Vart þarf að kynna Magnús Ólafsson leikara svo oft hefur hann skemmt landsmönnum með leik sínum og söng bæði á sviði og kvikmyndum. Um árabil átti hann við offituvandamál að stríða. Fyrir tveimur árum var hann orðinn svo illa haldinn vegna fylgifiska þessarar miklu líkamsþyngdar, að hann leitaði hjálpar hjá Ludvig Guðmundssyni lækni á Reykjalundi. Þá var Magnús 170 kíló en síðan hefur hann lést um 67 kíló og stefnir á að ná tveggja stafa tölu á vigtinni. Eftir að Magnús tjáði sig í sjónvarpi nýlega um þennan frábæra árangur ákvað Heilsuhringurinn að biðja hann að deila reynslu sinni með lesendum blaðsins. Tók hann því vel og er saga hans svohljóðandi
Á mínum unglingsárum var ég svo grannur að ég var oft kallaður ,,Maggi mjói“. En eftir að ég hætti íþróttaiðkun 32 ára gamall breyttist þetta. Ég var lengi markvörður í handknattleiksliði FH í Hafnarfirði. En þegar ég hætti í boltanum fóru kílóin að hlaðast á mig eitt af öðru og endaði með að ég missti alveg stjórn á hlutunum. Ég var alltaf að borða, fór oft ísskápinn á næturnar og tróð í mig mat þar til ég stóð á blístri. Alltaf settust fleiri kíló á mig og þegar ég var sem feitastur gat ég ekki farið í sokka eða skó hjálparlaust. Hnén búin að gefa sig, ég kominn með astma, hjartsláttur var óreglulegur, gat varla gengið, staulaðist um og var mjög illa haldinn.
Fékk harkalega aðvörun
Ég var að leika í sýningu í Þjóðleikhúsinu árið 1999 og hélt ég væri með flensu en svo var nú ekki. Svo veikur var ég að mér var kippt út af í einni sýningunni og Örn Árnason hljóp í skarðið eftir hlé. Ég var fluttur heim og þaðan með neyðarbíl á sjúkrahús. Þar fór ég í ýmsa rannsóknir og það kom í ljós að eitt og annað var að. Ég var með eitrun í lungum og ásamt öðru var blóðþrýstingurinn í 200, því var ég eins og tifandi tímasprengja. Mér var tilkynnt að ég yrði að gera eitthvað róttækt í málinu ef ekki ætti illa að fara. Ég velti fyrir mér hvað væri til ráða, en gerði þó ekkert af viti þrátt fyrir það sem á undan var gengið. Áður en þetta kom til var ég oft búinn að reyna ýmislegt. Þær lausnir eins og t.d. Herbalife, skiluðu þó aldrei nema tímabundnum árangri. Eins og áður hélt ég áfram að ýta þessu á undan mér þar til fyrir tveimur árum en þá var ég svo langt leiddur að ég leitaði til Ludvigs Guðmundssonar á Reykjalundi. Hann rannsakaði mig í kjölfarið mjög ýtarlega og sagði að því loknu: ,,Magnús, ástand þitt er þannig að eftir 8-12 mánuði verður þú kominn með sykursýki og hún verður komin til að vera“. Þetta gerði útslagið, því sykursýki vildi ég ekki fá og ákvað að takast á við þetta af festu og létta mig. Ég fékk allar þær ráðleggingar sem tiltækar voru og í stað þess að leggjast inn var ákveðið að Ludvig myndi fylgjast með mér.
Miklar breytingar
Að breyta matarræðinu var erfitt ég hef alltaf verið mikill matmaður og borðaði allt of mikið alltaf. Nú byrjaði ég á að taka út allt gos og hætti að drekka bjór sem mér fannst góður. Þess í stað fæ ég mér stöku sinnum rauðvín eða hvítvín. Ég hætti öllu pizza- og hamborgaraáti og henti út allri óhollustu. Konan mín tók málin föstum tökum heima fyrir og breytti innkaupum heimilisins algjörlega. Nú er hugað að hollustunni fyrst og fremst og ég borða mikið af grænmeti og ávöxtum. Það er ekki hægt að segja að ég hafi farið á neinn matarkúr, en við breyttum matarræðinu á heimilinu algjörlega, borðum venjulegan heimilismat í hollari kantinum og ég borða mun minna, t.d. ekki nema eina kjötbollu í stað 8 áður, sykurlaust skyr hefur reynst mér mjög vel og grænmeti og ávextir. En ég breytti hugsunarhættinum algjörlega, það var eins og að skipta um forrit í tölvu.
Sýnishorn af matseðli
Morgunverður:
1 matskeið þorskalýsi á fastandi maga, sykursnautt skyr eða súrmjólk, banana, epli og eða hrökkbrauð með osti.
Hádegismatur:
Heita samloku af grófu brauð, 1 glas appelsínusafi og ávöxt.
Kvöldmatur:
það sem konan ber á borð fyrir fjölskylduna. Ég bara smakka á honum, enda maturinn settur á undirskál fyrir mig. Ef hungrið kallar á kvöldin þá er það ávextir eða léttpopp og vatn. Ég sakna einskis varðandi mat. Nú er líf mitt gjörbreytt, ég fer í gönguferðir, syndi mikið, og líður að sjálfsögðu margfalt betur. Ég er þakklátur öllum þeim sem hjálpuðu mér að snúa lífi mínu á betri veg, sagði Magnús að lokum.
I.S.
Flokkar:Reynslusögur