Heilsuhringurinn leit inn hjá Sigurði Herlufsen sem var ritstjóri Heilsuhringsins á árunum 1979 til 1986.
Hann hefur tileinkað sér grænmetisfæði frá unga aldri og féllst á að segja lesendum frá venjum sínum. Ég ólst upp á Ísafirði og var 18 ára er ég byrjaði að læra hárskeraiðn hjá föður mínum. Hann var áskrifandi að tímariti Náttúrulækningafélagsins, sem ég las á rakarastofunni með athygli, spjaldanna á milli. Einn daginn sagði ég við sjálfan mig: ,,Þessar kenningar eru svo skynsamlegar og áhugaverðar að ég tek mig til og fer að ástunda þær hér og nú“.
Ekki var það vegna þess að ég væri vanur slíku fæði því að heima var borðaður hefðbundinn íslenskur matur. Um það leyti sem ég tók þessa ákvörðun var ég að flytja úr foreldrahúsum, þannig kom þessi breyting á lifnaðarháttum mínum lítið við aðra fjölskyldumeðlimi. Ég leit svo á þegar innganga mín í grænmetisríkið hófst að fyrsta skrefið væri að hafna fiski og kjöti. Hins vegar notaði ég mjólk, smjör, egg og tók inn lýsi, sérstaklega á veturna. Fyrsta máltíðin er mér í fersku minni. Það var rúgbrauð með smjöri, mysingi og hráum lauk. Hægt og hægt þreifaði ég mig áfram og fjölbreytni jókst smátt og smátt.
Var ekki erfitt að fá hráefni í grænmetisfæði á Ísafirði á þessum árum?
Jú. Það breyttist mikið er ég flutti til Hafnarfjarðar um 1960. Ég tók líka saman við konuna mína um sama leyti, hún hélt að létt yrði að venja mig af þessari sérvisku, en það fór á annan veg, því að hún vandist þessu sjálf og varð fljótt meistara grænmetis kokkur.
Hvernig var viðmót fólks þegar þú vildir hvorki kjöt eða fisk?
Það var með ýmsu móti t.d. gekk maður að mér á götu á Ísafirði rétt eftir að ég breytti um og sagði: „Þú verður dauður eftir árið ef þú heldur þig við grasafæði“. Hann trúði því að ég væri að gera regin skissu.
Varðstu fyrir aðkasti út af þessu?
Nei, í vinahópi er mér tekið sem sérvitringi og flestir eru jákvæðir. Hinir finnast þó sem sýna pirring, yfrir því að ég falli ekki í hópinn og borði sama og hinir. Það hafa komið fyrir vandræðaleg augnablik eins og eitt sinn þegar þekktur huglæknir, sem nú er látinn, bauð mér í mat og mér láðist að segja honum frá sérstöðu minni. Ég var svo einfaldur á þessum árum að ég taldi að allir andlega iðkandi menn væru grænmetisneytendur. Mér fannst að það að vanda umhverfi sitt ætti við um fæði, klæði, hugsun og tal eftir því sem farið væri lengra inn á andlega hugsun og leit.
Þarna skjátlaðist mér og ég varð ákaflega leiður þegar ég sá hvað húsmóðirin var búin að hafa mikið fyrir matnum og varð vonsvikin með framkomu mína. Þarf að kynna sér efna innihald grænmetisfæðis vel áður en breytt er yfir af hefðbundnu fæði? Ég held ekki, fer fólk almennt í skóla til að kynna sér efnainnihald fæðis sem það lifir á ævina á enda? Það er mikils vert að virkja tilfinninguna og hlusta eftir þeim skilaboðum sem líkaminn sendir frá sér. Fólk verður næmara fyrir slíku þegar það fer að borða hreina fæðu og líkaminn losar sig við eiturefni sem gjarnan hlaðast upp ef neytt er matar sem inniheldur mikið af aukefnum.
Það er ekki nógu gott að borða bara soðið grænmetisfæði, ég held því fram að ef við færum með eldavél út í skóg og gæfum dýrunum bara soðinn mat myndu þau fljótlega deyja. Látum hyggjuvitið ráða eins og dýrin gera. Þeim farnast vel án þess að hafa næringarfræðinga sér til leiðsagnar. Svo skiptir það jafn miklu máli hvað maður forðast og hvað maður borðar. T.d. drekk ég aðallega kalt vatn, forðast gosdrykki og hef aldrei drukkið kaffi nema einstöku sinnum dreypt á því til að ná fram vinsamlegu viðmóti, sérstaklega ókunnugra sem halda mig vera einskonar ofstækismann!
Mér er það mikil ánægja að sjá að nú er víða á vinnustöðum og í stöku verslunum komnir vatnssjálfsalar í stað kaffisjálfsala. Og gleymum því ekki heldur að nú finnur maður varla reykjarlykt lengur. Ég minnist þess þegar ég tók þátt í skákmóti fyrir nokkrum árum að það sat læknir á móti mér, sem púaði vindil allan tímann og ég varð fárveikur yfir þessu, en varð að tefla með þessa vanlíðan. Það tók langan tíma hjá Skáksambandinu að verða samstíga með að banna reykingar.
Margir frægir skákmeistarar reyktu á þessum árum og því erfitt að ganga gegn þeirra sérhagsmunum. En það er fleira en fæðið sem skiptir máli, einnig er mikilvægt hvernig maður lifir að öðru leyti. Það þarf að gera eitthvað jákvætt, einfalt og skemmtilegt. Ég hef teflt skák og spilað borðtennis í áraraðir og nú er ég aftur tekin til við að spila bridds sem ég hafði kynnst í æsku. Þetta eru allt einföld og saklaus áhugamál sem auðga okkar stundir.
Breyti stundum um áherslur
Ég breyti stundum til og tek þá kúra líkt og einu sinni þegar ég fór á fræðslufund um makróbíótík hjá Heilsuhringnum. Eftir það setti ég upp nýjan matseðil á morgnana og sauð mér graut úr heilkorns tegundum. Það var valsað hveiti, rúgur, bygg og brotið bókhveiti, ásamt hveitiklíði, hörfræi og sesamfræi. Þessu er hrært saman meðan vatnið hitnar og tekið af um leið og suðan kemur upp. Setti á disk og saxaðar döðlur og/eða rúsínur út í. Úrvalsmatur. Mjög gott með sojamjólk. Í fyrra sumar fór ég á hráfæðiskúr í þrjá mánuði.
Það var mjög skemmtileg reynsla og sérstaklega að sitja til borð í dýrindisveislum og drekka aðeins blávatn meðan aðrir gestir borðuðu kökur og kræsingar af öllum gerðum. Þegar ég hætti kúrnum og ákvað að gera mér dagamun og borðaði í nokkur skipti sterkan, saltan mjólkurost „Danske Ole“ þá vaknaði ég upp eftir nokkra daga við mikinn verk í öxlunum og gat ekki lyft höndum eins og venjulega. Þá hætti ég umsvifalaust að borða ostinn og eftir nokkra sólarhringa hvarf verkurinn.
Morgunmatur: Byrja iðulega daginn á lýsi og epli og læt það nægja fram að hádegi. (Lýsi er vissulega ekki grænmetisfæði en þar sem ég á heima á Íslandi sem er fiskur þá geri ég þessa undantekningu.)
Hádegismatur: Í hádeginu framreiðir konan mín heita grænmetismáltíð eða baunarétt ásamt hrásalati sem við borðum á undan heita matnum.
Miðdagshressing: Vatn og tvær döðlur er nóg fyrir mig fram að kvöldmat.
Kvöldmatur: Þar sem hádegismaturinn er á ábyrgð konunnar fæ ég mér í kvöldmat gróft brauð og/eða kartöfluköku með smjöri og grænmetiskæfu eða sultu ásamt bláberjagraut með sojamjólk.
Næturhressing: Nú verð ég að viðurkenna að ég er töluverður sælkeri og þykir gott að fá jólakökusneið eða hjónabandssælu fyrir svefninn. Veit svo sem að það orkar tvímælis. Læt það samt eftir mér. Annars þarf stöðugt aðhald til að viðhalda kjörþyngd.
I.S.
Flokkar:Annað, Reynslusögur