Er rafmengun hugarburður eða staðreynd?

Þegar skilgreina á gæði rafmagns er að mörgu að hyggja. Margs konar truflanir geta komist inn á almennt veitukerfi og borist milli húsa sem tengd eru sömu veitu. Einnig geta truflanir frá eigin búnaði valdið vandræðum í rekstri rafkerfis. Truflanirnar geta verið stakir púlsar sem koma eins og lítil spennuskot frá veitunni eða öðrum búnaði. Þær geta líka verið varanlegar sveiflur á annarri tíðni en sjálf veitutíðni, sem er 50 rið hér á landi, og eru þá mældar í hlutfallstölum svokölluðu THD gildi þar sem THD stendur fyrir „Total DistortionHarmony eða yfirtíðnibjögun á íslensku.“ Í ýmsum löndum hafa verið settir staðlar um yfirtíðnibjögun, þ.e. hvað talist geti innan viðunandi marka.

Mæling yfirtíðnibjögunar felst í að reikna út hversu hátt hlutfall þeirrar orku sem fólgin er í annarri tíðni en veitutíðninni sjálfri, er af þeirri heildarorku sem mælist frá viðkomandi veitu. Þannig fáum við  viðmiðunargildi varðandi rafmengun. Vandamál vegna rafmengunar fyrirfinnast víða hér á landi en þau eru yfirleitt ekki af völdum 50 riðanna sem veiturnar láta í té, heldur af völdum tíðni sem er utan 50 riðanna en einnig vegna ófullnægjandi spennujöfnunaar og lélegra jarðskauta. Þetta hef ég verið að benda á í meira en 20 ár og því hlýnaði mér um hjartaræturnar þegar í póstkassann á öllum sveitaheimilum datt bæklingur frá Löggildingastofunni um ástand rafmagns á sveitabæjum.

Þar er farið yfir helstu atriði rafkerfa og í samantektinni kemur berlega í ljós að helstu vandamálin eru léleg jarðskaut og ófullnægjandi spennujöfnun. Það er víða pottur brotinn. Mér er minnisstætt þegar ég var beðinn að skoða barnaskóla út frá rafmengun. Skólastjórinn kvartaði og sagði að allir væru á nálum þar inni og liði ekki vel og að kennurunum liði jafnvel verr en börnunum. Ég hugsa til þess með hryllingi að þegar ég brá upp mælinum til að skoða hvað væri að og sá að truflunin á rafkerfinu var of mikil fyrir mælinn, sem þó getur mælt allt að 500% afl utan 50 riðanna. Mörg heimili eru líka illa sett og eitt sinn hringdi í mig kona sem sagði: ,,Ég flutti úr greni sem hvorki hélt vatni né vindum en þar var enginn veikur.

Svo fluttum við í nýja og fína íbúð og þá bregður svo við að allir verða meira eða minna veikir. Átján ára dóttir mín hefur ekki komist í vinnu í heilt ár svo spurning mín er þessi: Á ég að flytja aftur í grenið?“ Reynsla mín er sú að ef yfirtíðnibjögun (THD) er undir 25% þá líði fólki og dýrum betur þannig að 500% THD gildi og þar yfir, eins og getið var um hér að ofan, er langt út úr korti. Því miður er þetta ekki óalgengt í skólum og öðrum opinberum byggingum og einnig eru mörg heimili illa sett. Ég fæ ófáar upphringingar frá fólki varðandi þetta og því miður einkum úr nýjum byggingum.

Ég tel að 50 riða straumur þurfi ekki að vera  hættulegur ef hann er ekki truflaður af einhverju öðru en eins og þegar hefur komið fram getur með 50 riðunum verið ýmislegt sem ég kalla óhreint rafmagn, þ.e. önnur tíðni sem hlaupið getur á mörg hundruð prósentum. Þá skiptir miklu frágangur rafmagns og aðstæður. Í gegnum tíðina hef ég tekið eftir því að þetta sem ég kalla óhreint rafmagn blossar upp við viss skilyrði í náttúrunni og umhverfinu og aukast þá vandamál í svínabúum, kjúklingabúum, fiskeldi og fjósum nánast á sama tíma. Þegar ég fór að athuga þetta og fara yfir skýrslur sá ég að sumar vikurnar fékk ég margar upphringingar með svipuðum um- kvörtunum, kúrfurnar voru eins og munstur, stundum mikið og stundum lítið.

Ég leitaði að orsökinni og komst að því að meiri vandræði voru þegar frost var í jörðu. Þá vaknaði sú spurning hvort frost hefði áhrif á jarðskaut? Við tókum á það ráð að dýpka jarðskautin og gera þau öflugri og með því lagaðist ástandið og sjúkdómar í dýrunum héldust niðri. Mér var falið að hanna frágang á rafmagni í nýbyggingu Marels sem tekin var formlega í notkun í september í fyrra. Þar setti ég mér það markmið að fara niður fyrir sænsku og bandarísku viðmiðunarstaðlana um THD gildi en þeir eru 10%. Samstarfsmenn mínir sögðu það ekki hægt vegna þess hve rafmengun í bæjarkerfinu væri mikil.

Nýlega afhenti ég Marel niðurstöður frá óháðri verkfræðistofu sem mældi bygginguna fyrir mig og komust þeir að því að THD gildið þar væri komið niður í 8,3 %. Við yfirfórum líka allan ljósabúnað og við lokamælingu sýndi búnaðurinn aðeins 4,3 % THD gildi. Marel menn voru að vonum stoltir af þessum árangri. Ég hef líka verið að vinna fyrir erlend ljósafyrirtæki og þar hefur margt komið skemmtilega á óvart. Með því að gera ljósið vistvænna lækkar mjög önnur tíðni sem og segulsvið og rafsvið. Margir samstarfsmenn mínir, sumir hámenntaðir, hafa talið að mengunin væri svo mikil hvort eð er að það skipti ekki máli þó THD gildi næði 200 %.

Þá hef ég spurt til hvers aðrar þjóðir væru að setja staðla um rafmengun af þessu tagi. Svarið hefur gjarnan verið: ,,Rafmengun er svo mikil hér á landi að það þýðir ekkert að vera eyða tíma í þetta.“ En ég spyr því vilja Svíar lækka THD staðalinn niður í 8% í öllum opinberum byggingum og sérstaklega í skólum ef það skiptir ekki máli. Bandaríski herinn miðar við 5% THD gildi en við eigum að sætta okkur við 500% THD og þaðan af meira – eða hvað? Mín niðurstaða, byggð á reynslu síðustu 25 ára er sú að rafmengun sé langt í frá að vera hugarburður. Hún er gallhörð staðreynd og fyrirfinnst í allt of miklum mæli, allt of víða.

Frekari upplýsingar um rafmengun og störf Brynjólfs Snorrasonar þar að lútandi má nálgast á: http://www.orkulausnir.

I.S. bjó til prentunar.



Flokkar:Rafmagn, Umhverfið

%d bloggers like this: