Xylitol, sykur sem verndar tennurnar og getur e.t.v. hindrað beingisnun

Xylitol er sykur með fimm kolefnisatóm. Þessi sykur hefur einstæða eiginleika sem venjulegurborðsykur (hvítasykur) hefur ekki. Hann er 40% sætari en hvítasykur, eða nálægt því jafn sætur og ávaxtasykur. Xylitol hefur lítil áhrif á blóðsykur (glúkósa) og ekki þarf insúlín til að líkaminn geti nýtt hann. Hann er því kjörin næring fyrir sykursjúka. Einnig telja ýmsir að mikið insúlín í blóði skaði æðakerfið og telja að hár blóðsykur og mikið insúlín í blóði sé meiriháttar skaðvaldur og flýti fyrir öldrun, ásamt mörgu fleiru óheppilegu sem hér verður ekki tíundað.

Þá hefur komið í ljós að Xylitol beinlínis verndar tennurnar fyrir tannskemmdum, alveg andstætt flestum öðrum sykurtegundum, sem hvetja gerlagróður sem myndar sýrur sem tæra upp tannglerunginn. Xylitol, aftur á móti, vinnur gegn ýmsum óheppilegum örverum sem lifa í munni, nefi, hálsi og maga m.a. helicobacter pylori, sem vitað er að oft veldur magasári og jafnvel krabbameini í maga auk andremmu. Það er því augljóst að xylitol er mjög áhugavert næringarefni þó að ekki komi fleira til. Þó er það enn ótalið sem e.t.v. er mest spennandi, en margt bendir til að xylitol geti hindrað og sennilega snúið við þeim sjúkdómi sem oftast hrjáir fullorðið fólk, einkum konur, en það er beingisnun. Hér á eftir verður lítið eitt sagt nánar frá því og fleiru.

Beingisnun og Xylitol
Í könnun sem gerð var í Finnlandi árið 1994 var sýnt fram á að xylitol gat hindrað beingisnun í rottum sem eggjastokkarnir höfðu verið teknir úr. Venjulega minnkar beinþéttnin hratt í rottum sem þannig aðgerð hefur verið framkvæmd á, en fengju þær xylitol í fóðrinu jókst beinþéttnin í stað þess að minnka. Þessi frumkönnun gaf vísbendinu um að sama mundi gerast hjá öldruðum rottum, þar sem beinþéttnin hafði minnkað vegna aldurs. Nú virðist vera búið að sanna þetta af sama finnska rannsóknarhópnum og gerði frumkönnunina. Í þeirri könnun var 24 rottum gefið xylitol í fóðrinu í tólf mánuði. Síðan voru þær aflífaðar og bein þeirra vegin og borin saman við bein úr jafnstórum samanburðarhópi.

Þá kom í ljós, að beinin í þeim rottum sem fengu xylitolið voru næstum því 10% þyngri en úr viðmiðunarhópnum. Þetta stafaði augljóslega aðallega af meiri binþéttni en ekki af því að beinin væru stærri, eins og reyndar var sýnt fram á. Vísindamennirnir fóru nú að brjóta heilann um hvað það gæti verið sem ylli þessu og létu sér helst detta í hug að xylitol bætti upptöku á kalki og e.t.v. fleiri steinefnum í meltingarfærunum. Vera má að það tengist næmi D-vítamín frumuhimnaviðtaka í meltingarfærunum, sem oft minnkar með aldri. Þetta er þó aðeins hugsanleg tilgáta og bíður frekari rannsókna.

Tilgátan gerir ráð fyrir að annaðhvort auki xylitol næmi viðtakanna eða fjölgi sömu viðtökum í frumum meltingarfæranna. vort heldur sem er, bætir þetta upptöku á kalki úr fæðunni. Þá hefur verið bent á þann möguleika að xylitol bæti eða auki verkanir D-vítamíns, en það er þó ósannað eins og raunar annað viðvíkjandi verkunum xylitols á beingisnun. Þessar rottutilraunir leiddu til þess að Finnarnir fóru að prófa xylitol á fólki. Í rottutilrauninni fengu rotturnar nálægt 7% hitaeininganna úr xylitol en 93% úr annarri fæðu. Hjá fólki mundi þetta samsvara því að nota daglega nálægt 40g af xylitol. Vitað er um fólk sem notað hefur 30-60g daglega í langan tíma án þess að sjáanlegt sé að það hafi valdið neinum skaða, nema helst að sumir hafa talið sig fá niðurgang, ef þeir nota mjög mikið í einu.

Þetta skeður þó varla við ekki stærri skammt en 30-60 g á dag og vitað er um fólk sem notað hefur allt að 400g daglega, án þess að fá nein alvarleg einkenni.
Auk áhrifanna á beinin og hindrandi verkana á tannskemmdir, segir höfundur greinarinnar sem þessar upplýsingar eru fengnar úr, að xylitol auki munnvatnsframleiðslu, hindri munnþurrk (xerostomia), og andremmu og dragi úr sýkingum í munni, nefholi og hálsi, svo að eitthvað sé nefnt af því sem hann segir að regluleg neysla á xylitol gefi í kaupbæti, sé það notað til að hindra eða lækna beingisnun. Þar að auki læknar regluleg neysla xylitols sýkingu af bakteríunni helicobacter pylori, sem talinn er ein helsta orsök magasárs og jafnvel krabbameins í maga. Hann mælir með að nota xylitol í stað venjulegs sykurs, allstaðar þar sem hægt er, sem er víðast hvar, þar sem sykur er notaður.

Gallinn á því er þó sá, að xylitol er mörgum sinnum dýrara en sykur og víða erfitt að fá. Undirritaður hefur ekki séð xylitol á Íslandi, nema það er stundum notað í tyggigúmmí sem hér fæst og í einhverjum tilfellum í „hálstöflur“, sem notaðar eru til að mýkja hálsinn eða draga úr einkennum ræmu eða eymsla í hálsi. Í greininni segir að xylitol sé fullkomlega náttúrlegt efni, sem m.a. finnst í safa sem myndast í sumur trjátegundum, t.d. birki. Stundum er honum „tappað“ af þessum trjám á vorin og hefur jafnvel verið gert lítilsháttar hér á landi. Sennilega er xylitol í svokölluðu „hlynsírópi“, sem stundum fæst í heilsufæðubúðum. Í lok greinarinnar er bent á að xylitol fæst í Bandaríkjunum frá Vitamin Research Products, http://www.vrp.com, sími 1-800-877-2447, USA. Heimild: Ward Dean, MD, Xylitol-Cavity-Fighting Sweetener (Hann vitnar í margar vísindagreinar, m.a. eftir finnsku vísindamennina sem talað er um í greininni). Townsend Letter for Doctors and Patients, maí 2002. Ef einhverjir óska að fá nánari upplýsingar um heimildirnar má hafa samband við undirritaðan.

Höfundur: Ævar JóhannessonFlokkar:Greinar

%d bloggers like this: