Það að reykingar geti valdi heilsutjóni er okkur löngu orðið ljóst og sífellt bætist við listann yfir þá sjúkdóma sem rekja má til þeirra. Það er ekki lengur einungis rætt um lungnakrabbamein í þessu sambandi heldur marga aðra sjúkdóma og heilsukvilla.
Heilsutjón af völdum reykinga
Á Íslandi reykir daglega fimmtungur kvenna og fjórðungur karla. Tölur sína að reykingafólk er oftar veikt, þjáist meir af verkjum og jafnvel deyr fyrr en þeir sem ekki reykja.
Óbeinar reykingar
Á seinustu tveim áratugum hefur verið sýnt fram á skaðsemi óbeinna reykinga í ótal rannsóknum. Það eru ekki einungis reykingafólkið sjálft sem má eiga á hættu að verða fyrir heilsuspillandi áhrifum frá reyknum heldur einnig þeir reyklausu sem vistast á sama svæði. Ástæðan er án efa sú að þeir sem reykja anda að sér í mesta lagi fjórðung reyksins frá einni sígarettu og restin fer út í nánasta umhverfi þar sem bæði manneskjur og dýr verða fyrir óbeinum reykingum. Þeir sem eru í áhættuhóp eru einstaklingar sem vinna á veitingastöðum, börum og kaffistöðum auk þeirra sem búa á heimili þar sem reykt er inni.
Ekki bara lungun
Í hálfa öld höfum við vitað að reykingar eru skaðlegar heilsunni. Mest hefur verið rætt um tjón af þeirra völdum á lungum, hjarta og æðakerfi. Sífellt bætist þó við listann yfir þá heilsukvilla og sjúkdóma sem sannað hefur verið að tengjast reykingum enda er okkur nú orðið ljóst að þau skaðlegu og oft krabbameinsvaldandi efni sem í reyknum eru og við öndum að okkur, hafa ekki bara staðbundin áhrif á lungun heldur fara þau með blóðrásinni út um allan líkamann. Þetta virðist eiga bæði við um beinar og óbeinar reykingar. Dæmi um sjúkdóma sem talið er að tóbaksreykur geti aukið hættuna á eru:
Sykursýki 2.
Brjóstakrabbamein.
Leghálskrabbamein.
Krabbameini í blöðruhálskirtli.
Ristilkrabbamein.
Viss tegund húðkrabbameins.
Bakvandamál
Verkir í baki hrjá mörg okkar einhvern tíma á lífsleiðinni og geta ástæður þeirra verið ýmsar. Vitað er að margir þættir hafa þarna áhrif, stundum einn en oftar samspil margra, sérstaklega á það við um langvinn bakvandamál. Nokkrir af þessum áhættuþáttum eru:
Skortur á líkamsþjálfun og hreyfingu
Offita
Reykingar
Bakvandamál vegna reykinga
Til að viðhalda góðri heilsu er mikilvægt að það sé gott blóðflæði um allan líkamann. Í reyknum eru efni sem draga úr flæðinu og minnka þannig flutning súrefnis og annarra nauðsynlegra efna til vefja líkamans. Bein, liðir og vöðvar eru þar engin undantekning enda hafa margar rannsóknir ótvírætt leitt það í ljós að samband er á milli reykingar og bakverkja. Nýlega leiddi norsk könnun í ljós að þetta á einnig við um óbeinar reykingar. Einstaklingar sem orðið höfðu fyrir óbeinum reykingum á barnsaldri voru meira frá vinnu en þeir sem alist höfðu upp í reyklausu umhverfi. Vandamál frá baki og hálsi voru langalgengustu ástæður þessa.
Hugsanleg skýring er sú að bein, liðir og vöðvar þessara einstaklinga fengu ekki nóg af nauðsynlegum efnum til vaxtar og þroska og þoldu því minna líkamlegt álag á fullorðinsaldri. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á samband milli reykinga og slits í hryggjarliðum og hryggþófum (brjóskið milli hryggjarliðanna) sem oft er ástæða langvarandi verkja í mjóbaki. Slitbreytingar valda því að hryggþófarnir verða lægri og eðlileg fjöðrun hryggjarins minnkar auk þess sem hryggjarliðirnir koma nær hvor öðrum. Þetta eykur líkurnar á því að bakið verði stíft og þolir síður álag. Breytingar í hryggþófum auka einnig hættuna á brjósklosi. Það hefur einnig verið sýnt fram á það að reykingar stuðla að beinþynningu. Sjálf beinþynningin í hryggnum veldur kannski ekki verkjum en það er aukin hætta á að hryggjarliðir falli saman.
Ný lög
Mikið hefur verið rætt um þau nýju lög um reykingabann sem þegar hafa eða munu innan skamms taka gildi í ýmsum löndum. Má þar nefna Írland, Noreg, Spán, Svíþjóð, Bretland, Ástralíu, Kúbu og Nýja Sjáland. Þessi lög munu hafa miklar breytingar í för með sér þar sem það er/verður ekki lengur heimilt að reykja á veitingastöðum, börum, kaffihúsum né á almannafæri innanhúss. Þessar nýju reglur munu vernda bæði gesti þessara staða og starfsfólk þeirra.
Hvað er til ráða?
Við berum öll ábyrgð á eigin lífi og til að viðhalda heilbrigðum liðum og vöðvum í baki getum við gert ótal margt. Sérstaklega ættu reykingamenn að huga að bakinu og leita sér aðstoðar ef bakvandamál koma upp. Kírópraktík er eitt af þeim meðferðarformum sem leitast við að hjálpa líkamanum til heilsu án lyfja og skuðaðgerða. Slík meðhöndlun miðar að því að auka og varðveita hreyfanleika í liðum auk mýktar og teygjanleika í vöðvum og stuðla þannig að heilbrigðu baki.
Höfundur Oddný Óskarsdóttir 2005
Flokkar:Greinar og viðtöl