Enda þótt aðstæður á Íslandi í heilbrigðismálum séu ekki alveg þær sömu og á meginlandinu þá er um svipaða þróun að ræða í þessum nágrannalöndum. Þar með líta þeir sem kosnir eru sem ábyrgðarmenn þjóðmála, gjarnan til nágrannalandanna, ef það hentar þeim og þeirra flokkssjónarmiðum. Evrópubandalagið, það mikla skriffinnskubákn, hefur á undanförnum þrem árum stigið nokkur óheillavænleg skref í átt að minnkandi frelsi almennings varðandi heilsubætur, sem eru um leið allar til hagsmuna fyrir lyfja- og „heilbrigðisiðnaðinn“, eins og ég hef áður fjallað um á þessu blaðsíðum. Á sama tíma hafa einnig verið miklir umbrotatímar í Þyskalandi á þessu sviði. Til skamms tíma var veldi sjúkrasamlaganna hér geysimikið, en nú eru þau öll í ótrúlegum skuldum.
Ástæðan er eins og ávallt áður: lyfjakostnaður vex stöðugt upp fyrir alla skynsemi. Tengsl stjórnmálakerfisins við áðurnefndan iðnað er ótrúlega náinn, rétt eins og risafyrirtækjanna við Evrópubáknið og ein kröftugustu rök nú fyrir meiri byrðum á almenning hér, eru sú að þýsku lyfjafyrirtækin skaffi svo og svo mörg atvinnutækifæri. Og vandi atvinnulífsins, sem vissulega er illa haldinn af minnkandi atvinnu, megi því ekki versna enn með því að klippa á tekjur lyfjafyrirtækjanna. Að auki við það, skal nú minnka óbeinar félagslegar greiðslur allra þýskra fyrirtækja til starfsfólks síns, þ.e. kjör sem unnust í áratugalangri og harðri kjarabaráttu áður fyrr, til þess að reyna að efla rekstur fyrirtækjanna og þar með vonandi auka framboð á atvinnu. Sem sagt, almenningur á nú að taka inn sem allra mest af lyfjum og meira en áður, til þess að bjarga þjóðarhagsmunum. Og séu þeir ekki nægjanlega veikir, þá skal nú búa til alls konar nýja sjúkdóma, eins og „Der Spiegel“ fjallaði svo ýtarlega um fyrir skömmu.
En hugmyndaríkir læknar og sálfræðingar hafa nú lagt sitt lóð á vogarskálina í þessu skyni. Þetta minnir dálítið á skurðgröft bænda á Íslandi á mínum ungdómsárum: Þegar kerfið er komið af stað, þá skiptir engu máli hver var grunnurinn á bak við það, eða hvers árangurs menn vænta, heldur fer það eftir pólitískum þrýstihópum, þ.e. hagsmunum þeirra sem hagnast á kerfinu, hversu lengi kerfið er við lýði. Sama á við um greiðslu sjúkrasamlaga á lyfjakostnaði almennings: menn ánetjast kerfinu sem þeir alast upp með og allur atvinnurekstur sem beinlínis er gerður út á ríkispeninga, hvort sem það er hermang eða annað, verður að ófreskju sem étur upp hagsmuni heildarinnar. Var einhver að tala um einkavæðingu?
Eða á slík heimspeki aðeins að virka á annan veginn? Það er langt því frá að hér sé verið að hugsa um heilsu og heill almennings. Og það skiptir áhangendur þessa kerfis engu máli, hvort fólk er yfirleitt heilbrigt eða sjúkt. Bakgrunnurinn er þvert á móti sú óheillaþróun síðustu 100 ára sem gerði heilsu almennings að fjárþúfu. Þar sem óprúttnir kapítalistar gamla skólans, á borð við John Rockefeller sr., bundust samtökum við gróðafíkna lækna þess tíma, sem þar með gengu á bak Hippókratesareiðsins sem þeir þó sóru. En nú til baka til Þýskalands. Reyndar er það svo í Þýskalandi að mun fleira er unnt að láta endurgreiða sér af sjúkrasamlögum en á Íslandi, t.d. eins og hluta tannviðgerða. –
En þetta er sem sé bakgrunnur þess sem nú er efst á baugi hér í fréttunum: Í gær var kosið um töluverðar breytingar á heilbrigðismálum á Bundesþinginu hér í Berlín. Stjórn Schröders sá sitt óvænna um gang mála, enda með lítinn þingmeirihluta og þess vegna var samið fyrirfram um atkvæðagreiðsluna með samkomulagi við stjórnarandstöðuna. Lagabreytingarnar voru samþykktar af miklum meirihluta þingmanna, en sjö stjórnarþingmenn greiddu atkvæði gegn þeim vegna eigin samvisku. Þeirra málstaður var sá að allar lagabreytingarnar væru á kostnað almennings en ekkert á kostnað lyfjarisanna og læknastéttanna.
Engum þessara aðila datt í hug að hætta eða láta bændur grafa skurði og þess vegna munu þessi nýju lög virka svipað og að pissa í skóinn sinn. Eftir fimm, sex ár verður að breyta öðru eins og enn ein stjórnin fellur. Það er reyndar ekkert í þessum nýju lagabreytingum sem væri nýtt fyrir Íslendinga, því að við höfum ekki beinlínis búið við ofdekur í heilbrigðismálum. Og það er vel. En ég get ekki annað en brosað þegar ég heyri Þjóðverja tala um það hversu heilaþvegnir Austur- Þjóðverjar séu, sem er reyndar hárrétt og eðlilegt vegna aðstæðnanna sem voru þeirra veruleiki, en sjálfir geta þeir ekki hugsa sér að sleppa hendinni af neinni sposlu, sem hugsanlega er unnt að kreista útúr ríkinu. Það á sérstaklega við vegna heilbrigðiskerfisins.Það sem hins vegar er mun betra hér á meginlandinu vegna heilbrigðisástundunar er stærð svæðisins og að það er ekki komið undir örfáum hagsmunaaðilum hvað unnt er að kaupa hér og hvað má yfirleitt flytja milli landa.
Ég er auðvitað að tala hér um íslenska lyfjaeftirlitið, sem er hrein skömm fyrir lýðveldishugsun þeirra sem stofnuðu þjóðríkið Ísland fyrir um 59 árum. Ég hef kynnst austantjaldshugsunarhætti hér ytra af eigin raun. Því margur maðurinn lifir enn í þeim raunveruleika, þó að allt annað ástand bjóðist umhverfis þann sama. Og það er einmitt samskonar hagsmunaeftirlit sem er í gangi á Íslandi í formi lyfjaeftirlitsins. Áður fyrr var haft vit fyrir fólki vegna trúarbragða, nú er það vegna vísinda. Þversagnirnar eru þó augljósar, því að sé það svona hættulegt að taka inn lyf eða annað, þá er það mun hættulegar að aka bíl. Dettur einhverjum í hug að stofnsetja á vegum ríkisins, bifreiða- og reiðhjólaeftirlit í því skyni til að hindra innflutning á þeim? Eða á að banna eldspýtur vegna þess að hús geta brunnið?
Ég vil með þessum örfáum orðum þakka Heilsuhringsfólkinu fyrir ánægjulegt samstarf á síðasta áratug. Lifið heil og heilbrigð.
Höfundur: Einar Þorsteinn Ásgeirsson í Berlín skrifrað árið 2003. Einar Þorsteinn lést í apríl 2015.
Flokkar:Eitrun og afeitrun