Náttúruvörur fá vaxandi viðurkenningu á mörkuðum

Verður íslensk ætihvönn meðal þekktustu lækningajurta í heiminum?

Fyrir nokkru vorum við hjónin á ferð í Þýskalandi. Ég notaði tækifærið eins og ég geri þegar ég er á ferðalögum erlendis til þess að fá tilfinningu fyrir stöðu náttúruvörumarkaðarins með því að skoða lyfja- og heilsuvöruverslanir. Við komum m.a. í lyfjaverslun og tókum eigandann tali en hann var lyfjafræðingur. Við spurðum hann að því hvað hann ráðlegði við vandamálum í blöðruhálskirtli.

Lyfjafræðingurinn setti á borðið nokkrar tegundir lyfja og fæðubótarefna.Við spurðum hvaða vöru hann mælti með og benti lyfjafræðingurinn á vöru sem var fæðubótarefni. Við spurðum af hverju hann mælti frekar með þessar vöru en lyfjum og var svarið að samkvæmt reynslu teldi hann að þessi vara hefði reynst best fyrir viðskiptavini hans. Dóttir okkar hjóna sem hefur búið sjö ár í Þýskalandi segist aldrei hafa fengið uppáskrift um lyf þegar hún hafi farið til læknis heldur náttúruvörur.

Fræðsla um náttúruvörur er hluti af lækna- og lyfjafræðinámi í Þýskalandi. Fæðubótarefni eru hluti af náttúruvörum. Náttúruvörur eru vörur með lífvirk efni sem eru framleiddar úr náttúrulegum efnum en ekki efnafræðilega samsettar í verksmiðjum. Samkvæmt skilgreiningu  Umhverfisstofnunar eru fæðubótarefni matvæli sem eru ætluð sem viðbót við venjulegt fæði og eru með hátt hlutfall af vítamínum, steinefnum eða annars konar efnum sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif. Dæmi um fæðubótarefni eru lýsi, fjölvítamín, jurtir eða efni unnin úr jurtum og próteinduft. Náttúruvörumarkaðurinn í Evrópu er mjög stór og veltan talin um 300 milljarðar króna á ári. Það er athyglisvert að fólksfjöldi í hverju landi segir ekki allt um stærð markaðarins.

Hlutdeild Fólksfjöldi í markaðarar milljónum íbúa
Þýskaland 47% 82.5
Frakkland 27% 61.0
Ítalía 6% 59.1
Bretland 6% 60.0
Pólland 5% 38.0
Spánn 3% 44.0
Belgía 2% 10.5
Önnur lönd 4% 10.5
Samtals 100%

Eins og sést á ofangreindum tölum er nærri helmingur náttúrvara í Evrópu seldur í Þýskalandi, um þriðjungur í Frakklandi en í þessum löndum er mikil hefð fyrir notkun náttúruvara. Þrátt fyrir að á Ítalíu, Bretlandi og Frakklandi búi svipaður mannfjöldi er sala í þessum löndum ekki nema um fjórðungur af sölunni í Frakklandi. Opinberar tölur um sölu náttúruvara á Íslandi eru ekki fyrirliggjandi en innflutningstölur eru skráðar í marga ólíka tollflokka. Neysla Íslendinga á náttúruvörum er talin vera mjög há. Erlendir framleiðendur sem selja náttúruvörur til Íslands og ég hef hitt hafa sagt mér að ef þeir seldu jafnmikið af framleiðsluvörum sínum á heimamarkaði og þeir gera á íslenska markaðnum yrði um metsölu að ræða. SagaMedica er í samstarfi við erlenda dreifendur en fyrirtækið er að hefja útflutning á vörum fyrirtækisins. Erlendu umboðsmennirnir segja að miðað við fólksfjölda nái þeir ekki því magni í almennri dreifingu í vörum sínum og SagaMedica nær í sölu eigin vara á Íslandi. Gera má ráð fyrir að íslenskur náttúruvöru markaður geti numið 300 til 400 milljónum króna. Stærstur hluti þessara vara er innfluttur.

Ástæður fyrir vaxandi áhuga á náttúruvörum í heiminum eru m.a. taldar eftirfarandi:
• Aukinn trúverðugleiki greinarinnar vegna aukinna rannsókna sem styðja fullyrðingar um virkni.
• Auknar kröfur til framleiðenda um gæði í framleiðslu og staðfestingar á virkni.
• Aukinn áhugi á fyrirbyggjandi aðgerðum en ekki aðeins eftirá lækningar.
• Hækkandi meðalaldur fólks sem leitar eftir betri líðan.
• Aukinn áhugi lækna og skilningur á náttúruvörum sem viðbótarlækningum (complementry) í stað óhefðbundinna (alternative) lækninga
• Aukin jákvæð opin umræða um náttúruvörur.
• Leið til kostnaðarlækkunar vegna vaxandi heilbrigðiskostnaðar.
• Vaxandi áhyggjur vegna aukaverkana lyfja.

Miklar breytingar eru að verða á viðhorfum Vesturlandabúa til notkunar náttúruvara og fæðubótarefna. Nú er t.d. orðið mun algengara að heyra rætt um viðbótarlækningar (complimentary medicine) í stað óhefðbundinna lækninga (alternative medicine). Stækkandi hópur er ekki lengur annað hvort með eða móti viðbótarlækningum. Stöðugt fleiri viðurkenna að viðbótarlækningar og hefðbundnar lækningar eigi samleið og meðferðirnar styðji hvor aðra.

Upplýsingaleit með aðgengi neytenda að veraldarvefnum hefur gjörbreytt öllum möguleikum til upplýsinga. Mikilvægt er samt að hafa í huga að ekki er allt sannleikur sem lesið er á vefnum. Stjórnendur heilsuvöruverslana hafa sagt mér að með tilkomu veraldarvefsins hafi fólk orðin mun upplýstara og í vaxandi mæli komið með upplýsingar sem það hafi aflað á netinu með beiðni um tilteknar náttúruvörur til lausnar ákveðnum heilsufarsvandamálum. Íslendingar hafa langa hefð fyrir notkun náttúruvara. Þekktustu íslensku lækningajurtirnar eru fjallagrös og ætihvönn.

Fáar lækningajurtir eru taldar eiga uppruna sinn á norðurhveli jarðar en flestar eru þær upprunnar sunnar á jörðinni.. Dr. Sigmundur heldur því fram að í framtíðinni muni vísindamenn ekki síður leita eftir virkum lækningajurtum á norðurhveli jarðar en á suðurhveli. Jurtir norðursins þurfa ekki síður að berjast við harðræði og mynda sér varnarvopn en jurtir í frumskógunum en umhverfi norðursins er hreinna.

Ætihvönn er talin vera ein af fáum lækningajurtum sem eiga uppruna sinn á norðurhveli jarðar. Er hún talin hafa átt uppruna sinni í Kákasusfjöllum fyrir milljónum ára og haldið sig á norðurslóðum. Sumir vilja halda því fram að hún hafi einnig haldið suður á bóginn og þaðan sé hvönnin í Suður-Evrópu upprunnin. Norræna hvönnin var á víkingatímum talin mun virkari en sú sem óx í Evrópu en þurrkaðar hvannarætur voru verslunarvara á Norðurlöndum fyrir landnám Íslands og eftir að Íslands byggðist og allt fram í 15. öld. Meðal annars notuðu víkingar þurrkaðar hvannarætur sem gjaldmiðil.

Áhugi fyrir íslensku ætihvönninni hefur ekki verið mikill undanfarna áratugi og flestir líta á ætihvönn sem illgresi. Það var ekki fyrr en dr. Sigmundur Guðbjarnason prófessor og fyrrum rektor við Háskóla Íslands hóf að rannsaka ætihvönnina og virkni hennar fyrir 14 árum að vegur þessarar lækningajurtar hefur aftur farið vaxandi. Sigmundur ásamt samstarfsmanni sínum Steinþóri Sigurðssyni lífefnafræðingi og fleiri vísindamönnum hafa rannsakað ætihvönnina og fleiri íslenskar lækningajurtir.

Þeir hafa rannsakað ætihvönnina, skilgreint efnasambönd, kannað virkni og leitað margvíslegra upplýsinga um rannsóknir erlendra vísindamanna á virkni þeirra efna sem þeir hafa skilgreint í lækningajurtunum. Margt merkilegt hefur komið í ljós og stöðugt er verið að afla nýrra upplýsinga. Víða um heim er verið að rannsaka lækningajurtir og möguleg áhrif þeirra bæði til lækninga og sem fyrirbyggjandi fyrir ýmsa sjúkdóma. Er óhætt að fullyrða að niðurstöður þeirra rannsókna bæði hérlendis og erlendis gefa fullt tilefni til þess að ætla að íslensk ætihvönn gæti með tíð og tíma komist í hóp merkilegri lækningajurta í heiminum.

Náttúruvörur eru tortryggðar af mörgum. Oft er vitnað til samanburðarathugana sem gerðar hafa verið á náttúruvörum frá mismunandi framleiðendum sem sýna misvísandi virkni. Er þá gjarna sagt að framleiðendur séu að blekkja neytendur. Hér geta komið til ýmsar ástæður. Hráefnið getur verið misjafn t.d. eru til margar tegundir af sólhatti og þær ekki allar jafn virkar. Sama á við um Aloa Vera. Framleiðendur ráða ekki allir yfir tækni til þess að mæla virkni eftir að varan er tilbúin. Við hjá SagaMedica komumst t.d. að því þegar við vorum að þróa SagaPro að þótt virkni hráefnisins mældist 100% þegar það fór í tilraunavinnslu tók það vísindamennina marga mánuði að þróa framleiðsluaðferðir sem héldu fullri virkni hráefnisins í fullunninni vöru. Hver framleiðslulota hjá SagaMedica er mæld sérstaklega og stöðluð til þess að tryggja að virkni sé í samræmi við lofað innihald.

Þar sem verið er að vinna náttúruvörum stuðning skiptir miklu máli trúverðugleiki þeirra sem standa að baki vísindalegum rannsóknum varanna. Sá sem þessa grein ritar hefur starfað með þeim dr. Sigmundi og Steinþóri í SagaMedica-Heilsujurtum ehf. undanfarin 6 ár. Ég hef orðið var við að mörgum finnst dr. Sigmundur, sem er með þekktari íslenskum vísindamönnum í alþjóðlegu vísindasamfélagi, vera að taka niður fyrir sig með því að rannsaka ogvinna að framgangi náttúruvara. Sigmundur hefur engar áhyggjur af því sjálfur. Þegar hann fyrir 25 árum var í fremstu röð þeirra sem rannsökuðu áhrif Omega-3 í lýsi í samstarfi við Lýsi hf. var hann t.d. á ráðstefnu í Finnlandi kallaður fisksalinn frá Ísland af bandarískum prófessor.

Engum dettur nú í hug að véfengja mikilvægi þeirra rannsókna sem gerðu  lýsið og Omega fitusýrur að þeim viðurkenndu alþjóðlegu heilsuvörum sem þær eru í dag. Sigmundur segist vera sannfærður um að náttúruvörur munu fá sömu viðurkenningu með tíð og tíma en hann vonar aðeins að það taki skemmri tíma en það tók að afla lýsinu viðurkenningu. Að hafa vísindamann eins og Sigmund í forsvari fyrir rannsóknum á sviði náttúrvara skiptir ekki aðeins miklu máli fyrir fyrirtækið SagaMedica-Heilsujurtir ehf. heldur ekki síður náttúruvörugreinina í heild sinni.

SagaMedica er með þrját vörur á innlendum markaði. Angelica jurtaveig sem markaðsett er sem orkuaukandi og fyrirbyggjandi fyrir kvef. Því má segja að hún komi í stað tveggja náttúruvara sem ætlað er að virka á þessa þætti yfirleitt hver í sínu lagi. Verið er að undirbúa framleiðslu á Angelicu töflum. VOXIS hálstöflur eru við særindum í hálsi og opnar upp í nef. Mikilvægasta söluvara SagaMedica nú er SagaPro sem hefur verið á innlendum markaði í eitt og hálf ár og verið er að hefja útflutning á til Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar. SagaPro er dæmi um það hvernig náttúruvara (fæðubótarefni) hefur komið neytendum til hjálpar í vaxandi heilsufarsvandamáli.

Góðkynja stækkun blöðruhálskirtils er mjög algeng hjá karlmönnum þegar þeir eldast og er vaxandi vandamál eftir fimmtugt. Talið er að um 50 ára aldur hrjái þetta vandamál um 50% karlmanna og fari síðan vaxandi með aldri þannig að um 70 ára aldur hrjái það um 70% karla. Miðað við núverandi aldursdreifingu þjóðarinnar ættu um 25 þúsund íslenskir karlmenn að vera með blöðruhálskirtilsvandamál af einhverju tagi.

Ekki er ljóst hvað veldur þessari stækkun en ýmsar tilgátur hafa verið settar fram, t.d. að stækkunin sé afleiðing þrálátrar bólgu af völdum baktería eða veira. Nýlega hefur veirutegund fundist í krabbameinsæxli úr blöðruhálskirtli en þessi veira hefur ekki fundist í mönnum áður. Þessar niðurstöður munu örva mjög leit að orsökum þessa meins. Þeir sem fara að finna fyrir tíðum þvaglátum á nóttu ættu að leita til læknis og fá vissu fyrir því að ekki sé um að ræða krabbamein í blöðruhálskirtli heldur meinlitla en hvimleiða góðkynja stækkun á kirtlinum.

Rannsóknir dr. Sigmundar og Steinþórs á ætihvönn leiddu til þess að efni sem greind voru í hvönninni voru talin geta haft mjög jákvæð áhrif á líðan manna sem glíma við þessi tíðu þvaglát og fækka þvaglátum. Nokkrir einstaklingar sem áttu við þetta vandamál að stríða óskuðu eftir að fá að reyna þetta fæðubótarefni til þess að finna hvort þau höfðu áhrif. Fyrst var þessi nýja vara reynd í vökvaformi áður en þróun taflna hófst. Það sýndi sig að varan sem síðar fékk vöruheitið SagaPro sýndi strax góða virkni og þeir sem tóku vöruna gátu fækkað salernisferðum á nóttunni.

Ekki er alveg ljóst hvernig þessi efni virka en flavonoidar hafa fjölþætta virkni sem geta hugsanlega útskýrt þessi áhrif sem veitir mönnum betri svefn og hvíld. Fjölmargir karlmenn hafa samband við okkur og spurt um SagaPro. Algengt er að menn sem hafa tekið lyf við þessu vandamáli kvarti yfir aukaverkunum lyfja sem þeir taka og eru að leita að einhverju öðru sem getur hjálpað. Við leggjum áherslu á að SagaPro sé ekki lyf heldur fæðubótarefni og komi alls ekki í stað lyfja. Við ráðleggjum jafnan að haft sé náið samráð við lækni ef menn vilja gera breytingar á meðferð.

Þeim sem vilja hefja meðferð og finna fyrir tíðum þvaglátum á nóttu ráðleggjum við að leita til læknis. Það er von okkar að hægt verði að hefja athuganir á SagaPro með samanburðarhópum þegar bæði fjármagn og vilji lækna til samstarfs liggur fyrir en hvor tveggja hefur skort til þessa. SagaPro léttir mörgum karlmanninum lífið og sparar einnig almannatryggingum útgjöld. Neytendur greiða svipað fyrir mánaðaskammt af SagaPro og algeng lyf við sömu blöðruhálskirtilsvandamálum en hlutur hins opinbera sem er umtalsverur hluti af smásöluverðinu sparast.

Ný reynsla er komin á notkun SagaPro í eitt og hálft ár og eru ýmis viðbótar notagildi að koma í ljós. SagaPro virðist einnig gagnast konum sem þurfa að vakna á nóttunni vegna salernisferða. SagaPro dregur úr bólgu í blöðruhálskirtli. Fram hafa komið vísbendingar um að SagaPro virki á fleiri tegundir af bólgu. Undanfarið hafa komið fram einstaklingar sem hafa verið illa haldnir af liðagigt, sérstaklega í úlnliðum fyrst á morgnana. Segja þeir að eftir að hafa tekið SagaPro í nokkra daga hafi líðan þeirra verið allt önnur og betri. Þetta þarf að rannsaka frekar.

Það er ljóst af framansögðu að náttúruvörumarkaðurinn í heiminum er stór og hann mun fara vaxandi. Hér eru tækifæri fyrir íslenskan iðnað bæði til þess að spara innflutning og einnig til tekjuöflunar erlendis. Samkeppni er hörð á erlendum mörkuðum og til þess að ná árangri þarf að hafa góða vöru og geta skapað sér sérstöðu í markaðssetningu. Markaðssetning SagaMedica vara er grundvölluð á sérstöðu og hollustu íslenskra og norrænna lækningajurta og umfangsmiklum rannsóknum bæði í vöruþróun og framleiðslu.

SagaPro hefur alla möguleika til þess að verða merkisberi í hópi nýrrar og alþjóðlegrar SagaMedica vörulínu úr íslenskum lækningajurtum. Fjöldi hugmynda er í þróun eða bíður úrvinnslu, bæði minnistöflur og magatöflur svo að eitthvað sé nefnt. Von stjórnenda SagaMedica-Heilsujurta ehf. er að innan ekki langs tíma muni lyfsalinn í Þýskalandi sem sagt var frá hér í upphafi verða í hópi þeirra fjölmörgu sem leiðbeina neytendum um kaup á náttúruefnum og bjóða SagaPro fram sem besta fæðubótarefnið við blöðruhálskirtilsvandamálum. Jafnframt yrði þá bent á að vörur SagaMedica séu góðar vörur vegna þess að SagaMedica vörumerkið tryggi gæði hráefnis, öryggi í framleiðslu og gagnsemi í notkun.

Höfundur : Þráinn Þorvaldsson framkvæmdastjóri SagaMedica árið 2006



Flokkar:Annað, Kynningar

%d bloggers like this: