Inngangur.
Lengi hefur verið vitað að í krabbameinsæxlum finnst oft mikið af lifandi bakteríum og veirum. Svo virðist að þessar örverur kunni mæta vel við sig í þessum sjúka vef sem vissulega geti stafað af því að ónæmiskerfi sjúklingsins á þar erfiðara með að komast að þeim og útrýma. Nú hafa nokkrir vísindamenn fengið þá hugmynd að nota þessa tilhneigingu örveranna að sækja í að dveljast í nærveru krabbameinsfruma til að láta örverurnar vinna bug á illvígum krabbameinssjúkdómum.
Geta hættulegar örverur læknað krabbamein?
Vísindamaður að nafni Aldar Szalau veitir forstöðu hóp bandarískra og austurískra vísindamanna, sem uppgötvuðu fyrir tilviljun að stórhættulegar bakteríur eins og salmonella, kólera og listería eru færar um að leita uppi og finna krabbameinsæxli. Eftir að vísindamennirnir höfðu grætt í þessar bakteríur gen sem fékk þær til að senda frá sér nægilega sterkt ljós til að það sæist í gegnum kvið á krabbameinssjúkum tilraunamúsum, gátu vísindamennirnir fylgst með ferli bakteríanna í krabbameins-æxlum í lifandi músum. Notaðar voru bakteríur af veikluðum stofni, líkum þeim sem notaður er við að framleiða bóluefni. Þegar þessum bakteríum var sprautað í mýsnar var ónæmiskerfi þeirra því ekki lengi að finna þær og tortíma. Þó var ein undantekning á því. Djúpt inni í æxlunum komst ónæmiskerfið ekki að þeim og þar lýstu þær björtu ljósi og vísindamennirnir gátu fylgst með vexti æxlanna utanfrá. Salmonellu- og kólerubakteríur gátu þannig afhjúpað krabbameinsæxli allt niður í 7 mm í þvermál en veira meðhöndluð á sama hátt gat fundið æxli niður í 3 mm í þvermál.
Ári seinna eða 2004, sýndu vísindamenn við Hughes-læknisfræðistofnunina í Baltimore í Bandaríkjunum fram á að önnur stórhættuleg baktería getur ekki aðeins leitað uppi krabbameinsfrumur, heldur drepur hún þær einnig. Vísindamaðurinn Bert Vogelstein og samverkamenn hans notuðu hina stórvarasömu Clostridum-bakteríu sem er alræmd fyrir að spilla matvælum, sem leiðir af sér svokallaðan ,,botulisma“. Þeir notuðu veiklaða stofna af bakteríunni, sem gerðu þær óskaðlegar fyrir mýs og kanínur. Bakteríurnar gátu þrifist djúpt inni í krabbameinsæxlunum í þessum dýrum og þar drápu þær krabbameinsfrumurnar. Þó tókst þeim ekki að drepa krabbameins-frumurnar í ysta laginu á æxlinu, en engu að síður urðu þær svo veiklaðar að ónæmis-kerfi dýranna gat í mörgum tilfellum séð um að losa þær við afganginn. Tilraunirnar sýndu að Clostridum-bakteríurnar gátu læknað að fullu vel þriðjung tilraunamúsanna sem voru með krabbamein í þörmum og nýrum. Líkur árangur náðist við að lækna lifrarkrabbamein hjá kanínum.
Veikluð salmonella
Ennþá betri árangur náðist þó hjá fyrirtækinu Anticancerí San Diego í Kaliforníu á árinu 2005. Þar tókst að finna sérstakan stofn af salmonellu-bakteríu (salmonella typhimurium), sem getur drepið krabbameinsfrumur úr mönnum, án þess að skaða líkamann neitt um leið. Enn sem komið er hefur þetta aðeins verið prófað á músum og þessi salmonellustofn, A-1 hefur reynst þeim algerlega skaðlaus. Venjuleg salmonellusýking gengur hinsvegar oftast af músum dauðum á þremur dögum. Í mýsnar höfðu verið grædd krabbameinsæxli úr mönnum, brjósta eða blöðruhálskirtilskrabbamein og eftir ígræðsluna hafði salmonellu sýklum verið sprautað í dýrin.
Andstætt við það sem gerðist með Clostridumtilraunarinnar, réðust salmonella-bakteríurnar á allar krabbameinsfrumur og drápu þær. Salmonella stofninn A-1 er alveg einstæður. Hann ræðst aðeins á krabbameinsfrumur. Hann eltir uppi hverja einustu krabbameinsfrumu í æxlinu, þangað til allar eru dauðar. Því miður fannst þessi bakteríustofn fyrir algera tilviljun og vísindamenn vita því ekki hvaða genabreytingar valda þessum einstæða lækninga eiginleika. Því er ógerningur að yfirfæra þetta á aðrar bakteríur með gena- flutningi í bakteríur, sem e.t.v. mætti nota gegn annarskonar krabbameinum.
Óvissan veldur einnig örðugleikum í sambandi við tilraunir á fólki, því að ekki er hægt að sjá fyrir hugsanlegar aukaverkanir. Því eru aðrir vísindamenn að reyna að hanna nýjar örverur alveg frá grunni og hafa þær þá nákvæmlega eins og vísindamennirnir vilja að þær séu. Árið 2004 tókst vísindamönnum í Kaliforníu að fjarlægja vissa erfðavísa úr listerin-bakteríum, en það voru þeir erfðavísar sem gera þessar bakteríur afar hættulegar. Jafnframt tókst þeim að láta sömu bakteríu framleiða prótein sem myndast á yfirborði krabbameinsfruma.
Listeria sem bóluefni
Þar sem listeriu-bakterían (Listeria monocytagenes) er í eðli sínu heppileg til að örva ónæmiskerfið, virkar þetta erfðabeytta afbrigði, sem áður er lýst, sem einskonar bóluefni. Sé því sprautað í mýs með krabbamein í endaþarmi, fer ónæmiskerfið að ráðast á krabbameinsfrumurnar. Þessi meðferð læknaði mýsnar að vísu ekki en æxlin urðu minni og mýsnar lifðu lengur. Aðrir vísindamenn fóru að eiga við hættulegar veirur. Hugmynd þeirra var að þróa úr þeim áhrifaríkt vopn í baráttunni við krabbamein. Kah Whye Peng og félagar kenna við Mayo Clinic Collage í læknisfræði í Minnesota í Bandaríkjunum uppgötvuðu að veiklaður stofn mislingaveiru getur drepið krabbameinsfrumur, án þess að valda öðrum frumum líkamans neinum skaða. Þessi veiklaði frumustofn notar ákveðið prótein á yfirborði krabbameinsfrumanna eins og nokkurskonar dyr inn í krabbameinsfrumurnar, en þær mynda gnægð af þessu próteini. Veirurnar fjölga sér gríðarlega og hlaðast upp inn í krabbameinsfrumunum.
Enda þótt þessar veirur séu af veikluðum stofni drepast krabbameinsfrumurnar eigi að síður. Sumar þær mislingaveirur sem Kah Whye Peng hefur notað eru veirur sem notaðar eru til að bólusetja gegn mislingum. Hún hefur uppgötvað að sé sá skammtur sem notaður er til að bólusetja með gegn mislingum aukinn þúsundfalt, má nota sama bóluefnið sem krabbameinslyf. Niðurstöðurnar úr þessum rannsóknum og tilraunum eru svo jákvæðar að tilraunir eru nú hafnar á mönnum. Þó að enn sé ekki vitað um árangur af þeim tilraunum eru þó niðurstöður dýratilrauna svo lofandi að full ástæða er til bjartsýni og að innan fárra ára verði að lokum fullur sigur unnin á þessum vágesti.
Þessar frásagnir um að bakteríur eða veirur kunni að eiga þátt í eða geta læknað krabbamein leiðir hugann að rannsóknum og lækningartilraunum sem skurðlæknirinn William B. Coley framkvæmdi á árunum kringum 1900. Hann fór að sýkja dauðvona krabbameinssjúklinga með ákveðnum bakteríum og í sumum tilfellum læknuðust sjúklingarnir, þó að stundum yrði bakteríusýkingin þeim að aldurtila. Gæti hugsast að Coley hafi verið að geraþað sama og vísindamenn nútímans gera nú einni öld síðar? Heimildir:Lifandi vísindi nr. 5, 2006 og http://www.visindi.is og Heilsuhringurinn, vor 1998
Höfundur Ævar Jóhannesson.
Flokkar:Krabbamein