Úr einu í annað – Vor 2004

Hér fara á eftir 5 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru eftirfarndi:

  • Of mikið hómócystein í blóði veldur fósturlátum.
  • Laxerolíubakstrar.
  • E-vítamín er ekki allt eins.
  • Jurtir gagnlegar á breytingarskeiðinu.
  • Nýuppgötvaður hormón stjórnar blóðþrýstingi.

Of mikið hómócystein í blóði veldur fósturlátum
Tuttugu og fimm 20-37 ára gamlar konur með að minnsta kosti tvisvar sinnum meira hómócystein í blóði en talið er æskilegt, höfðu ítrekað orðið fyrir því að missa fóstur. Flestar þeirra reyndust vera með fólínsýruskort. Þær fengu allar 15mg á dag af fólínsýru og 750mg á dag af B-6 vítamíni. Eftir mánuð varð hómócysteinmagnið í blóði allra þeirra nema einnar orðið eðlilegt. Haldið var áfram að nota þessi vítamín eftir að þær urðu barnshafandi og allan meðgöngutímann. Tuttugu og tvær þeirra urðu þungaðar innan þriggja mánaða frá því að hómócysteinið í blóðinu varð eðlilegt.

Af þessum konum fæddu 20 heilbrigð börn með engan vott af fæðingargöllum eða vansköpun. Þrem mánuðum eftir fæðingu var fólínsýran sem þær fengu minnkuð í 5mg á dag og hætt að gefa þeim B-6 vítamín. Níu kvennanna urðu fljótlega aftur barnshafandi og áttu síðan heilbrigð börn. Dr. Gaby, höfundur greinarinnar sem þessar upplýsingar eru fengnar úr, telur þó að svo stór skammtur af B-6 vítamíni sem notaður var, geti verið skaðlegur fyrir taugakerfið og stingur upp á að prófa að nota minni skammt og mælir með að gefa einnig zink og e.t.v. fleiri bætiefni, séu notaðir mjög stórir skammtar af fólinsýru. Æ.J  Heimild: Alan R. Gaby, M.D. Townsend Letter for Doctors and Patients, febrúar-mars 2003..

Laxerolíubakstrar
Eitt það sem sjáandinn Edgar Cayce ráðlagði mörgum var að nota laxerolíubakstra. Í Townsend Letter for Doctors and Patients, febrúar-mars heftinu 2003 er sagt frá Wiliam McGarey, sem samdi bók um þetta undir nafninu (heitinu) The Oil That Heals (Olían sem læknar). Laxerolían hefur einstæða eiginleika til að smyrja og er t.d. frábær snittolía, þ.e. olía sem notuð er þegar verið er að gera skrúfugang á rör og bolta, eða renna skrúfugang eða annað í málmhluti úr hörðu efni. Um 90% laxerolíu er óvanaleg ómettuð hydroxyfitusýra, ricin-olíusýra. Þessi fitusýra hefur, samkvæmt bók McGareys, eiginleika til að byggja upp sogæðakerfið í slímhimnum smáþarmanna og hann fann að laxerolíubaxtrar virðast hvetja ónæmiskerfið t.d. jókst fjöldi ákveðinna eitilfruma (T-11 fruma).

Hann er með tilgátu um að laxerolíubakstrar örvi frárennsli sogæðakerfisins og fjarlægi úrgangsefni úr vefjum. Cayce taldi einnig að laxerolíubakstrar lagðir á kviðinn og yfir lifrina, bæti lifrarstarfsemina, örvi gallblöðruna, hvetji úthreinsun og auðveldi fólki að slappa af. Í bók McGareys er sýndur fjöldi dæma um margskonar sjúkdóma þar sem laxerolíubakstrar komu að gagni, allt frá meltingartruflunum að útvortis sýkingum. Laxerolíubakstrar eru búnir til úr mjúku baðmullarefni (betra er þó að nota ullarefni), sem brotið er saman nokkrum sinnum (2-4 sinnum) og er nægilega stórt til að þekja allt svæðið sem á að fást við. Laxerolíunni er síðan hellt í klútinn uns hann er votur í gegn, en þó ekki svo ósparlega að drjúpi úr honum. síðan er hann lagður á líkamann og klúturinn hulinn með plastþynnu, til að hindra að olían berist í hitapokann sem settur er ofan á klútinn. McGarey mælir með að byrja með frekar lágan hita, sem síðan má hækka eftir því hvað sjúklingnum finnst þægilegt.

Hann varar við þessu ef hætta er á, að um botnlangabólgu sé að ræða. Edgar Cayce mælti með að nota laxerolíubakstra þrisvar til sjö sinnum í viku. Einnig ráðlagði hann oft að taka inn tvær teskeiðar af olífuolíu, eftir að bakstrarnir hafa verið notaðir þrisvar sinnum, til að örva lifrina. Í ráðleggingum Edgar Cayce var jarðhnetuolíu oft blandað saman við laxerolíuna og sú blanda jafnvel höfð til sölu í lyfjabúðum undir heitinu „Cayce-olía“. Laxerolíubakstrar eru einföld og ódýr lausn á margskonar heilsufarslegum vandamálum. Full ástæða er því til að prófa laxerolíu til hlýtar áður en farið er að ræða dýrar og jafnvel skaðlegar læknisaðgerðir, sem þar að auki er engin  trygging fyrir að beri tilætlaðan árangur. Nú er bara að kaupa laxerolíu og prófa.

E-vítamín er ekki allt eins
Þegar við kaupum glas af E-vítamíni stendur oftast á því, sé um vandaða vöru að ræða, að í glasinu sé d-alfa-tókóferol (D-alpha-tocopherol, natural) sem þýðir að það sé unnið úr náttúrlegu hráefni, t.d. hveitikími en sé ekki búið til í efnaverksmiðju, en þá heitir það dl-alfa-tókóferol og er að hálfu leyti annar „ísómer“, svokallað l-alfa-tókóferol. Margir telja að sá ísómer hafi litla sem enga virkni og því þurfi að nota tvöfalt meira af dl-alfa-tókóferoli en af d-alfa-tókóferoli (náttúrlegu E-vítamíni). Nokkur afbrigði eru til að E-vítamíni, sem finnast í náttúrlegum samböndum, og eru þau auðkennd með grísku bókstöfunum t.d. alfa, beta og gamma o.s.frv. Nýjustu upplýsingar benda til að sennilega séu sum, eða jafnvel öll, þessi mismunandi afbrigði E-vítamíns ómissandi heilsunni ekki síður en alfa-tókóferol. Jafnvel gæti hugsast að mjög stórir skammtar af alfa-tókóferoli einu sér, gætu hindrað eða truflað upptöku eða frásog annarra tókóferolefna í meltingarfærunum og þannig valdið hugsanlegum skaða eða skorti á þeim efnum.

Í náttúrlegu fæði bandaríkjamanna er giskað á að nálega 70% E-vítamínsins sé gamma-tókóferol. Enda þótt talsvert meira sé af alfa-tókóferoli en gamma-tókóferoli í blóðvatni fólks eru þó 30-50% af E-vítamíninu sem finnst í húðinni, vöðvunum, æðunum og líkamsfitunni, gamma-tókóferol. Gamma-tókóferol hefur t.d. sérstaka líffræðilega virkni sem alfa-tókóferol hefur ekki, t.d. að blokkera eða koma í veg fyrir óheppilegar verkanir af efnafræðilegum virkum köfnunarefnisoxíð samböndum. Ennfremur hindrar gammatókóferol betur kekkjun á blóðflögum og dregur meira úr bólgum en alfa-tókóferol. Læknar og margir vísindamenn hafa í mörg ár trúað því að alfa-tókóferol sé sú tegund E-vítamína sem hafi mesta virkni og sé jafnvel sú eina sem sé líffræðilega virk.

Nú eru þó komnar sannanir fyrir því að gamma-tókóferol, sem er sú tegund E- vítamíns sem mest er af í fæðu okkar, gegni mikilvægu hlutverki. Faraldsfræðilegar kannanir benda til að jafnvel smávegis aukning á neyslu E-vítamíns úr fæðu, sem inniheldur gamma-tókóferol, dregur mjög úr tíðni hjartasjúkdóma. Því ætti ævinlega að nota sem fæðubótarefni blöndu af E-vítamíni þar sem minnsta kosti hluti þess er önnur afbrigði þess en alfa-tókóferol. Til viðbótar má svo nota fæðu auðuga af E-vítamíni svo sem heilkorn, hnetur, fræ og grænar matjurtir. Heimild: Alan R. Gaby, M.D. Townsend Letter for Doctors and Patients, febrúar-mars 2003

Jurtir gagnlegar á breytingarskeiðinu
Hundrað tuttugu og þrjár konur á breytingarskeiðinu, allar með brjóstakrabbamein tóku þátt í könnun, þar sem helmingur þeirra var tilviljunarkennt látin nota drekka> daglega sojadrykk með 90ml af ísóflavonefnum. Hinn helmingurinn notaði annan drykk úr hrísgrjónum með engum ísóflavonum. Könnunin stóð í 12 vikur. Hjá báðum hópunum fækkaði hitakófsköstum. Hjá þeim sem drukku sojadrykkinn um 25% en 34% hjá þeim sem notuðu hrísgrjónadrykkinn. Einnig urðu hitakófin vægari hjá báðum hópunum, svo að talið var að þær sem fengu sojadrykkinn hefði batnað um 30% en hinum um 40%. Upphaflega hugmyndin var að nota hrísgrjónadrykkinn sem viðmiðun eða placebo, en greinilegt var að hann dró meira úr hitakófunum en sojadrykkurinn, sem þó var vitað að gagnaði eitthvað. Við nánari athugun kom í ljós að í hrísgrjónadrykknum var efnið gamma oryzanol, sem er í öllum hrísgrjónum og Japanir nota beinlínis sem meðferð við hitakófi sem fylgir breytingarskeiðinu. Þegar tvíblindar kannanir eru skipulagðar þarf vitanlega að fullvissa sig um að efnið sem notað er sem placebo eða til viðmiðunar, sé ekki virkt gagnvart þeim sjúkdómi sem verið er að rannsaka. Rétt niðurstaða úr þessari könnun er því sú, að bæði efnin séu gagnleg við hitakófi á breytingarskeiðinu, en ekki að ísóflavonefni úr sojavörum séu gagnslausar….. Æ.J. Heimild: Alan R. Gaby, Townsend Letter for Doctors and Patients, ágúst-september 2002

Nýuppgötvaður hormón stjórnar blóðþrýstingi
Dr. Jonathan Wright átti viðtal í tímaritinu Nutrition and Healing, janúar 1996, við dr. Peter H.T. Pang, fyrrverandi yfir-prófessor og forstöðumann Lífeðlisfræðideildar Alberta-háskóla (Edmonton) í Kanada. Dr. Pang og samstarfsmenn hans uppgötvuðu, þegar þeir voru að kanna kalkmagnið í líkamanum, nýjan hormón eða boðefni sem þeir nefndu blóðþrýstings þátt kalkkirtlanna (parathyroid hypertensive factor, PHF). Þeir uppgötvuðu að of mikið af þessu efni kom á undan hækkuðum blóðþrýstingi, sérstaklega þeirri tegund háþrýstings, þar sem lítið renín er í blóði. Heildarupplýsingar um þetta voru birtar í Journal of Hypertension 1996, 14:1053-1060. Kalkmagnið í vessunum umhverfis frumurnar í líkamanum er venjulega tíuþúsund sinnum meira en er inni í frumunum. PHF opnar rásir í frumuhimnunum (calcium channels) svo að kalk geti komist inni í frumurnar.

Þessi flutningur á kalki utan frá inn í frumur í hjartavöðvanum og sléttum vöðvum annarsstaðar, t.d. í æðaveggjum, fær þessa vöðva til að dragast saman, sem svo aftur veldur því að blóðþrýstingur lækkar. Calcium blokkerar (blóðþrýstingalyf) hindra þetta að vissu marki og lækka þannig blóðþrýsting. Þótt undarlegt megi virðast lækkar gnægð af kalki í fæðu blóðþrýsting. Viðbótar kalk hægir á starfsemi kalkkirtlanna og dregur þannig úr magni PHF og þarmeð að kalk berist að utan inn í frumurnar. Lítið kalk í fæðu, aftur á móti hvetur kalkkirtlana til að mynda aukið magn af PHF og þar með hækkar blóðþrýstingurinn. Við dýratilraunir fundu dr. Pang og félagar, að blóðþrýstingur margra dýra með háþrýsting lækkaði, væru kalkkirtlarnir teknir og PHF hvarf úr blóðinu. Væru aftur á móti kalkkirtlar úr dýrum með háþrýsting græddir í dýr með eðlilegan blóðþrýsting, hækkaði blóðþrýstingur þeirra.

Rannsóknarmennirnir fundu líka ákveðið samband á milli mikils PHF í blóði, insúlín viðnáms og sykursýki af II gerð <sykursýki II> eða svokallaðri fullorðinna-sykursýki. Dr. Pang segir að mikið PHF í blóði valdi miklu af kalki inni í frumum sem nýta sér insúlín. Það dregur úr næmi þeirra fyrir insúlíni og meira þarf af því en ella. Dr. Pang hefur rannsakað og staðlað fæðubótarefni úr hákarlabrjóski sem hann kallar Cell-FX til að lækka of mikið PHF í blóði. Annað fæðubótarefni sem nefnt er Pressure-FX lækkar blóðþrýsting, sérstaklega hjá þeim sem hafa lítið renin í blóði.

Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, ágúst-september 2002

Höfundur: Ævar Jóhannesson vor 2004



Flokkar:Úr einu í annað

%d bloggers like this: