Blóðfita lækkuð með vítamínum

Í endaðan nóvember árið 2002 var ég kölluð inn í blóðrannsókn hjá Hjartavernd vegna erfðarannsókna sem tengdust kransæðastíflu tvíburabróður míns. Tólf dögum eftir rannsóknina þann 10. desember, gafst mér kostur á meðhöndlun í nýju háþróuðu orkugreiningar-og meðferðartæki hjá Sigríði Ævarsdóttur hómópata í Borgarfirði. Tækið er nefnt QXCI og er hannað af breska vísindamanninum dr. William (Bill) Nelson en margir sérfræðingar í kjörlækningum hafa lagt honum lið við þróun þess. QXCI-tækið er tengt við öfluga tölvu og ,,endurómar” orku og ástand vefja, líffæra, næringarefna, eiturefna, ofnæmisvaka o.fl. meðan á prófun stendur. Tækið skráir líffræðilega svörun, greinir og forgangsraðar þeim og skilar upplýsingum þar að lútandi á tölvuskjá.

 

Þær upplýsingar sem fást með mælingum tækisins eru í grundvallaratriðum ólíkar hefðbundnum rannsóknarniðurstöðum því að tækið mælir streituviðbrögð og segir hvort ákveðið efni valdi slökun eða áreiti þegar það kemst í snertingu við líkamann. Það mælir líffræðileg viðbrögð þátttakandans í gegnum fíngerðar breytingar á líkamsstarfsseminni en sjúkdómsgreinir ekki. Tækið vinnur á sviði undirmeðvitundarinnar og er aðferðin þekkt og nýtt á öðrum sviðum, t.d. hjá lögreglu því að sambærilegri tækni er beitt þegar verið er að kanna sannleiksgildi játninga þ.e. við lygapróf.

Það er ástand orkunnar í líkamanum sem er mælt og hvert líkaminn beinir henni hverju sinni. Þannig getur tækið gefið til kynna streitusvörun við orkuójafnvægi sem hefðbundnar aðferðir geta ekki greint á því stigi. Því áður en efnið fer að breytast og taka á sig mynd sem greinanleg eru beru auga eða t.d. á röntgenmynd verður breyting í orkuflæðinu og það er nóg til þess að tækið gefi svörun. Það er sem sagt ekki verið að mæla efni heldur orku. Þetta er hægt af því að líkaminn er rafknúinn og tækið nemur rafsegulbylgjur frá líkamanum en sendir einnig rafsegulbylgjur til baka til að leiðrétta orkuójafnvægi eða ,,ranga tíðni.” Meðhöndlunin hjá Sigríði fer að hluta til fram í gegnum tækið og að hluta til með ,,remedíum” og ráðleggingum um breytingu á lifnaðarháttum, úthreinsun á eiturefnum séu þau fyrirstaða eða öðru því sem telja má að standi í vegi fyrir góðri heilsu.  Meðhöndlunin er alltaf einstaklingsbundin því að við erum svo misjöfn að þó við séum að borða það sama og séum í svipuðu umhverfi og upplifum svipaða hluti, þá hafa þeir mismunandi áhrif á hvern og einn.

 

Tenging við tækið

Snúrur frá tækinu voru settar um höfuð, úlnliði og ökkla og tækið síðan tengt við tölvuna. Í því kom m.a. fram að mig vantaði ýmis næringarefni eins og NADase, fjölómettaðar fitusýrur, C vítamín, Q10 vítamín, kalk, kalíum, króm og magnesíum. Ég þekkti ekki NADase og hringdi í Ævar Jóhannesson (föður Sigríðar). Hann sagði að þetta væru ensím sem líkaminn notar til að mynda kóensímið NAD og NADH úr B3 vítamíni (nicotinamid). (NAD og NADH eru lykilefni við orkuvinnslu frumanna við að mynda ATP adenosin þrífosfat,  sem öll orkuvinnsla frumunnar byggir á.) Daginn eftir að ég fór í tækið hjá Sigríði keypti ég öll bætiefnin sem kom fram að mig vantaði og bætti við B fjölvítamíni, því að sagt er að líkaminn nýti betur stök B vítamín fái hann einnig B fjölvítamín.

 

Hálfum mánuði eftir blóðprufuna, 5 dögum eftir að ég fór í tækið hjá Sigríði bárust mér niðurstöður úr blóðrannsókn Hjartaverndar. Rak ég þá upp stór augu því að blóðfita mín mældist 8.5 en var sögð ekki mega fara upp fyrir 6. Þetta vakti mikla kátínu hjá heimilisfólkinu sem ég hef talið trú um áratugum saman að hollast væri að neyta sykur- og fitusnauðs fæðis eins og ég hef get í mörg ár. Daginn eftir að niðurstöðurnar bárust hringdi Ólafur Ólafsson læknir sem þá var að leysa af heimilislækninn minn. Hann undraðist þessa útkomu og gat ekki skýrt þetta á nokkurn veg en minntist ekki á að ég ætti að taka lyf, og sagði að ég skyldi ekki hafa áhyggur af þessu því að hann þekkti þrjár fullorðnar systur sem allar væru með of hátt kólesteról en lifðu samt góðu lífi.

Ég hringdi í Hjartavernd og fór fram á aðra blóðprufu því að ég trúði ekki niðurstöðunum, þegar ég frétti að bæði systkini mín voru undir viðmiðunarmörkum, þótt hvorugt þeirra lifði meinlætalífi í mat eins og ég. Þriðja janúar 2003 mætti ég á ný í blóðprufu hjá Hjartavernd. Hjúkrunarfræðingnum sem tók blóðið úr mér fannst ekkert skrítið þó að ég væri með háa blóðfitu þrátt fyrir að ég lifði á fæði sem als ekki ætti að valda aukinni blóðfitu og sagði: ,,Þetta er bara ættgengt.” Mér fannst það út í hött að fullyrða svoleiðis þegar ekkert var vitað um blóðfitu foreldra minna og bæði systkini mín voru undir viðmiðunarmörkum. Ég sagði henni að ef ég væri með of mikla blóðfitu þrátt fyrir að lifa á bæði sykur og fitusnauðu fæði væri best fyrir Hjartavernd að endurskoða mataræðisráðgjöf þá sem dreift væri til blóðfitusjúklinga enda þyrfti sífellt nýja hugsun ef árangur ætti að nást í vísindum. Hún endurtók að ábyggilega væru þetta erfðir og horfði á mig með lítilsvirðingar- og aumkunarsvip. Til að leggja áherslu á orð sín sagði hún: ,,Við erum búin að finna genið sem veldur freknum og rauðbirkinni húð” svo  horfði hún fast á freknurnar mínar. Ég lét það ekki á mig fá og trúði því alls ekki að of há blóðfita í mínum kroppi stafaði frá erfðum.

Niðurstöður

 

Þegar niðurstaða kom úr seinni blóðprufunni frá Hjartavernd sýndi hún að blóðfitan hafði lækkað eftir að ég byrjaði að taka inn vítamínin úr 8.5 í 7.2. Ég var harla ánægð með breytinguna því að ég hafði borðað ýmsan mat um jólin sem ekki er talin til blóðfitulækkandi matvæla. Það var því ekki um að villast að bætiefnaaukningin í næringunni hafði skipt sköpum á aðeins 24 dögum.

Ég hélt áfram að taka inn öll vítamínin og þremur og hálfum mánuði eftir fyrstu blóðprufuna fór ég í þriðju blóðrannsóknina og þá kom fram að blóðfitan hafði lækkað í 6.5. Fjórða blóðprufan var gerð rúmu hálfu ári frá þeirri fyrstu og mældist hún þá 5.9. Þegar árangur minn kom í ljós fóru fleiri að beita þessari aðferð gegn of hárri blóðfitu og kom svipaður árangur fram hjá þeim. Af þessari sögu má sjá að Hjartavernd og Íslensk erfðagreining eiga ýmislegt ólært. Má jafnvel álykta af framkomu starfsmannanna við mig að ekki sé nóg þekking á þeim bæ til að þeir aðilar eigi að vera í forsvari við uppfræðslu þjóðarinnar í þessu ákveðna heilbrigðismáli.

Upplýsingar úr Heilsuhringnum

Reyndar las ég í gömlum Heilsuhringsblöðum greinar um blóðfitu lækkandi aðferðir eftir læknana Joseph G. Hattersley og Dean Ornish sem birtust í haustbaði Heilsuhringssins árið 1990 og Morgunblaðsgrein eftir Einar Þorstein Ásgeirsson um þýska vísindamanninn Matthias Rath. Þeim bar öllum saman um að ráð gegn of hárri blóðfitu fælist ekki bara í fitulausu fæði heldur einnig að sneiða hjá öllum unnum matvörum ásamt því að taka aukalega inn eftirtalin vítamín. :Sjá skrá yfir vítamín sem þeir töldu að nauðsyn væri að taka til að blóðfitan lækkaði.

  • B- fjöl vítamín, 1 tbl.
  • B- 6 vítamín 150 – 200 mg.
  • B- 3 vítamín, 150 mg.
  • E- vítamín, 200- 500 mg.
  • C- vítamín, 250 mg.
  • Zink 1 tbl.
  • Kalk  og magnesíum.
  • 4 – 6, 500 mg. belgir af kvöldvorrósarolíu daglega.

Ég bendi á B- 3 ,,niacinamide” frá Now. Á markaðnum er einnig B-3 ,,niacinamidacid” sem oft veldur hita, roða og upphleyptri húð, það gerir sama gang en er hvimleitt og í raun ónothæft vegna þessara aukaverkanna.

Margar leiðir færar

Þegar ég hélt áfram að kynna mér blóðfituvandamál komst ég að því að mörg önnur ráð koma að gagni þegar lækka á blóðfitu. Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir grasalæknir notar jurtir til að eyða blóðfitu með góðum árangri. Hallgrímur Magnússon sagði mér að hann ráðlegði fólki að borða þrjú hrá egg á dag, dreift yfir daginn ásamt að taka inn þrjár matskeiðar af hörfræolíu á dag á sama veg. Ein kunningjakona mín þurfti að vinna á of hárri  blóðfitu en þoldi ekki lyfin sem læknirinn gaf henni. Hún fór að taka inn ómega- 3 fitusýru þá lækkaði blóðfitan hjá henni. Einnig heyrði ég af manni í sömu sporum sem fór að taka inn grasgrænutöflur (fást í Heilsuhúsinu) og þá lækkaði blóðfita hans án nokkurra annarra breytinga á hans venjubundnu næringu.

Í bókinni The Liver Cleansing diet sem er eftir bandaríska lækninn Söndru Cabot segir að 99% þeirra sem til hennar hafi leitað hafi komið lagi á blóðfitu með réttu mararæði.  Heilbrigð lifur dælir kólesteróli með gallvökvanum í þarmana, og ef fæðið er nógu rík af tefjum þá skila þarmarnir því út. Trefjaríkt fæði er því afar nauðsynlegt líkamanum til að losna við blóðfitu/kólesteról. Sandra ráðleggur lesetín, C-vítamín, hvítlauk og B-3 vítamín. Allt í mjög stórum skömmtum.

Sandra Cabot er með slóðina http://www.liverdoctor.com

Áhugavert lesefni :

Talað er um rangar kennigar varðandi áhrif blóðfitu í bókinni: Ignor the awkward, How the Cholesterol Myths are Kept Alive, eftir Uffe Ravnskov, MD, PhD (ISBN1453759409)

 

Kaflinn er úr bókinni Dans á rósum sem kom út í nóvember 2003. Nánari upplýsingar gefur höfundurinn Ingibjörg Sigfúsdóttir. Netfang: ims1567@gmail.com



Flokkar:Annað, Reynslusögur

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: