Lækningajurtirnar heilluðu mig

Rætt við Örn Svavarsson í Heilsuhúsinu

Árið 1979 var viðburðaríkt í íslenskri heilbrigðissögu, þá var Heilsuhúsið stofnað og Heilsuhringurinn lauk fyrsta starfsári sínu. Báðir þessir stólpar í þjóðlífinu hafa hvor um sig dyggilega stuðlað að bættri heilsu landsmanna. Í tilefni tuttugu og fimm ára afmælis Heilsuhringsins fannst okkur tilheyra að ræða við Örn og inna hann eftir starfsemi Heilsuhússins og ástæðu þess að hann þá ungur maðurinn hóf innflutning á heilsuvörum. Við gefum Erni orðið: Ég er alin upp við hugmyndafræði náttúrulækninga því að móðir mín sem er frá Þýskalandi gaf okkur krökkunum alltaf beiska jurtadropa þegar eitthvað amaði að okkur, sama hvort það var magakveisa eða kverkaskítur. Þeir hétu ,,Klosterfrau Melissengeist,“ eitt af mörgum góðum efnum sem frómt fólk fortíðarinnar þróaði innan klausturveggja. Eins ræktaði hún margs konar grænmeti í stórum matjurtagarði í Landsveitinni þar sem ég ólst upp. Í uppvextinum las ég líka ýmis heilsurit sem hún átti. Mér fannst þessi fræða heillandi, að nota jurtirnar sem vaxa á mörkinni allt í kringum okkur, til að lina þrautir og lækna sjúka.

Mamma kynntist síðar svissneska fyrirtækinu Bioforce, sem stofnað var af miklum brautryðjanda náttúrulækninga og baráttumanni fyrir lífrænni ræktun dr. A. Vogel, og pantaði ásamt nokkrum kunningjum sínum náttúrumeðul og bætiefni þaðan. Einn maður úr þessum hópi ákvað að fara í innflutning á þessum vörum, tók lán, pantaði stærðar sendingu og ætlaði að selja hér á landi en var svo enginn bógur til þess að fylgja því eftir og bauð mér að taka við sendingunni því hann gat ekki borgað lánið. Það varð úr að ég keypti vöruna af honum og byrjaði að höndla með heilsuvöru í einu herbergi heima hjá mér árið 1973. Fljótlega fór ég að selja í verslanir og var þá ein verslun sem sérstaklega gerði heilsuvörum hátt undir höfði. Það var SS Austurveri þegar Jóhannes sem nú er þekktur sem Jóhannes í Bónus var þar verslunarstjóri. Hann hefur alltaf verið framsýnn maður. Ég stundaði þennan innflutning í sex ár og sífellt bættust við fleiri vöruflokkar og fleiri fyrirtæki erlendis sem ég skipti við. Fyrst í stað var varan aðallega frá Bioforce en forsvarsmaður þess var dr. Vogel sem var eins og fyrr er getið þekktur vísindamaður og mikill talsmaður lífrænnar ræktunar er einnig barðist hart gegn notkun DDT og annarra eiturefna í landbúnaði.

Dr Vogel var brautryðjandi í framleiðslu ýmissa jurtaveiga t.d. fann hann jurtina ,,echinacea“ eða sólhatt meðal Indjána. Hann lærði hvernig þeir notuðu þessa jurt og hóf síðan ræktun og að framleiða náttúrumeðal úr sólhatti sem reyndist svo virkt og varð svo vinsælt að nánast hvert fyrirtæki sem framleiðir bætiefni er með sólhatt í sínu vöruvali í dag. Dr. Vogel kom mér í samband við fyrirtæki sem heitir Biotta og er  brautryðjandi í framleiðslu grænmetis- og ávaxtasafa úr lífrænt ræktaðuðu hráefni og bætti ég þeirra vöru á vörulistann hjá mér. Í framhaldi þessa snéri ég mér einnig að innflutningi vítamína frá sænska fyrirtækinu Naturprodukter sem bauð mikið úrval alls konar vítamína. Þá rak ég mig á það að lyfjaeftirlitið sem hefur eftirlit með innflutningi bætiefna hér á landi hafði allt aðrar reglur varðandi innflutning bætiefna en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Það synjaði mér hvað eftir annað um innflutningsheimildir og bar þá ýmsu við eins og því að of mikið væri af einhverju efninu í vörunni eða að einhver jurt væri í henni sem ekki mætti flytja inn eða að eitthvað stæði utan á glasinu sem ekki mætti standa þar.

Flest B vítamín t.d. sem mér buðust til innflutnings voru sterkari en leyft var hér. Sama er að segja um fjölvítamínin, stundum var of mikið af einu efni í vörunni sem dugði til þess að bannað var að flytja hana inn. Oft var það B 12 vítamín sem steytti á, enda var þá miðað við aðeins 10 míkrógrömm í hverri töflu. Hvernig sem á því stendur hefur sú viðmiðun breyst með árunum og er nú leyft að flytja inn vítamín með 100 míkrógrömmum af B 12. Þannig lítur út fyrir að lyfjaeftirlitið telji að þörf Íslendinga fyrir B 12 sé meiri nú en var fyrir 5 árum. Þessar þröngu skorður sem ríkja hér um innflutning vítamína urðu til þess að í kringum árið 1980 sá ég ekki annan kost færan en að fara út í það að láta framleiða vítamín og steinefni erlendis sem innihéldu aðeins það magn sem reglur Lyfjaeftirlitsins sögðu til um. Þannig varð til okkar eigin vörulína sem framleidd er að stærstum hluta hjá stórum bætiefnaframleiðanda í Bandaríkjunum, en að hluta til einnig í Englandi.

Varðandi innflutning á jurtum sést að Lyfjastofnun fer eftir lista frá norsku heilbrigðisyfirvöldum. Það sem bannað er að  selja í Noregi er bannað hér þó það sé leyft á hinum Norðurlöndunum. Reglur hér eru þó sínu verri því að hér þarf að sækja um innflutningsheimild og söluheimild fyrir hverri vörutegund og frá og með 1. september 2003 þarf að borga 6 þúsund krónur í umsóknargjald fyrir hverja vörutegund sem kemur til með að hækka þessa vöru í verði. Við búum hér á landi við töluvert stífara og þyngra eftirlit en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Það hefur alloft komið fyrir hér þegar ég hef sótt um innflutning á vöru að lyfjastofnun hefur dregið í allt að tvö ár að  svara mér og þá með skelfilegum eftirgangsmunum. Þó að strangt sé í Noregi eru þó reglurnar þannig að komi ekki athugasemd frá eftirlitinu innan þriggja mánaða þá má sá sem sækir um flytja vöruna inn.

Aukin eftirspurn
Innflutningurinn jókst og tók breytingum sem varð til þess að ég opnaði Heilsuhúsið á Skólavörðustíg árið 1979. Reksturinn gekk vel og varð til þess að önnur verslun var opnuð í Kringlunni árið 1987 og síðan þriðja verslunin í Smáranum nokkrum árum seinna. Við höfum líka aukið þjónustuna því að undanfarin ár hefur verið boðið upp á ráðgjöf fyrir viðskiptavini sem hefur mælst vel fyrir. Um þá þjónustu sér fólk með sérþekkingu á þessu sviði. Mjög algengt er að fólk leiti ráða gegn magakvillum alls konar, vöðvabólgum og gigt. Þegar umgangspestir ganga er leitað að uppbyggjandi efnum til að fyrirbyggja þær og flýta fyrir bata. Nú orðið veit fólk að hægt er að hafa áhrif á sjúkdóma með mataræði og bætiefnum og margir eru orðnir meðvitaðir um hvað þeir láta ofan í sig. Ég tel að í framtíðinni muni sífellt fleiri leggja það á sig að breyta lífsstíl sínum á betri veg, velja sér heilnæma næringu og stunda góða hreyfingu.

Gefur úr fræðslurit
Árið 1996 hófum við útgáfu Heilsupóstsins sem kemur út mánaðarlega. Er hann sendur ókeypis öllum meðlimum í klúbbi sem Heilsuhúsið stendur að og kallast „Íbúar Heilsuhússins“. Í dag eru meðlimir um 6000 manns á öllu landinu. Í Heilsupóstinum er fróðleikur um vísindarannsóknir með bætiefnum og jurtum, náttúruleg ráð við sjúkdómum, uppskriftir að hollum en fyrst og fremst ljúffengum réttum, fræðslugreinar um einstakar matvörutegundir, nýjungar á sviði hollustu og heilsuræktar og fleira í þessum dúr. Nefna má greinar um t.d. ráð við kvefi og flensu, gigt, vöðvabólgu, síþreytu, mjólkuróþoli, eyrnabólgu hjá börnum, fyrirtíðaspennu, þrautum tengdum breytingarskeiðinu og ótal öðrum sjúkdómum. Fyrir meðlimi klúbbsins erum við einnig með sérstök afsláttartilboð í hverjum mánuði og einn afsláttardag í mánuði, þar sem félögum er veittur 12% afsláttur af öllum vörum Heilsuhússins. Frá þessu er þá greint í Heilsupóstinum líka. Heilsuhringurinn þakkar Erni fyrir góðvilja í garð félagsins m.a. með sölu tímaritsins í öllum   verslunum sínum.

I.S.færði í letur.



Flokkar:Greinar og viðtöl

%d bloggers like this: