Sjúkdómur aldarinnar? Hugleiðingar um hormóna-stýrikerfi líkamans

Í austurlenskri læknisfræði er sagt að nýrun séu sæti lífsins. Nýrnahetturnar sitja á nýrunum beggja megin og er nú vitað að þær framleiða tuttugu og átta mismunandi tegundir hormóna, sem er skipt niður í 3 meginflokka. 1. Glucosteroids, kórtísón og skyld efni. Starfsemi þeirra felst fyrst og fremst í því að hjálpa til við stjórnun á sykur-, fitu- og eggjahvítubúskap líkamans. Aðaleinkenni líkamans þegar starfsemi fer úr skorðum, eru þau að líkaminn nýtir ekki sykur eins og hann ætti að gera. 2. Steinefnasterar. Sjá um vökva og saltbúskap líkamans. Ójafnvægi í þeim leiðir til taps á natríum  og kalíum sem verður eftir í frumunum og getur leitt til þess að einstaklingur svitnar ekki eðlilega og hann verður fíkinn í salt. 3. Kynhormónar.

Talið er að 25% af kynhormónum kvenna myndist í nýrnahettunum og 60% af  kynhormónum karla myndist þar.

4. Sá hluti nýrnahettanna sem framleiðir adrenalín og noradrenalín er í beinu sambandi við ósjálfráða taugakerfið sem gefur boð um framleiðslu. Hans Selye sem var þekktur vísindamaður vegna rannsókna sinna á áhrifum streitu á líkamann komst að því að það eru aðallega innkirtlar líkamans og taugakerfi hans sem svara streitu áreiti. Selye kallar þessi svör aðlögunarhæfni líkamans að aðstæðum. Hann komst síðar einnig að því að það eru nýrnahetturnar sem eru aðallíffæri líkamans sem svarar streitu áreiti. Hann skrifar að nýrnahetturnar séu eina líffæri líkamans sem minnka ekki við álag heldur stækka og þrífast. Þannig er aðlögunarhæfni einstaklingsins við áreiti háð ástandi nýrnahettanna. Við vitum einnig að þegar streitan er stöðug og ekkert er gert til þess að minnka hana, gefast nýrnahetturnar upp að lokum  og líkaminn getur bókstaflega komið með einkenni frá öllum sínum líffærakerfum. Þá er bara spurning hvar hann er veikastur fyrir.

  • 1  Bráð svörun, aðlögun hefur ekki átt sér stað.
  • 2. Einstaklingur hefur aðlagast aðstæðum.
  • 3. Einstaklingur er útbrunnin, áunnin aðlögun hefur tapast.

Hvað er streita í orðsins fyllstu meiningu?Það getur verið maturinn sem við borðum t.d. sykur, vín, tóbak eða áreynsla, t.d.vinna eða æfingar. Það geta verið sýkingar frá veirum, bakteríum eða sveppum. Streitan getur legið í umhverfinu, t.d. í hita- og kuldabreytingum í veðri, hún getur verið í aðstæðum einstaklingsins, t.d. í vinnu, fjölskyldutengslum, peningaáhyggjum og svona mætti lengi telja. Hvernig er hægt að meta það hvort nýrnahetturnar starfa eðlilega eða hvort þær séu þreyttar og    nái ekki að gera það sem þær eiga að gera. Fyrst og fremst fer það eftir einkennum þess sem reynt er að lækna. Þá sjást mörg einkenni sem benda til að nýrnahetturnar vinni ekki eins og þær eiga að gera og eru einnig til staðar hjá einstaklingum með óeðlilegan skjaldkirtil. Eins fylgja einkenni þess sem kallað er í dag krónísk þreyta ,,chronic fatigue syndrome.“ Einkenni geta verið mjög mörg og ekki alltaf þau sömu hjá öllum einstaklingum. Hér kemur listi yfir helstu einkennin þó mörgum hafi verið sleppt

1. Sveppasýkingar eða aðrar krónískar sýkingar.
2. Lágur blóðsykur/aukin mótstaða gegn insúlíni
3. Lágur blóðsykur
4. Mikil fíkn í sykur, saltan mat og allt sem hefur slæm áhrif á sykurbúskap líkamans, t.d. kaffi, súkkulaði, allar tegundir
drykkja og þá má að sjálfsögðu ekki gleyma alkóhóli, þar sem margir halda því fram að áfengissýki sé beinlínis orsökuð  af vanstarfsemi í nýrnahettunum
5. Sjálfsofnæmissjúkdómar
6. Þörf á að leggja sig síðdegis til að lifa kvöldið af.
7. Astmi eða tilhneiging til astma.
8. Þreyta sem magnast mikið eftir andlega eða líkamlega áreynslu.
9. Fæðuofnæmi eða fæðuóþol.
10. Stirðleiki í liðum eða verkir.
11. Þunglyndi
12. Vandamál við að sofna á kvöldin, má skýra með því þegar blóðþrýstingur hækkar þegar lagst er útaf, þá verður
heilinn betur vakandi.
13. Vökvi safnast í líkamann.
14. Fitusöfnun sem erfitt er að losna við.
15. Kynhvöt verður minni, á við bæði karla og konur.
16. Meltingartruflanir af ýmsum toga. Mörg önnur einkenni geta komið til og einnig er alvanalegt að sjá samspil einkenna
frá öðrum hormónakerfum eins og skjaldkirtli kynhormónum og insúlíni. Hægt er að gera mismunandi rannsóknir bæði á blóði og þvagi til þess að reyna að staðfesta sjúkdómsgreininguna.

Það sem þarf að forðast
Hvað er til ráða þegar grunur er um að nýrnahetturnar vinni ekki eðlilega? Fyrst af öllu verður einstaklingurinn að vera tilbúinn að taka málin í sínar eigin hendur því að mörg þessara einkenna er ekki hægt að lækna nema með mikilli samvinnu sjúklings og læknis. Taka verður mataræðið til nákvæmrar athugunar og sleppa eftirfarandi: Öllum sykri, hvítu hveiti, kaffi, gerbrauðum, gosdrykkjum, bjór, áfengi, mjólkurmat og ís. Öllum mat sem grunur er um óþol fyrir, öllum mat sem unninn er úr soja þar sem soja afurðir hafa neikvæð áhrif á skjaldkirtilinn. Borða á réttum tímum fyrir líkamann, t.d. ávexti að morgni, t.d. einn ávöxt á klukkustundar fresti.

Mjög mikilvægt er að leyfa blóðsykrinum aldrei að falla niður og hafa þess vegna stutt á milli máltíða en borða frekar lítið í einu. Ekki borða mikið eftir kl 18 á kvöldin vegna þess að þá er líkamskerfið komið í hvíld. Nýrnahetturnar byrja að vinna kl. 4 á morgnana en eru komnar í hvíld að kveldi. Ganga þarf í það að hreinsa lifrina en best er að gera það með því að nota græna ólífuolíu, sítrónueða appelsínusafa. Þetta á að drekka á kvöldin. Nota fitu sem öll þessi hormón eru búin til úr t.d. kókosolíu 3 til 4 matskeiðar á dag u.þ.b. 40 til 50 grömm. Hún er mjög mettuð fita, einnig er hægt að nota smjör.

Taka inn 2 til 3 matskeiðar af ólífuolíu á dag. Reyna að minnka álag eins mikið og hægt er t.d. með íhugun, bænum, hlusta á góða tónlist, losa um allt sem getur valdið spennu í líkamanum. Nægilegur svefn, fara að sofa 2 til 3 tímum fyrir miðnætti, sofa við opinn glugga þannig að súrefnið aukist í líkamanum, athuga rakastigið í svefnherberginu t.d. hafa vatn á ofninum. Líkamleg áreynsla er mjög góð. Þó getur þurft að byrja mjög hægt t.d. með því að ganga 100 til 200 metra einu sinni til tvisvar á dag. Meiri áreynsla er góð ef maður þolir hana. Allur hávaði er streituvaldandi, forðist hann.

Jurtir sem bæta
Margar jurtir hafa verið ráðlagðar til þess að hjálpa til við endurbyggingu á nýrnahettunum. Fyrst ber að nefna lakkrísrót sem verður þó að vera óunnin. Hún inniheldur kortisón sem líkaminn getur nýtt sér, hana á þá að nota eingöngu fram á miðja dag með stærsta skammtinum á morgnana. Ef of mikið er notað af lakkrísrót kemur bjúgur á líkamann t.d. ökklana. Lakkrísrót getur valdið svefntruflunum ef hún er notuð seinni part dags. Síberíu ginseng 500 mg einu sinni til tvisvar á dag, einnig Kotu cola og engifer. Til er á markaðnum hylki sem inniheldur allar þessar jurtir. Drottningarhunang innihalda öll vítamín og steinefni, amínósýrur og ýmis önnur efni sem hvergi er hægt að finna annarsstaðar. C vítamín er nauðsynlegt. Þó er betra að fá það í líkamann með því að borða t.d. ýmiss ber sem inniheldur mikið C vítamín í staðinn fyrir að taka það inn í töflu formi.

Til eru hómópatalyf sem styrkja nýrnahetturnar og skjaldkirtilinn. Mangan-salt er nauðsynlegt, það fæst með því að borða hálfan bolla af hafragrjónum daglega eða eitt til tvö glös af ananas safa. Allan mat þarf að reyna að hafa eins ómengaðan. Nota má lyf til þess að hjálpa nýrnahettunum en þau virka ekki vel nema þau séu notuð sem hjálparefni við annað sem gert er. Kortisón (Cortison) töflur fást ekki á Íslandi. Hægt er að nota ,,Hydrocortison“ áburð, þar sem eru 10 mg í einu grammi af kremi. Aldrei nota meira af því en 1/2 teskeið á dag þ.e.a.s. tvö og hálft gramm, deila því niður í til dæmis tvo skammta og bera það þunnt á húðina. Til þess að auka á framleiðslu kortións í nýrnahettunum á næturnar á að borða 20 til 25 rauð tartar kirsuber fyrir svefn en þau innihalda melatónin sem framleiðir eitt af forstigum kortisóns eða DHEA sem margir halda fram að sé eitt af þeim efnum sem halda okkur ungum. Einnig er hægt að borða einum til tveim tímum fyrir svefn eina rúgbrauðssneið með kotasælu á.

Athuga þarf skjaldkirtil
Eins og ég hef minnst á áður þá er nauðsynlegt að athuga skjaldkirtilinn líka. Það er best gert með því að mæla líkamshitann að morgni áður en farið er fram úr. Þá á hann að vera alveg við 37 gráður. Ef hitinn er lægri þá vinnur skjaldkirtillinn ekki eðlilega og verður þá að reyna að styrkja hann. Eitt sem gott er að gera er að gá að hvort nóg joð er í líkamanum. Það er hægt að gera með því að kaupa Lugols joð t.d. í Lyf og heilsu á Rauðarárstíg og mála með joðinu 2 krónu stóran blett á hvorn framhandlegg og fylgist með hvenær bletturinn hverfur. Ef hann hverfur á minna en 24 klst vantar joð til þess að skjaldkirtillinn vinni eðlilega. Ef svo er má halda áfram að mála sig eða taka joðið inn í ógerilsneyddu eplaediki einu sinni til tvisvar á dag u.þ.b. 6 dropa í hvort skipti. Einnig er hægt að nota íslenskar þaratöflur og cayenne pipar hækkar einnig hitann í líkamanum.

Allt svona sem maður gerir sjálfur getur tekið langan tíma til að ná árangri. En batinn kemur hægt og bítandi og við vitum að árangur næst. Okkur kemur til með að líða betur og heilsan skánar til mikilla muna og mörg einkenni hverfa smátt og smátt. Ekki er hægt að taka svona ráðleggingar alveg hráar upp því að við eru öll einstök og þurfum þess vegna eitthvað í viðbót sem ekki er minnst á hérna, t.d. súrefnismeðferð, önnur bætiefni og svo framvegis.

En munum að trúin flytur fjöll og það á sér einnig stað í okkar eigin lífi ef við þorum að takast á við það með breyttu viðhorfi.

Höfundur Hallgrímur Magnússon læknir , greinin skrifuð 2003.  Hallgrímur lést árið 2015.Flokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: