Reynslusaga af stofnfrumuskiptum

Að vorið árið  2003 þegar Gísli Baldur var 64 ára gamall leitaði hann ráða hjá lækni vegna slappleika. Eftir rannsókn sagði læknirinn að líklega væri um eitlakrabbamein að ræða og dreif Gísla Baldur samdægurs í nánari rannsóknir sem staðfestu þann grun. Við fyrstu sneiðmyndatökuna var lögð áhersla á að Gísli Baldur drykki mikið vatn en það var ekki gert þegar næsta sneiðmyndataka var framkvæmd stuttu seinna, afleiðingarnar urðu þær að hann fékk óþol fyrir skuggaefninu sem notað var við myndatökurnar. Rannsóknunum fjölgaði og við DNA rannsókn kom í ljós að meinið var komið víðar en talið var í byrjun m.a. í merginn og honum sagt að þetta væri illskeytt eitlakrabbamein sem nánast væri ólæknandi. Einnig var honum sagt að reynd yrðu lyf sem gagnast hefðu í svona tilvikum en spurning vær hvort hann þyldi þau og hvort þau virkuðu. Eftir það tók við ströng lyfjameðferð næstu fjóra mánuði.

Nú fær Gísli Baldur orðið
Í september sagði læknirinn mér frá stofnfrumumeðferð sem væri verið að byrja að framkvæma á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Hann sagði að yfirleitt væru sjúklingar yfir sextugt ekki settir í svona meðferð en þar sem ég væri vel á mig kominn teldi hann mig geta tekist á við meðferðina. Ég ákvað strax að þiggja meðferðina og takast á við hana með jákvæðu hugarfari og sigurvissu. Í framhaldi var styrkleiki lyfjanna aukinn og ég fékk háskammtalyfjameðferð og undirbúningur stofnfrumuskiptanna hófst með því að ég fór í skilju þ.e. vél til að skilja stofnfrumur úr eigin blóði. Verið er í vélinni í 5 til 6 tíma, blóðið er tekið úr og vélin greinir stofnfrumurnar frá og setur þær í sér poka en sendir blóðið stofnfrumusnautt til baka, hverri meðferð fylgir kalkgjöf og sprautað er með lyfi til að örva endurnýjun frumanna.

Stofnfrumunum sem vélin skildi frá var safnað saman, þær hreinsaðar og frystar. Eftir fimm skipti var búið að safna nógu mörgum stofnfrumum, en áður en mér voru gefnar þær til baka fór ég í enn sterkari háskammtalyfjameðferð, þar sem hvítu blóðkornin fóru niður á núll. Ég var í 28 daga einangrun á meðan á meðferðinni stóð, en fjórtán dögum eftir að henni lauk byrjuðu hvítu blóðkornin að rísa aftur og batinn hófst. Ég var fyrsti sjúklingurinn sem gekkst undir stofnfrumumeðferð á LHS og það má segja að með hjálp framúrskarandi starfsfólks sjúkrahússins haf ég farið létt með það. Fyrsta árið eftir meðferðina var ég viðkvæmur fyrir smitsjúkdómum og þurfti m.a. að fá barnasprauturnar aftur. Nú er ég orðinn frískur, laus við krabbameinið og stunda líkamsrækt t.d. sund, göngur og dans.

Hjálpaði mikið
Ég er bindindismaður bæði á vín og tóbak, hef alltaf stundað íþróttir og var vel á mig kominn bæði líkamlega og andlega þegar meðferðin hófst en hún reyndi mikið á meltinguna, sem varð afar viðkvæm. Mér var ráðlagt af kunnáttufólki að mauksjóða allan mat og borða mikið af hafragraut, sem ég gerði og bætti út í hann möluðu hörfræi og ,,husk“. Ég tók ég inn Aloe vera safa tvisvar á dag og fór að ráðum læknisins og drakk 6 lítra af vatni á sólarhring. Í svona meðferð er nauðsyn fyrir líkamann að fá nóg vatn til að greiða útskilnað. Daginn fyrir hverja lyfjameðferð fór ég í svæðameðferð og vil ég leggja sérstaka áherslu á hvað svæðanudd hjálpaði mér mikið. Það róar, slakar og hjálpar líkamsstarfseminni.

Viðtalið skráði Ingibjörg Sigfúsdóttir árið 2007Flokkar:Reynslusögur

%d bloggers like this: