Sársauki eða verkur
Íslensku orðin sársauki og verkur hafa í huga flestra mismunandi merkingu. Sársauki lýsir tilfinningu sem kemur skyndilega og varir ekki lengi. Verkur lýsir hins vegar tilfinningu sem er þrálát. Lífeðlisfræði sársauka er mjög vel þekkt, boð berast frá sársaukaskynjurum með úttaugum til miðtaugakerfisins, þar sem skynjun á sér stað og boð berast um viðbrögð. Dæmi um slíkt er bruni, sár, högg, tognun. Lífeðlisfræði verkja er á hinn bóginn miklu flóknari.
Til að mynda hefur lengi verið þekkt að fólk getur áfram fundið fyrir verkjum í útlim sem búið er að fjarlægja, svokölluðum draugaverkjum. Þrálátum verkjum fylgja oft önnur vandamál svo sem minni virkni, hræðsla eða ótti við hreyfingu, sem getur leitt til minna úthalds, þreks og þar með þols gegn verkjum. Jafnframt er algengt að þrálátum verkjum fylgi svefnörðugleikar, kvíði og andleg vanlíðan. Nálgun og meðferð þrálátra verkja er því oft miklu flóknari en nálgun og meðferð sársauka, þar sem inn í meðferðina spila oft miklu fleiri þættir en lífeðlisfræði og lyfjafræði sársauka.
Lyfjafræðin býr yfir mjög góðum sársaukalyfjum, lyfjum sem draga úr sársaukaupplifun. Skortur er hins vegar á góðum lyfjum við þrálátum verkjum sem ekki hafa í för með sér ávanahættu og hættu á þolmyndun. Einföld lyf við sársauka (eins og Magnýl og Parasetamól) hafa oft takmarkaða virkni gegn langvarandi verkjum. Oft er því gripið til sterkari lyfja sem geta haft kröftugri verkun í byrjun. Ef viðkomandi þarf hins vegar að neyta þeirra lengi í daglegum hámarksskömmtum er hætt við að dragi úr virkni lyfjanna vegna þolmyndunar, auk þess sem ávanahætta er veruleg.
Sterk verkjalyf
Sterkustu verkjalyfin á markaðnum í dag eru lyf sem kölluð eru ópíoíðar (ópíumskyld lyf) vegna tengsla sinna við ópíum. Frá örófi alda hefur virkni ópíums gegn sársauka (og sút) verið þekkt. Súmerar eru taldir hafa byrjað ræktun ópíumvalmúans fyrir meira en fimm þúsund árum. Úr fræhúsi plöntunnar er ópíum unnið og fyrir réttum tveimur öldum (1803) var morfín einangrað úr ópíum. Seinna (1832) var svo kódín framleitt úr ópíum ogloks var heróín unnið efnafræðilega úr morfini í lok 19. aldar. Heróín er eins og þekkt er eitthvert algengasta eiturlyf sem notað er í heiminum í dag.
Það er fjórum sinnum kröftugra en morfín. Heróín var markaðssett af sama lyfjafyrirtæki og ári síðar setti magnýl (Aspirín) á markað árið 1898. Margir ánetjuðust og það tók lækna mörg ár að átta sig á ávanahættunni (sem þó var löngu þekkt hjá morfíni). Svipaða sögu má segja af fleiri lyfjum, svo sem róandi lyfjum þar sem hætta á ávana og þoli var mönnum ekki fyllilega ljós þegar lyfin voru ný á markaði. Rannsóknir á virkni lyfja við sársauka eftir aðgerðir sýna að kódín eitt og sér, jafnvel í stórum skömmtum, hefur í samanburði við önnur lyf litla virkni. En í blöndu með t.d. parasetamóli eykst virknin gegn sársauka talsvert.
Vaxandi notkun sterkra verkjalyfja
Á síðustu tveimur áratugum hefur orðið talsverð breyting í heiminum hvað varðar notkun sterkra ópíumskyldra verkjalyfja. Morfín og skyld lyf hafa lengi verið notuð gegn verkjum hjá krabbameinssjúklingum og hefur notkun þeirra aukist nokkuð og er engin ástæða til að gagnrýna það. Mikil aukning hefur orðið á notkun ópíumskyldra lyfja hérlendis á síðustu árum, bæði náttúrulegra efna (sem unnin eru úr ópíum) en einnig hafa komið til ný lyf eins og tramadol og fentanyl. Kódín er framleitt í samsetningum við önnur lyf, eins og parasetamól og sum gigtarlyf, í því skyni að auka virkni lyfjanna gegn sársauka og verkjum.
Hér á landi hefur orðið tæplega tíföld aukning í notkun ópíumskyldra lyfja á síðastliðnum 10 árum og meira en tuttuguföld ef litið er til 15 ára. Aukningin er einkum bundin við kódín og nýrri lyf eins og sjá má af línuriti (mynd 1) sem unnið er úr tölum frá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu (HTR). Talsverður hluti af kódínneyslunni hérlendis skýrist af lausasölu lyfsins (afgreitt án lyfseðils). Árlega eru nú seldar yfir fjórar og hálf milljón töflur af Parkódíni án lyfseðils í 10 stykkja pakkningum. Þessi neysla samsvarar meira en 20 töflum á ári fyrir hvern íslending sem komin er af barnsaldri. Kostnaðurinn af ópíumskyldum lyfjum (apóteksverð með söluskatti) hefur samkvæmt sömu heimildum tífaldast á síðastliðnum 10 árum
Villigötur?
Sú þróun sem hefur átt sér stað á síðastliðnum tíu árum er að mati okkar óheillavænleg og lýsir verkjalyfjanotkun sem komin er á ranga braut. Einstaklingar með þráláta verki sem nota sterk ópíumskyld verkjalyf reglulega eiga á hættu að verða háðir lyfjunum og mynda þol gegn þeim sem kallar á stærri og stærri lyfjaskammta og algjöran vítahring. Því miður er þá hætta á að einstaklingarnir sitji ekki bara uppi með verkjavandamál, heldur einnig lyfjavandamál.
Til að snúa af þessari braut teljum við nauðsynlegt að læknar og þeir einstaklingar sem glíma við þráláta verki, geri sér grein fyrir áhættunni af notkun ópíumskyldra sársauka- og verkjalyfja og reyni að stemma stigu við notkun þeirra. Til að takast á við þau margvíslegu vandamál sem gjarnan fylgja þrálátum verkjum er oft nauðsynlegt að beita fjölþættum úrræðum endurhæfingar. Endurhæfingarúrræði fyrir sjúklinga með þráláta verki þarf, að okkar mati, að stórbæta og skipuleggja á markvissari hátt.
Höfundar læknarnir: Magnús Ólason og Jón Steinar Jæonsson
Flokkar:Greinar