Kókóshnetuolía – náttúrleg örveruhemjandi fæða

Formáli
Kókóshnetuolía er olía sem fæst úr kókóshnetum. Kókóshnetur eru ávöxtur kókóspálmans, sem er pálmatré sem vex í heitabeltinu og hefur frá alda öðli verið notaður til matar í þeim löndum. Á síðustu öld var farið að vinna úr kókóshnetum ýmsar afurðir, sem síðar voru notaðar annarstaðar í heiminum, stundum sem hráefni í iðnaðarvörur, t.d. smjörlíki eða bökunarfeiti o.m.fl. Þá var hún oft „hert“ eða annað gert við hana sem breytti eiginleikum hennar á ýmsa vegu.

Eftir að farið var að rækta í stórum stíl jurtir eins og sojabaunir, þistil og sólblóm og framleiða ódýrar jurtaolíur úr þeim, dróst markaðurinn fyrir afurðir úr kókóshnetum saman og hefur verið lítill síðustu áratugina. Einnig notuðu framleiðendur fjölómettaðra jurtaolía sér það, að marga áratugi var rekinn harður áróður ýmissa lækna fyrir því að nota fjölómettaðar jurtaolíur en forðast alla mettaða fitu, en kókósolía er að miklu leyti mettuð fita. Þetta olli því að kókósolía var talin „óholl fyrir hjartað“ og fólk sem var annt um heilsu sína varaðist að nota hana. Þetta sjónarmið er þó að breytast og ýmislegt nýtt að koma fram í þeim efnum. Hér á eftir verður ofurlítið rætt nánar um þessa hluti.

Sýklahemjandi verkanir
Kókóshnetuolía inniheldur mikið af fitusýrum með 12 eða færri kolefnisatóm. Þessar fitusýrur eru flokkaðar sem meðallagi langar eða stuttar. Ein þeirra er krapryl-sýra, sem seld hefur verið í heilsufæðisbúðum víða um lönd sem lækning við sveppasýkingu af candida sveppum o.fl. Kókóshnetuolía inniheldur um 8% af þessari fitusýru. Að nota kókóshnetuolíu reglulega við matreiðslu tryggir sennilega þann sem borðar þann mat gegn ofvexti gersveppa í meltingarfærunum, jafnvel þó að sá hinn sami fái sýklalyfjakúr.

Fleiri áhugaverðar fitusýrur eru í kókósolíu, t.d. karpi-sýra 7%, myristinsýra 18%, palmitin-sýra (16-0) 8% og olíusýra (18-1) 6%. Sýnt hefur verið fram á að kapri-sýra hefur áhrif gegn kynfæraáblástri (herpes simplex 2) klamydíu og HIV-1 (eyðniveiru). Þó er ótalin sú fitusýra sem mest er af í kókóshnetuolíu, sem er lárinsýra (lauric acid, 12-0), sem er um það bil 50% af henni. Lárin-sýra er fitusýra sem mikið er af í brjóstamjólk. Rætt hefur verið um að hún sé eitt þeirra lykilefna í brjóstamjólk, sem verndar þarma kornabarnsins fyrir sýkingum af bakteríum, veirum, sveppum og frumdýrum (protozoal), þar til ónæmiskerið hefur þroskast nægilega til að ráða við sýkingar.

Talið er að lárinsýra breytist í þörmunum í monólárin (monolaurin), sem er mjög öflugt, en samt algerlega skaðlaust, sýklahemjandi efni. Rannsóknir hjá lífefnafræðingum o.fl. sýna að monolárin gerir óvirkar bakteríur eins og t.d. listería, stafýlokokka og streptókokka og gersveppi t.d. candida albicans, veirur t.d. herpes simplex (áblástur) cytomegaloveirur, inflúensuveirur, mislingaveirur og HIV (eyðni).

Svo virðist að monolárin skaði örverurnar með því að eyðileggja frumuhimnu þeirra (sama skýring hefur verið gefin á því að nota lesitín til að lækna veirusýkingar). (Þess má geta til gamans, að íslenskur vísindamaður, Halldór Þormar, hefur gert rannsóknir á monolárin og skrifað um það vísindagreinar). Augljóst er það gagn sem eyðnisjúklingar hafa af því að nota kókóshnetuolíu. Hún hindrar sveppa, bakteríu eða veirusýkingar í þörmunum og getur auk þess, sé það rétt að hún drepi HIV veiruna, unnið gegn henni og e.t.v. smátt og smátt læknað eyðnisjúkdóminn. Sá sem þessar upplýsingar eru frá, segir að hægt sé að fá, auk kókóshnetuolíu, lárinsýru úr pálmakjarnaolíu 50% og mjólkurfitu en smjör inniheldur nálægt 5% af lárinsýru.

Rannsóknir
Ekki er hægt að ræða um kókóshnetuoliu nema dr. Mary Enig komi þar við sögu. Hún var upphaflega við Háskólann í Maryland og gerði þar miklar rannsóknir á trans-fitusýrum og hugsanleg tengsl þeirra við ýmsa menningarsjúkdóma t.d. krabbamein, hjartasjúkdóma og sjúkdóma í ónæmiskerfinu. Síðar fór hún að snúa sér að lárinsýru og eyðnirannsóknum. Hún er höfundur greinar um lárinsýru í Nutrients and Foods in AIDS (CRC Press;1999) og vinnur nú að því að skipuleggja könnun á að nota lárinsýru til lækninga. Til viðbótar við rannsóknir Mary Enig er nýlokið á Filippseyjum könnun á kókóshnetuolíu og monolárin í sambandi við HIV og eyðni.

Fyrstu niðurstöður úr þeirri könnun banda til að hjá meira en helmingi þeirra sem tóku þátt í henni hafi veiruálagið minnkað og hjá þriðjungi þeirra batnaði verulega hlutfall CD4:CD8 eitilfruma í blóðinu. Einnig benti könnunin til að þeim sjúklingum sem notuðu kókóshnetuolíu farnaðist betur en þeim sem notuðu monolárin eitt sér. Mary Enig bendir einnig á stök dæmi um eyðnisjúklinga sem ekki fengu nein önnur lyf en kókóshnetuolíu.Hjá þeim minnkaði veiruálagið umtalsvert eftir að þeir byrjuðu að nota 25g af monolárin daglega eða 50g af kókóshnetuolíu.

Alveg nýjar rannsóknir, gerðar af Sadeghi og fleirum sýndu, að kókóshnetuolía, blönduð lýsi, minnkar nokkur citokin, sem sum eru forefni fyrir bólgur. Þetta eru t.d. tumor necrosis factor-alfa (TNFa) og interleukin-6 (IL-6). Samtímis örvar þetta önnur citokin, sem vinna gegn bólgum t.d. interleukin-10 (IL-10). Vitað er að TNFa í miklum mæli tengist beinlínis vefjaskemmdum. Í grein um eyðni í vorblaði Heilsuhringsins 2001 sagði ég lítils háttar frá dr. Mary Enig og rannsóknum hennar, sem hér er vísað til.

Skaðlaust fæðuefni
Líkt og gerst hefur með smjör, hefur á liðnum áratugum verið reynt að telja fólki trú um aðkókóshnetuolía sé óholl. Því hefur verið haldið fram að hún (og einnig smjör og feitt kjöt) auki kólesteról í blóði, setjist innan í æðakerfið og valdi hjartasjúkdómum, blóðtöppum í æðum og heilaáföllum. Mary Enig segir aftur á móti: „Hugmyndin um að mettuð fita valdi hjartasjúkdómum er algerlega röng. Líkami okkar býr stöðugt til mettaða fitu til að gegna margs háttar mikilvægu líffræðilegu hlutverki. Samskonar mettuð fita, eins og líkaminn býr til, er sú fita sem við fáum úr fæðunni.

Tilraunir sýndu að kókóshnetuolía jók þríglyceríð og kólesterol í blóði, en þessar tilraunir voru gerðar með hertri kókóshnetuolíu, ekki náttúrlegri óhreinsaðri kókóshnetuolíu. Þar að auki voru rotturnar í tilrauninni ekki látnar fá neina fitu nema kókóshnetuolíu. Þetta einhæfa fóður orsakaði alvarlegan skort á ómissandi fitusýrum, bæði omega-3 og omega-6, sem olli aukningu á kólesteroli og þríglyceríðum. Í fæðu sem inniheldur nægilegt magn, af ómissandi fitusýrum, er náttúrleg óhreinsuð kókóshnetuolía örugg og heilnæm fæða. Hjartasjúkdómar eru flóknir og eiga ótal orsakir en mettuð fita og kólesterol er þó ekki ein þeirra“. Þetta segir dr. Mary Enig og Wayne Martin er henni í þessu efni hjartanlega sammála. Hann eru lesendur Heilsuhringsins vafalítið farnir að kannast við eftir lestur fjölda greina sem birtur hefur verið úrdráttur úr í blaðinu á liðnum árum.

Vafalaust munu einhverjir gagnrýna þetta og segja, að ég vinni lítið þarfaverk að vera að halda fram annarri eins fjarstæðu, jafnvel þó að einhver hálfrugluð kerling í Bandaríkjunum hafi heimskað sig á að halda því fram. Þessu get ég t.d. svarað með því að benda á að kransæðasjúkdómar voru mjög fátíðir í vestrænum samfélögum um aldamótin 1900. Um 1930 er fyrsta örugglega staðfesta tilfellið af kransæðasjúkdómi skráð á Íslandi. Næstu 10 ár greindust aðeins örfá tilfelli en á stríðsárunum má næstum segja að orðið hafi sprenging. Svo hratt fjölgaði tilfellunum. Um aldamótin 1900 var neysla á mettaðri fitu síst minni en nú er, e.t.v. meiri. Hvernig er hægt að kenna mettaðri fitu um fjölgun kransæðatilfella, bæði hér og annarsstaðar, þegar engin aukning hefur orðið á neyslu hennar? Þessu verða hugsanlegir gagnrýnendur á dr. Mary Enig, Wayne Martin eða mig sjálfan að svara á viðunandi hátt, áður en ég tek mark á þeim. Margt fleira má vissulega segja um mettaða fitu og sjúkdóma í æðakerfinu en þetta verður að nægja í bili.

Hversu mikið á að nota?
Dr. Mary Enig mælir með að nota 25 grömm af lárinsýru á dag við að lækna erfiðar sýkingar, hvort sem þær stafa af veirum, bakteríum eða sveppum. Það þýðir að nota verður um 50g af kókóshnetuolíu. Sennilega er erfitt að fá kókóshnetuolíu hér á landi, en ekki er ólíklegt að einhver heilsuvörubúð muni vilja flytja hana inn, ef farið væri fram á að það væri gert. Sérstaklega væri spennandi fyrir eyðnisjúklinga að prófa að nota hana. Þeir verða þó að gera sér ljóst, að ef á annað borð er reynt að nota kókóshnetuolíu til að lækna eyðni tekur það langan tíma, e.t.v. mörg ár og að aldrei má slá slöku við, ef árangur á að nást, því er e.t.v. best að byrja ekki að nota olíuna, ef menn treysta sér ekki til að halda það út.

Olíuna má nota við matreiðslu í stað annarrar feiti. Þó er sennilega ekki rétt að hita hana mikið. Kókóshnetuolía er stundum nefnd kókósfeiti eða kókóssmjör og var mikið notuð í mat á fyrri hluta síðustu aldar. Eitt er þó sem rétt er að varast. Ekki má vera búið að herða hana eða hálfherða. Þá er hún gagnslítil segir Mary Enig. Gaman væri ef einhver reyndi hana við einhverjum sjúkdómi, að sá hinn sami lofaði mér að vita um árangur. Heimild: Stephen Byrnes, Townsend Letter for Doctors and Patients, apríl 2002. Með greininni fylgir heimildalisti og er undirritaður fús að leyfa þeim sem áhuga hafa á að kynna sér hann.

Höfundur: Ævar JóhannessonFlokkar:Greinar

%d bloggers like this: