Hvað er „náttúrlegt prógesteron“?

Ævar Jóhannesson flutti erinfi  á aðalfundi Heilsuhringsins 2002

Vandamál við tíðahvörf
Tíðahvörf er fyrirbæri sem allar konur sem ná vissum aldri verða að ganga í gegnum. Þau eru ekki sjúkdómur sem nauðsynlegt er að lækna eða koma í veg fyrir, heldur algerlega náttúrlegt ferli, sem ætti raunverulega ekki að valda konum neinum umtalsverðum erfiðleikum. Svo er þó ekki í reyndinni og margar konur verða að þola fjölþætt óþægindi og þjáningar, sem oft vara í mörg ár og jafnvel áratugi. Því fór læknisfræðin að reyna að gera eitthvað til að auðvelda konum þetta, stundum erfiða tímabil. Það eru einkum tveir hormónar sem stjórna tíðahring kvenna, östrógen og prógesteron. Östrógenmyndunin, sem að mestu fer fram í eggjastokkunum, er í hámarki fyrri hluta tíðahringsins en prógesteron myndast lítið á þeim tíma.

Þegar egglos verður, sem oftast er nálægt 12.-14. degi eftir að tíðir hefjast, vex prógesteronmyndunin í eggjastokkunum mjög og er mikil síðari hluta tíðahringsins, en minnkar aftur rétt áður en næstu læðingar hefjast. Við tíðahvörf fer að myndast minna af þessum hormónum, stundum ekki nægilega mikið til að egglos geti orðið. Þá myndast heldur ekki aukið magn af prógesteron sem afleiðing af egglosi og aðal kvenhormóninn sem þá myndast er östrógen. Þetta er það sem dr. John Lee (sem síðar verður rætt um) kallar ,,östrógen yfirráð“ (estrogen dominance). Síðar, þegar konan eldist meira, stöðvast egglos algerlega og tíðablæðingar hætta endanlega. Þá hættir að mestu að myndast prógesteron en östrógen heldur áfram að myndast, þó að í minna mæli sé en hjá ungum konum. Þær hormónabreytingar sem verða við tíðahvörf eru því ekki fyrst og fremst þær að skortur sé á östrógen hormónum, heldur miklu frekar skortur á prógesteroni.

Þegar byrjað var að gefa konum hormóna til að auðvelda þeim breytingaskeiðið var álitið að þær skorti fyrst og fremst östrógen, en lítið var þá vitað um prógesterón og verkanir þess. Árangurinn var heldur ekki eins góður og vænst var, en það sem allra verst var þó, að sannað þótti að langvarandi notkun á östrógen yki verulega líkur á sumum krabbameinum, t.d. í brjóstum og móðurlífi. Þá var farið að blanda gervihormónum sem líktust prógesteron saman við östrógen-hormóna, sem konur á breytingaskeiðinu fengu. Sennilega hefur þetta verið til bóta en þó ekki að öllu leyti. Vegna þess að gerviprógestron, sem oft er nefnt ,,prógestín“, hefur dálítið aðra efnafræðilega uppbyggingu en náttúrlegt prógesteron.

Í sumum tilfellum hefur það óheppilegar verkanir, sem náttúrlegt prógesteron hefur ekki. Því eru jafnvel „bestu“ hormónalyfin sem nú eru á markaðnum með aukaverkanir, sem náttúrlegir hormónar hafa ekki. Margir læknar vita ekki að ,,prógestin“ eða „provera“ sem eru gervihormónar, eru ekki nákvæmlega sömu hormónarnir og ,,prógesteron“, sem er náttúrlegi kvenhormóninn. Læknir sem ég þekki reyndi fyrir nokkrum árum að fá hér ,,náttúrlegt prógesteron“ fyrir dóttur sína, sem þurfti á því að halda. Honum var tjáð að náttúrlegt prógesteron fengist ekki á Íslandi og væri heldur ekki framleitt hjá lyfjaframleiðendum lengur, heldur eingöngu gervihormónar. Hann varð að vonum mjög undrandi en neyddist þó til að láta dóttur sína fá ,,progestin“, þrátt fyrir að það hefur hliðarverkanir sem prógesteron hefur ekki.

Sennilega dregur gervi-prógesteron (progestin) eitthvað úr líkum á að östrógenmeðferð valdi krabbameini en þó ekki meira en svo að yfirleitt láta læknar konur hætta allri hormónameðferð ef þær fá krabbamein í brjóst eða móðurlíf. Nýjustu upplýsingar frá Bandaríkjunum benda þó til að hormónablanda sú sem bandarískir læknar hafa gefið konum auki líkur á krabbameini svo mikið að mælt er með að hætta tafarlaust allri hormónameðferð fyrir konur á breytingaskeiðinu. Mikið hefur verið skrifað um að hormónameðferð dragi úr líkum á að konur sem nota östrógen fái beingisnun og kransæðasjúkdóma. Þetta hefur verið mjög umdeilt og sumir sem rætt hafa um þetta nú nýlega, telja raunar að þetta sé að minnsta kosti ósannað og að líkindum rangt. Það nýjasta sem ég hef heyrt um þetta var í Townsend Letter for Doctors and Patients í febrúarmars blaðinu 2002.

Þar segir Alan R. Gaby, læknir, frá 75 konum sem notuðu það afbrigði östrógens sem nefnt er ,,östriol“. Eftir 50 vikur hafði beinþéttni hjá þeim aukist að meðaltali um 1,79%. Þetta voru allt konur sem komnar voru yfir breytingaskeiðið, en þá fer beinþéttni yfirleitt að minnka nokkuð hratt. Því virðist að östriol sé gagnlegt til að hindra beingisnun og jafnvel snúa henni við. Einnig bendir ýmislegt til að östriol sé eina tegund östógenhormóna í mannslíkamanum sem frekar dregur úr líkum á krabbameini heldur en eykur, eins og talið er að önnur afbrigði östrógenhormóna geri, sérstaklega östradiol. Gallinn er bara sá, að hvergi er sennilega hægt að fá östriol á þessari stundu, enda þótt kannanir bendi til að það sé í flestum tilfellum jafngott og aðrir östrógenhormónar til að nota við hormónameðferð, en án þeirra slæmu hliðarverkana sem t.d. östrógen úr hryssum (premarin) hefur.

Náttúrlegt prógesteron
Bandaríski læknirinn John R. Lee hefur skrifað allstóra bók um breytingarskeið kvenna með nafninu ,,Það sem læknirinn þinn segir þér ekki um tíðahvörf“. Þessi bók er hafsjór af fróðleik um vandamál kvenna, auk þess að vera næstum því alfræðibók um flest það sem máli skiptir um breytingaskeiðið og læknisfræðilega vitneskju í tengslum við breytingaskeiðið og vandamál þess. Dr. Lee er þekktur fyrirlesari í heimalandi sínu en sennilega er hann þó einna þekktastur fyrir þessa bók og fjölda fyrirlestra, sem hann hefur haldið um tíðahvörf og hvernig hann telur að leysa megi flest þau vandamál sem hrjá konur á þessum aldri.

Dr. Lee fékk vitneskju um náttúrlegt prógesteron fyrir meira en tveim áratugum og byrjaði að prófa það á fáeinum sjúklinga sinna. Þegar hann hafði notað það í nokkurn tíma kom í ljós að beinþéttni í sumum kvennanna hafði aukist. Þetta var fyrirbæri sem fáir læknar höfðu áður orðið vitni að, því að í langflestum tilfellum minnkar beinþéttnin með aldri eða í besta tilfelli stendur í stað. Eftir því sem fleiri konur notuðu náttúrlega prógesteronið kom þetta skýrar og skýrar í ljós, svo að hann sá að þetta gat ekki verið tilviljum. Samtímis fóru konurnar að segja honum frá því að fjölþætt vanlíðunareinkenni, sem fylgdu breytingaskeiðinu höfðu annaðhvort horfið eða mjög hafði dregið úr þeim. Í stöku tilfellum hvarf þó hitakóf ekki alveg en í þeim tilfellum var nóg að bæta örlitlu af östrógeni við prógesteronið sem þær notuðu.

Margar töluðu um að kynlífið, sem oft var orðið mjög bágborið því að þær höfðu glatað öllum áhuga á því, hefði lagast og orðið líkt og áður, meðan þær voru yngri. Þær tóku þó fram að ekki mætti taka þetta þannig að þær hefðu orðið neinir kynlífsfíklar. Dr. Lee mælir með að konur noti prógesteronið sem krem, sem borið er á húðina. Með því móti nýtist það mörgum sinnum betur, því að mikill hluti þess sem tekið er gegnum meltingarfærin eyðileggst og kemur ekki að gagni. Sterahormónar, t.d. prógesteron, síast auðveldlega gegnum húðina og allt að 90% þess koma að fullum notum en aðeins 5-10% eða minna, sé það tekið inn.

Í Bandaríkjunum eru framleiddar fjölmargar tegundir af kremi sem inniheldur prógesteron. Það er selt sem snyrtivara og búið til úr efnum í jurt sem heitir ,,Mexican wild yam“ (Mexikanskt villijam. Dioscorea villosa). Í henni er heilmikið af efnum sem auðvelt er að breyta í prógesteron, enda er hún notuð við að framleiða sterahormóna. Síðar hefur fundist fjöldi annarra jurta sem innihalda diosgenin, sem er efnið í „villijaminu“ sem prógesteronið er unnið úr, þ.á.m. sojabaunir. Dr. Lee hefur gefið út lista yfir þær tegundir af kremi sem hann mælir með en vel má vera að þær séu fleiri. Þó að prógesteron sé oftast kallað „kvenhormón“ eru karlmenn einnig með prógesteron, en í minna mæli en konur.

Dr. Lee segir að prógesteron vinni gegn eða hindri sumar tegundir krabbameins, t.d. í brjóstum, móðurlífi og blöðruhálskirtli hjá körlum. Hann segist jafnvel hafa læknað blöðruhálskirtilskrabbamein á byrjunarstigi með prógesteron kremi einu sér. Hvað sem því líður er það vitað, að konur sem eiga mörg börn fá miklu síður brjóstakrabbamein en aðrar konur, sem engin börn eiga. Einnig er vitað að mikið af prógesteroni, sem berst út í blóðið, myndast í fylgjunni, þegar kona gengur með barn. Er hugsanlegt að þetta mikla magn af prógesteroni, sem þungaðar konur eru með í blóðinu, nægi til að eyða forstigseinkennum krabbameins, t.d. í brjóstum og þannig hindra að síðar verði úr þeim krabbamein?

Ekki hefur ennþá fengist leyfi til að flytja prógesteronkrem inn í landið en þeir sem eru á ferð í Bandaríkjunum geta vafalaust keypt þar krem á ótal mörgum stöðum. Ég veit um Íslendinga sem hafa notað það með góðum árangri, t.d. konu sem reynt hafði allt sem íslenska heilbrigðiskerfið hafði upp á að bjóða við vandamálum breytingaskeiðsins. Hún sagðist ekki hafa séð nein úrræði og var á barmi örvæntingar. Þá náði hún í eina krukku af prógesteronkremi og vandamál hennar leystust  nánast samdægurs. Síðan eru liðin nokkur ár og ég veit ekki betur en allt sé ennþá í góðu horfi hjá henni og hafi verið síðan hún fékk kremið.

Heimildir að þessari grein eru einkum fengnar úr bók dr. John R. Lee, What your Doctor may not tell you about Menopause, og nokkrum smágreinum í Townsend Letter for Doctors and Patients, febrúar-mars 2002.

Höfundur : Ævar Jóhannesson



Flokkar:Greinar, Skrif Ævars Jóhannessonar

%d bloggers like this: