Umhverfi og heilsa

Við sem búum í borg höfum flest orðið vör við hversu gott það er að fara út í náttúruna og vinda ofan af okkur eftir amstur dagsins. Upplifa hvernig hægt er að gleyma sér í fallegu umhverfi, við fuglasöng og gróðurangan og finna líkama og sál fyllast orku. Náttúrulegt umhverfi ætti því ekki síst að hafa góð áhrif á sjúka einstaklinga. Þeir sem dvelja á sjúkrastofnunum og aðrir sem ekki eiga hægt með að komast leiðar sinnar ættu því ekki að vera án náttúrulegs umhverfis.

Lækningamáttur náttúrulegs umhverfis
Florence Nightengale, konan með lampann, lagði áherslu á að sjúklingar kæmust út í sólina og ferska loftið og að þeir hefði útsýni yfir náttúruna bæði utan húss og innan. Á miðöldum voru sjúkrahúsin oft tengd klaustrum. Lækningajurtir og margt fleira var ræktað í klausturgörðunum og sjúklingarnir nutu þeirra og umhverfisins. Greinilega hefur einhver vitneskja verið þá um áhrif umhverfis á heilsu. Á 20. öldinni í kjölfar tækninýjunga á sviði lyfja og læknisfræði hefur þessi vitneskja gufað upp. Steinsteypt sjúkrahús voru byggð upp á við og umhverfið í kringum byggingarnar eru kuldaleg bílastæði.

Álitið var að lyf og aðgerðir væri eina lækningin en gengið var fram hjá lækningamætti náttúrunnar. Síðastliðin ár hafa þessi viðhorf verið að breytast og starfsfólk heilbrigðisstéttarinnar að vakna til vitundar um aukið gildi náttúrulegs landslags og áhrifamátt þess á sjúklinga. Ráðstefnan Umhverfi og heilsa var haldin þann 23. apríl sl. og stóð tímaritið Sumarhúsið og garðurinn fyrir henni í samvinnu við Landlæknisembættið. Á ráðstefnunni voru meðal annars þessir áhugaverðu fyrirlestrar:

Heilsugarðar á sjúkrahúsum
Clare Cooper-Marcus er prófessor við arkitekta- og landslags arkitektadeildina við Berkeleyháskólann í Kaliforníu. Hún er einnig forstöðumaður rágjafafyrirtækis sem sérhæfir sig í hönnun og mati á ytra og innra umhverfi heilbrigðisbygginga. Cooper-Marcus sagði að rannsóknir sýndu að aðgengi að náttúrulegu umhverfi, útsýni yfir gróður, vatnsniður, fuglasöngur, stofublóm eða mynd af landslagi hefði góð áhrif á heilsu og gæti flýtt fyrir bata. Það hefði einnig góð áhrif á starfsfólk sjúkrahúsa og vistheimila og minnkaði álagseinkenni og blóðþrýsting og sjúklingar sættu sig betur við ólæknandi sjúkdóma. Einnig væri gott fyrir aðstandendur að geta dvalist í /notalegu umhverfi. Hún sagði að innigarðar (garðskálar) væru mikilvægir hér á landi.

Heilsa og endurnæring
Anna Bengtsson landslagsarkitekt og doktorsnemi við Landbúnaðarháskólann í Alnarp í Svíþjóð fjallaði um rannsóknir sínar á umhverfi við vistheimili aldraðra. Hún benti á að útivera eldri borgara hefði góð áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Þunglyndi og svefnleysi minnkaði og álagsþol ykist. Bengtson sagði að það skiptu miklu máli að skipuleggja umhverfið eftir þörfum vistmanna. Það ætti að vera auðvelt að ganga um svæðið t.d. með göngugrindur, hafa bekki sem ekki er of langt á milli, upphækkuð beð fyrir matjurtir, gott skjól og plöntur sem vistmenn þekktu. Miklu skipti að umhverfið örvaði sem flest skilningarvit t.d. með því að aðgengi að plöntunum væri gott (lykt, þreifing).

Heilsugarðurinn í Alnarp
Liselott Lindford er landslagsverkfræðingur og endurhæfingarfulltrúi heilsugarðsins í Alnarp sem hefur verið starfræktur síðan árið 2001. Hann er þverfagleg samvinna fagfólks á garðyrkju- og heilbrigðissviði. Markhópur garðsins eru einstaklingar sem hafa fengið læknisfræðilegu sjúkdómsgreininguna „út brennd/ur“ eða „kulnun“ í starfi og hafa ekki náð bata með hefðbundnum lækningaaðferðum og er búnir að vera frá vinnu í eitt til þrjú ár. Einnig er þarna fólk sem þjáist af síþreytu, fjölvefjagigt, þunglyndi, hálsáverkjum og bakverkjum.

Hóparnir skiptast í tvennt, þeir sem vinna við garðyrkjuna (iðjuþjálfun) og þeir sem njóta umhverfisins (nærvera, þreifing, lykt, sjón, ganga og smökkun). Lindfors sagði að það væri mikilvægt að vita hvenær ætti að hvíla sig, vinnan hlypi ekki frá okkur þótt við tækjum hlé. Það væri tíminn í dag sem skipti máli! Þeir sem hafa notið endurhæfingarinnar segja að gróðurumhverfið hafi átt stóran þátt í að þeir fundu lífsgleðina aftur og gátu hafið störf á ný.

Áhrif umhverfis á vellíðan barna
Kristín Þorleifsdóttir er landslagsarkitekt í doktorsnámi í North Carolina State University. Ritgerðin hennar fjallar um áhrif hverfaskipulags á hreyfingu barna. Kristín talaði um mikilvægi góðrar hönnunar hverfa og áhrif þess á börn og að börn vildu frekar leika sér á villtum svæðum fremur en ofhönnuðum leiksvæðum. Hún fjallaði um skólalóðir og sagði að þær versnuðu eftir því sem börnin yrðu eldri því 90% framhaldsskólalóða væru bílastæði. Aðalástæða offitu barna væru hreyfingarleysi og áhrifaþættir þess væru lengri vinnudagur, tæknivæðing, of skipulagt líf (dagskráin), ofverndun og „skutlið“.

Náttúran á að vera val
Anna Björg Aradóttir yfirhjúkrunarfræðingur og sviðstjóri gæða- og lýðheilsusviðs Landlæknisembættisins átti lokaorðin á ráðstefnunni. Hún er með M.Sc. gráðu í hjúkrun og meistaraverkefni hennar fjallaði um tengsl mataræðis skólabarna við mat þeirra á heilsu, líðan í skóla og námsárangur. Hún sagði að jákvætt lífsviðhorf bætti heilsuna og að við hefðum öll val og gætum haft áhrif á heilbrigði okkar. Náttúran ætti að vera val jafnt á sjúkrastofnunum sem og annarstaðar. Hún sagði að manninum væri það eðlislægt að hafa samband við náttúruna og við ættum að kenna börnunum að umgangast og virða náttúruna.

Ráðstefnan
Hugmyndina að þessari ráðstefnu áttu þær stöllur Auður I. Ottesen, garðyrkjufræðingur og ritstjóri tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn og Anna María Pálsdótttir garðyrkjusérfræðingur. Anna María er nemi í faginu náttúra, heilsa og gróður í landslagsarkitektadeildinni í Landbúnaðarháskólanum í Alnarp. Mastersverkefni hennar heitir Heiðmörk, heilsa og skógrækt og fjallar um hvernig útivera og gróður hafa áhrif á vellíðan og var hún ein af þeim sem hélt erindi á ráðstefnunni. Auður hefur mikið verið að velta fyrir sér umhverfi sjúkrahúsa og vistheimila aldraðra undanfarin ár. Sonur hennar lenti í alvarlegu bílslysi og hefur dvalist mikið á sjúkrastofnunum.

Móðir hennar var í hjólastól en stundaði garðyrkju fram á síðasta dag með sínum grænu fingrum. Faðir Auðar sem dvelst nú á Hrafnistu hefur mikla ánægju af því að rækta og hlúa að ýmis konar jurtum í pottum. Þær Auður og Anna María hafa verið í daglegu sambandi á milli landa og var þessi ráðstefna árangurinn af þeirra góða spjalli. Ráðstefnan tókst í alla staði mjög vel og var þátttakan mjög góð. Þetta lofsverða framtak verður vonandi til þess að við opnum augu okkar fyrir mikilvægi náttúrulegs umhverfis og þá ekki síst við sjúkrastofnanir og vistheimili. Og öll munum við njóta góðs af.

Höfundur: Guðbjörg Garðarsdóttir garðyrkjufræðingur árið 2006Flokkar:Umhverfið

%d bloggers like this: