Úr einu í annað haust 2005

Hér fara á eftir 4 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru eftirfarndi:

  • Efni sem hindrar ofnæmi.
  • Efni í lesitíni fækkar sennilega hjartaáföllum.
  • Vinsælt lyf við brjóstakrabba getur örvað æxlisvöxt.
  • Börkur af víði jafngott gigtarlyf og Vioxx.

Efni sem hindrar ofnæmi.

Læknirinn Alan R. Gaby segir í ágúst-september blaði Townsend Letter for Doctors and Patients, frá 35 börnum með ofnæmistengdan húðsjúkdóm, sem fæðuofnæmi olli, en gerð var tilraun með að lækna hann með efninu Cromolin natrium, öðru nafni Natrium cromoglycat. Byrjað var á að gefa þeim 100 mg á dag, sem síðar var aukið í 200-600 mg á dag, smátt og smátt, eftir einstaklingsbundnum viðbrögðum hvers og eins þeirra. Meðhöndlunin dró úr húðvandamálum þeirra og kom í veg fyrir viðbrögð við fæðu sem áður olli ofnæmisviðbrögðum. Í flestum  tilfellum sást árangur innan tveggja vikna. Hversu mikið þurfti að nota af efninu til að árangur yrði, var breytilegt eftir einstaklingum og gagnslaust er að nota cromolin við sjúklinga með hækkað IgG4 í blóði. Cromolin eða cromoglycat er alls ekki nýlega uppgötvað, þó að það hafi frekar lítið verið í umræðu nú að undanförnu.

Í greinarflokki um ofnæmi sem ég skrifaði fyrir hátt í tveimur áratugum, man ég að ég sagði frá þessu efni og sennilega hefur verið hægt að fá það í lyfjabúðum þá og er e.t.v. ennþá. Þetta er tilbúið efnasamband úr tveimur sameindum og flavon-efninu kversetin (quercetin), sem er mjög vel þekkt og hefur m.a. verið notað ásamt fleiri flavon-efnum gegn krabbameini. Cromolin hefur í mörgum rannsóknum og tilraunum í nokkra áratugi, sannað að það kemur í veg fyrir að viss efnasambönd myndist við ofnæmisviðbrögð, t.d. í meltingarfærunum og er því sérlega heppilegt við fæðuofnæmi, þó að það verki raunar um allan líkamann. Vegna þess að cromolin læknar ekki ofnæmi, heldur dregur úr ofnæmiseinkennum, er æskilegt að reyna að forðast ofnæmisvaldana eftir föngum, sérstaklega í fæðu. Sumir telja að langvarandi notkun á cromolin smá dragi úr að viss fæða valdi ofnæmisviðbrögðum hjá þeim einstaklingi, á líkan hátt og verður þegar hætt er að nota fæðu sem veldur ofnæmi. Nokkrir hafa prófað að nota flavon-efnið kversetin í stað cromolin. Ennþá eru þó engar vísindalegar rannsóknir handbærar sem sanna hvort kversetin sé jafn gott ofnæmislyf og cromolin, þó að það sé vel hugsanlegt. Æ.J.

Efni í lesitíni fækkar sennilega hjartaáföllum
Vitað er að mikið af amínósýrunni hómócystein í blóði er mikill áhættuþáttur fyrir að fá hjarta- eða heilaáfall. Þetta stafar af því að hómócystein stuðlar að oxun á kólesteróli í blóðinu og það er fyrst og fremst oxað kólesteról sem sest innan í slagæðar og veldur ótímabærri hrörnun æðakerfisins. Lengi hefur verið vitað að skortur á fólinsýru, B6 og B12 vítamínum, veldur því að hómócystein í blóði safnast upp í stað þess að breytast aftur í amínósýruna meþíonin, sem hómócystein hefur áður orðið til úr. Meþíonin er ein af ómissandi amínósýrunum og finnst m.a. í kjötvörum og ýmsum öðrum mat. Þetta höfum við í Heilsuhringnum oft bent lesendum á og hvatt fólk til að láta sig ekki vanta þessi bætiefni Nú hefur verið upplýst að þetta er ekki eina leiðin til að breyta hómócystein aftur í meþíonin. Efnið betaín myndast í líkamanum úr vítamínlíka efninu kólín, sem fæst úr sumum mat. T.d. er gnægð af kólín í lesitíni, sem mjög mikið er af í eggjarauðu.

Því ætti, samkvæmt þessu, að vera mjög hollt fyrir fólk með mikið kólesteról í blóði að borða mikið af eggjum, þvert ofan í ráðleggingar margra sérfræðinga, að varast að nota mat sem notuð eru í egg eða eggjarauður, t.d. majones. Lesitín fæst einnig úr heilkorni, baunum og reyndar flestum náttúrlegum matvælum, því að lesitín er ómissandi grundvallarefni í öllum frumuhimnum. Hreint lesitín, hentugt við matreiðslu eða sem fæðubótarefni, fæst í verslunum með heilsuvörur. Einnig fæst lesitín í belgjum fyrir þá sem heldur kjósa að nota það í því formi, en þá fyrir hærra verð, því að lesitíngrjón í stórum pakkningum eru frekar ódýr miðað við belgina. Sérfræðingar telja að lesitín, kólín eða betaín séu jafnvel virkari efni til að lækka kómócystein í blóði heldur en fólínsýra en best er vafalaust að hvorugt efnið vanti. Þessar upplýsingar staðfesta þá trú margra, að lesitín sé afar hollt fyrir hjartað og æðakerfið. Einnig segir þetta okkur að hollusta og næringargildi heilkorna matvöru er ósambærileg við unna kornvöru, þar sem m.a. nálega allt lesitín hefur annað hvort verið tekið úr kornvörunni eða eyðilagt með oxandi bleikiefnum. Þessar upplýsingar eru fengnar úr greinarstúf eftir Alan R. Gaby lækni, Townsend Letter for Doctors and Patients, ág.-sept. 2005. Æ.J.

Vinsælt lyf við brjóstakrabba getur örvað æxlisvöxt
Lyf sem meira en helmingur allra brjóstakrabbameinssjúklinga fá ávísað getur í sumum tilfellum örvað vöxt æxlis og aukið líkur á því að viðkomandi veikist að nýju af sjúkdómnum, að því er fram kemur í niðurstöðum sænskrar rannsóknar. Lyfið, sem heitir tamoxifen, hefur mikið verið notað til þess að vinna gegn brjóstakrabbameini, en það kom fyrst á markað á áttunda áratugnum. Lyfið binst viðtaka estrógens í krabbameinsfrumum svo að estrógen getur ekki bundist viðtaka sínum og þetta hamlar æxlisvöxt. Samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var við Háskólasjúkrahúsið í Malmö í Suður-Svíþjóð, getur lyfið hins vegar haft öfug áhrif á ákveðnar gerðir æxla. ,,Niðurstöðurnar sýna að notkun tamoxifen reynist mjög árangursrík í flestum sjúkdómstilfellum. Um 15% æxla innihalda hins vegar mörg eintök af D1 syklíni og í þeim tilfellum virðist öfug áhrif,“ segir í yfirlýsingu Karin Jirström, sem vann að rannsókninni. Rannsóknin sem Jirström og samstarfsmenn hennar gerðu var byggð á rannsóknum á brjóstakrabbameinssjúklingum í Suður-Svíþjóð, sem fengið höfðu lyfið. Greinin var nýlega birt í bandaríska læknatímaritinu Cancer Researcher. „Það er mikilvægt að draga ekki of miklar ályktanir af rannsókninni.. En þetta er í fyrsta sinn sem í ljós kemur að meðferðin hefur öfug áhrif á ákveðna sjúklinga,“ sagði Göran

Börkur af víði jafngott gigtarlyf og Vioxx
Ástralski jurtalæknirinn Kerry Bone segir frá athugun eða könnun sem gerð var til að bera saman virkni gigtarlyfsins Vioxx, sem nú er búið að banna sölu á, vegna þess að talið er að það hafi valdið fjölda dauðsfalla og jurtalyfs sem búið er til úr víðiberki. 59 þátttakendur luku við könnunina, sem var tvíblind og var þeim skipt í þrjá hópa og réði tilviljun því í hvaða hópi hver lenti. Einn hópurinn fékk 150 mg á dag af Vioxx. Annar hópurinn fékk staðlaðan extrakt af víði, sem jafngilti 90 mg af salicin á dag og þriðji hópurinn fékk tvöfalt meira af sama extrakti, eða jafngildi 180 mg af salicin. Niðurstaðan var sú að þeir sem notuðu meira af víði-extraktinum höfðu nánast alveg sama gagn af því til að lina þjáningar, eins og þeir sem notuðu Vioxx töflurnar (39,5% á móti 40% minni verkir). Hjá þeim sem fengu minna af víðisextraktinum minnkuðu verkirnir aðeins minna eða 31,3%. Þessi tilraun var gerð á sjúklingum með slitgigt en líklegt er að víðibörkurinn sé einnig gagnlegur við aðra gigtarsjúkdóma, t.d. liðagigt. Kvartað hefur verið yfir því að síðan COX-2 gigtarlyfin voru bönnuð, sé fátt sem komið gæti í stað þeirra. Þessi tvíblinda könnun sýnir þó að gamla gigtarlyfið, seyði af víðiberki, er sennilega jafnoki nýjustu gigtarlyfjanna í að lina þjáningar gigtarsjúklinga, án sumra þeirra hliðarverkana sem nýju lyfin valda.

Höfundur: Ævar Jóhannesson haust 2005Flokkar:Úr einu í annað

%d bloggers like this: