Reiki

Þórir Barðdal myndlistarmaður, kynnti sér Reiki aðferð sem mjög hefur rutt sér til rúms erlendis.  (Á Íslandi hefur í nokkur undanfarin ár verið notað orðið ,,heilun“ um orkulækningar og verður það gert hér.)

rir Bardal_NEWHh: Hvað er ,,Reiki“ og hvernig kom til að þú fórst að kynna þér það?
Þórir: Reiki er aðferð til að virkja alheimslífsorkuna til hjálpar þeim sem á þurfa að halda. Þetta er upprunnið í Japan, hefur verið stundað þar síðan á síðustu öld og síðan breiðst út um allan heim, aðallega síðustu 10-15 árin. Ég var við nám í Stuttgart í Þýskalandi árið 1983 og þar kynntist ég þessu fyrst. Þýskur vinur minn, sem er smáskammtalæknir, vildi endilega að ég kæmi á námskeið sem átti að fara að halda. Hann hafði sjálfur lært Reiki og notar það ásamt nálastungum og fleiru með smáskammtalækningunum. Þarna tók ég fyrsta stigið í Reiki.

 

Hh: Hvernig fór kennslan fram?
Þórir: Námskeiðið er helgarnámskeið og maður tekur þrjár vígslur frá föstudagskvöldi til sunnudags. Þessar vígslur eru mjög magnaðar. Það kemur heilmikil orka í gegn og maður fyllist friði og vellíðan sem erfitt er að lýsa með orðum. Þarna var handayfirlagningin kennd, það er kennt ákveðið kerfi þar sem maður leggur hendurnar á líkama fólks í ákveðinni röð. Seinna, þegar maður fer að stunda þetta að einhverju ráði og er farinn að þjálfast, verður maður næmari á líkama fólks og á hendurnar á sjálfum sér, þannig að það er eins og hendurnar stjórni sér sjálfar og finni þá staði þar sem vandamálið er. Þarna á námskeiðinu gerðum við svo æfingar hvert á öðru og þá fann maður hvernig hendurnar hitnuðu eða kólnuðu til skiptis. Það var heilmikið talað um orsakir sjúkdóma og hvernig Reiki-orkan virkar. Hún virkar ekki bara á efnislíkamann heldur líka á tilfinningarnar og hugarlíkamann og æðri líkamana. Reikiorkan er á svo hárri tíðni að þótt vandamálið sé djúpstætt þá virkar orkan alveg út í gegn.

Hh: Áttu við að vandamálið geti verið staðsett utan við efnislíkamann?
Þórir: Já, það getur verið það. Stundum eru einhver áföll sem ytri líkamarnir, t.d. tilfinningalíkaminn hafa orðið fyrir. Síðan með tímanum færast þessi áföll eða orkutrufluninni í efnislíkamann og fer að valda þar sjúkdómum. Reiki-orkan kemur jafnvægi á þetta.

Hh: Eru einhverjir framliðnir læknar til hjálpar, eins og var hjá Einari á Einarsstöðum?
Þórir: Nei, alheimslífsorkan er algjörlega ópersónuleg og ekki frá neinum verum eða einstaklingum komin nema almættinu sjálfu. Þetta er bara efnafræði sem byggir á þeim lögmálum sem við búum við hér á jörðinni. Kraftaverk eru bara efna- og eðlisfræði sem við höfum ekki skilið alveg ennþá og Reiki er ein aðferðin sem okkur er gefin. Það þarf ekkert annað en að taka á móti kraftinum sem allsstaðar er fyrir hendi og miðla honum áfram.

Hh: Nú ert þú orðinn þjálfaður í að miðla Reiki-kraftinum. Ætlarðu að taka öll þrjú stigin?
Þórir: Þegar maður hefur tekið fyrsta stigið og fengið skírteini upp á það þarf maður að vinna við heilun í nokkra mánuði áður en farið er í næsta stig sem er fjarheilun. Eftir það á maður að vera fær um að senda öðrum kraft þótt sá sé víðsfjarri. Þriðja stigið er fyrir þá sem ætla að helga líf sitt kennslu og heilun með Reiki-orku og þeir eru kallaðir Reikimeistarar. Ég hef ekki hug á að leggja þetta fyrir mig og gefa myndlistina upp á bátinn en hinsvegar mun ég alla ævi hafa Reiki í bakhöndinni eftir þetta eina helgarnámskeið og get hjálpað sjálfum mér og öðrum með því. Það er mjög algengt að þeir sem starfa sem nuddarar eða vinna á einhvern hátt með höndunum á líkama fólks taki Reiki-vígslu og nái þannig betri árangri en annars.

Hh: Verðurðu aldrei þreyttur þegar þú ert að miðla orku?
Þórir: Nei, þvert á móti. Ég gef ekkert frá sjálfum mér þannig að um leið og orkan streymir í gegnum mig nýt ég sjálfur góðs af. Mér líður yfirleitt mjög vel eftir að hafa gefið Reiki. Maður verður að stilla sig inn á að vera alveg ópersónulegur því ef maður fer að hugsa um að maður sé að gefa eitthvað frá sjálfum sér, minnkar krafturinn stórlega og maður verður, þreyttur.

Hh: Er hægt að misnota Reiki?
Þórir: Nei, Reiki er eins og kærleikurinn. Ef ótti eða hatur er á ferðinni þá er enginn kærleikur lengur. Þannig er Reiki einungis til þjónustu ætlað og til að gefa á óeigingjarnan hátt, í kærleika. Þá er það líka stórkostlegt.

Hh: Er Reiki orðið opinberlega viðurkennt erlendis?
Þórir: Já, Reiki er orðið mjög viðurkennt í Þýskalandi“, einnig í öðrum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum. Í Þýskalandi er það opinbert að því leyti að margir náttúrulæknar nota þetta með öðru, en í Þýskalandi eru náttúrulækningarjafn viðurkenndar og hefðbundnar lækningar. Ég fór til Bandaríkjanna eftir að ég var í Þýskalandi. Ég var í Houston í Texas og kynntist þar fjölda manns sem stunduðu Reiki. Reiki-meistararnir starfa opinberlega og auglýsa sig og eru með skírteini upp á kunnáttu sína.

Þórir lét okkur hafa grein úr bandaríska kvennatímaritinu ,,New Woman“ og fylgir hún hér á eftir. Höfundurinn, Sophy Burnham, lýsir þar sinni reynslu af Reiki.
Þetta var árið 1981 og ég hefði aldrei farið á þetta námskeið hefði ég vitað um hvað það snerist. Kona, sem ég lít mikið upp til, sagði mér að fara. ,,En hvað er þetta Reiki,“ spurði ég hálf hlæjandi. ,,Segi þér það ekki. Farðu bara og láttu skrá þig.“ Námskeiðið var haldið í stóru kjallaraherbergi i húsi í úthverfi í Virginíu. Ég leit tortryggin í kringum mig á fólkið, þarna voru 20 til 25 karlmenn og konur. Sumir biðu rólegir, aðrir voru að spjalla saman um stjörnurnar eða litina á árunum sínum. Ég vissi ekki neitt um slíkt og fannst ég ekki eiga heima innan um þetta fólk. Ég varð ennþá órólegri við að uppgötva að námskeiðið var kennsla í handayfirlagningu. Ég trúði á andlegar lækningar. Ég hafði hitt fólk með einstaka andlega krafta, t.d. Olgu Worral frá Baltimore sem dó í janúar 1985.

Margir dulsálfræðingar rannsökuðu hæfileika Olgu með Kirlian-myndatökum, en myndirnar sýna gula og bláa orkustrauma frá fingrum hennar þegar hún var að heila, en annars aðeins venjulega útgeislun. Samt hafði mér aldrei dottið í hug að hægt væri að kenna eða yfirfæra læknandi snertingu. Seinna uppgötvaði ég að það eru fjölmargir ,,skólar“ þar sem maður getur lært að heila eða auka við heilunarkraftinn sem fyrir er. Ennþá seinna lærði ég hvernig handayfirlagning tengist öðrum aðferðum í óhefðbundinni lækningalist, t.d. nálastunguaðferðinni, indverska Chakras-kerfinu, fyrirbænum o.fl. En  á þeim tíma vissi ég ekkert af slíku. Er ég leit í kringum mig í kennslustofunni ákvað ég að ég vildi ekki láta nokkra manneskju þarna inni snerta mig, hvað þá að reyna að heila. Þá birtist kennarinn. Ethel Lombardi er móðurleg, skynsöm, kát og hress. Eins og svo margir sem leggja stund á heilun hefur hún langa veikindasögu að baki: liðagigt, hjartataugagigt, sjö stóra uppskurði, þar á meðal við æxlum, og veiklað hjarta. Þegar hún var 43 ára var hún svo að segja dáin í einni spítalalegunni. Þessi reynsla hafði mikil og varanleg áhrif á hana.

,,Kærleikurinn var svo sterkur í þessari dauðareynslu minni að ég get ekki gleymt því það sem ég á eftir ólifað,“ segir hún. Eftir að hafa fengið kraftaverkalækningu á hjartveiki sinni eyddi hún næstu árum í bænir og andlega leit. Árið 1976 varð hún meistari í Reiki, með hæfileika til að kenna eða yfirfæra lækningarkraft til annarra. Reiki þýðir ,,alheims lífsorka“ (á japönsku). Við lærðum hvernig fara ætti að við liðagigt, hryggskekkju, lungnabólgu, flogaveiki, hjartaslag, astma, hálsmeiðsli, soríasis o.fl. (Hvert sjúkdómstilfelli útheimtir smávegis en samt nauðsynlega aðlögun.) Við lærðum að Reiki léttir sérstaklega á andlegum þjáningum sem fylgja og stundum orsaka líkamlega sjúkdóma. Hver kvöldtími byrjaði á því að við þurftum að „innstilla“ okkur. Okkur var sagt að taka af okkur armbandsúrin, vegna þess að þau geta brotnað undan kraftinum sem okkur er gefinn.

Hver nemandi fór inn til Ethelar hálfsmeykur og kvíðinn og kom til baka ráðvilltur á svip. Þegar kom að mér settist ég i stólinn eins og mér var sagt og lokaði augunum. Ethel stóð á bak við mig. Ég fann að hún gerði eitthvað við hvirfilinn á mér og það leið yfir mig. Ég rankaði við mér við að hún var að slá létt á hendur mínar, segjandi: ,,Komdu nú aftur, komdu aftur.“ Hún var ekki ánægð. Hún átaldi mig fyrir að hafa ekki stjórn á mér og ,,hrökkva út úr líkamanum“ á þennan hátt. Málið var að halda sér HÉRNA, sagði hún í áminningartón, og vera vakandi. Annað kvöldið á námskeiðinu fannst mér eins og höfuðið hefði opnast að ofan og hvítt ljós streymdi í gegn um mig, niður að mitti. Þriðja kvöldið fann ég það síga með þyngslum niður allan bolinn að sitjandanum á stólnum. Fjórða kvöldið fann ég ekki fyrir neinu. Ég spurði bekkjarfélaga mína (sum þeirra voru læknar og hjúkrunarkonur) hvað þau fyndu. Einn sá marglit ljós, annar fann fyrir kitlandi tilfinningu um allan líkamann, enn einum fannst hárin rísa á höfðinu og velti fyrir sér hvort Ethel væri að ýfa hárið á honum þar til hann mundi eftir að hann var sköllóttur.

Mörgum árum seinna spurði ég Ethel hvernig hún færi að því að innstilla okkur. ,,Það er eins og að stilla vél til að láta hana vinna betur,“ sagði hún. „Eða að stilla útvarpstæki á sérstaka bylgjulengd. Með þessu eru orkustíflur losaðar. Þú getur ekki heilað án þess. Það verður að vera innstilling.“ Það var ekki fyrr en seinna að ég fékk Reiki-meðferð, hvað þá að ég þyrði að meðhöndla sjálf, og það leið hálft ár þar til ég áttaði mig á því að útbrot sem ég hafði haft síðan í barnæsku voru horfín af húðinni. Hvernig er að fá heilun? Dásamlegt. Í fyrsta skipti sem ég fékk Reiki-meðferð fannst mér sem leysigeislum væri hellt yfir mig. Ljósgeislar flugu í gegnum mig þvers og kruss frá höfði niður í tær. En í hvert skipti er tilfinningin ólík og fólk finnur fyrir meðferðinni á mismunandi vegu. Sumir segjast ekki fínna fyrir neinu nema kannski smávegis hlýju, þótt þeir verði undrandi að meðferðinni lokinni að uppgötva að ein og hálf klukkustund hefur liðið í stað 20 mínútna eins og þeir héldu.

Flestir finna fyrir gífurlegum hita frá höndum þess er meðhöndlar þá. Þeir tala um hve hitinn sé þægilegur, líkt og frá hitapoka. ,,Ekki taka hendurnar af mér. Ég vil bara vera snertur,“ segja þeir. Þetta er ekki nudd. Það þarf ekki að hreyfa hendurnar eða strjúka neitt, það þarf aðeins að leggja lófana á 12 staði utan yfir fötunum. Þetta fyrsta námskeið hafði svo djúp áhrif á mig að á næstu þrem árum fór ég í þjálfun í fjarheilun, að senda kraft til fólks á fjarlægum stöðum. Ég get ekki státað af neinum kraftaverka lækningum engin æxli hafa hjaðnað undan höndum mínum, engir lamaðir hafa kastað hækjunum (reyndar hefur ennþá enginn haldinn slíkum sjúkdómum leitað til mín, þótt ég hafi getað hjálpað með höfuðverki, bakverki og hjartaverki).

Andleg lækning er ekki eitthvað sem nægir að gera einu sinni. Eins og með alla hefðbundna læknismeðferð verður að endurtaka meðferðina hvað eftir annað. Sumir heilarar neita þess vegna að taka neinn í meðferð sem samþykkir ekki að koma eins oft og þarf, sem stundum tekur marga mánuði. Ég efast ekki um að þessi heilunarorka virkar og að það fer ekki eftir trú. Vísindamenn hafa rannsakað heilunarmáttinn í sambandi við ensíma, blóðrauða, vetnisbindingu í vatni, vöxt plantna og græðingu sára á músum – ekkert af þessu hefur neitt með ,,trú“ að gera. í hverju einasta tilfelli sýndu handayfirlagningarnar marktækan árangur.

En hvað er annars að gerast? Er heilun orka? Eða hugsanakraftur?
Margir velta þessu fyrir sér. Enginn getur sagt um það með vissu. ,,Hvað sem það er, þá er það dularfullt,“ segir dr. Michaeleen Mayer, sem vann fyrir The American Society for Psychical Research í New York borg. ,,Þetta er ekki enn sem komið er innan þekkingarsviðs vísindanna.“ Sumir vilja meina að þessi kraftur komi frá Guði eða í gegnum samband við andlega heiminn, aðrir segja að þetta sé ,,algjörlega vísindalegt“ og útheimti hvorki trú né trúarbrögð, enn aðrir segja að þetta sé ekkert annað en dáleiðing og virki eins og blekkingarmeðalá hugann. Dr. Mayer er sammála því síðasttalda. „Vísindin hafa ekki sannað hvort neitt sem kemur frá höndum þess er heilar sé öðruvísi en venjuleg líkamsorka eða ára. Þess vegna finnst mörgum okkar að þetta sé hugarafl, það að hafa áhrif á atburðarásina með huganum. Það er til fólk sem getur hreyft hlut á borði með hugsun sinni, svo það er vissulega hægt að hafa áhrif á huga annarrar manneskju og á líkamann í gegnum hugann.“ En dr. Mayer er vísindamaður en ekki læknir.

Reiki-heilarar (og margir aðrir sem stunda heilun) eru sammála um að kraftur sé látinn í té og að sá kraftur komi ekki frá þeim sem heilar. Þeir trúa því að það fari eftir hæfileikum sjúklingsins til að taka til sín orkuna, þannig að krafturinn, sem sé alheims lífskraftur, og ljósorkan virki jafnvel þótt sá sem orkunni miðlar sé þreyttur eða annars hugar og þar með að það sé ekki hægt að heila með einbeitingu og viljastyrk. Þeir sem reyna að heila með sinni eigin orku verða fljótlega úrvinda, dauðþreyttir eða jafnvel veikir sjálfir. Sjálfri finnst mér að heilun sé aðeins möguleg þegar ég stilli hugann inn á annað svið handan við eigið sjálf og langanir. Það er vissulega nauðsynlegt fyrir þann sem heilar að vera innstilltur á ró og einbeitingu. Ambrose Worrall, sem var giftur Olgu Worrall og er kraftmikill, sjálflærður og heimsfrægur fyrir andlegar lækningar, sagði á prenti: ,,Þetta er kraftur kærleika og samúðar. Samúðin er sterkasta aflið. Maður verður að umvefja sjúklinginn samúð, maður verður að óska þess af öllu hjarta að hann verði heill og heilbrigður. Ef ekki kæmi til þessi kraftmikli kærleikur er ólíklegt að neitt myndi gerast.“ Ethel Lombardi staðfestir þetta sjónarmið:

,,Ég trúi því af öllu hjarta að kærleikurinn skipti öllu máli. Læknandi kraftur er sá tærasti kærleikur sem fyrirfinnst.“ Sama sinnis er Gerald Jampolsky, höfundur bókarinnar ,,Love is letting go of fear“, sem uppgötvaði þegar hann stundaði dauðvona börn að börnin gátu hjálpað hvert öðru með kærleiksríkri umhyggju og snertingu. Fyrir mitt leyti er ég ekki viss um hvaðan þessi kraftur kemur en ég hef fundið hann streyma í gegnum mig. Þótt krafturinn sé ekki frá sjálfri mér kominn hef ég fundið hvernig hann magnast og eykst með fyrirbænum. Stundum er eins og þessi alheimskraftur hellist í gegnum hendur mínar í líkama sjúklingsins eins og flóðbylgja, en stundum léttilega, næstum án þess ég finni það. Það er dásamlegt að gefa. Krafturinn umvefur bæði þann sem gefur og hinn sem tekur við.

Ég finn mig þrungna og brennandi af kærleik og ég finn til djúprar auðmýktar yfir því að fá að miðla þessum dásamlega krafti. Þúsundir manna hafa lært Reiki og aðrar heilunaraðferðir og þótt ótal aðferðir séu kunnar er mín reynsla af heilun ekki einstök. Tvennt gerist: Í fyrsta lagi er orkuflæðið frá höndum manns inn í líkama þess er við tekur og í öðru lagi fær maður tilfinningu fyrir því hvað er að gerast í líkama sjúklingsins (sjúkdómar, verkir eða andlegar þjáningar). Stundum veit maður þetta ósjálfrátt, en stundum finnur maður merki þess á sjálfum sér, t.d. pirringur í handarbökunum eða kuldi, eða maður finnur ,,myrkan blett“ einhversstaðar á sjúklingnum. Stundum finnur maður fyrir verkjum sjúklingsins í eigin líkama. Ég hef oft verið spurð hvort hægt sé að heila sjálfan sig. Já, það er hægt og ég er viss um að fólk sem ég mæti á götunni furðar sig á að sjá mig þrýsta höndunum á hjartað eða hálsinn. En maður fær sterkari skammta frá öðrum. Heilarar fara til annarra heilara. Heilarar fara líka til lækna. Andlegar lækningar eru uppbót á hefðbundnar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir uppskurði eða aðra læknismeðferð.

Virkar heilunin ef þiggjandinn trúir ekki? Svarið er já, vegna þess að dýr og plöntur ,,trúa“ ekki. En trúin er mismunandi mikil hjá fólki og því opnari sem maður er fyrir því að taka við kraftinum og hefur meira traust á þeim sem miðlar honum, því meira hefur maður út úr því. En spurningin skiptir ekki máli því fólk sem er virkilega andsnúið heilun biður ekki um hana og því er ekki veitt hún gegn vilja þess. Það er mikil ábyrgð að heila og maður skyldi aldrei senda kraft til neins sem biður ekki um hann, ekki einu sinni til barns, nema foreldri þess hafi beðið um. Annað væri að ryðjast inn í einkalíf viðkomandi og slíkt er engum leyfilegt. Og þá er komið að síðustu spurningunni.

Hvers vegna virkar þetta ekki alltaf? Við höfum engin svör við því nema getgátur. Ein ástæðan gæti verið að stundum kemur manneskja með eitthvert tiltekið vandamál eða sjúkleika og ætlast til að fá bætt. En líkaminn veit hvað þarfnast heilunar fyrst og það er kannski eitthvað allt annað en kvartað er yfir. Það verður að taka eitt fyrir í einu og oftast þarf að koma í meðferð mörgum sinnum, rétt eins og þarf við venjulegar lækningar. Önnur ástæða fyrir því að heilun virki ekki getur verið sú að undirvitund sjúklingsins þurfi á sjúkdómnum að halda eða vilji ekki sleppa honum. Sumir uppskera þekkingu og visku út úr veikindum eins og Ethel Lombardi gerði, aðrir uppskera verðlaun í samúð eða fjárhagslegum stuðningi og ef þeir hafa búið við veikindin árum saman er stundum ekki hægt að hugsa sér lífið án þeirra. Það er erfitt að byrja upp á nýtt.

Að síðustu: það getur verið að heilun virki ekki af ástæðum sem okkur eru ókunnar. Heilun getur heldur ekki komið í veg fyrir dauðann þegar tími okkar er kominn. Þetta skýrir hvers vegna andlegar lækningar hafa engan vísindalegan grundvöll. Þær eru óreglulegar og óútreiknanlegar og geta aldrei verið endurteknar. Þetta gerir þær samt ekki óraunverulegri fyrir þann sem heilar og þótt staðreyndin sé  sú  að  læknar geta ekki einangrað ,,orkuna“ þýðir það aðeins að enn hafa ekki verið fundin upp nógu nákvæm tæki tíl að mæla hana. En mér finnst að heilunin sé meðfæddur réttur okkar allra. Þetta veit sérhver móðir, og þegar barnið hennar meiðir sig tekur hún það upp og huggar með snertingu sinni. Hún kyssir á sár til að láta það batna. Þegar við rekum tærnar í, þá er okkur eiginlegt að halda um fótinn með báðum höndum sem einhvern veginn, án þess við vitum hvernig, minnkar verkinn.

Hvers vegna? Er eitthvað í höndunum á okkur? Hve mörg okkar hafa heilað gæludýr barnanna þegar þau meiddust, eða lagt höndina á enni einhvers sem var með höfuðverk til að eyða verknum? Hve mörg okkar hafa heilunarmátt sem við höfum aldrei  áttað okkur á?

Viðtalið skrifaði Enna Valvesdóttir árið 1988



Flokkar:Meðferðir

%d