Hér fara á eftir 6 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru eftirfarndi:
- Sojamjólk gagnleg við háþrýstingi
- C-vítamín og krabbamein
- Salvia gegn minnistapi
- Er æskilegt að gera mjólkurvörur sætar með xylitol?
- Rafsegulbylgjur geta læknað
- Fólinsýra fækkar krabbameinum í ristli
Sojamjólk gagnleg við háþrýstingi
Fjörutíu einstaklingar með hækkaðan blóðþrýsting voru tilviljunarkennt látnir fá daglega, annaðhvort tvisvar sinnum hálfan lítra af sojamjólk, eða tvisvar sinnum hálfan lítra af kúamjólk. Jafnmargir eða 20 voru í hvorum hópi. Tilraunin stóð í þrjá mánuði. Við lok tilraunarinnar hafði blóðþrýstingur þeirra sem notuðu sojamjólkina lækkað að meðaltali um 18,4mmHg efri mörk, en neðri mörk um 15,9mmHg, en sáralítið hjá þeim sem notuðu kúamjólkina eða 1,4mmHg og 3,7mmHg. Þessar niðurstöður sýna að dagleg neysla á einum lítra af sojamjólk lækkar blóðþrýsting marktækt. Þó að ekki sé vitað með neinni vissu hvað það er í sojamjólkinni sem veldur þessu er þó nokkurn veginn víst, að það eru ekki ísóflavon-efni, því að væru soja-ísóflavonoid gefin ein sér hafði það engin áhrif á blóðþrýsting. Soja prótein virðast minnka kolesterol í blóði, sem er einnig talinn áhættuþáttur í hjarta og æðasjúkdómum. Þetta tvennt gæti bent til að soja-vörur ættu að vera fastur liður í fæði sem flestra. Heimild: Alan R. Gaby, Townsend Letter for Doctors and Patients, júní 2003
C-vítamín og krabbamein
Vísindaritið Science birti 15. júní 2001 grein eftir Jan Blair og félaga í lyfjadeild Pennsylvaníuháskóla. Þar var varað við að nota C-vítamín, vegna þess að það gæti valdið krabbameini. Tilraunir þeirra, sem gerðar voru í tilraunaglasi, sýndu að við viss skilyrði geti C-vítamín breytt fitu-hydróperoxíðum í eitur sem skaðað gat DNA erfðaefnið og orðið þekktur krabbameinsvaldur. Í grein sem Russel M. Jaffe, MD, PhD, CCN, skrifaði fyrir Health Studies Collegium, ásakar hann fjölmiðla fyrir að nota þessa könnun sem grundvöll fyrir æsifrétt. Hefðu þeir gefið sér tíma til að athuga málið hefðu þeir getað fundið að minnsta kosti fimm nýlegar kannanir, gerðar á fólki (ekki í tilraunaglösum) í viðurkenndum vísindatímaritum, sem sýndu að C-vítamín veldur ekki DNA skemmdum hjá fólki.
Meira en 90 kannanir hafa sýnt að C-vítamín gefur vörn gegn krabbameini í briskirtli, munnholi, maga, leghálsi, endaþarmi, brjóstum og lungum, samkvæmt upplýsingum frá Nicholas Calvino DC og Stephen Levine, Ph.D. Þá hefur Waheed Roomi, Ph.D. við Linus Pauling stofnunina í ríkisháskólanum í Oregon upplýst að C-vítamín eyði eitruðum áhrifum frá fjölhringja kolvetnum, lífrænum klórsamböndum og þungamálmum, til viðbótar því að vera andoxari. Þá eykur C-vítamín virkni afoxunar ensíma í lifrinni og styrkir ónæmiskerfið. Samkvæmt upplýsingum N. Calvino og S. Levine virðist C-vítamín hvorki draga úr virkni krabbameinslyfja né jónandi geislameðferðar, andstætt því sem sumir halda fram. Frekar er þetta öfugt, það bætir virkni hefðbundinnar krabbameinsmeðferðar og dregur úr hliðarverkunum. Calvino og Levine benda þó á eina ástæðu þess að fara varlega í að byrja með mjög stóra skammta af C-vítamíni við krabbameini. Það er skortur á ensíminu glúcosa-6-fosfat-dehydrogenasa, sem getur valdið því að járnið í rauðu blóðfrumunum leysist upp (red cell homolysis).
Linus Pauling og Hugh Riordan benda einnig á að sjúklingar sem fá mjög stóra skammta af C-vítamíni gætu orðið fyrir því, vegna dauða mikils fjölda krabbameinsfruma, að fram komi óæskilegar hliðar- eða eiturverkanir sem stafa frá efnum úr dauðu krabbameinsfrumunum. Til að hindra eyðileggingu rauðu blóðfrumanna er því ráðlagt að byrja krabbameinsmeðferð með frekar litlum skammti af C-vítamíni, sem síðan má smáauka. Eftir að áðurnefnd grein var birt í Science hefur mikill fjöldi greina komið í mörgum tímaritum, sem gagnrýna greinina í Science. Greinin hér á undan er ágætt sýnishorn af þessum greinum og ætti að kveða niður þá falskenningu að C-vítamín sé krabbameinsvaldur og skaði erfðaefni frumanna. Greinin er að mestu þýdd beint úr Townsend Letter for Doctors and Patients, júní 2003 …..Æ.J.
Salvia gegn minnistapi
Í sjónvarpinu 1. september sl. var stutt frétt um það að vísindamenn í Englandi hefðu uppgötvað að í jurtinni salviu væri efni eða efnasambönd sem bættu minni aldraðs fólks. Ekki var beinlínis sagt í fréttinni, hvort sama var af hvaða ástæðu minnistapið stafaði eða hvort salvia bætir ástand sjúklinga með Alzheimsers-sjúkdóm. Sennilega fáum við síðar að heyra meira um þetta og þá skýrist þetta betur. Salvia er gömul þekkt lækningajurt. Nafnið salvia er komið úr latínu og þýðir eiginlega að frelsa eða leysa (úr ánauð), samanber nafnið Salvador, sem þýðir frelsari. Nafnið á jurtinni bendir til að hún hafi eiginleika til að „frelsa“ undan eða frá einhverju, t.d. því böli sem ótímabær elliglöp hljóta alltaf að hafa verið. Salvía er sennilega fáanleg hér í heilsufæðubúðum og er víst stundum notuð sem krydd í vissan mat. Enska nafnið á salvíu er Sage
Er æskilegt að gera mjólkurvörur sætar með xylitol?
Eins og alþjóð veit er rekinn mikill áróður fyrir að fólk noti mjólk og mjólkurvörur, m.a. vegna þess að hún er afar kalkrík. Það virðist því nokkur þverstæða leynast í því að skýrslur frá mörgum löndum benda til að beingisnun sé hvergi meira heilsuvandamál en í þeim löndum þar sem mest er notað af mjólk. Þetta hlýtur að stafa af því, að af einhverjum ástæðum nýtist kalkið í mjólkinni illa. Fitusprengingin sem gerð er á nýmjólk hefur þar m.a. verið kennt um, en þá ætti undanrenna að vera í lagi. Margskonar mjólkurvörur eru sérstaklega hugsaðar sem fæða fyrir börn og unglinga og eiga þær að keppa við ýmiskonar skyndibita og gosdrykki með vafasama hollustu. Eitt er þó sameiginlegt flestum þessum mjólkurvörum og gosdrykkjunum, að mjög mikill sykur er í hvoru tveggja. Sé bent á að lítil hollusta sé í því að venja börn og unglinga á allan þennan sykur og að þarflaust sé að bæta svona miklum sykri út í mjólkurvörur, þá er svarið oftast, að þetta verði að gera.
Annars fáist börnin ekki til að nota það en snúi sér að gosdrykkjunum, sem allir vita að eru dísætir. Margar þessar mjólkurvörur eru bæði súrar og sætar. Það hlýtur að vera mjög slæmt fyrir tennurnar, sambærilegt við gosdrykki, sem vitað er að éta upp tannglerunginn og skapa kjöraðstæður fyrir þá bræður Karíus og Baktus. Vitað er af fjölda kannana, að sætuefnið xylitol er ekki aðeins skaðlaust fyrir tennurnar, heldur beinlínis hindrar tannskemmdir. Einnig dregur það úr sýkingum í munni, nefholi og hálsi og dýratilraunir benda til að það bæti nýtingu á kalki í líkamanum og geti því hindrað beingisnun. Mín tillaga til framleiðanda sætra afurða úr mjólk er, að þeir hætti að gera þær sætar með sykri, heldur verði notað xylitol. Með því mætti örugglega draga töluvert úr tannskemmdum og fækka sýkingum í munni, hálsi og nefholi og þá mætti e.t.v. auglýsa með góðri samvisku, að „tvö mjólkurglös á dag alla ævi“, raunverulega hjálpuðu til við að fá sterk bein til hárrar elli. Með von um að þessi tillaga fái góðar undirtektir.
Rafsegulbylgjur geta læknað
Lengi hafa vissir einstaklingar haldið því fram að rafsegulbylgjur af ákveðinni tíðni hefðu eiginleika til að lækna eða bæta marga sjúkdóma. Þar má t.d. nefna hugvitsmanninn og þúsundþjalasmiðinn Royal Rife, sem sagt var frá í Heilsuhringnum fyrir nokkrum árum og Wilhelm Reich, sem einnig var fjölvísindamaður, en er nú sennilega þekktastur fyrir kenningar í sálfræði, auk margs annars. Þessir frumkvöðlar og margir aðrir voru bara langt á undan sinni samtíð og voru jafnvel taldir bilaðir á geði og lokaðir inni á geðveikrahælum. Vonandi hefur mannkyninu farið nægilega mikið fram til að það verði ekki endurtekið, því að nú eru ýmsir farnir að sýna þessu áhuga og reyna að nota rafsegulbylgjur við að lækna alvarlega sjúkdóma t.d. krabbamein. Í tæknilegu yfirliti skýrir læknirinn Mark J. Neveu og Richard Blanco, hvernig rafsegulkraftar og tíðni liggja að baki öllum efna- og líffræðilegum ferlum í líkamanum.
,,Sérhvert tilvik í líkamanum, hvort sem það er heilbrigt eða sjúkt, veldur breytingu, bæði á segul- og rafsviði líkamans“ segja þeir. Sé tíðnisvið sem endurómar við ákveðinn líkamsvef látið verka á líkamsvefinn, hjálpar það til við að koma honum í eðlilegt samræmi og verða heilbrigður. „Athuganir sýna að endurnýjun tauga er örvuð við 2Hz (rið), beinvöxtur við 7Hz, liðbönd við 10Hz og örvun á háræðum og bandvefsfrumum við 15, 20 og 75Hz. Einnig draga rafsegulbylgjur úr sársauka og bólgum“. Á sjúkrastofnunum utan Bandaríkjanna hafa tæki sem mynda rafsegulsvið verið notuð við krabbameinslækningar. Mark Neveu og Richard Blanco segja að allir frumuhópar eða líffæri hafi sína eigin tíðni, sem stjórna mikilvægum ferlum eins og frumuskiptingu. Venjulega er þessi tíðni mjög stöðug og jöfn. En ef einhver fruma breytir um tíðni, nægir oftast til að endurstilla hana að fá merki um það frá frumum í nágrenninu.
Fari aftur á móti svo, að nægilega margar frumur ruglist í ríminu og fari að senda út ranga tíðni, getur það endað með því að stöðugleiki kerfisins bresti og sameiginleg tíðni líffærisins verði lítil eða engin. Með viðeigandi tækjum má þá stundum „endurstilla“ líffærið til að senda út rétta tíðni. Tilraunir á dýrum og með krabbameinsfrumur í ræktun sýna, að hægt er að koma í kring „sjálfseyðingu“ (apoptosis) hjá krabbameinsfrumum með rafsegulbylgjum og styrkja má ónæmiskerfið á marga vegu. Til stendur að gera læknisfræðilega könnun undir vísindalegum skilyrðum til að sýna fram á gagnsemi rafsegulsviðs við ýmsa sjúkdóma. Heimild: Jule Klotter. Townsend Letter for Doctors and Patients, júní 2003
Fólinsýra fækkar krabbameinum í ristli
Sannanir eru nú fyrir, að nægilegt magn af fólinsýru í daglegu fæði hindrar, eða að minnsta kosti fækkar mjög tilfellum af krabbameini í ristli eða endaþarmi. Þetta var niðurstaðan af könnun sem gerð var á 88.756 hjúkrunarkonum í Bandaríkjunum og stóð í 15 ár (Nurses´ Health Study). Eftir að búið var að leiðrétta fyrir áfengisneyslu, aldri, líkamlegri áreynslu, neyslu á rauðu kjöti, neyslu á trefjaríkum mat, reykingum, fjölskyldusögu og jafnvel neyslu á aspiríni, var niðurstaðan sú, að þær hjúkrunarkonur sem neyttu meira en 400 mcg (0.4mg) af fólinsýru daglega voru með 75% færri krabbamein í ristli, heldur en þær sem notuðu minna en 0.4mg. Önnur stór könnun, sem gerð var á karlmönnum (The National Health and Nutrition Examination Survey), sýndi að karlmenn sem notuðu meira en 239 mg af fólinsýru á dag voru með 60% minni líkur á að fá ristilkrabbamein en þeir sem fengu minna en 103 mg á dag.
Bent er á, að í grænmeti sem inniheldur fólinsýru í ríkum mæli, t.d. í jurtum af krossblómaættinni þ.m.t. ýmiskonar kálmeti, er auk fólinsýru gnægð annarra efna sem vinna gegn ristilkrabbameini á ýmsan hátt t.d. efnasamböndin glutamin, glucos-inolat og trefjar. Gulrófur eru sérlega auðugar af þannig efnum. Sum þessara efna vinna að því að „afeitra“ krabbameinsvaldandi efnasambönd, sem að öðrum kosti gætu valdið skemmdum í erfðaeefni ristilfrumanna (DNA skaða). Hér verður ekki farið nánar út í vísindalegar útskýringar á þessum efnaferlum, enda vandséð gagnið sem lesendur hefðu af því. Það sem máli skiptir er, að best er að fá fólinsýruna sem mest úr fersku grænmeti, því að þá fáum við öll „hin efnin“ með í kaupbæti.
Geymsla og matreiðsla rýrir hollustu grænmetis og einnig er næstum því fullvíst, að lífrænt ræktað grænmeti er bætiefnaríkara en annað grænmeti, auk þess að vera ljúffengara og geymast lengur óskemmt. Alltaf eru að koma fleiri og fleiri sannanir fyrir mikilvægi fólinsýru sem ómissandi næringarefnis. Fyrst sannaðist að fæðingargalli sem nefndur er „klofinn hryggur“ stafaði af skorti móðurinnar á fólinsýru yfir meðgöngutímann. Heilsuhringurinn sagði frá því nokkrum árum áður en almenn viðurkenning fékkst á því hér á landi. Þá var bannað að selja fólki fólinsýru nema eftir framvísun lyfseðils, enda þótt tæplega sé unnt að nota svo stóra skammta af fólinsýru að skaði hljótist af. Næst kom í ljós að skortur fólinsýru gat valdið annarskonar fæðingargöllum. Síðan varð ljóst að skortur á fólinsýru, ásamt skorti á B6 og B12 vítamíni olli aukningu á aminósýrunni hómócystein í blóðinu og einnig sannaðist að hómócystein hvetur oxun á kolesteroli í blóðinu og er því einn höfuð-áhættuþáttur í kransæðasjúkdómum og æðaþrengingum víðs vegar um líkamann. Enn var óheimilt að selja fólinsýru án lyfseðils.
Síðan hefur m.a. komið í ljós að skortur á fólinsýru, ásamt fleiri bætiefnum er sennilega einn áhættuþáttur, ef ekki sá stærsti, í að fólk þjáist af svokölluðum „elliglöpum“, sem alls ekki er alltaf Alzheimerssjúkdómur, heldur oft ýmsir aðrir sjúkdómar í heilanum, eða æðakerfi heilans Þá loksins var sala á fólinsýru gefin frjáls og einnig á B12-vítamíni sem nú mun hægt að fá hér í allt að því 100 mcg (0.1mg) pillum. Þetta er í stuttu máli sagan um vítamínið fólinsýru og mikilvægi þess að fólinsýru skorti ekki í fæðuna sem við nærumst á. Vafalaust hefur þessi saga ennþá ekki öll verið sögð en á meðan við bíðum eftir næsta kafla er sennilega öruggast að nota sem mest af fæðunni beint úr ríki náttúrunnar.
Heimild: Gina L. Nick, Ph.D, ND Townsend Letter for Doctors and Patients, júní 2003
Höfundur Ævar Jóhannesson haust 2003.
Flokkar:Úr einu í annað