldið niðri með æfingunum undanfarin ár.

Grindarbotnsæfing
Edda hefur unnið til margra verðlauna Margar æfingar gerðar með boltum eru árangurs ríkar t.d. kenni ég auðvelda grindarbotnsæfingu. Bolti á stærð við handbolta er settur á milli hnjánna og hnén klemmd að boltanum, takinu er haldið, síðan rasskinnum og lærum þrýst saman, samtímis andað kviðaröndun og andanum haldið niðri meðan átakið er. Æfingin endurtekin 5 sinnu og í hvert skipti er boltinn færður ofar. Það hefur haldið mér gangandi í lífinu að í eðli mínu er ég athafnamanneskja sem alltaf er tilbúin til góðra verka. Ég hef unnið við saumaskap síðan ég lærði hjá Andrési forðum. Ef ég hef orðið eitthvað slöpp fer ég eftir því sem móðir mín sagði: ,,Farðu út í dyr og dragðu djúpt andann og vertu jákvæð þá verðurðu ekkert lasin“. Ég er henni ævarandi þakklát fyrir að sýna mér enga linkind í uppvextinum og segja alltaf við mig: ,,Þú getur það“. Edda Bergmann er brautryðjandi vatnsleikfimi á Íslandi.

I.S. 2007



Flokkar:Reynslusögur

%d bloggers like this: