Ætiþistill – áhugavert jurtalyf og lostætt grænmeti

Ætiþistill (Cynara scolymus, Jerusalem artichoke) er jurt af körfublómaættinni, skyld öðrum þistiljurtum og ekki óskyld t.d. sólblómum. Þetta er fjölær jurt, sem getur orðið hátt í tveir metrar í þvermál og meira en metri á hæð við góð vaxtarskilyrði. Það sem venjulega er haft til matar er þó aðeins blómið, sem er blátt. Ætiþistill er upprunninn í Norður-Afríku og þaðan barst hann til Grikklands og Rómaveldis, þar sem hann hlaut vinsældir, m.a. sem „lystauki“, sem nefndist „Cynar“. Ætiþistill hefur lengi verið talinn sérlega hollur og nútíma rannsóknir staðfesta það sem margir héldu í þeim efnum. Hér á eftir verður ofurlítið sagt frá því helsta sem vísindamenn telja sig hafa komist að. Þó að það sé blómið, sem fyrst og fremst er notað til matar er það þó aðallega extrakt úr laufunum sem notaður er til lækninga.

Ætiþistil-extrakt, minnkar kólesterol í blóði
Nú er talið sannað að extrakt úr ætiþistillaufum minnkar á áhrifaríkan hátt of mikið kólesterol í blóði. Þetta gerist án neinna hliðar- eða aukaverkana sem mörg kólesterol-lækkandi lyf hafa. Vísindamenn telja að extraktinn auki flæði gallvökva frá lifrinni um leið og meira af kólesteroli er brotið niður til að mynda gallsölt sem uppleyst eru í gallinu og berast niður í þarmana. Þá er mikilvægt að neyta trefjaríkrar fæðu, sem drekkur í sig gallsöltin, ásamt ýmsu fleiru, og ber þau burtu með hægðunum.

Þessi leið til að minnka kólesterol í blóði mundi oft nægja ein út af fyrir sig, sérstaklega ef einnig væri notað trefjaríkt fæði samhliða. Þetta er þó ekki það eina sem álitið er að ætiþistilextraktinn geri. Einnig bendir margt til þess að hann beinlínis dragi úr myndun kólesterols í lifrinni, sennilega á líkan hátt og lyf af „statin“-gerð t.d. „lovastatin“ eða „simvastatin“, sem mikið eru notuð til að draga úr miklu kólesteroli í blóði, hjá fólki með of mikið kólesterol. Þetta gerist með þeim hætti að hindra ensím sem nefnist HMG-CoA-reductasi, eins og ég hef reyndar oft áður sagt frá í Heilsuhringnum.

Ensímið er ómissandi til að kólesterol geti myndast en sá galli fylgir þó, sé það hindrað algerlega, að það gegnir einnig lykilhlutverki í að líkaminn geti myndað kóensím Q-10. Mjög alvarlegt mál er að hindra myndun Q-10 algerlega og leiðir m.a. fyrr eða síðar til alvarlegra hjartasjúkdóma og dauða, ef ekki er úr því bætt. Það má þó gera með því að taka inn Q-10 sem fæðubótarefni, en hversu stóra skammta þarf að nota er þó ekki fyllilega ljóst á þessari stundu. Ekkert bendir þó í þá átt að ætiþistilextraktinn valdi skorti á kóensím Q-10 og því síður alvarlegri hjartabilun, svo að annaðhvort er þessi skýring ekki rétt eða ensímið er ekki hindrað meira en svo, að nægilegt Q-10 geti myndast.

Krabbamein
Vitað er að í ætiþistilextrakt eru ýmiskonar andoxunarefni, m.a. margskonar flavonefni o.m.fl. Þar á meðal er silymarin, sem þekkt er m.a. fyrir að lækna eða bæta skerta lifrarstarfsemi. Silymarin finnst einnig í annarri tegund þistla, svokölluðum „mjólkurþistli“, sem töluvert hefur verið notaður við lifrarsjúkdómum. Nú nýlega kom frétt um það frá Japan að vísindamenn þar hefðu bætt, aðeins einum þúsundasta hluta af silymarin saman við fóður, sem þeir gáfu músum, en við það fækkaði tilfellum af þvagblöðrukrabbameinum umtalsvert og einnig hindraði það forstigseinkenni.

Árum saman hefur dr. Rajesh Agarwal við lyfjafræðiháskólann í Colorado, rannsakað eiginleika ætiþistils-extrakts til að hindra eða lækna krabbamein. Hann hefur sýnt fram á að extraktinn hindrar næstum fullkomlega krabbameinsvalda sem koma á húðina. „Silymarin ætti því að vera nothæft sem æxlishindrandi efni gegn fjölda krabbameinsvalda,“ skrifaði hann. Í lok september 2001 sýndu vísindamenn við Mayo Clinic fram á tvö efni í ætiþistli, sem hindruðu blöðruhálskirtilskrabbamein í að vaxa. Það drap ekki beinlínis krabbameinsfrumurnar, heldur hindraði þær í aðskipta sér og fjölga.

Ykkur kann að undra hversvegna ætiþistilsextrakt hefur ekki verið tekinn í notkun sem virkt lyf gegn krabbameini“ segir dr. Ralph Moss, sem er þekktur krabbameinsfræðingur og skrifar mánaðarlega greinar um krabbamein í Townsend Letter for Doctors and Patients. „Ástæðan er fyrst og fremst fjárhagsleg“, segir hann. Kostnaðurinn við að láta skrá nýtt lyf er að minnsta kosti tuttugu sinnum hærri en fæst fyrir alla ætiþistla sem vaxa í Bandaríkjunum. Ekki er hægt að fá einkaleyfi á jurt. Því hafa lyfjaframleiðendur lítinn áhuga á að kosta háum fjárupphæðum í jurtalyf sem lítið er hægt að græða á, að þeirra mati.

Þess vegna verður ætiþistilextrakt eða önnur jurtalyf sennilega aldrei skráð sem lyf, heldur aðeins „náttúrulyf“ eða fæðubótarefni, sem margir læknar líta hornauga, vegna þess að þeir fá mestalla þekkingu sína í lyfjanotkun beint frá lyfjaframleiðendum. Flestar lyfjahandbækur birta aðeins upplýsingar um lyf sem framleidd eru af viðurkenndum lyfjaframleiðendum. Vitanlega fara þeir ekki að fjölyrða um vörur sem keppa við þeirra eigin framleiðslu, jafnvel þó að þeir vissu að sú vara gæti læknað eitthvað sem þeirra lyf geta ekki. Svo eru lögin þannig að bannað er að auglýsa að jurt, efni eða náttúrulyf lækni eða geti læknað eitthvað. Svo er að minnsta kosti hér á landi.

Ýmislegt annað
Eins og mjólkurþistill er notaður við lifrarbilun má ekki síður nota ætiþistilextrakt. Sennilega hafa báðar þessar tegundir ekki ólíkar verkanir á lifrina. Vitað er að extraktinn ver lifrina fyrir ýmsum eitruðum efnum og örvar endurnýjun á lifrarfrumum, sem orðið hafa fyrir skemmdum t.d. vegna eitrana eða jafnvel ofneyslu áfengis. Miklar rannsóknir eru nú í gangi á þessum eiginleika og reyndar mörgu fleiru viðvíkjandi ætilþistli. Einna helst er haldið að efni í honum, sem fanga stakeindir, sem annars mundu skaða lifrina og/eða önnur líffæri, gefi ætiþistlinum þessa einstæðu eiginleika.

Ef þessi skýring er rétt má gera ráð fyrir að ætiþistillinn sé gagnlegur gegn ótal fleiri sjúkdómum en í lifrinni, t.d. sykursýki og eyðni, auk krabbameins, sem áður var rætt um. Ætiþistill hefur reynst frábær gegn margskonar einkennum frá meltingarfærunum svo sem: Ógleði, uppköstum, óþægindum eða verkjum í kviðarholi, uppþembu, harðlífi og lystarleysi. 417 einstaklingar sem þjáðust af einhverjum þessara einkenna tóku þátt í könnun. Þeir tóku inn ætiþistilextrakt í einn mánuð. Eftir aðeins viku hafði ástand flestra þeirra, eða frá 67-77% batnað töluvert. Þegar mánuður var liðinn hafði þeim fjölgað í 80-92%, eftir því hvaða einkennum þeir þjáðust af.

Nýlega var gerð langtíma könnun á 553 sjúklingum. Það athyglisverðasta við þá könnun var að einkennin dvínuðu ótrúlega vel á innan við 6 vikum. Næstum því allir (98%) töldu að það væri ætiþistilextraktinum að þakka og að hann væri jafn góður, betri eða miklu betri en lyf sem þeir notuðu áður. Engar hliðar- eða aukaverkanir koma af að nota ætiþistil. Þó er hugsanlegt að einhver geti haft ofnæmi fyrir honum, sem þó er fátítt.

Heimildir: The European Alternative to Cholesterol Blockers, eftir Andreas Marx, OMD og LAc og Robin L. Luke. CPhT, Townsend Letter for Doctors and Patients, maí 2002 og The War on Cancer, eftir Ralph W. Moss, PhD, http://www.cancerdecisions. com.

Höfundur: Ævar JóhannessonFlokkar:Greinar

%d