Jane Plant var hér á Íslandi

Ýmsir munu kannast við Jane Plant, prófessor við Imperial College í Lundúnum, sem skrifað hefur nokkrar mikið lesnar bækur, þar sem byltingarkenndar hugmyndir um orsakir og einnig lækningu á mjög algengum og alvarlegum sjúkdómum hefur verið rædd á nýjan og spennandi hátt. Jane Plant var nú nýlega hér á Íslandi og hélt langan fyrirlestur 7. september 2005 og sýndi skýringarmyndir í fyrirlestarsal hins nýja Náttúrufræðahúss Háskólans, Öskju, í grennd Norræna hússins.

Hún kom hér á vegum Heilsuhússins, sem nú er í eigu Lyfju. Daginn eftir var hún svo í Heilsuhúsinu í Kringlunni og ræddi þá við fólk um rannsóknir sínar og baráttu við krabbamein, sem hún sigraði með náttúrlegum hætti. Jane Plant fékk krabbamein í vinstra brjóstið án þess að nein sjáanleg ástæða væri fyrir því. Það var alveg á byrjunarstigi og læknarnir töldu að væri brjóstið tekið væru nánast engar líkur á að það tæki sig upp aftur. Heldur meiri líkur töldu læknarnir á að meinið tæki sig upp væri aðeins tekin sneið úr brjóstinu.

Því ákvað Jane að láta taka allt brjóstið, sem síðan var gert. Varla var hún þó gróin sára sinna þegar meinsemd tók sig upp þar sem brjóstið áður var. Þá var hún aftur skorin. Svona gekk þetta í nokkur skipti og alltaf tók krabbameinið sig upp á nýjum og nýjum stað. Að lokum, en þá voru meinvörp komin upp á háls, sagði krabbameinslæknirinn við hana að þetta krabbamein virtist ógerlegt að lækna og að hún mætti búast við að deyja fljótlega af völdum þess. Þá var það sem Jane tók til sinna ráða. Nú hefðu læknarnir fengið næg tækifæri til að beita sínum aðferðum og orðið að gefast upp. Því ætlaði hún sjálf að beita sínum eigin ráðum, hvað sem öllum læknum liði.

Jane var lærð sem jarðvísindamaður, jarðefnafræðingur. Því hafði hún mjög góða undirstöðuþekkingu í efnafræði. Hún hafði einnig kynnt sér hugmyndir vísindamanna fyrr á síðustu öld, sem sumar hverjar höfðu annað hvort gleymst eða verið lagðar til hliðar, um sýru- og basajafnvægi líkamans og að krabbamein þrifist helst ef þetta jafnvægi raskaðist og líkaminn yrði of súr. Þetta er auðveldast að finna með því að mæla sýrustig í þvaginu, sem hún taldi að helst ætti að vera 6-6,5 pH, sem er örlítið súrara en hlutlaust, sem er pH 7. Þetta er auðvelt að stilla af með mataræðinu og finna með endurteknum mælingum, oft á dag í fyrstu, rétta fæðuvalið til að halda þessu innan réttra marka.

Verði líkaminn of súr leitast hann við að rétta það af með því að losna við sýru í þvaginu og/eða taka kalk úr beinagrindinni og setja í uppleystu formi í blóðið, því að sýrustig blóðsins verður að haldast mjög stöðugt, á hverju sem gengur. Þetta getur valdið, og gerir vafalaust oft, alvarlegri beinþynningu, þegar til lengri tíma er litið. Þá skiptir D-vítamín í fæðu afar miklu, því að D-vítamín ákvarðar að miklu leyti hvað við nýtum kalkið í fæðunni vel. Jane hafði kynnt sér töluvert kínverska læknislist og Kínverjarnir sendu henni grasalyf og fleira sem þeir lögðu til að hún notaði. Í fyrstu hafði hún litla trú á þessu en þegar öll ráð og meðferð hefðbundinna lækna dugði ekki, fór hún þó að sýna annars konar lækningum meiri áhuga.

Hún hafði notað mjólkurvörur töluvert en hætti því algerlega, eins og reyndar flestir náttúrulæknar höfðu áður ráðlagt henni. Á skömmum tíma brá þá svo við að æxlin sem hún var komin með og læknarnir höfðu sagt henni að myndu leiða hana til dauða, fóru að minnka og á aðeins nokkrum mánuðum hurfu þau algerlega. Á þessum tíma hafði hún verið á kínverskum matarkúr með miklu jurtapróteini og einnig próteini úr dýraríkinu. Hún hætti algerlega að nota öll matvæli úr mjólk, því að hún telur að mjólk, sérstaklega gerilsneydd og fitusprengd nýmjólk, sé eitt það allra versta sem krabbameinssjúklingar geti látið ofan í sig.

Ástæðan er að hennar áliti sú, að nýmjólk inniheldur gríðarlega mikið af vaxtarþáttum, t.d. IGF (insúlínlíkum vaxtarþætti), sem er mikilvægur fyrir nýlega borna kálfa, sem þurfa að stækka mjög hratt. Fyrir fullorðið fólk er IGF ávísun á óeðlilega frumuskiptingu, sem hæglega getur endað með krabbameini. Kýr, sem árlega eru látnar bera, eru mikinn hluta ársins kálffullar. Það þýðir að í mjólkinni úr þeim er mikið af östrógen hormónum og öðrum hormónum með östrógenvirkni.

Ekki er deilt um það að efni með sterka östrógenvirkni örva sum krabbamein, t.d. í brjóstum, móðurlífi, eggjastokkum og blöðruhálskirtli karlmanna, auk nokkurra annarra krabbameina með östrógen viðtaka í frumum.Þó ekki væri af öðrum ástæðum en hér hafa verið nefndar, telur Jane Plant að fólk með eitthvert áðurnefnt krabbamein, ætti að hætta að nota mjólk og allar vörur sem mjólk er notuð í, samstundis, og af sömu ástæðum væri sennilega hægt að koma í veg fyrir flest krabbamein í brjóstum, móðurlífi, eggjastokkum og blöðruhálskirtli, með því að fullorðið fólk hætti að nota mjólkurvörur og þó alveg sérstaklega gerilsneydda og fitusprengda nýmjólk.

Mikill áróður hefur verið rekinn fyrir því að fólk drekki daglega mjólk til að fá nægilegt kalk til að fá sterk bein. Jane Plant telur að þetta sé rakalaus, ófyrirleitinn áróður, sem enga stoð eigi í raunveruleikanum. Miklu frekar mætti segja að mjólkurdrykkja stuðli að eða auki líkur á beinþynningu fremur en flest annað í mataræði okkar. Hún sýndi á fundinum í Öskju, súlurit af tíðni mjaðmarbrota hjá mörgum þjóðum. Allar þjóðirnar með hlutfallslega flest mjaðmarbrotin voru í hópi þeirra þjóða sem mest nota af mjólk. Þar má nefna Norðurlandabúa, Þjóðverja og íbúa Bretlandseyja.

Meðal þjóða með fæst mjaðmarbrot voru þjóðir sem sjaldan eða aldrei nota mjólk, t.d. Kínverjar. Líkt má segja um tíðni krabbameina sem örvuð eru með östrógenhormónum, t.d. í brjóstum, móðurlífi, eggjastokkum og blöðruhálskirtli hjá körlum, ásamt nokkrum öðrum krabbameinum sem hafa östrógen-viðtaka á yfirborði frumanna. Þetta tvennt, insúlín-líki vaxtarþátturinn (IGF-1) og mikið magn af östrógen-hormónum í þeirri mjólk sem fólki stendur nú til boða og er töluvert meira en var í þeirri mjólk sem forfeður og formæður okkar fengu áður fyrr, er sennilega ein höfuð ástæðan fyrir þeirri miklu aukningu áðurnefndra krabbameina, að mati Jane Plant.

Á fundinum í Öskju fékk ég ekki tækifæri til að hitta Jane Plant. Daginn eftir var ég staddur í Heilsuhúsinu í Kringlunni í Reykjavík. Þar var ég að ræða við afgreiðslustúlkuna um fundinn kvöldið áður, í Öskju, sem við bæði höfðum verið á. Þá er allt í einu klappað á öxlina á mér og þegar ég leit við var þetta gömul vinkona mín frá veru minni í Jarðfræðahúsi Háskólans, Kristín Vala Ragnarsdóttir, sem ég vissi að var kunningjakona Jane Plant, en þær báðar eru prófessorar við sama háskólann í Englandi.

Við hlið Kristínar Völu stóð Jane Plant og Kristín Vala kynnti okkur þarna. Lítið töluðum við þó saman nema kurteisisorð, því að hópur fólks hópaðist að Jane Plant. Við Kristín Vala gátum aftur á móti rætt dálítið saman, en mig hafði raunar langað til að hitta hana í mörg ár, ekki síst eftir að ég vissi um kunningsskap hennar og Jane Plant. Nú hefur Jane Plant skrifað fjórar bækur sem allar fjalla um hugmyndir hennar um breytt mataræði og hvernig koma megi í veg fyrir alvarlega sjúkdóma með því að fylgja einföldum grundvallarlögmálum í manneldismálum. Því miður hef ég ennþá, aðeins lesið fyrstu bókina, „Your Life in Your Hands, sem segir hennar eigin sjúkdómssögu og hvernig hún læknaðist. Sennilega fást allar bækurnar í Heilsuhúsinu.

Ævar JóhannessonFlokkar:Greinar

%d bloggers like this: