Inngangur
Allt frá því að maðurinn tók sér fasta búsetu og hóf að yrkja jörðina fyrir líklega um 12.000 árum síðan, hefur hann stundað kynbætur nytjajurta í einhverjum mæli. Fyrst með því að velja úr villtum jurtum þá einstaklinga sem gáfu meiri uppskeru, eða höfðu aðra eftirsóknarverða eiginleika. Síðar með víxlfrjóvgun og áframhaldandi úrvali. Stundum verða stökkbreytingar hjá jurtum (og reyndar líka hjá öðrum lífverum) og koma þá fram ný yrki sem ekki voru til áður. Talið er að korntegundirnar hveiti og bygg hafi verið þróaðar í Miðausturlöndum um 6000 f. Kr.
Vitað er að á tímum Rómaveldis var stunduð fjölbreytt matjurtaræktun, og ræktuðu þeir m.a. auk korns ýmsar káltegundir, salat o.fl. Náttúrulegar aðferðir til kynbóta svo sem úrval og víxlfrjóvgun voru viðhafðar allt fram á síðustu öld að farið var að beita róttækari aðgerðum og komu þá t.d. fram bastarðar (hybrid) þegar æxlað var saman fjarskyldari tegundum, eiginleikarnir erfast ekki til afkomendanna og eru margir þeirra ófrjóir, t.d. steinlausar appelsínur og steinlaus vínber. Enn róttækari aðferðum var farið að beita upp úr miðri síðustu öld, svo sem gammageislun til að framkalla stökkbreytingar í jurtum og enn síðar eða um 1970 uppgötvuðu vísindamenn aðferð til að klippa gen úr öðrum lífverum og flytja þau inn í jurtir.
Í framhaldi af því var farið að gera tilraunir með að erfðabreyta lífverum, það er að splæsa framandi genum inn í nytjajurtir til að reyna að auka uppskeru þeirra, þol gegn illgresislyfjum og eða sníkjudýrum, eða þá til að fá jurtirnar til að mynda meira magn eftirsóknarverðra efnasambanda svo sem tiltekinna vítamína eða eggjahvítu.
Hvað eru erfðabreyttar lífverur?
Erfðabreyttar eru þær lífverur nefndar, þar sem átt hefur verið við erfðamengi þeirra á beinan hátt, t.d. með því að flytja inn í það erfðaefni úr annarri óskyldri lífveru, en ekki á óbeinan hátt eins og gert er t.d. með hefðbundnum kynbótum. Það þýðir að komið hefur verið fyrir í lífverunni erfðavísum (genum) úr alls óskyldum lífverum, t.d. baktería er flutt inn í plöntu og plantan fer að framleiða efnasamband, sem bakterían framleiddi áður. Önnur dæmi eru að erfðavísum úr fiski er komið fyrir í kartöflum, úr grísum í rósir, eða úr asna í fiska.
Tilgangurinn með þessum erfðabreytingum er að ,,bæta“ eiginleika plöntunnar. Auka vaxtarhraða hennar, magn næringarefna eða vítamína, auka uppskeru, þol gegn illgresislyfjum, eða þol gegn skordýrum, svo nokkur dæmi séu nefnd. Dæmi um slíkar erfðabreytingar er t.d. ,,Golden rice“, hrísgrjón sem mynda meira Beta karotin en önnur hrísgrjón, eða ,,Bt maís“ þar sem bakteríunni Bacillus thuringiensis sem myndar náttúrulegt skordýraeitur er komið fyrir í maís og veldur því að maísjurtin myndar sitt eigið skordýraeitur.
Til að flytja erfðavísa milli óskyldra lífvera eru notaðir vírusar sem berar. Þeim er skotið inn í DNA keðjuna og sest þessi nýi erfðavísir þá að einhversstaðar í keðjunni, tilviljun ræður hvar. Þessar breytingar eru varanlegar, þ.e. eiginleikarnir flytjast áfram til afkomendanna. Gripið er inn í lífkeðjuna með óafturkræfum og ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Farið er út fyrir þau mörk sem náttúran setur blöndun erfðaefnis óskyldra lífvera. Enginn veit eða getur séð fyrir hvaða afleiðingar slíkar aðgerðir hafa í för með sér. Eitt er víst að erfðabreyttum lífverum sem sleppt hefur verið lausum eða sloppið hafa verður ekki eytt, þær halda áfram að breiðast út um lífríkið allt, því hvorki er hægt að girða fyrir vatn og vinda, skordýr, né fugla himinsins.
Líftækniiðnaðurinn hefur lofað og prísað þessar nýju tegundir sem þannig hafa verið skapaðar, þær áttu m.a. að auka uppskeru og draga úr notkun illgresis-og skordýralyfja. Hvorugt hefur orðið raunin á, þær hafa í engu staðist þær væntingar sem við þær voru bundnar, né skilað þeim árangri sem líftæknifyrirtækin lofuðu í upphafi. Ræktun þessara erfðabreyttu jurta hófst fyrir átta árum og er enn sem komið er aðallega um að ræða fjórar tegundir jurta, þ.e. soyabaunir, maís, olíurepju og bómull. Ræktun þeirra hefur einkum átt sér stað í Bandaríkjunum, Argentínu, Kanada og Kína. Vandamálin hlaðast upp, minni uppskera, lægra verð fyrir afurðirnar, tapaðir markaðir, erfðamengun bæði yfir á akra annarra bænda sem ekki rækta erfðabreyttar tegundir svo og yfir í villtar jurtir úti í náttúrunni.
Er einhver önnur leið?
Talsmenn erfðabreyttra lífvera halda því fram að til að mæta vaxandi fæðuþörf mannkynsins í framtíðinni, sé engin önnur leið fær en að auka framleiðslu matvæla með aðferðum erfðatækninnar, og að auka þannig uppskeruna á hverja flatareiningu ræktaðs lands. Ræktun erfðabreyttra plantna hefur þó ekki enn sem komið er skilað aukinni uppskeru á flatareiningu ræktunarlands, þvert á móti hefur hún orðið minni, með einni undantekningu þó. Lausnin er ekki að auka matvælaframleiðslu á vesturlöndum, heldur að koma traustari fótum undir hana þar sem fæðuskortur er hvað mestur, þ.e. í löndum þriðja heimsins, sem svo er nefndur.
Á þeim slóðum kemur aukin nútíma landbúnaðartækni, með tilheyrandi kostnaði að takmörkuðu gagni. Lífrænn landbúnaður getur aftur á móti gegnt þar mikilvægu hlutverki. Dæmi um það má finna víða, svo sem á Indlandi, í Mexíkó, í Afríku og víðar. Lífrænn landbúnaður hafnar algjörlega notkun erfðabreyttra lífvera. Sú stefna sem felst í lífrænum landbúnaði, að byggja upp frjósemi jarðvegs, að tryggja sjálfbæra og heilbrigða fæðuframleiðslu, að vinna með náttúrunni og beita náttúrulegum ræktunaraðferðum og varnaraðgerðum fremur en tæknilegum er vænlegri og varanlegri leið til sjálfbærrar landbúnaðarframleiðslu.
Sjálfbær landbúnaðarframleiðsla er það markmið sem allur landbúnaður þarf að setja sér, hvar sem hann er í heiminum. Því háðari sem landbúnaðurinn er aðfengnum hráefnum, svo sem útsæði, áburði, lyfjum orku, og því einhæfari og sérhæfðari sem framleiðslan er, því viðkvæmari er hann fyrir sveiflum eða áföllum, hvort sem er af völdum veðurfars, náttúruhamfara, eða annarrar óáran sem yfir kann að dynja. Hvað getum við neytendur gert til að hafa áhrif? Með því að halda vöku okkar og láta t.d. ekki stórfyrirtæki sem hafa hagnaðinn einan að leiðarljósi ráða fæðuvali okkar.
Með því að þrýsta á stjórnvöld að setja sem fyrst reglugerð um skýrar merkingar matvæla er innihalda erfðabreyttar afurðir. Og einnig að stjórnvöld gæti ýtrustu varúðar í leyfisveitingum til líftæknifyrirtækja. Og síðast en ekki síst með því að velja lífrænar vörur. Með því styrkjum við lífrænan landbúnað sýnum vilja okkar í verki.
Helstu heimildir: 1 Soil Association: Seeds of doubt. North American farmers experience og GM crops. www/ soilassociation.org 2 N Batalion: 50 Harmful Effects if Genetically Modified Foods. 3 www/ greenpeace.org Fjöldi greina um erfðabreyttar lífverur eftir ýmsa höfunda.
Höfundue Sandra B. Jónsdóttir 2004