Sérfræðingar á villigötum

Voru fljótfærnislegar ráðleggingar nokkurra sérfræðinga á öldinni sem leið, einhver örlagaríkustu mistök sem gerð hafa verið í manneldismálum?

Formáli þýðanda:
Hér kemur önnur grein eftir Wayne Martin, en nú fjallar hann aðallega um hjarta- og æðasjúkdóma, en fyrri grein hans, sem birt var í vorblaði Hh. 2003, var fyrst og fremst um krabbamein. Eins og þeir sem lesið hafa aðrar greinar Wayne Martins vita, er hann oft ekki sammála þeim sem einkum hafa mótað ríkjandi skoðanir í manneldismálum. Þetta á ekki síst við ráðlegginga margra „sérfræðinga“ í þeim efnum sem hann oft færir gild rök fyrir, að valdið hafi  meiri skaða en gagni.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að hér er verið að fjalla um eldfimt málefni og sjálfsagt fæ ég litlar þakkir fyrir frá einhverjum, að vera að þýða þessa grein. Þeir munu vafalaust telja greinina eintóma vitleysu og verða til að rugla fólk í ríminu og gera ráðleggingar bæði margra lækna og einnig sumra manneldisfræðinga tortryggilegar og eingöngu verða til að síður verði farið eftir þeim ráðum, sem „viðurkenndir“ sérfræðingar gefa. Ég ætla persónulega ekki að fara að skattyrðast við neinn um þetta en læt grein Wayne Martins um að svara hugsanlegum gagnrýnendum og hér kemur svo greinin:

Inngangur
Í aprílblaði Townsend Letter for Doctors and Patients 2003 var bréf sem sagði lesendum að í febrúar- mars blaðinu væri grein sem væri eintóm vitleysa. Steve Austin, prófessor lýsti þar vanþóknun sinni á því að Teri Johnson og John Teta höfðu í lesendabréfi talið að mettuð fita væri holl. Óhætt er að hrósa þessum höfundum fyrir greinina sem nefndist „Hollustan við mettaða fitu“. Þeir gerðu rétt í að benda á veiruhindrandi eiginleika kókóshnetuolíu. Einnig voru þeir með aðrar  mikilvægar upplýsingar um mettaða fitu. Þá hófu þeir umræðu um það að áætlað hefur verið að 500.000 dauðsföll verði árlega í Bandaríkjunum vegna mistaka, eða af ástæðum sem rekja megi t il einhvers sem læknar hafi gert, eða látið ógert. (Þetta er hlutfallslega eins og að 500 Íslendingar dæju árlega vegna læknamistaka. Þýð.)

Þá skulum við líta ofurlítið á hjartasjúkdóm sem nú er kallaður blóðþurrð í hjartavöðva (Myocardial infarction). Það mun hafa verið um 1955 sem sú hugmynd kom upp og var síðan ,,höggvin í stein“ að mettuð fita, smjör og tólg, væri slæm fita og að þessar fitur væru orsök að þeirri gífurlegu fjölgun dauðsfalla sem orðin var vegna hjartaáfalla. Hinar nýju fjölómettuðu fitur, sem komu á markaðinn upp úr 1925, voru aftur á móti góðar fitur, sem vernduðu okkur gegn því að fá hjartaáfall. Það sem fór í taugarnar á Austin, prófessor, var að Johnson og Teta höfðu efast um að þetta væri svona. Nú skulum við líta andartak aftur til ársins 1874. Læknar gengu þá í lafafrakka til að sýna að þeir væru læknar og þeir gerðu skurðaðgerðir og tóku á móti börnum, án þess að afklæðast þeim. Frakkarnir voru harðir af uppþornuðu blóði. Florence Nightingale sagði einu sinni, að læknarnir þyrftu ekki að hengja frakkana sína upp. Þeir væru svo stífir að þeir gátu staðið í einu horninu. Vegna þess hversu óhreinir þeir voru, sýktu læknarnir eina móður af hverjum fimm sem áttu hjá þeim barn og þeir sýktu annan hvern sjúkling sem gerð var á skurðaðgerð. Árið 1874 var Louis Pasteur illa launaður efnafræðikennari við skóla sem þjálfaði kennara í Parísarborg. Hann var með einu smásjána sem til var í Frakklandi og hann var að leita að bakteríum með henni. Skoðun hans var að bakteríur yllu sjúkdómum og dauða. Árið 1874 fékk hann slag og hafði takmarkað gagn af vinstri hönd sinni og -fæti eftir það. Í fransk-prússneska stríðinu hafði prússneskt fallbyssuskot eyðilagt kennsludeild hans og hann varð að hætta þar. Þá var það að hann fékk bréf frá dr. Joseph Lister í Skotlandi.

Lister hafði tekið upp aðferð til sótthreinsunar við barnsfæðingar og skurðaðgerðir og næstum því enginn dó þar eftir skurðaðgerðir eða barnsfæðingar, þegar hér var komið sögu. Hann þakkaði Pasteur fyrir að hafa kennt sér að þetta væri mögulegt. Pasteur sýndi frönsku öldungadeildinni bréfið frá Lister og var veittur ævilangur fjárstyrkur að upphæð sem jafngildir 1000 dollurum á mánuði. Pasteur gerði fyrsta bóluefnið gegn kjúklingakóleru. Árið 1880 las hann rannsóknarskýrslu sína fyrir Lækna-akademíuna í París og þvínæst sagði hann læknunum að kominn væri tími til að þeir þrifu í kringum sig og hættu að valda með sóðaskapdauða mæðra við barnsfæðingar. Læknarnir urðu æfir og lögðu hendur á Pasteur og hentu honum út úr fyrirlestrarhöllinni og skoruðu á hann í einvígi.

Störf Pasteurs við bóluefni
Síðan gerði Pasteur bóluefni gegn miltisbrandi. Í það skipti las hann skýrslu sýna fyrir Vísinda-akademíuna, þegar haldinn var fundur um steindafræði  Þar voru engir læknar en fjöldi fréttamanna frá fjölmiðlum. Morguninn eftir var ritstjórnargrein í einu fréttablaðinu. „Upp með Pasteur og gerlana en niður með skítugu læknana“. Öll fréttablöðin gripu þessu sögu glóðvolga. Læknarnir töldu sig vita fyrir sitt leyti að engir gerlar væru til og að þessi geðbilaði efnafræðingur hefði algerlega rangt fyrir sér. Allt sem þeir þyrftu að gera væri að láta Pasteur sanna þetta bóluefni sitt á sauðfé, sem væri mjög auðvelt.

mundi þetta allt enda hraksmánarlega fyrir Pasteur og verða honum til háðungar og læknarnir geta áfram verið óhreinir eins lengi og þeir kærðu sig um. Það sem þeir sáu aftur á móti morguninn 5. júní 1881, voru 25 óbólusettar sauðkindur, sem voru að deyja kvalafullum dauða úr miltisbrandi og aðrar 25 heilbrigðar sauðkindur sem höfðu verið bólusettar. Læknar um alla Evrópu fóru nú úr lafafrakkanum og tóku upp sótthreinsunaraðferð Listers við barnsfæðingar og skurðaðgerðir en læknar í Bandaríkjunum héldu áfram að vera óhreinir í átta ár í viðbót og tóku ekkert mark á tilraun Pasteurs með sauðkindurnar og miltisbrandinn. Pasteur hefði ekki getað gert neitt, ef fréttablöðin hefðu ekki verið. Blöðin og Pasteur fengu að minnsta kosti læknana í Bandaríkjunum til að þrífa sig árið 1889.

Þá hafði Pasteur þróað bóluefni gegn hundaæði. Það gagnaði til að meðhöndla einstaklinga sem höfðu verið bitnir af óðum hundi allt upp í 21 dag frá því að hundurinn beit þá. Sumarið 1889 höfðu tveir ungir drengir frá fátækri fjölskyldu í New York City verið bitnir af sama óða hundinum. Ekkert bóluefni frá Pasteur var þá til í Bandaríkjunum og rétttrúaðir bandarískir læknar trúðu þá heldur ekki að neinir gerlar væru til. Ritstjóri New York Herald hafði í átta ár trúað á kenningar Pasteurs. Hann keypti farmiða fyrir drengina til Frakklands, ásamt lækni til að fylgja þeim. Daglega skrifaði hann ritstjórnargreinar, þar sem hann fræddi lesendur blaðsins um sögu Pasteurs.

Þessar ritstjórnargreinar urðu síðan fyrirmynd annarra greina í fréttablöðum víða um heim. Ekkert útvarp var þá komið, svo að í ellefu daga heyrðist ekkert frá drengjunum á skipinu. Þó var kominn sæsími yfir Atlantshafið. Pasteur vissi að von var á þeim og hann sá að tíminn var naumur. Amma mín sagði frá því að bænasamkomur hefðu verið haldnar fyrir drengina vítt og breitt um miðvesturríki Bandaríkjanna á meðan skipið var í hafi. Drengirnir komust til Frakklands, áður en tíminn  var útrunninn og Pasteur gat bjargað lífi þeirra og allur heimurinn gladdist. Þá fyrst fengust bandarísku læknarnir til að þrífa sig og taka upp sótthreinsunaraðferðir Listers við barnsfæðingar og skurðaðgerðir. Var þar með endir bundinn á að þeir sýktu og yllu dauða sængurkvenna og sjúklinga sem gerðar voru á skurðaðgerðir.

Blóðþurrð í hjartavöðvanum – sjúkdómur 20. aldarinnar
Hér verður sagt frá hjartaáföllum. Sjúkdómi sem nú er oft kallaður „blóðþurrð í hjartavöðva“ eða „blóðtappi í kransæð“ (Myocardial infarction), sem er nýr sjúkdómur 20. aldarinnar. Hann var fyrst uppgötvaður 1926 sem nýr sjúkdómur og það tók lækna nokkurn tíma að átta sig á að hér væri um nýjan hjartasjúkdóm að ræða. Í ritstjórnargrein í The Lancet 9. mars 1974 var sagt að fjöldi lækna hefði árið 1927 ekki haft hugmynd um þennan nýja hjartasjúkdóm, sem þá var kallaður „kransæðastífla“ (Coronary thrombosis), blóðtappi í kransæð. Læknisráðið við sjúklinga sem lifðu af hjartaáfall var að þeir voru látnir fara í rúmið og stundum í súrefnistjald.

Árið 1945 uppgötvaði K.P. Link, prófessor við Háskólann í Visconsin, efnasambandið warfarin í mygluðu heyi og háskólinn þénaði stórar fjárfúlgur á að nota það sem rottueitur. Í ljós kom að smá skammta af því var hægt að nota til að hindra að fibrinið í blóðinu klumpaðist saman og myndaði blóðkökk. Eftir þetta varð warfarin staðalmeðferð á öllum sem lifað höfðu af hjartaáfall. Þá var það árið 1955 að rétt-trúuðu læknasamtökin uppgötvuðu nýja orsök og lækningu á þessum hjartasjúkdómi, sem ekkert hafði með kransæðastíflu eða blóðtappa að gera og nafni sjúkdómsins var breytt úr kransæðastíflu í blóðþurrð í hjartavöðvanum (Myocardial infarction). Þessi nýja hugmynd eða skýring sem kom fram 1955, var að orsök hjartaáfalla væri að kólesterol félli út úr blóðinu, líkt og óhreinindi í vatnsleiðslu, og settist innan í kransæðarnar og orsakaði hjartaáfall.

Sagt var að mettuð fita, smjör, tólg og svínafeiti yllu því að meira kólesterol yrði í blóðinu, en þetta mætti hindra með nýju fjölómettuðu jurtaolíunum, sem minnkuðu kólesterolið í blóðinu dálítið og því ættu þær að koma í stað mettuðu fitanna við matargerð. Ég er með samsafn beinna sjónvarpsútsendinga frá öllum útsendingum af tveggja tíma dagskrá sem bandaríska Hjartaverndarfélagið (American Heart Association) sendi út sunnudagskvöld eitt árið 1955. Þar glöddu þeir áhorfendur með því að þeir hefðu tímamóta gleðiboðskap að færa heiminum. Þjóðin skyldi forðast fæðu sem inniheldur kólesterol. Eins skyldi varast að neyta fæðu eins og osta og smjörs en nota þess í stað mat með góðum fitum, sem væru fjölómettaðar fljótandi fitur og smjörlíki unnið úr þeim. Kynnir á dagskránni var frægur leikari. Þeir læknanna sem höfðu kynnt þetta dásamlega nýja sjónarmið fóru svo að útskýra það í smáatriðum. Það voru dr. Kinsell frá Kaliforníuháskóla og læknarnir Katz og Stamler frá Chicago-háskóla.

White læknir talar gegn „skynsemdarmataræðinu“
Eisenhower forseti var þá nýbúinn að fá hjartaáfall og hann var í umsjá læknis sem hét dr. Paul Dudley White. Dr. White var síðastur ræðumanna á dagskránni. Kinsell, Katz og Stamler voru ákveðnir því að ráðleggja mataræði sem skömmu síðar kallað „skynsemdar-mataræðið“, (Prudent diet) er nú kallað „Mataræði bandaríska Hjartaverndarfélagsins“ (American Heart Assiociation Diet). Kynnir dagskrárinnar var orðinn spenntur fyrir þetta mataræði gæti hindrað að fólk fengi hjartaáfall og þær dásamlegu fréttir sem verið var kynna, að vera nú laus við þennan vágest. Með ákafa og eldmóði bauð hann dr. White að segja áheyrendum frá þeim dásemdum sem mundu gerast þegar fólk hætti að deyja úr hjartaáfalli.

Hann hefði þó gert betur að tala fyrst við dr. White, áður en hann bað hann að lýsa þessum dásemdum. Dr. White byrjaði á því að upplýsa að á fimm fyrstu árunum eftir að byrjað var að nota sýklalyf hefði dauðsföllum úr hjartasjúkdómum af völdum syfilis fækkað heilmikið, en á hinn bóginn hefði dauðsföllum af völdum kransæðasjúkdóma fjölgað skuggalega eða hættulega mikið. Hann var með lítinn bækling með sér sem nefndist: Hvernig meðhöndla á skyndileg dauðsföll. Tveir læknar Oxford-háskóla höfðu samið hann árið 1855. var sagt frá tveim dauðsföllum, sem árið 1955 mundu hafa verið úrskurðuð sem kransæðastífla eða blóðtappi í kransæð, en árið 1855 voru dauðsföll úr þessum sjúkdómum svo fátíð að læknum fannst dauði þessara tveggja einstaklinga óskiljanlegur eða dularfullt fyrirbæri.

Því næst ræddi White, læknir, um mataræðið árið 1855, þegar kransæðastífla var óþekkt eða afskaplega fátíð. Þá var fæðan með miklu kólesteroli og fitan var smjör og svínafeiti. Hann sagði góðu fjölómettuðu jurtaolíurnar hefðu ekki verið árið 1855 og hann stakk upp á að skynsemdarmataræðið væri frekar orsök hjartaáfalla, heldur lækning. Þannig endaði þessi  sjónvarpsdagskrá heldur nöturlegan hátt. Rétt-trúuðu læknasamtökin ákváðu nú að sanna að skynsemdar-mataræðið hindraði dauða hjartaáfalli. Fyrsta könnunin á skynsemdar-mataræðinu var sú sem Joliffe Anti-coronary klúbburinn gerði 1960. Dr. Joliffe vann fyrir New York borg.

Hann þjáðist af sykursýki og æðakerfið í honum var „heilsufarslegt rekald“. Hann var í hjólastól, með fótasár og orðinn blindur á öðru auga. Hann vonaði að þetta mataræði gæti bjargað sér og hann lagði heilmikið erfiði á meðlimi klúbbsins. Viðmiðunarhópurinn var valinn úr hópi efnaðs fólks sem gert var ráð fyrir að hefðu allar þær fæðutegundir sem klúbburinn taldi óhollar, smjör, ost og „roast beef“ en nánast ekkert af „góðu“ fjölómettuðu fitunum í mataræði sínu. Það fólk sem lifði á skynsemdar-fæðunni voru kennarar við framhaldsskóla í nágrenninu. Lítið lyfjafyrirtæki í Evansville í Indiana bjó til sérstakt smjörlíki fyrir könnunina með „hæfilegu“ magni af „góðu“ fjölómettuðu fitunum. Varast þurfti að nota smjör eða ost og nota eingöngu undanrennu og aðeins borða rautt kjöt einu sinni í viku. Könnunin stóð í sex ár og niðurstaðan var birt 1966 (JAMA, 7. nóvember 1966, bls. 129-34).

Læknasamtökin lögðu mikið upp úr þessari könnun og hún var túlkuð þannig, að allir ættu að fara að lifa á þannig fæðu. Könnunin var sögð vera sigur fyrir fylgjendur skynsemdar-mataræðisins, vegna þess að hjá þeim sem notuðu það minnkaði kólesterolið í blóði úr 250mg/100ml í 225mg/100ml. Einn galli var þó á þessu, sem ekki var augljós nema lesa smáa letrið í skýrslunni. Meðan á könnuninni stóð höfðu átta menn, sem lifðu á skynsemdar- mataræðinu, dáið úr kransæðasjúkdómi en enginn úr samanburðarhópnum, sem lifði á öllum röngu og óhollu fæðutegundunum, smjöri, osti og „roast beef“. Þessir menn sem hafðir voru til samanburðar lifðu á mat sem mjög líktist þeim sem notaður var í Englandi 1855. Dr. Joliffe dó um svipað leyti og sagt var að það væri vegna sykursýkinnar.

Rannsakandi deyr úr hjartaáfalli
Bandaríska Hjartarverndarfélagið sagði að það sem nú þyrfti að gera væri stór könnun með milljón einstaklingum, þar sem helmingurinn notaði skynsemdar-mataræðið. Þessi könnun var svo gerð og kostnaðurinn greiddur af Hjartarverndarstofnunni (National Heart Institute). Vöruhús í fimm borgun ætluðu að láta þá sem nærðust á skynsemdarmataræðinu fá rétta matinn sér að kostnaðarlausu. Þar voru m.a. fjölómettaðir kleinuhringir og kjöt þar sem öll, jafnvel minnsta fita, hafði verið plokkuð af.

Þessi könnun var skipulögð af dr. Irvine Page við Cleveland-heilbrigðisstofnunina. Dr. Page hafði fengið hjartaáfall. Ég sá hann á fundi árið 1966. Hann var þess fullviss að skynsemdarmataræðið mundi koma í veg fyrir að hann fengi annað hjartaáfall. Hann lét í ljósi hryggð sína yfir þeim þúsundum sem mundu deyja úr hjartaáfalli í hópi þeirrar milljón sem tækju þátt í könnuninni, en lentu í samanburðarhópnum og fengju því ekki að nota skynsemdarmataræðið. Áður en byrjað var á milljón manna könnuninni, átti fyrst að gera smærri forkönnun með 2000 einstaklingum.

En þá komu upp óvæntir erfiðleikar. Skynsemdarmataræðið hafði verið kynnt svo vel að öll þjóðin var farin að lifa á fæðu sem var sáralík skynsemdarmataræðinu. Þrátt fyrir það hófst könnunin árið 1968 og niðurstaðan var sú að jafnmargir dóu úr hjartaáfalli í báðum hópunum. Meðan á þessu stóð dó dr. Page úr öðru hjartaáfalli. Í mars 1968 birti svo tímarit Bandarísku hjartaverndarsamtakanna, Circulation lokaniðurstöðu úr þessari forkönnun. Ákveðið var að hætta við milljón manna könnunina vegna mikils kostnaðar. Þjóðin fékk ekki að læra neitt af könnun Hjartaverndarfélagsins (National Diet Heart Study) en eftir sat skynsemdar-mataræðið hjá okkur, eins og meitlað í stein sem leið til að fá ekki hjartaáfall.

Í Englandi gerði Læknisfræðilega Rannsóknarráðið (Medical Recearch Council) könnun á sjúklingum sem höfðu lifað af að fá hjartaáfall. Sú könnun sýndi að sjúklingar sem lifðu á skynsemdarmataræðinu og samanburðarhópur höfðu sama fjölda hjartaáfalla, bæði sem leiddu til dauða og þeirra sem lifðu áfallið af. Í The Lancet 13. ágúst 1983 fékk ég birt bréfundir nafninu Smjörlíki en ekki smjör er sökudólgurinn.  Í bréfinu sagði ég að árið 1900 voru mjög fá dauðsföll vegna hjartaáfalla en árið 1983 voru hjartaáföll (Myocardial infarction) orðin eitt höfuðbanamein í Bandaríkjunum.

Ítrekað benti ég á að smjör og svínafeiti voru aðal matarfiturnar um aldamótin og að fjölómettaðar fitur voru ekki fáanlegar þá. Bréfi mínu var svarað af dr. Rodney Finleyson, sem var hjá Wellcome Research Laboratories í Englandi. Við urðum góðir vinir. Hann var að gera  könnun á skýrslum frá sjúkrahúsum í London aftur til 1870, á tilfellum þar sem sjúklingar gætu hafa dáið úr kransæðasjúkdómum. Við rannsóknir sínar fann hann mjög fá dauðsföll, sem gætu hafa stafað frá kransæðum, yfir tímabilið frá 1870-1900 og hann sagði mér, að matarfitan sem þá var notuð hefði aðallega verið smjör og svínafeiti. Hann fann gífurlega aukningu á dauðsföllum í London vegna kransæðasjúkdóma, frá einu dauðsfalli hjá 1000 íbúum um aldamótin upp í 22 hjá 1000 árið 1981.  Dr. A.V. Mackinnon sem bjó í sveitahéraði í Yorkshire, hafði gert samskonar könnun og Finlayson og fékk samskonar niðurstöðu, eða að dauðsföllum úr kransæðasjúkdómum hefði fjölgað um 22 sinnum frá 1900-1983.

Vélunnar sígarettur komu á markaðinn um 1910 og 1930 reyktu um 80% allra karlmanna í Englandi og Bandaríkjunum. Dr. Finlayson taldi að kenna mætti reykingunum að hluta um þessa gífurlegu fjölgun á dauðsföllum úr kransæðasjúkdómum, en einnig þeir sem ekki reyktu dóu úr þessum sjúkdómum. Því er ekki hægt að sjá með vissu hversu há prósentutala þessarar 22 földu aukningar var  reykingum að kenna og hvað var af öðrum ástæðum. Við skulum nú líta á þann möguleika að hinar „góðu“ fjölómettuðu fitur séu meginástæða fyrir kransæðasjúkdómum. Ég átti í langan tíma samskipti við Terence Anderson, sem þá var prófessor við Háskólann í Toronto en seinna við Háskólann í Bresku Kolumbíu.

Fræolíu iðnaðurinn verður að stóriðnaði
Anderson hafði veitt því athygli að þegar hinn nýi fræolíu-iðnaður var settur á laggirnar á árunum milli 1920-1930 og varð að milljarða dollara stóriðnaði, fjölgaði dauðsföllum úr kransæðasjúkdómum í beinu hlutfalli við söluna á vörum úr fjölómettuðu olíunum, það er að segja úr maís, baðmullar, soja og sólblómaolíu og smjörlíki sem unnið var úr þeim. Á tímabilinu frá 1925-1935 var meiri hluta þeirrar fljótandi fitu sem framleidd var breytt í smjörlíki. Til þess að það sé hægt þarf þó fyrst að „herða“ olíuna, þ.e. breyta henni í fasta mettaða  fitu, en það krefst þess að tókóferol og skyld efnasambönd (þ.e. E-vítamín) séu tekin úr olíunni, eða þau eyðileggjast í ferlinum. Anderson segir að „rétt-trúað“ viðhorf til kransæðasjúkdóma sé að blóðkökkur loki kransæð og hindri að nægilegt blóð berist til hjartavöðvans.

Hann segir að fjölómettaðar fitur sem búið er að taka úr andoxunarefnin (E-vítamín o.fl.) séu eitur fyrir hjartað. Þetta hefur verið sannað með dýratilraunum. Skoðun hans er að þessar fjölómettuðu fitur hafi áhrif á hjartavöðvann og valdi rýrnun hans. Þetta segir hann, að valdi því að of mikið súrefni eyðileggi hjartavöðvann vegna myndunar á peroxíðum. Það geta sjúkdómafræðingar auðveldlega gengið úr skugga um að er rétt, ef þeir aðeins leggja á sig það ómak að athuga það. Þetta er að sjá eins og örsmáir skemmdir dílar í hjartavöðvanum.

Hann sagði að þessir litlu miðdeplar séu upphafspunktar,  þegar einhver fær hjartaáfall. Hann samdi skýrslu sem birt var í The Lancet árið 1973, 912-14, undir heitinu „Nutritrional Muscular Dystrophy and Human Myocardial Infaraction“ (Vöðvarýrnun vegna næringarskorts og blóðþurrð í hjartavöðvanum hjá fólki). Í grein sem Andersen skrifaði í tímaritið New Scientist 9. febrúar 1978 sagði hann frá því hvernig sú breyting að hætta að nota heilkornsbrauð og fara að nota bleikt hvítt hveiti í brauð um aldamótin 1900, hafi valdið meiriháttar fjölgunar dauðsfalla úr kransæða-sjúkdómum. Tókóferól andoxunarefni (E-vítamín) í heilkornabrauði hindraði oxun á fjölómettuðu fitunum í mjölinu en þegar  byrjað var að bleikja hveitið (gera það hvítt) voru þessi náttúrlegu andoxunarefni eyðilögð og eitruð oxuð efnasambönd gátu auðveldlega myndast úr fjölómettuðu fitunum.

Hann gaf dæmi: Árið 1919 var bannað í Ítalíu að nota bleikt hveiti til að torvelda að erlent hveiti væri flutt til landsins. Þetta bann stóð til 1946. Brauðið á Ítalíu var því þessi 27 ár heilkornabrauð. Allan þennan tíma varð engin fjölgun dauðsfalla úr kransæða-sjúkdómum á Ítalíu, en á þessum tíma varð heilmikil fjölgun þessara sjúkdóma, bæði í Englandi og Bandaríkjunum (og ótal öðrum löndum, þýð.). Nú ætla ég að segja frá könnun sem gerð var á bræðrum, þar sem annar var á Írlandi en hinn í Boston (Ireland-Boston Heart Study). Þessi könnun var gerð af dr. Fredrick Stare, prófessor í næringarfræði við Harward University School of Publ

ic Health. Könnunin var gerð á bræðrum, þar sem annar hafði flutt til Boston í Bandaríkjunum  en hinn varð eftir á Írlandi. Á Írlandi var mjólkuriðnaður sem var varinn fyrir erlendri samkeppni fjölómettuðu jurtaolíanna með háum tollum. Bræðurnir á Írlandi notuðu hálft pund af smjöri í hverri viku en næstum því ekkert af „góðu“ fjölómettuðu jurtaolíunum. Bræðurnir í Boston lifðu aftur á móti næstum því á samskonar fæðu og „skyndsemdar-mataræðinu“, sem áður er lýst, þar sem mjög lítið var af „slæmu“ mettuðu fitunum en miklu meira af „góðu“ fjölómettuðu fitunum. Væri skynsemdarmataræðið, fæðan sem

Hjartaverndarfélagið mælti með að nota, hollari fyrir hjartað en fæðan sem notuð var á Írlandi, þá áttu fleiri af bræðrunum sem bjuggu þar að fá hjartaáfall, heldur en bræðurnir sem bjuggu í  Boston. Þetta var þó alveg öfugt. Miklu fleiri  bræðurnir í Boston fengu hjartaáfall, heldur en þeir á Írlandi. Skýrslan um þessa könnun var birt í World Review of Nutrition and Diabetics, 12. árg. 1970. Anderson veitti því athygli að bræðurnir sem bjuggu á Írlandi höfðu mjög lítið af fjölómettaðri fitu sem hætt var við að gæti oxast í mataræði sínu. Þetta litla sem þeir þó fengu úr fæðunni var svo varið fyrir að geta oxast með tókóferoli (Evítamíni) úr höfrum sem notaðir voru í hafragraut, sem þá var hefðbundinn morgunverður á Írlandi.

Í Uganda deyja fáir úr hjartaáfalli
Í janúar-heftinu af American Journal of Cardiology  1950 var skýrsla eftir dr. Robert O´Neal o.fl. um það hversu sjaldan þeldökkir íbúar Uganda dóu úr hjartaáfalli. Í könnun sem skýrslan fjallaði um var hjartað í látnu fólki athugað bæði frá Uganda og í St. Louis, Missouri, Bandaríkjunum. Engar kransæðastíflur fundust í sýnunum frá Uganda en í sýnunum frá St. Louis hafði næstum því þriðjungur þeirra sem sýnin voru úr dáið úr kransæðastíflu, eða „blóðþurrð í hjartavöðva“ eins og það nú er  Vor 2004 16.4.2009 14:05 Page 9 kallað. Enginn munur var á milli hvítra manna og þeldökkra.

Svertingjar í Uganda lifðu á jurtafæðu, heilkorni, maís, hirsi og byggi. Þetta fólk fékk aðeins  úr fæðunni um 10g af „góðu“ fjölómettuðu fitunum á dag, saman borið við að þeir sem fengu „skynsemdar-fæðið“ neyttu daglega 40g af fjölómettuðum fitum. Þessi könnun sýndi að hægt er að vera algerlega laus við kransæðasjúkdóma. Dr. S.L. Malhotra var yfirmaður heilbrigðismála fyrir járnbrautarfélagið Western Railway System á Indlandi. Hann var með skýrslu í Journal of Clinical Nutrition, 3. maí 1967. Tveir þjóðflokkar bjuggu meðfram járnbrautinni. Nyrst, nálægt borginni Udaipur, var þjóðflokkur sem notaði mikið af smjörfitu sem kölluð var „ghee“, meira en nokkur annar þjóðflokkur í heiminum.

Til samanburðar var annar þjóðflokkur sunnar, nálægt borginni Madras. Sá þjóðflokkur lifði eingöngu á fæðu úr jurtaríkinu, að miklu leyti hvítum hrísgrjónum. Í þeirri fæðu var svotil engin mettuð fita. Í fæðu þeirra sem bjuggu norðurfrá var nálægt sjö sinnum meiri fita en í fæðu sunnanmanna. Mjög fáir norður-Indverjarnir fengu hjartaáfall. Suður-Indverjarnir, aftur á móti, lifðu á fæðu sem töluvert líktist „skynsemdarfæði“ Bandaríkjamanna. Samt voru dauðsföll úr hjartaáföllum sjö sinnum algengari þar en hjá „hinum miklu smjörætum“ norðurfrá. Áhugavert er það, að þjóðflokkurinn í norðrinu notaði heilmikið, bæði af lauk og hvítlauk.

Olíur sem eru í lauk og hvítlauk leysa upp fibrin, próteinefni sem myndast í blóðkekkjum. Laukur og hvítlaukur leysa því upp blóðkekki, sem annars hefðu getað valdið hjartaáfalli. En Adam var ekki lengi í Paradís. Í The Lancet 14. nóv. 1987 var skýrsla frá dr. Birari Raheja við Jaslok-spítalann í Bombay. Þar sagði hann frá því  að skyndileg fjölgun dauðsfalla vegna hjartaáfalla hefði orðið á þessu svæði, þegar ódýr fjölómettuð jurtaolía hafði næstum því útrýmt hreinsaða smjörinu (ghee) úr fæðunni þar. Í þessu tilfelli hafði hann séð að dauðsföllunum úr kransæðasjúkdómum hafði einmitt fjölgað þegar ódýr a jurtaolían kom á markaðinn.

Hvort drykkjarvatnið er hart eða mjúkt skiptir máli
Önnur ástæða en fitan í matnum getur legið að baki því, hvort einhver fær hjartaáfall. Ég átti löng samskipti við Henry Schroeder við Dartmouth Medical College. Hann hafði gert könnun á svæðum í Bandaríkjunum, sem voru með hart eða mjúkt vatn. Á svæðum með mjúkt vatn, uppgötvaði hann að voru fleiri dauðsföll úr kransæðasjúkdómum en annarstaðar. Hann valdi tvær borgir, Lincoln í Nebraska og Savannah í Georgíu. Lincoln var með mjög hart vatn, um 200ppm (Ca+Mg). Savannah var aftur á móti með mjög mjúkt vatn með 50ppm hörku. Í Savannah voru hlutfallslega tvisvar sinnum fleiri dauðsföll úr kransæðasjúkdómum en í Lincoln.

Tæki til að mýkja hart vatn komu á markaðinn í stórum stíl eftir 1950. Um 1960 hafði nálægt þriðjungur húsa í Lincoln þannig tæki, sem skiluðu frá sér vatni með hörkuna 20ppm. Schroeder taldi, að ef hann gæti borið íbúa Savannah saman við þá íbúa Lincoln, sem engan búnað höfðu til að mýkja drykkjarvatnið, þá væru þrisvar sinnum fleiri dauðsföll úr kransæðasjúkdómum þar hlutfallslega,  en í Lincoln. Því miður fékk Schroeder krabbamein og frekari könnun var aldrei gerð en skoðun hans var þó sú að vatns-mýkingartækin sem byrjað var að nota um 1950 hefðu valdið dauða fjölda fólks úr kransæðasjúkdómum. Hann lifði það ekki að sjá það sannað, en skoðun hans var sú að magnesíum í harða vatninu hindraði hjartaáföll.

Við höfum hér bent á dæmi sem benda til að með því að þrefalda magnið af fjölómettuðum fitum í fæðunni, sérstaklega eftir að andoxunarefni hafa verið tekin úr þeim, hafi átt mikinn þátt í fjölgun dauðsfalla úr kransæðasjúkdómum, sem hefur fjölgað um 22 sinnum síðan 1900. Bent hefur verið á að þessi 500.000 dauðsföll úr kransæðasjúkdómum, sem árlega verða í Bandaríkjunum eru  mörg hver ekkert síður eigin sök eða sök læknanna eða misviturra heilbrigðisráðgjafa (iatrogenic deaths), heldur en árið 1880, þegar læknar sýktu þúsundir mæðra af barnsfararsótt eða fjölda sjúklinga sem gerðar voru á skurðaðgerðir og þeir sýktir vegna vankunnáttu.

Fjölómettaðar fitur eru ónæmisbælandi
Gallinn við fjölómettaðar fitur er að þær bæla ónæmiskerfið og valda m.a. krabbameini. Dr. Erik Newsholme við Oxford-háskóla, átti skýrslu í The Lancet 1977 á bls. 654, þar sem hann sagði að fjölómettaðar fitur væru afar ónæmisbælandi. Önnur skýrsla frá honum kom í The Lancet 18. mars 1978, þar sem hann lýsti hvernig tvö börn með Guillain Barrett heilkenni hefðu verið látin taka inn daglega 30ml af sólblómaolíu. Þetta er sjáfsónæmissjúkdómur, sem verður að nota ónæmisbælandi meðöl við, en öll þekkt ónæmisbælandi lyf höfðu verið reynd án árangurs. Fullkominn bati fékkst þó með því að nota 30ml af sólblómaolíu á dag.

Yfirleitt getur allt sem er ónæmisbælandi valdið krabbameini. Ég hafði símasamband við Newsholme 1980 og spurði hann hvort sú ónæmisbæling sem fjölómettaðar fitur valda, kynnu að valda krabbameini. Hann svaraði að fjölómettuðu fiturnar væru vissulega mjög ónæmisbælandi. Hann  sagði einnig að mettaðar fitur væru ekki vitundarögn ónæmisbælandi, en var þó ekki tilbúinn að segja að fjölómettuðu fiturnar væru valdar að krabbameini. Ég get hugsað mér tvennt þar sem ónæmisbæling fjölómettuðu fitanna gæti valdið krabbameini. Um aldamótin 1900 voru lungnakrabbameinin mjög fátíð. Vélunnar sígarettur komu á markaðinn 1910 og 1930 reyktu um 80% bandarískra karlmanna.

Einnig var það um 1930 sem fræolíu-iðnaðurinn byrjaði að selja nýju fjölómettuðu olíurnar í stórum stíl. Lungnakrabbamein var mjög fátítt í Bandaríkjunum hjá hvítum mönnum um 1930. Aðeins eitt dauðsfall hjá 100.000 einstaklingum á ári. Þó reyktu samt um 80% allra karlmanna í Bandaríkjunum. En árið 1978, þegar neysla á fjölómettuðum fitum þar hafði þrefaldast, hafði fjöldi þeirra sem reyktu minnkað niður fyrir 50% karlmanna. Dauðsföll úr lungnakrabbameini höfðu þá sextugfaldast, svo ótrúlegt sem það er, úr 1 tilfelli hjá 100.000 upp í 60 tilfelli og þetta gerðist á minna en hálfri öld. Hægt væri að giska á að sú mikla ónæmisbæling sem aukin neysla á fjölómettuðu fitunum olli, hafi stuðlað að þessari ótrúlegu fjölgun dauðsfalla úr lungnakrabbameini.

Skýrsla birtist í The Lancet 22. október 1989 eftir dr. Kate Beardshall við Hammersmith-spítalann  í London. Hún sagði að tilfellum af briskirtilskrabbameini hefði fjölgað þrefalt í Bandaríkjunum síðan 1940. Á sama tíma eða frá 1940-1989 hafði neysla á fjölómettuðum fitum tvöfaldast og hún var á þeirri skoðun að þessi aukning gæti verið höfuðástæðan fyrir þessari fjölgun tilfella krabbameina í briskirtlinum. Ef við snúum aftur til ársins 1930 og hyggjum að hvaða krabbameinstilfelli voru þá algengust, um það leyti sem fjölómettuðu fiturnar fóru að verða verulegur hluti fæðunnar, verðum við þess áskynja að mikil aukning hefur orðið á flestum tegundum krabbameins á tímabilinu frá 1930 þangað til nú.

Þá skulum við hugleiða hversu góðar þessar fjölómettuðu fitur eru. Vert er að hafa í huga þá staðreynd, að blökkumennirnir í Uganda voru algerlega lausir við kransæðasjúkdóma um 1960. Þetta fólk fékk næstum því enga mettaða fitu úr grænmetisfæðu sinni og aðeins nálægt 10g daglega af fjölómettuðum fitum. Það sem er gott við mettaðar fitur er að þær eru ekki ónæmisbælandi og miklu minni líkur eru á að þær breytist í skaðlegar peroxíð-fitur. Við höfum hér skýrt frá hvernig nýr hjartasjúkdómur var uppgötvaður 1926 og var nefndur „kransæðastífla“, blóðkökkur í kransæð. Einnig höfum við sagt frá hvernig læknasamtökin sýndust gleyma blóðtöppum í kransæðum og breytti nafninu á sjúkdómnum í ,,blóðþurrð í hjartavöðvanum“ (myocardial infarction). Nú var það kólesteról en ekki blóðtappar sem olli sjúkdómnum. Um 1980 ákváðu hjartasérfræðingar aftur að blóðkekkir í ransæðum yllu sjúkdómnum. Þeir ákváðu þá að allir yfir 40 ára aldri ættu að taka aspirín daglega til að fá ekki blóðtappa og hjartaáfall.

Hindrar aspirín að fá hjartaáfall?
Hér kemur samantekt á könnunum sem gerðar hafa verið til ársins 1988 á að nota aspirín til að koma í veg fyrir hjartaáföll. Tvær kannanir voru gerðar í Englandi. Þessar kannanir sýndu báðar að ekkert gagn væri að því að nota aspirín til að hindra hjartaáföll. Skýrsla um báðar kannanirnar var birt í British Medical Journal 1974 á bls. 436 og í The Lancet 1979 á bls 1313. Næsta könnun var afar stór og gerð af National Heart and Lung Institute í Bandaríkjunum. Kostnaðurinn við könnunin varð 16 milljónir dollara.

Þessi könnun sýndi einnig að ekkert gagn var af  aspiríni til að koma í veg fyrir hjartaáföll, en í ljós komu verkir frá maga, líkir og frá magasári, bólgur og magablæðingar og blæðingar frá þörmum. Skýrsla um þessa könnun var birt í tímariti Bandarísku læknasamtakanna, JAMA, 15. febrúar 1980. Næsta könnun var gerð í Englandi, sú fyrsta þar sem læknar voru þáttakendur. Enn einu sinni sýndi könnunin að gagnslaust var að nota aspirín til að hindra hjartaáföll. Niðurstaðan var birt í British Medical Journal, 296, bls. 313-316. Enn var gerð könnun í Bandaríkjunum og nú meðal lækna og kölluð Physicans Health Study.

Niðurstöðu þeirrar könnunar var hrósað sem tímamóta árangri af því að nota aspirín til að hindra  hjartaáföll. Þessi könnun var notuð sem ástæða til að ráðleggja öllum sem komnir voru yfir fertugt, að nota daglega aspirín sem fyrirbyggjandi meðferð gegn hjartaáföllum í framtíðinni. Niðurstaða könnunarinnar var birt í New England Journal of Medicine, janúar 1988. Árangur þessarar könnunar var þó alls ekki jafn merkilegur og af var látið. Engin fækkun varð á hjartaáföllum sem leiddu til dauða og dánartíðni var óbreytt. Hjartaáföllum sem ekki höfðu dauða í för með sér fækkaði um 40%. Það aspirín sem notað var í könnuninni var blandað magnesíum (bufferin), sem vel gæti hafa verið ástæðan fyrir þessum góða árangri. (Aspirín blandað magnesíum er kallað magnyl á Íslandi. þýð).

Rétttrúuð læknayfirvöld eru ekki mikið fyrir að lesa læknatímarit og virðast hafa takmarkaðan áhuga á að fylgjast með því hverjir fá Nóbels-verðlaunin í læknisfræði. Þetta á alveg sérstaklega við árið 1982. Árið 1982 fengu tveir vísindamenn verðlaunin í læknisfræði, dr. John Vane, nú sir John við Wellcome Foundation og dr. Bengt Samuelsson við Karólinska-sjúkrahúsið-stofnunina í Stokkhólmi. Uppgötvanir þeirra voru tímamóta uppgötvanir. Dr.Vane fann það sem fyrst var kallað prostaglandinX en er nú kallað prostacyclin. Hann rannsakaði einnig það sem kallað er „arakidonsýru-keðjan“ (arachidonacid cascade) Við fáum arakidonsýru, sem er fjölómettuð fitusýra einkum úr kjötvörum. Einnig getum við fengið ofurlítið af henni úr fjölómettuðu fitusýrunni linolsýru, sem við fáum gnægð af úr mat.

Arakidon-sýra og cyclo-oxygenasi
Ensímið cyclo-oxygenasi verkar á arakidonsýru þannig að nokkrar afleiður myndast sem annaðhvort eru ný prostaglandín eða prostaglandín lík efni. Tvö þeirra eru thromboxan A-2 og prostacyclin. Prostaglandin eru ofurlítið oxuð arakidonsýra. Thromboxan A-2 hvetur samloðun blóðflaga og ýtir undir að blóðkekkir myndist. Þetta er ágætt til að stöðva blóðrás úr sári en afleitt ef það gerist í kransæð. Prostacyclin verkar alveg þveröfugt, minnkar samloðun blóðflaga og hindrar myndun blóðtappa í æðum. Aspirín hindrar ensímið cyclo-oxygenasa og  kemur þannig í veg fyrir myndun á thromboxan A- 2. Við það að takmarka myndun thromboxan A-2 dregur það úr líkum á kekkjun blóðsins og um leið að fá hjartaáfall. Þetta er gefið upp sem ástæða þess að nota aspirín til að hindra hjartaáföll.

Dr. Vane veitti því líka athygli að aspirín hindrar einnig hið afar gagnlega prostacyclin. Hann spáði því að fyrirfram væri dauðadæmt að nota aspirín til að hindra hjartaáföll, því að það gagn sem væri af því að hindra thromboxan A-2 væri gert að engu með því að hindra hið gagnlega prostacyclin. Til viðbótar benti hann á að til að fá hið gagnlega prostacyclin þyrfti einnig að fá oxunarvarnarefni eins og tókóferol (E-vítamín), því að annars yndast prostacyclin ekki úr arakidonsýrunni, heldur mikið oxuð, skaðleg peroxíð-fita. Hann benti á þann skaða sem það gæti valdið að bæta í fæðuna miklu af fjölómettuðum fitum, sem andoxunarefnin hefðu verið tekin úr.

Mikilvægi prostaglandin E-1
Hér hefur nú verið útskýrt það tjón sem það olli, að bæta í fæðuna nýju fjölómettuðu fitunum. Nú ætlum við aftur á móti að segja frá því mikla gagni sem hægt er að hafa af litlu magni af einni þessara fjölómettuðu fitusýra, gamma-linolensýru. Þar kemur Bengt Samuelsson við sögu. Hér kemur boðskapur hans: Við fáum gnægð fjölómettaðrar fitu í forminu línolsýra. Maís- eða sólblómaolía eru meira en 50% línolsýra. Ensímið delta-6-desaturasi verkar á línolsýru og breytir henni í gamma-línolensýru. Henni er breytt í líkamanum í dihomo-gamma-línolensýru og þvínæst í prosta glandin E-1, sem hefur marga góða kosti.

Arakidonsýra er í blóðinu sem þríglyceríð og í því formi hefur ensímið cyclo-oxygenasi engin áhrif á hana og getur ekki myndað skaðlegt thromboxan A-2. Ensímið cyclo-oxygenasi getur því aðeins verkað á arakidonsýru að hún sé frí fitusýra. Prostaglandin E-1 hindrar að hún breytist í fría fitusýru og getur þannig komið í veg fyrir að skaðlegt thromboxan A-2 myndist, sem veitir mikla vörn gegn því að fá hjartaáfall. Samuelsson hefur bent á að neysla á aspiríni hefur einn skaðlegan þátt í för með sér. Aspirín hindrar ensímið delta-6-desaturasa og kemur þannig í veg fyrir að við getum búið til í líkama okkar gamma-línolensýru.

Við skulum nú líta um öxl og hugleiða hvers vegna íbúar Uganda voru algerlega lausir við að fá hjartaáfall 1960. Þeir fengu aðeins um 10g á dag af línolsýru úr heilkorni sem þeir nærðust á. Þeir tóku ekki aspirín og meiri hluti línolsýrunnar breyttist því í gamma-línolensýru í líkama þeirra. Þeir fengu einnig gnægð andoxunarefna svo sem tókóferol o.þh. úr fæðunni. Þeir gerðu raunar allt rétt til að öðlast heilbrigt hjarta. Dr. A.L. Willis við Syntax Research skrifaði um þetta 22. september 1984 í The Lancet. Hann sagði að dihomo-gamma-línolensýra verji okkur fyrir að fá hjartaáfall með því að víkka út kransæðarnar og hindra losun á fríum fitusýrum og einnig með því að setja í gang efnaferla sem leysa upp fibrin (fibrin er prótein sem er eitt höfuðefnið í blóðkekkjum í æðum) og með því að vera virkasta efnið sem þekkt er til að hindra samloðun blóðflaga.

Hann sagði að dihomo-gamma-línolensýra væri náttúrlegt varnarefni gegn kransæðasjúkdómum. Hægt er að fá gamma-línolensýru með því að taka fjóra belgi af kvöldvorrósarolíu (náttljósolíu) á dag. Í henni er um 9% af gamma-línolensýru. Nú verða í Bandaríkjunum um 500.000 dauðsföll úr kransæðasjúkdómum á ári. Við þurfum ekki að leggja mjög hart að okkur til að dauðsföllin gætu orðið jafnfátíð í Bandaríkjunum og þau voru í Uganda árið 1960. Wayne Martin, BS, ChE 25 Orchard Court, Farihope, Alabama 36532, USA Tel. 251-928-3975/Fax 251-928-0150 ..Æ.J. þýddi úr Townsend Letter for Doctors and  Patients, ágúst-september 2003

Greinin skrifuð í apríl 2004.  Höfundur: Ævar Jóhannesson



Flokkar:Greinar

%d bloggers like this: