Hvítan er lifandi skjár

Í Kína hafa fundist yfir 1000 ára gömul kort af hvítum augans þar sem hinar ýmsu æðar og línur hafa verið teiknaðar til merkis um álag á líffæri eða líffærakerfi. Það er í raun undrunarefni að ekki skuli bera meira á augnvísindum í heimi læknisfræðinnar og heilsugæslu almennt því hvítan er sannarlega lifandi skjár.

Nútíma vísindi hvítufræða hafa tekið miklum framförum í gegnum rannsóknir á síðustu öld en helstu forkólfar eru í Bandaríkjunum. Í hvítunni má finna upplýsingar sem bæði eru aðgengilegar og gagnlegar. Það krefst ekki sérstaks tæknibúnaðar að sjá helstu liti og merki augans og þeir sem vilja nota hvítugreiningu sem stuðningstæki geta einfaldlega gluggað í hvítuna með eða án stækkunarglers. Þeir sem starfa við augngreiningu nota þó oftast myndavél sér til hægðarauka. Stafrænar ljósmyndir eru teknar af litunni og öllum fjórum hliðum hvítunnar, samtals 10 myndir,sem síðan eru settar í tölvu þar sem þær eru skoðaðar gaumgæfilega.

Í hvítugreiningu er lesið í liti hvítunnar, hvort hún er hvít, gulleit eða blá. Það er þó mest rýnt í hinar rauðu æðar hvítunnar sem við sjáum eflaust oft bregða fyrir í augunum. Hvítan er líka kortlögð eins og lithimnan og því skiptir máli hvar æðar eiga upptök sín, í hvaða líffærum, hvaða leið þær fara og hvernig þær líta út; hvort þær eru hlykkjóttar, beinar, mjóar eða sverar. Einnig skiptir litur æðanna máli, þær sem liggja dýpra eru dökkrauðar og tengjast líffærum en þær sem eru ljósrauðar og liggja ofar í hvítunni eru tengdar huglægum og tilfinningalegum þáttum.

Þegar alvarlegir sjúkdómar eru í uppsiglingu gefur hvítan einnig alvarleg merki sem eru öðruvísi en hefðbundin álagsmerki. Hvítan gefur líka til kynna áhrif eiturefna á líffæri og ef aðskotadýr hafa tekið sér bólfestu í líkamanum. Það krefst æfingar að sjá og sundurgreina merkin og átta sig á því hvar upptökin liggja, hvort líffæri eða tilfinningar eru undir miklu álagi og hvaða afleiðingar það hefur á líkamann. Hver og ein hvíta er skrásett saga, og það er mjög athyglisvert að skoða hvítur.

Hægt er að sjá veikleika eins og t.d. álag á kransæðar hjartans löngu áður en nokkur einkenni koma fram og hvítan sýnir nokkur mismunandi merki vegna álags á hjarta og æðakerfi. Ef óeðlileg vefjamyndun á sér stað kemur það einnig fram í hvítunni. Merki um það eru mismunandi en öll eiga þau það sameinginlegt að sýna afbrigðilega starfsemi og því eru merkin líka nokkuð afbrigðileg eins og afklipptir stubbar eða hálfmánar sem aðeins sjást undir sérstökum kringumstæðum. Það er vissulega mikill kostur að geta gripið inní óeðlilega starfsemi líkamans sem fyrst áður en sjúkdómar ná að þróast til meiri alvöru. Það er jú eitt mikilvægasta hlutverk græðara að sjá bak við sjúkdóma og geta stutt raunverulega heilsugæslu og gripið í taumana áður en í óefni er komið.

Hvítugreining er góð viðbót við aðrar greiningaraðferðir og er sérlega góð viðbót við lithimnugreiningu sem segir okkur meira um eðli og líkamsgerð einstaklings á meðan hvítan sýnir frekar stöðuna hér og nú. Hvítugreining hentar vel öllum sem vinna við heilsu s.s. læknum, nuddurum, kírópraktorum, hómópötum, grasalæknum og næringarfræðingum.

Upplýsingar sem koma fram í augunum eru oft margslungnar en bakgrunnsupplýsingar um manneskjuna t.d. um heilsukvilla geta hjálpað manni að sjá samhengi og finna hvar helstu orsakir veikleikanna liggja. Dr. Leonard Mehmauer, einn fremsti hvítufræðingur heims hefur kennt hvítugreiningu á Íslandi og á hann að baki margra áratuga reynslu við náttúrulækningar. Síðustu tíu ár hefur Dr. Leonard einbeitt sér að rannsóknum og kennslu en hægt er að gerast áskrifandi að fræðsluefni í gegnum gm@grandmedicine. com sjá einnig http://www.eyology.com

Grein frá árinu 2006. Höfundur Lilja Oddsdóttir lithimnufræðingur.lithimnugreining@gmail.com   Sjá fleiri greinar um liithimnugreiningu á: www.heilsuhringurinn.isFlokkar:Greinar og viðtöl

%d