Getur aukin virkni hóstarkirtilsins læknað krabbamein?
Frést hefur frá Ástralíu að nýtt lyf sem grundvallast á því að auka virkni hóstarkirtilsins hafi reynst frábærlega við nokkrar tegundir illkynja meinsemda, t.d. hvítblæðis og krabbameins í blöðruhálskirtli. Meðferðin er sögð að mestu án aukaverkana og gert er ráð fyrir að hægt verði að fara að nota hana innan tveggja ára. Sagt var frá þessu á líftækniráðstefnu í Bandaríkjunum, Bio 2003, og einnig að fljótlega verði meðferðin prófuð á sex virtum sjúkrahúsum í Evrópu og Bandaríkjunum. Meðferðin felst í því að örva hóstarkirtilinn til að mynda aukið magn af T-frumum, sem eru eitt höfuðvarnartæki ónæmiskerfisins gegn krabbameinsfrumum og einnig veirusýkingum t.d. eyðni.
Venjulega dregur mjög úr virkni hóstarkirtilsins eftir að kynþroska er náð og margir telja að á fullorðinsaldri gegni hann engu hlutverki. Þetta hefur þó verið dregið í efa af öðrum, sem hafa gagnrýnt að oft er hóstarkirtillinn tekinn úr fullorðnu fólki, t.d. ef gerðar eru hjartaaðgerðir á því. Sýnilegt er að í þeim tilfellum sem hér eru til umræðu, gegnir hóstarkirtillinn lykilhlutverki og að krabbameinslækningar á fólki sem engan hóstarkirtil hefur, eru þýðingarlausar með þessari aðferð.
Lyfin sem hafa þessa verkun á hóstarkirtilinn eru þau sömu og stundum eru notuð til að hindra myndun kynhormóna (östrógen, testósteron) hjá sjúklingum með viss hormóna háð krabbamein, t.d. í brjóstum, blöðruhálskirtli og eggjastokkum. Í ljós kom að þessi lyf sem nefnd eru GmRH-hliðstæður, örva einnig hóstarkirtilinn til að mynda fleiri virkar T-frumur. Aðferðina þróuðu vísindamenn við Monash-háskólann í Melbourne. Forsætisráðherra Viktoríuríkis í Ástralíu, Steve Bracks, var afar hreykinn, þegar hann sagði frá þessari uppgötvun og taldi að þetta væri í raun bylting í meðferð krabbameins, sú fyrsta sem raunverulega skipti máli og festi í sessi góðan orðstír ástralskra læknisvísinda.
Á áðurnefndri ráðstefnu í Bandaríkjunum sögðu Ástralir einnig frá nýju bóluefni sem gefið hefði tímamóta árangur gegn krabbameinum t.d. sortuæxlum. Einnig það er grundvallað á að hvetja ónæmiskerfið með því að „yngja upp“ hóstarkirtilinn. Að sögn Peters Hansen, framkvæmdastjóra ástralska líftæknifyrirtækisins Norwood Abbey, er fyrirtækið komið langt á leið með að setja bóluefnið á markað. Nokkrar rannsóknir benda til að bætiefnið kóensím Q-10 örvi hóstarkirtilinn einnig, eða „endurlífgi“, eins og það er stundum kallað. Þetta passar vel við aðrar rannsóknir sem benda til að nota megi Q-10 við krabbameinslækningar í skömmtum frá 120-500mg á dag. Aðalheimild: Morgunblaðið 25. júní 2003
Umbreytt sítrus pektin og krabbameinslækningar
Sítrus pektin eru flókin kolvetni sem finnast berki sítrus ávaxta, t.d. appelsínu- eða sítrónuberki. Upptaka þessara kolvetna í meltingarfærunum er frekar slæm, svo að ekki er raunhæft að borða appelsínu- eða sítrónubörk til að lækna krabbamein, enda þótt kannanir sýni að efni í honum verka á krabbameinsfrumur. Því var farið í að gera tilraunir með að breyta venjulegu sítrus pektini þannig að upptakan á því í meltingarfærunum batnaði. Árangurinn varð mjög góður, en hann náðist með því að stytta kolvetnakeðjurnar, m.ö.o. að búa til margar styttri keðjur úr einni langri. Við þetta stórbatnaði upptakan í meltingarfærunum. Sú nýja afurð, sem með þessu varð til, var nefnd: Umbreytt sítrus pektin (Modified Citrus Pectin).
Fljótt kom í ljós að þetta nýja pektin hægði mjög á framvindu krabbameins í blöðruhálskirtli, sem auðvelt var að sjá með því að mæla æxlisvísinn PSA (Prostate Specific Antigen). Búið er að gera nokkrar kannanir á virkni umbreytta pektínsins sem allar sýna að það hægir á framvindu sjúkdómsins og stöðvar ef til vill, en til að fullyrða það þarf þó að nota efnið í lengri tíma. Einnig kom í ljós að pektínið má nota við margskonar önnur krabbamein en í blöðruhálskirtli þ.á.m. í brjóstum og ristli. Heimild: Modified Citrus Pectin slows Progression of Prostate Cancer. Townsend Letter for Doctors and Patients,júní 2003
Zink og selen gagnleg fyrir krabbameinssjúka
Sextíu sjúklingar, 55 ára gamlir að meðaltali, sem allir þjáðust af krabbameini í meltingarfærunum (ristli, maga eða vélinda), og allir voru á lyfjameðferð, voru látnir fá daglega, annaðhvort 21mg af zinki og 200 mcg (0,2mg) af seleni eða óvirka lyfleysu (placebo). Tilviljun var látin ráða hverjir voru í lyfleysuhópnum og hverjir í hinum hópnum, en jafnmargir voru í hvorum hópi. Tilraunin stóð í 50 daga. Við upphaf tilraunarinnar kom í ljós að báðir hóparnir voru vannærðir. Við lok tilraunarinnar hafði næringarástand 70% þeirra sem fengu zinkið og selenið ekki versnað og matarlyst heldur lagast, en hjá hinum, sem fengu lyfleysuna, voru aðeins 20% sem ekki hafði versnað.
Þessi könnun bendir til að selen og zink bæti heildarástand þeirra sem eru með krabbamein í meltingarfærunum og fá lyfjameðferð við krabbameini. Sumir krabbameinssérfræðingar hafa þá skoðun að ekki eigi að nota andoxunarefni, eins og t.d. zink og selen, samhliða krabbameinslyfjum, vegna þess að þessi bætiefni (og ýmis önnur) eyði stakeindum sem krabbameinslyfin mynda og að það séu einmitt stakeindirnar sem tortími krabbameinsfrumunum. Því dragi andoxunarefnin úr vanlíðunareinkennum sem fylgja lyfjameðferðinni en um leið úr gagni af henni til að tortíma krabbameinsfrumum.
Dr. Alan R. Gaby læknir, sem skrifar um þetta í T.L.f.D.P. telur að oftast sé þetta á misskilningi byggt og að verkun flestra frumudrepandi lyfja byggist alls ekki á stakeindavirkni. Aftur á móti valdi stakeindir drjúgum hluta óæskilegra hliðareða aukaverkana af þessum lyfjum og því sé mjög gott og bæti árangur frumudrepandi lyfja að nota samtímis andoxunarefni t.d. zink, selen E og Cvítamín o.fl. o.fl. Hann bendir á að æskilegt væri að gera sérstaka rannsókn á því hvaða andoxunarefni sé best að nota og trufli minnst einstök krabbameinslyf, því að þetta eru mörg ólík efni með ólíkan verkunarmáta. Heimild: Alan R. Gaby, læknir, Townsend Letter for Doctors and Patients, júní 2003
Próteinkljúfandi ensím (próteasar) gagnleg við mergfrumukrabbamein
Tvöhundruð sextíu og fimm sjúklingar með mergfrumukrabbamein (multiple myeloma) með sjúkdóminn á I. II. og III. stigi, fengu hefðbundna lyfjameðferð. Hundrað sextíu og sex þessara sjúklinga fengu auk þess ensím sem þeir tóku inn allan tímann. Níutíu og níu þeirra sjúklinga sem eftir voru, fengu annaðhvort engin ensím eða hættu að nota þau áður en sex mánuðir voru liðnir. Þeir voru notaðir sem viðmiðunarhópur. Notaðar voru húðaðar pillur (sem ekki leysast upp í maganum), 2 pillur þrisvar á dag fyrsta árið, en síðan 1 pilla þrisvar á dag. Þeir sjúklingar sem fengu fullan bata eða bata að hluta til voru hlutfallslega miklu fleiri í hópnum sem fékk ensímin en í hinum hópnum, 97,6% á móti 69,7% (p=0.001) Í veikasta hópnum (stig III), var hlutfall þeirra sem meðferðin hafði engin áhrif á 3,7% á móti 38,9% í þeim hópi sem ensímin fékk (p=0.001), Meðaltals líftími sjúklinganna með sjúkdóminn á III. stigi var 47 mánuðir á móti 83 mánuðum hjá þeim sem notuðu ensímin, 77% lenging (p=0.002).
Þetta jafngildir því að þessir sjúklingar hafi lifað þremur árum lengur en þeir sem ekki fengu ensímin. Tíminn sem könnunin stóð yfir var ekki nógu langur til að geta metið hvort ensíma meðferðin lengdi líf þeirra sem voru með sjúkdóminn á I. og II. stigi. Notuð voru 40mg af briskirtilsensíminu trypsín og jafn mikið af chymotrypsin, ásamt 100mg af papain úr papaya ávöxtum. Enda þótt ekki sé að fullu ljóst hver verkunarmáti próteinkljúfa er við ýmis krabbamein, telja margir að þessi ensím brjóti niður varnarhúð sem krabbameinsfrumurnar mynda um sig til varnar árásum ónæmisfruma.
Við að eyðileggja þessa varnarhúð verða krabbameinsfrumurnar þá berskjaldaðar og auðveld bráð fyrir frumur ónæmiskerfisins. Í vorblaði Heilsuhringsins árið 2000 er sagt frá lækninum og prófessornum John Beard, sem taldi að lækna mætti flest krabbamein með próteinkljúfandi ensímum og sýndi fram á mörg dæmi þessu til staðfestingar. Aðferðin náði þó aldrei almennri útbreiðslu en nú virðist áhugi að nýju vera að kvikna fyrir þessu með betri og kröftugari ensímum heldur en Beard notaði. Heimild: Alan R. Gaby, læknir.Townsend Letter for Doctors and Patients, júní 2003
Jurtaextrakt við krabbameini
Ný könnun við þvagfæradeild Columbíu-háskólans í New York leiddi í ljós að Zyflamend, jurtaextrakt sem búinn er til úr tíu jurtum, sem flestar eru þekktar lækningajurtir, sé mjög áhrifaríkur til að hindra að ensímið cyclo-oxygenasi-2 (cox-2) myndist. Þetta veldur því, auk þess að draga mjög úr bólgusvörun, t.d. við liðagigt o.fl. gigtarsjúkdóma, að það virðist setja í gang ferli sem nefna mætti „sjálfseyðingu“ (apoptosis) krabbameinsfruma. Þetta var kynnt á fundi hjá Félagi um þvagfærakrabbamein (Society of Urologic Oncology) hjá heilbrigðisstofnuninni í Bethesda, Maryland. Þessi fundur var studdur af Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna NCI. Eftir því sem rannsóknarmennirnir sögðu, er Zyflamend til muna áhrifaríkara en efni í kryddinu turmeric sem nefnt er curcumin, sem margir trúa að sé eitt af þeim efnum sem lofi hvað mestu, bæði sem fyrirbyggjandi og til að meðhöndla krabbamein.
Vegna þess að svo virðist sem curcumin hindri ekki cox-2 eitt sér, hljóta önnur efni í jurtablöndunni að gera það, eða samvirkni allra jurtanna því að Zyflamend hindrar ensímið cox-2 álíka vel og tilbúna lyfið NX-398 sem sérstaklega er gert til að hindra cox-2. Dr. Aaron Katz, sem auk annars, hefur stjórnað Zyflamend rannsóknunum, sagði á fundinum áðurnefnda, að áætlað sé að fara að gera tilraunir undir vísindalegu eftirliti til að meta gagnsemi Zyflamend við blöðruhálskritilskrabbameini, bæði sem fyrirbyggjandi meðferð og einnig við lækningar. Zyflamend er gert úr tíu jurtum, sem flestar eru gamlar þekktar lækningajurtir, sem notaðar hafa verið um aldir, m.a við bólgum, liðagigt o.fl. Jurtirnar eru:Turmeric, engifer, heilagt basil, grænt te, hu zhang, gold-thread, roðaber (barberry), oregano, rósmarín og scutellaria baicalensis. Notuð er sérstök aðferð við að draga virku efnin út úr jurtunum.
Ekki er notaður hár hiti og heldur ekki upplausnarefni, t.d. hexan eða methanol. Það tryggir að virku efnin komast óskemmd og ómenguð í extraktinn. Þetta er gert í Þýskalandi, eftir staðli settum af ríkinu, en Þjóðverjar hafa langa hefð í að búa til jurtaextrakta. Sé það rétt að Zyflamend hindri cox-2 ensímið næstum fullkomlega er það auk þess að vera gagnlegt við krabbamein, einnig frábært gigtar og bólgueyðandi lyf og getur sennilega dregið stórlega úr líkum að fá blóðtappa, bæði í slagæðum og bláæðum. Frá þessu var skýrt í Townsend Letter for Doctors and Patients í júní 2003, en í sama blaði var einnig sagt frá próteini sem hindrar ensímið cox-2. Þetta ensím sem vísindamennirnir kalla CUGBP2, stjórnar myndun cox-2 ensímsins en það er ómissandi til þess að nýjar æðar geti myndast.
Með því að hindra cox-2 ensímið er komið í veg fyrir að nýjar æðar myndist, en í krabbameinsæxlum er það forsenda þess að æxlið geti vaxið Rannsóknarmenn við Washington læknaháskólann (St. Lous, MD) uppgötvuðu þetta og sagt var frá því í breska ríkisútvarpinu BBC í fréttaþætti í janúar 2003. Rannsóknarmennirnir festu CUGBP2 prótein við mRNA (RNA sem flytur skilaboð) fyrir cox-2 í átta mismunandi gerðum af krabbameinsfrumum úr mönnum. mRNA segir frumum hvenær þær eigi að mynda prótein sem ákveðið er af DNA. Með því að binda CUGBP2 próteinið við mRNA fyrir cox-2, voru krabbameinsfrumurnar hindraðar í að mynda ensímið og þær dóu. Nú eru vísindamennirnir að athuga áhrif CUGBP2 próteinsins á æxli.
Af því að heilbrigðar frumur mynda mikið af þessu próteini, sjá vísindamennirnir leið til að nota mætti það til að tortíma krabbameinsfrumum, án þess að skaða heilbrigðar. „Prófun á fólki ætti að vera möguleg innan fárra ára“, segir í fréttinni frá BBC. Þetta gæti bent til, að sé hægt að hindra cox-2 ensímið fullkomlega valdi það því, að allar krabbameinsfrumur í líkamanum deyi fljótlega. Einnig skýrir það hversvegna sum gigtarlyf virðast fækka krabbameinstilfellum. Mörg gigtarlyf hindra einmitt að einhverju leyti myndun cyclo-oxygenasa, sem er samheiti á cox-1 og cox-2. Heimilda er getið í greininni.
Höfundur Ævar Jóhannesson haust 2003
Flokkar:Krabbamein