Líkamsspennulosun

Rætt við Margréti Aðalsteinsdóttur sem lærði likamsspennulosun í Suður- Afríku.  Hún er sjúkraliði og var ein af þeim fyrstu sem starfaði hér á landi við svæðameðferð og fór á fyrsta námskeiðið hérlendis í höfuðbeina og spjaldhryggjarjöfnun. Einnig er hún sú eina hér á landi með nám í Handa og tónmeðferð (Heilsuhringurinn vorbl. 1994). Margrét segir það eftirtektarvert hve mörg ný áhrifarík meðferðarform komu fram á seinnihluta síðustu aldar. Ein slík meðferð er líkamsspennulosun sem kom fram fyrir u.m.þ.b. 20 árum. Við báðum Margréti að segja lesendum Heilsuhringsins frá þessari lítt þekktu meðferð og ástæðu þess að hún fór alla leið til Suður- Afríku til að nema hana.

Hér kemur frásögn Margrétar:  Sonur minn var búsettur í Englandi og ásamt konu sinni fór hann þar í svona líkamsspennulosun. Þeim fannst þetta merkilegt því að þau losnuðu bæði við axlaverki sem þau voru bæði undirlögð af. Það varð þess að ég fór líka í nokkrar svona meðferðir. Sonur minn hvatti mig eindregið til að fara og læra þetta sem varð til þess að ég sótti um í skóla hjónanna Gail og Ewald Meggersee og komst þá að því að aðeins fólk sem hafði prufað af eigin raun þessa meðferð fékk skólavist.

Ég lagði af stað til Suður- Afríku í apríl árið 2001 í fimm mánaða skóla. Í byrjun var ráðstefna, þar sem bæði gamlir og nýir nemendur hittust. ( Merkilegt var hve eldri nemendur voru duglegir við að aðstoða byrjendurna við að koma undir sig fótunum.) Námið byrjaði fyrst í maí og byggðist á líffræði- og /verklegri kennslu sex daga vikunnar, próf var úr efni hverrar viku. Síðan var próf 1. júlí úr tveggja mánaða námsefni. Eftir það kom 10 daga frí sem hjónin notuðu til að sýna okkur umhverfið í kring um skólann. Þegar skólinn byrjaði eftir fríið voru einnig kennd sjúkdóma- og líkamsheiti. Vel var að öllu staðið, námið var mjög ítarlegt, nemendurnir voru vel þjálfaðir og full færir um að hefja störf á eigin vegum að skóla loknum.

Gail og Ewald hugsuðu vel um nemendur sína, sáu um að allir fengju gott húsnæði. Ég leigði t.d. tveggja herbergja íbúð fyrir 11 þúsund krónur á mánuði. Þeir sem það vildu leigðu eitt herbergi eða bjuggu í húsnæði sem skólinn útvegaði og höfðu sameiginlegt eldhús. Ekki var krafist undirbúningsmenntunar enda voru nemendurnir úr hinum ýmsu starfsgreinum þjóðfélagsins.

Upphafið
Ennþá er þetta eini staðurinn í heiminum þar sem líkamsspennulosun er kennd, enda eru hjónin Gail og Ewald Meggersee upphafsmenn aðferðarinnar. Gail var háskólakennari og hann lærður iðnaðarefnafræðingur. Þau eru nú búsett og reka skólann í Wildernes um klukkustundar flug frá Cap town í Suður-Afríku . Um þrjátíu ára skeið átti Ewald við mikil veikindi að etja sem hófust eftir að hann fimm ára gamall féll niður úr tré og lá síðan í heila viku meðvitundarlaus.

Afleiðingarnar voru sífeldir verkir og krampar neðarlega í baki og fótum, sem enginn skýring fannst á. Hann var til sífelldra vandræða skóla því að hann iðaði allur og truflaði þegar hann kveinkaði sér vegna verkjanna. Hann gat ekki staðið kyrr í smá stund og féll stundum vegna sárra verkja í hnjánum. Þannig varð honum öll hans skólaganga hrein martröð. Þegar hann var 15 ára var honum sagt að líkamleg vandkvæði hans stöfuðu af geðvefrænum toga. Hann lauk samt námi og giftist Gail sem hann segir hafa verið fyrstu manneskjuna sem virtist hlusta og skilja vandræði hans. Enda byrjaði fljótt að reyna á hana í sambúð þeirra.

Hún segir það hafa verið ógnvekjandi að vakna upp við það nótt eftir nótt að Ewald veinaði upp úr svefninum og hún fylgdist með þegar krampinn í kálfunum fóta hans orsakaði það að hann datt fram úr rúminu. Þegar hann reyndi svo að standa upp var hann tilfinningarlaus frá mitti og þurfti að bíða eftir því að mátturinn kæmi aftur. Ewald segir að það hafi fylgt því skelfileg tilfinning og ótti við að mátturinn myndi ekki koma til baka einhvern morguninn, þannig að hann missti vinnuna og hann yrði lamaður í hjólastól. Svo ákváðu þau hjónin að fara bæði til Ameríku og læra kírópraktík. Sú meðferð átti eftir að lina þjáningar Ewalds tímabundið. Samt komu verkirnir sífellt aftur en þau vonuðust til að finna eitthvað sem öðrum hefði yfirsést svo hægt væri að tyggja varanlegan bata hans.

Á námsárunum í Ameríku höfðu þau tækifæri á að hitta dr. Richard van Rumpt kírópraktor sem vegna aldurs var hættur störfum. Hann hafði aðra innsýn en starfsbræður hans og talaði um að hlusta á líkamann og nota ósjálfráða vélræna tækni hans til að lækna sig sjálfan. Þegar þau hjónin komu til baka til Suður- Afríku ákváðu þau að þróa aðferð dr. Richards van Rumps með því að reyna lesa úr viðbrögðum líkamans, spennu og vöðvasamdrætti. Þau uppgötvuðu það að líkaminn hefur mjög háþróaða skipulagða aðferð til að verjast spennu.

Venjulega getur hann aðlagað sig að margs konar álagi eins og falli, höggum, kippum, þungum lyftum og slæmu atlæti. En ef líkaminn verður ofhlaðin álagi lokar hann spennuna inni sem leiðir til samdráttar, stífni og verkja. Smátt og smátt veldur slíkt ástand því að líkaminn hættir að verja sig fyrir áreitinu. Þess vegna finnur fólk með mikla líkamsspennu oft fyrir innri spennu, þreytu, orkutapi og áhugaleysi fyrir lífinu. Bakverkir og meltingartruflanir fylgja þessu oft líka. Tilraunadýr hjónanna við þróun líkamsspennulosunartækninnar var Ewald sjálfur og hann kveðst vita af eigin raun að meðferðin virkar fullkomlega, því að eftir ítrekaðar meðferðir hlaut hann fullkominn bata.

Þrjár ástæður
Það er vanalega af þremur ástæðum þegar eitthvað fer úrskeiðis í líkamanum þær eru: Tilfinningar og andleg líðan, vélrænn álagsþáttur, óþol og álag vegna efnafræðilegra þátta.

Tilfinninga og andlegur þáttur
Andleg reynsla getur orsakar líkamsspennu þar má nefna: Hræðslu við framtíðina, fjárhagsáhyggjur, samkeppni á vinnustað, skilnaðir og fjölskylduvandamál, geðshræringar, taugaáföll, gremju, reiði, depurð og angist. Líkamlegar afleiðingar slíks geta valdið vandamálum í þind, kjálkunum, hálsi og herðum þegar líkaminn setur sig í varnarstöðu og reynir að berjast gegn áhlaupum álagsins.

Vélrænn álags þáttur. Líkaminn hefur innbyggða, meðfædda eiginleika til að verjast höggum og dynkjum, en ef slíkt álag fer yfir innbyggða aðlögunarvarnargetu hans lokast spennan inni. Eins og t.d. eftir bílslys, endurtekin föll, rangar lyftur, vélræn störf, slæman ávana eins og að sitja í slæmri stellingu, eða að gera óhentugar líkamsæfingar.
Efnafræði þáttur/ óþol Spennu álag getur orsakast af efnafræðilegum þáttum eins og lykt, bragði og snertingu. Þar spilar inn í mengun af ýmsu tagi t.d. í andrúmslofti, skordýraeitur, aukefni í matvöru og rotvarnarefni og efni skaðleg húð og öndunarfærum.

Meðfæddir eiginleikar
Mikið af líkamsorkunni fer í að hlífa og verja vöðvana gegn uppsafnaðri spennu og áreiti. Lykillinn að lausn er að vekja og virkja vöðvakerfið til hjálpar veikum vefnum til að koma aftur á eðlilegri vöðvastarfsemi líkamans. Meðferðin er varfærin og þarfnast hvorki krafta né átaka. Framkvæmdar eru margs konar skoðanir og kannanir á þeim er þiggur meðferðina liggjandi og full klæddum, meira að segja í skóm.

Fyrst er fundið út með sérstakri aðferð hvar skekkjur liggja og meðferðin snýst svo um að losa um hryggjarsúluna þannig að taugakerfið sem liggur frá og að mænunni geti óhindrað sent sín boð. Vöðvar og sinar þrýsta liðunum saman. Þegar taugakerfið lendir í klemmu má líkja því við þegar lykkju er brugðið á rafmagnslínu og klemma sett á, þá rofnar straumurinn eða flutningsgetan minnkar til muna. Taugaboðin þurfa að komast bæði til og frá mænunni óhindruð. Ef vandi er í herðum stafar það oft af pressu á taugar á milli hálsliðanna. Þegar líkaminn fær aðstoð notar hann innbyggðu, meðfæddu eiginleikana til að rétta sig af.

Viðtalið var skrifð 2005 —  I.S.Flokkar:Meðferðir

%d