Hér fara á eftir 5 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru eftirfarndi:
- Næringarástandið skiptir höfuðmáli við bólusetningar.
- Te af Havairós lækkar blóðþrýsting.
- Ekki grilla eða steikja Kjöt.
- Meira um Boswellia jurtalyfið.
- greinarstúfur um jurtalyfið zyflamend.
Næringarástandið skiptir höfuðmáli við bólusetningar
Alan R. Gaby læknir segir frá því Townsend Letter for Doctors and Patients, febrúar-mars 2005 að næringarástand þeirra sem bólusettir eru sé afar mikilvægt og skipti raunar höfuðmáli, hvort bólusetningin skili árangri. Gaby segir frá 22 fullorðnum bretum sem voru bólusettir gegn lömunarveiki með ,,lifandi“ bóluefni með sýklum sem höfðu verið gerðir skaðlausir (Attenuated poliomyelitis vaccine). Þetta var tvíblind könnun og allir þátttakendur höfðu frekar lítið selen í blóðvökva og var þeim skipt í þrjá hópa, viðmiðunarhóp og tvo hópa sem fengu 50mg og 100mg af selen á dag en viðmiðunarhópurinn fékk lyfleysu.
Tilraunin stóð í 15 vikur alls en bólusetningin var gerð eftir 6 vikur. Niðurstaðan var sláandi. Mikil aukning varð á svokölluðum cytokinum t.d. interferon gamma, sem bendir á aukningu á frumubundnu ónæmi og fjölgun á T-hjálparfrumum. Svo virðist að stærri skammturinn gæfi betri árangur, svo að e.t.v. hefði enn stærri skammtur verið allra bestur. Greinilegt er að árangur bólusetningarinnar varð miklu betri hjá þeim sem fengu selenið en hinum.
Þetta kemur jafnvel ennþá betur fram í annarri könnun sem Gaby segir frá, þar sem ekki var notað selen, heldur C-vítamín og aðeins notaður einn tveggja gramma skammtur um leið og bólusetningin var gerð. Bólusett var gegn hundaæði. Þar jókst alfa-interferon að meðaltali um tuttugu og tvisvar sinnum, borið saman við þá sem ekkert C-vítamín fengu en voru bólusettir eins. Þetta er einmitt sérlega mikilvægt þegar bólusett er við hundaæði, því að sennilega er aukningin á interferoni það sem m.a. gefur hundaæðis-bóluefni gildi sitt. Aðrar rannsóknir benda til að fleiri bætiefni en C-vítamín og selen skipti máli við að bæta árangur af bólusetningum A-vítamín hefur þar verið nefnt, þó að árangur af því sé stundum dreginn í efa.
Ekki ætti þó neinn að draga í efa að vel nærð börn þola bólusetningar miklum mun betur en vannærð og sennilega kemur bólusetningin líka að betra gagni og skapar traustara ónæmi. Þetta á sennilega ekki síst við, þegar börn eru bólusett fyrir mörgum sjúkdómum í einu eins og nú er oft gert, jafnvel á ungum börnum, sem líklega má þó draga í efa að sé skynsamlegt. Í þeim tilfellum væri sjálfsagt ágætt ráð að börnin (og fullorðnir líka) fengju góðan skammt af C-vítamíni, bæði fyrir og eftir bólusetninguna. Það tryggir að hún komi að sem bestum notum og stuðlar að sem fæstum hliðarverkunum af sjálfri bólusetningunni.
Te af Havairós lækkar blóðþrýsting
Athugun var gerð á 90 einstaklingum, sem voru með lítið eitt eða dálítið hækkaðan blóðþrýsting, hvort te af havaírós (Hibiscus sabdariffa) gagnaði við að lækka blóðþrýsting þeirra. Enginn þeirra hafði áður notað nein blóðþrýstingslyf. Fólkið var valið tilviljunarkennt þannig, að heldmingur þess fékk daglega hálfan lítra af havairósartei en hinn helmingurinn 25mg af Captopril (capoten) tvisvar á dag (Captopril er angiotensin II-hindrari og talinn með bestu blóðþrýstingslyfjum sem til eru og með minnstar aukaverkanir). Jurtateið var þannig búið til að 10g af þurrkuðum blómkrónum af havairós voru sett í teketil og hálfum lítra af sjóðandi vatni hellt á og látið standa í 10 mínútur. 70 sjúklinganna luku við könnunina.
Í þeim hópi sem drukku jurtateið lækkuðu efri mörk blóðþrýstingsins að meðaltali úr 139 mm Hg í 124 mm Hg en neðri mörkin úr 91 mm Hg í 79 mm Hg. Lækkunin hjá þeim sem notuðu captopril var örlítið meiri en þó ekki marktækt. Havairósarteið virðist hafa örlítil þvagræsiáhrif sem e.t.v. skýrir blóðþrýstingslækkunina að hluta. Allir sjúklingarnir, bæði á jurtalyfinu og captopril virtust þola meðferðina vel, en hún stóð í einn mánuð. Svo virðist að það væri einkum sem natriumútskilnaður ykist í þvaginu hjá hópnum sem notaði jurtalyfið. Þessi tilraun gæti bent til að allt eins mætti nota þetta ódýra jurtate eins og rándýr lyf, sem aðeins fást gegn lyfseðli, til að lækka blóðþrýsting hjá fólki með lítið eitt hækkaðan blóðþrýsting, því að sáralítill munur var á árangri, hvor aðferðin sem notuð var. Heimild: A. Herrera-Arellano o.fl. Phytomedicine, 2004;11:375-382 Endubirt í Townsend Letter for Doctors and Patients, febrúar-mars 2005 Æ.J.
Ekki grilla eða steikja Kjöt
Sé kjöt, fiskur eða aðrar matvörur látnar verða fyrir háum hita við matreiðslu myndast oft heilmikið af eitruðum efnasamböndum, sem sennilega eru oftar en hitt orsök alvarlegra sjúkdóma í meltingarfærunum t.d. krabbameina. Mörgum finnst þetta vafalaust heldur leiðinlegur boðskapur og vilja gjarna loka eyrunum þegar þeir heyra eitthvað í þeim dúr og segja þá gjarnan: „Úr einhverju verður maður að deyja og skárra er að lifa stutt og lifa vel, heldur en verða grasbítur og borða ekkert sem gott er, bara af því að það er ekki hollt.
Svo getur líka vel verið að þessu verði öllu snúið við eftir nokkur ár og þá verði grillað kjöt og brasaður matur talin hollasta fæða“. Vel má vera að ýmislegt sem nú er talið rétt, verði einhvern tíma dæmt og léttvægt fundið. Þó hygg ég að það verði heldur í þá átt að fleiri óhollar matvörur verði uppgötvaðar en nú er vitað um, heldur en að þær verði færri. Á síðari áratugum hefur nefnilega uppgötvast fjöldi efna, sem sannað er með óyggjandi hætti, að myndast í ýmsum matvælum við háan hita, en finnast alls ekki í þeim ósoðnum eða eftir suðu í vatni.
Á seinni tímum hefur mjög aukist grillun og steiking á kjötvörum og jafnvel fiski og á sama tíma hefur orðið ískyggileg fjölgun á krabbameini í ristli og endaþarmi, svo að nú er það að verða meðal algengustu illkynja meinsemda hérlendis. Þó að engan veginn sé réttmætt að skrifa þá aukningu eingöngu á grillaðar kjötvörur og brasaðan mat er þó nokkurn vegin öruggt að hluta þessarar aukningar má tengja þessari mataræðisbreytingu Við mikla upphitun, t.d. við steikingu í feiti eða við grillun, myndast fjöldi efnasambanda sem stundum geta verið eitruð og jafnvel öflugir krabbameinsvaldar.
Þar má nefna mismunandi hringlaga amín, fjölhringja arómatísk kolvetni, kólesterol oxíð, fitu peroxíð og efni sem myndast úr sykrum við mikla upphitun. Nokkur þessara efna eru þekktir krabbameinsvaldar. Þó að matreiðsla við lægra hitastig taki lengri tíma myndast þessi skaðlegu efni þó miklu síður við suðu en steikingu. Því er sennilega besta matreiðsluaðferðin á kjöti gamla aðferðin að sjóða það en hvorki grilla né steikja. Vitnað er í grein um þetta efni eftir A. Navaro o.fl. sem birt var í Nutrition 2004;20:873-877. Aðalheimild: Alan R. Gaby. Townsend Letter for Doctors and Patients, febrúar-mars, 2005.
Meira um Boswellia jurtalyfið.
Einhvern tíma skrifaði ég stutta grein um jurtalyfið „Boswellia serrata“, eins og það heitir fullu nafni. Þá var hvergi hægt að fá það hérlendis en skömmu síðar var það pantað til reynslu í Heilsubúðinni í Hafnarfirði. Nú mun boswellia vera fáanlegt víðar og ég hef vissu fyrir því að umboðið fyrir „Now“ heilsuvörurnar flytur það inn, auk Heilsubúðarinnar og má vel vera að fleiri séu með það Í febrúar/mars blaðinu af Townsend Letter fo Doctors and Patients nú í ár, er grein um þetta jurtalyf.
Greinin staðfestir flest sem sagt var áður um það og bætir jafnvel frekar við heldur en draga úr hóli sínu um það. Boswellia tilheyrir „Ayurveda“ jurtalyfjum og á sennilega uppruna sinn á Indlandi eins og önnur ayurveda-lyf. Boswellia hefur einkum verið notað við <gegn> bólgusjúkdómum t.d. liðagigt og öðrum gigtarsjúkdómum, sem lyf úr apótekum eru oft notuð við. Borið saman við lyfseðilskyld meðul hefur boswellia þann mikla kost að yfirleitt fylgja engar aukaverkanir því að nota jurtalyfið. Nú, þegar bannað hefur verið að nota sum gigtar- og bólgueyðandi lyf t.d. Vioxx, vegna alvarlegra aukaverkana, er öflugt náttúrlegt gigtarlyf, án aukaverkana sérlega mikilvægt.
Samkvæmt greininni í Townsend Letter er boswellia að minnsta kosti sambærilegt við lyf eins og Vioxx og Celebrax eða Ibufen til að draga úr verkjum og minnka bólgur,án þeirra hliðarverkanna sem fylgja því að nota áðurnefnd lyf. Sérstaklega á þetta þó við, ef annað þekkt jurtalyf, Turmeric (curcumin longa) er notað samhliða boswellia. Turmeric er einnig ayurveda jurtalyf og er raunar krydd og gula litarefnið sem gefur kryddblöndu sem nefnd er karrí, hinn einkennandi gula lit sinn. Boswellia og turmeric er oft blandað saman í hylkjum sem seld eru í heilsubúðum, svo að bæði efnin séu notuð samhliða, sem er best.
Blanda af boswellia og turmeric er sennilega eitt allra besta bólgueyðandi lyf sem til er, ef sterar eru ekki taldir með. Þeir hafa aftur á móti alvarlegar hliðarverkanir sem torvelda að nota þá nema í skamman tíma, sem boswellia og turmeric hefur ekki. Verkanir boswellia og turmeric grundvallast á því að þessi efni hindra myndum margra bólguhvetjandi efnasambanda. Þetta hefur verið staðfest af mörgum rannsóknarstofum. Helst má þar nefna ensímin 5-lipoxygenasa, cyclo-oxygenasa 2 (cox-2) og fosfólipasa. Lipoxygenasa-ensímið hvetur myndun bólguhvetjandi efna sem nefnd eru laukótrien og koma við sögu víða í bólgusjúkdómum t.d. astma. Cyclo-oxygenasa-ensímið hvetur myndun prostaglandina og thromboxan efna úr fitusýrunni arakidonsýru.
Sum prostaglandin eru bólguhvetjandi, thromoxan A-2 hvetur samloðun blóðflaga og stuðlar þannig að myndun blóðtappa í æðum. Sé dregið úr virkni bæði lípoxygenasa og cyclo-oxygenasa dregur því úr bólgusvörun og líkum á að fá blóðtappa í æðar. Auk þess hafa þessi jurtalyf áhrif á mörg fleiri efni og ensím t.d. kollagenasa, elastasa, hyaluronidasa, tumor necrosisfactor og interlaukin 12, auk margs fleira sem hér verður ekki talið. Í greininni sem hér er vitnað í segir að turmeric hafi alla kosti gigtarlyfsins Vioxx en engan ókost þess. Boxwellia og/eða blanda af boswellia og turmeric er afbragðs lyf við astma, öfugt við mörg önnur gigtarlyf sem gera astma verri.
Þá er talið að hægt sé að bæta og jafnvel gera fólk með bólgusjúkdóma í meltingarfærunum (Crohns-sjúkdóm og sáraristilsbólgu) laust við einkennin og e.t.v. lækna, þó að líklega þurfi einnig að huga að því að breyta mataræði samhliða því að nota jurtalyfin. Sennilega má nota boswellia og/eða turmeric við alla gigtarsjúkdóma sem bólga fylgir. Betri árangur næst þó vafalítið með því að endurskoða mtaræðið með tilliti til að ekki skorti omega-3 fitur og D-vítamín. Þá talar höfundur greinarinnar um að besti árangur náist með því að sameina að nota jurtalyfin, stunda yoga og andardráttaræfingar og endurskoða mataræðið.
Greinarhöfundurinn telur að turmeric sé mjög gott við húðvandamálum. Hann nefnir ekki hvort nota á efnið til að bera á húðina eða taka turmeric inn, nema hvort tveggja megi. Hann segir að algengt sé að nota 5-10mg af turmeric á dag, en af boswellia sé gott að nota 300- 400mg af stöðluðum extrakti þrisvar á dag. Það mundi vera 3-4 hylki sem fengist hafa hér á landi að undanförnu. Ég hef ennþá ekki nefnt það, að rætt hefur verið um að sennilega sé turmeric ágætt fyrirbyggjandi krabbameinslyf og jafnvel boswellia líka. Ef það er staðreynd að cox-2 ensímið sé ómissandi til að krabbamein geti orðið til og vaxið eru bæði boswellia og turmeric áhugaverð krabbameinslyf.
Í Heilsuhringnum, haustblaðinu 2003, er greinarstúfur um jurtalyfið zyflamend sem búið er til úr 10 lækningajurtum. Ein þeirra er turmeric eða curcumin sem er annað nafn á efninu. Auk þess eru í zyflamend nokkrar aðrar kryddjurtir m.a. engifer, basil og grænt te. Í greininni er fullyrt að jurtir sem hindri eða hamli myndun ensímsins cyclo-oxygenasa-2 í líkamanum setji í gang ferli sem nefna má „sjálfseyðingu“ (apoptosis) hjá krabbameinsfrumum, án þess að skaða heilbrigðar frumur. Sé þetta rétt eru turmeric, engifer og boswellia sennilega ágæt krabbameinslyf, ásamt jurtalyfinu zyflamend sem nú er komið á markað í Bandaríkjunum og e.t.v. víðar. Heimildir Dr Virender Sodhi MD, ND,Ayurvedic Science Update Townsend Letter for Doctors and Patients, feb-mars 2005 Jacob Teitelbaum, MD. Best of Natural Herbal/Nutritional Pain Therapies. Townsend Letter for Doctors and Patients, feb-mars 2005Jurtaextrakt við Krabbameini, Heilsuhringurinn, haust 2003
Höfundur Ævar Jóhannesson vor 2005
Flokkar:Úr einu í annað