Nýlega voru birtar niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar voru af Henry Lai og Narenda Singh hjá háskólanum í Washington. Þessar niðurstöður eru sláandi vegna þess að í fyrsta skipti er sýnt fram á að lágtíðnirafsegulsvið af lágum styrk getur skaðað DNA sameindir í heilafrumum. Þetta er rafsegulsvið sem stafar frá húsrafmagni og tækjum sem við höfum í umhverfi okkar daglega. Tilraunin var gerð á rottum en þær hafa mjög áþekkar heilafrumur og menn. Það sem er athyglisverðast er sú staðreynd að styrkmörkin sem unnið var með eru eins og getur stafað frá hárþurrkum, örbylgjuofnum, rafmagnshitapokum, rafmagnsnuddtækjum, spennubreytum og sv. frv..
Niðurstöður þessarar rannsóknar benda eindregið til þess að áhrifin geti verið jafnmikil ef dvalið er í daufu rafsegulsviði í langan tíma eða sterku rafsegulsviði í stuttan tíma. Þarna eru nokkurskonar uppsöfnunaráhrif. Það þýðir einfaldlega að notkun hárþurrku í nokkrar mínútur hefur áhrif en þau bætast síðan við áhrif frá t.d. rafmagnshitapoka, spansuðuhellum, örbylgjuofni, rafmagnshandverkfærum eða öðrum raftækjum sem við notum dags daglega.
Henri og Lai telja að ekki sé endilega um bein áhrif rafsegulsviðs á DNA heldur telja að áhrif þessi trufli efnaferli frumna og auki á sindurefnamyndun sem aftur getur skaðað DNA sameindir. Þegar tilraunarotturnar fengu efni sem vinna gegn sindurefnamyndun fækkaði fjölda skaddaðra DNA sameinda. Það er jafnvel leikmönnum ljóst að ef rafsegulsvið er að hafa þessi áhrif á heilafrumur í rottum þá er ekki hollt að hafa rafsegulsvið í umhverfi þeirra. Ef hægt er að heimfæra þessar niðurstöður yfir á menn, sem þeir Lai og Singh telja, þá er enn komin ærin ástæða fyrir okkur mannfólkið að varast of mikla rafsegulgeislun.
Þeir Lai og Singh vara fólk við að nota rafmagnstæki eins og hárþurrkur, hitapoka og rafmagnshitateppi nema í litlu mæli. Ennfremur ráðleggja þeir að fólk forðist nálægð við spennubreyta sem fylgja halogenljósum eða öðrum raftækjum. Rafsegulsvið frá þessum tækjum er sterkast rétt við tækið sjálft en dofnar verulega þegar fjær dregur. Rafsegulsvið frá t.d. spennubreyti fyrir halogen ljós mælist vart í meters fjarlægð. Þessi rannsókn miðast við rafkerfi Bandaríkjanna en þar er 110V spenna notuð. Við notum hinsvegar 230V það þýðir að við þurfum minni straum til að knýja okkar tæki og þar af leiðandi myndast ekki eins sterkt rafsegulsvið umhverfis tæki hjá okkur. Það mætti bæta við þetta að líklegt er að neysla fæðubótarefna sem hafa andoxunaráhrif hjálpi mikið, eins og C-vítamíns, Q10, hvítlauks og fl.
VGV