Sænski taugalæknirinn Birgitta Brunes hefur sett fram kenningar um nokkra þætti sem auka líkur á að MS fari af stað. Einnig tekur hún fyrir hvernig mögulegt sé að hægja á ferli sjúkdómsins og draga úr einkennum án þess þó að um lækningu sé að ræða. Birgitta greindist með MS fyrir rúmum 20 árum og nálgast viðfangsefnið á annan hátt en flestir taugalæknar. Birgitta kynnti hugmyndirnar í bók sinni sem kom út fyrir 11 árum. Bókin heitir á frummálinu: ,,Från MS-diagnos till bättre hälsa, ett nytt synsätt på Multiple skleros“ („Frá MS-greiningu til betri heilsu, ný sýn á mænusiggi“). Litlu fyrr fór hún af stað með námskeið og meðferð sem byggð er á hugmyndum hennar og ætluð einstaklingum með MS.
Inntak kenninga Birgittu
Taugaboð flytjast að hluta tilflutt sem rafboð í gegnum taugaþræði en að hluta til með efnaboðum um taugamót. Taugaboðefnin sjá um efnaboðflutninginn. Hjá MS-einstaklingum er mýlínið umhverfis taugaþræðina skaddað á sumum stöðum þó taugaþráðurinn sjálfur sé oftast óskaddaður. Örvefir í mýlíninu gera það að verkum að taugaboð „leka út“ með þeim afleiðingum að of lítið af upphaflegum boðum komast á leiðarenda (að marklíffærum). Kenning Birgittu felst í að ef mögulegt er að magna boðin þá komast sterkari boð á leiðarenda þrátt fyrir lekann um mýlínið. Hægt er að styrkja boðin meðal annars með því að nota lyf sem hafa áhrif á taugaboðefnin.
Í meðferð Birgittu styðst hún við notkun algengra lyfja, amínósýra, andoxunarefna, vítamína og steinefna. Þau taugaboðefni sem um ræðir eru noradrenalín, acetylcolín, dópamín og serotonín. Þau þurfa að vera til í ákveðnum hlutföllum innbyrðis sín á milli til að taugaboðin fari rétt um líkamann. Breytist þessi hlutföll, sé til dæmis of mikið af einu taugaboðefni eða of lítið af öðru, kemur það fram í taugaeinkennum svo sem skyntruflunum, sjóntruflunum, þreytu, máttleysi og truflun á stjórn þvagfæra. Undirritaður sótti 10 daga námskeið og meðferð í september s.l. Í upphafi meðferðarinnar metur Birgitta styrk taugaboðefnanna og í framhaldinu af því eru hlutföllin þar á milli jöfnuð. Við matið styðst hún við hefðbundna taugalæknisskoðun og sjúkrasögu einstaklingsins.
Hornsteinarnir í meðferðarmódeli Birgittu eru þrír (sjá nánar á http://www.brunes.se):
* Afeitrun líkamans
* Sállækningar
* Lyfjameðferð
Afeitrun líkamans
Afeitrunin felst einkum í að fjarlægja amalgamfyllingar úr tönnum. Samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) kemur kvikasilfur í líkamanum helst úr amalgamfyllingum. Um helmingur amalgams er kvikasilfur en það getur hindrað myndun taugaboðefna. Afleiðingarnar geta falist í að það hægist á flutningi þeirra eða jafnvel að enginn flutningur eigi sér stað. Einkenni svo sem dofi, skyntruflanir, stingir, kláði eða sviði geta aukist. Gjarnan hefur verið litið á MS sem sjálfsónæmissjúkdóm og kvikasilfur getur ýtt undir sjálfsónæmi að sögn Birgittu. Kvikasilfur gengur í efnasamband við súlfíðsameindir og hvít blóðkorn ráðast á efnasambandið. Sé þetta efnasamband í nálægð við mýlín ráðast hvítu blóðkornin einnig á mýlínið umhverfis taugaþræði og við það myndast bólgur í mýlíninu.
Sállækningar
Dr. Jean Martin Charcot, sem fyrstur greindi MS sjúkdóminn (árið 1852), tók eftir því að MS tengdist tilfinningum. Módel Birgittu byggir á þeirri trú að líkami og sál eru ekki aðskildir hlutar heldur mynda eina heild. Tilfinningar gegna mikilvægu hlutverki sem tengiliður líkama og sálar. Mikilvægt er að finna tilfinningarnar, tjá þær og gefa þeim pláss í stað þess að flýja þær. Séu tilfinningar bældar niður,þá hættir viðkomandi að finna þær og við það flæða taugaboðefni út.
Hins vegar myndast taugaboðefni við það eitt að tjá tilfinningar. Öll taugaboðefnin sem hér um ræðir eru tengd tilfinningum. Birgitta flokkar tilfinningarnar í frumtilfinningar og áunnar tilfinningar. Dæmi um frumtilfinningar eru reiði, verkir, ótti, gleði, von og ást en þær gefa orku. Dæmi um áunnar tilfinningar eru áhyggjur, streita, orkuleysi, vonleysi, hjálparleysi, sektarkennd og slæm samviska. Slíkar tilfinningar krefjast orku og minnka taugaboðefnaframleiðslu líkamans.
Því er mikilvægt að komast að því af hverju þær eru til staðar og hvernig hægt sé að forðast þær. Persónuleikinn hefur mest áhrif um það hvort einstaklingur sé í áhættuhópi þeirra sem fá MS sjúkdóminn. Flestir MS-einstaklingar gera sitt besta við að hjálpa öðrum og jafnframt eiga þeir erfitt með að segja nei og setja takmörk. Margir þeirra hafa ekki aðgang að tilfinningum líkt og í æsku; þriggja ára barn getur sagt nei. Birgitta talar um að gríðarlega mikilvægt sé að gera breytingar. Þar sem MS er krónískur sjúkdómur, er eitthvað sem viðheldur honum og því hollt að gera breytingar, þó ekki sé nema að færa til húsgögn á heimilinu.
Lyfjameðferð
Fyrir meðferðina skorti MS-einstaklinga mismunandi taugaboðefni og því er meðferðaráætlun með lyf mótuð sérstaklega fyrir hvern og einn. Í meðferðinni tóku þó allir daglega helstu amínósýrurnar og fengu B12 sprautur í vöðva en það hjálpar til við myndun taugaboðefna. Fleiri bætiefni og lyf voru gefin í sama tilgangi.
Um Birgittu
Birgitta hefur ekki tekið nein lyf síðustu 15 ár. Hún hlustar á líkamann og býr sjálf til þessi 4 taugaboðefni með hjálp bætiefna og vítamína. Hún hefur gerbreytt sínum lífstíl og hugarfari; hún á til að mynda mjög auðvelt með að tjá tilfinningar sínar og stundar reglulega hugleiðslu. Hugleiðslan hjálpar henni að vera í núinu og varðveita taugaboðefnin. Hún segir mikilvægt að stunda hreyfingu og teygjur en er ekki hrifin af erfiðum líkamsæfingum, sérstaklega þegar einstaklingur er í kasti. Hún segir að fylgni álags og MS sé meiri en í öðrum sjúkdómum. Því til stuðnings segir hún að samkvæmt rannsókn voru 65-70% einstaklinga með MS með þunglyndiseinkenni áður en þeir greindust.
Mín upplifun
Þessi leið er ekki lækning en hún sannfærir mig meðal annars um áhrif sálar á líkama og öfugt. Jafnframt geri ég mér grein fyrir mikilvægi þess að gera breytingar til að sporna við óhagstæðri þróun MS.
Höfundur Svavar S. Guðfinnsson árið 2007
Flokkar:Meðferðir